The great global warming swindle er svindl!

Í kvöld verður sýnd í ríkissjónvarpinu myndin The great global warming swindle sem Channel 4 í Bretlandi lét búa til.  Myndin sjálf er eitt mesta svindl í heimildamyndagerð sem gert hefur verið.  Allir hinir svokölluðu vísindamenn sem talað er við í myndinni hafa ekki stundað rannsóknir um árabil, nema einn og hann kvartaði yfir þættinum og sagði orð sín tekin úr samhengi.  Margir vísindamannanna eru á mála hjá olíufyrirtækjum, einkum Exxon Mobil sem er sama olíufyrirtæki og stendur á bak við Bush stjórnina í Washington. 

Fyrir nokkrum árum síðan gerði Exxon Mobil áætlun um það hvernig fyrirtækið gæti kastað rýrð á niðurstöður vísindamanna varðandi loftslagsbreytingar, einkum í huga almennings.  Segja má að myndin The great global warming swindle sé afrakstur þeirrar áætlunar.

Í myndinni eru fölsuð línurit, línurit byggð á úreltum upplýsingum og þar er einnig fullyrt að eldfjöll losi meira magn gróðurhúsalofttegunda en mannkynið sem er hreint og beint röng fullyrðing.  Það er í raun og veru einungis á færi sérfræðinga í umhverfismálum að sjá í gegnum þennan blekkingar og lygavef sem þessi svokallaða heimildarmynd Channel 4 er. 

Ég á fastlega von á því að margir þeir sem eiga hag sinn í því að rugla almenning í ríminu varðandi loftslagsbreytingar muni halda þessari fölsuðu heimildarmynd á lofti.  En það breytir því ekki að loftslag jarðar er að taka breytingum og fyrr eða síðar mun allt mannkynið átta sig á því sem er raunverulega að gerast.  Vonandi verður það bara ekki of seint. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Páll Jóhannsson

djöfuls siðspilling

Jóhann Páll Jóhannsson, 20.6.2007 kl. 00:18

2 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Ja hérna. Er það nema furða þótt venjulegt fólk eins og ég sé ruglað í ríminu. Maður veit ekki orðið hverjum á að trúa. Ekki þar fyrir að ég trúi því að global warming (hlýnun jarðar?) sé staðreynd og að mannskepnan sé að fara með allt til helvítis, en stundum er mér sagt að það sé vitleysa. Ég veit sannarlega ekki hverjum er trúandi og hverjum ekki.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 20.6.2007 kl. 00:38

3 Smámynd: Jón Sigurgeirsson

Þetta var svona þegar vísindamenn héldu þeirri ósvinnu fram að reykingar væru hættulegar.  Það var barist og barist og logið og logið þar til sannleikurinn sigraði að lokum.

Það vor hins vegar vísindamenn sem spáðu of svörtum örlögum jarðarinnar á sjötta og sjöunda áratug seinustu aldar m.a. í svokallaðri Rómarskýrslu. Ég hef þá trúa að menn vinni af meira raunsæi nú. Spár sem ekki standast gera illt verra.

Það er eins með öfgar í spádómum eins og öfgar í tillögum. Stundum eru tillögur náttúruverndarmanna skaðlegar eins og endurvinnsla pappírs sem dæmi. Við slíka endurvinnslu eru notuð mengandi efni og komið er í veg fyrir mikla urðun á koltvísýringi. Pappír er gerður úr trjám sem vaxa upp aftur og binda þannig koltrísýring.

Jón Sigurgeirsson , 20.6.2007 kl. 15:43

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þessi mynd er dæmi um það sem gerist svo oft þegar nýjar upplýsingar breyta þeirri heimsmynd sem við höfum. Ég minnist baráttunnar fyrir notkun bílbelta sem ég var þátttakandi í sem fjölmiðlamaður.

Eftir að ég hafði fari í gegnum vísindalegar niðurstöður um gagnsemi beltanna gerði ég það sem ég gat til þess að halda uppi upplýsingum um þau og rök með og á móti.

Mótrökin voru aldeilis kostuleg en þau dugðu til þess að tefja fyrir framgangi málsins hér á landi og kostuðu mörg mannslíf og örkuml enn fleiri.

Þessi mótrök komust meira að segja inn í fyrstu lagasetninguna þar sem fólki var heimilt að nota ekki bílbelti ef ekið væri um brattlendi. Um væri að ræða "séríslenskar aðstæður."

Ég minnist dauðaslyss á gamla veginum um Ólafsfjarðarmúla, - gott ef það voru ekki tveir sem fórust, - bílbeltin voru ekki notuð og auðséð á bílflakinu að þau hefðu bjargað mannslífum.

Rökin fyrir því að menn gætu þeyst óbundnir um vegi í brattlendi voru þau að ef bíllinn færi út af gætu menn bjargað sér með því að kasta sér út úr bílnum, - en það er nákvæmlega lýsingin á því sem hefur drepið flesta í svona slysum: "Maðurinn kastaðist út úr bílnum."

Eina tilfellið þar sem það gæti bjargað að geta kastað sér út úr bíl sem er að fara út af vegi er ef ekið er lafhægt, nánast á gönguhraða og að hægt sé að kasta sér út úr bílnum upp í brekkuna til þess að lenda ekki undir honum.

Hægt væri að telja endalaust upp fáránlegar mótbárur gegn notkun bílbeltanna en ég læt þetta nægja sem dæmi um það hvert umræðan getur farið í svona málum.

Ómar Ragnarsson, 21.6.2007 kl. 18:54

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Hvað í ósköpunum kemur notkun bílbelta þessu máli við? Er ekki hægt að hefja umræðuna á hærra plan? Margir vísindamannanna "eru á mála hjá olíufyrirtækjum". Hverjir? Og hvað er að "vera á mála" í þessu tilliti?

Sigurður Þór Guðjónsson, 22.6.2007 kl. 13:34

6 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Ætli lærdómurinn sem við getum dregið af þessu sé að við eigum að vera á varðbergi gagnvart tortryggnum fullyrðingum gagnvart okkur. Frá hverjum eru upplýsingarnar komnar og hvers eðlis eru þær. Þó svo að oft hafi orðið breytingar á hitastigi þá er ekki þar með sagt að þær breytingar séu varanlegar. En margt bendir til að lífkerfið sé að aðlagast hækkandi hitastigi og því ber að veita meiri gaum en gálauslegu hjali vissra aðila hvort sem þeir sé vísindamenn eða gervivísindamenn.

Hvers vegna er framboð fæðu handa fuglunum okkar, kríu, lunda og fl.fuglategunda minna 3ja árið í röð? Skyldi tilviljun ráða? Kannski við stöndum frammi fyrir meiri og róttækari breytingu en við reiknum með.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 24.6.2007 kl. 20:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband