Færsluflokkur: Bloggar

Sú ein þekking sem skiptir máli

hd-wallpapers-star-night-wallpaper-mountains-sky-stars-light-winter-1680x1050-wallpaper.jpgSú ein þekking sem skiptir máli er þegar þú veist eitthvað fyrir víst, án þess að vita nákvæmlega hvernig. Þetta kallast að skilja með innsæinu, sem Hildegaard von Bingen lofsamaði svo dýrðlega strax á 12. öld og sem Rínarspekingarnir þekktu svo vel. Þetta hafa allir spekingar vitað í gegnum aldirnar og þessvegna er það sem svar viskunnar er þögnin.

Búddisminn bendir einnig á að einmitt með því að stöðva rökhugsunina um stund, hemja flæði hugans, fara inn í kyrrð innsæisins, þannig er hægt að nálgast hinn eilífa sannleika. Á þetta bendir t.d. Shantideva í Leið Bodhisattvans, því merka trúarriti.

Hugleiðsluhefð kristninnar er forn og af sterkum meiði ekki síður en hefð Búddismans. Nú nýtur Kyrrðarbæn t.d. vaxandi vinsælda í kirkjum landsins en hana má rekja allt aftur til frumkristni. Þeir sem vilja kynna sér kristna Kyrrðarbæn geta nálgast upplýsingar á vefnum undir kristin íhugun.

Það er ólýsanleg tilfinning að sleppa takinu á hugsanaflæðinu og ganga inn í fegurð og kyrrð Guðs. Að opna sitt innra gagnvart almættinu og gefa tilfinningar sínar Guði er eins og fá faðmlag á sálina.

Þeirrar upplifunar óska ég öllum mönnum,

 

Í kyrrð og friði.

IEB

 


Hvaða stjörnumerki horfir Sfinxinn á?

137d3ae460083dcdfecea894ea691854.jpgÞað er jafn augljóst og sjófuglagarg sagði Kolbeinn kafteinn einu sinni. Það er algjörlega augljóst að Sfinxinn í Giza starir á eitthvað ákveðið stjörnumerki - jafnvel einhverja ákveðna reikistjörnu á einhverjum ákveðnum tímapunkti. Spurningin er hins vegar hvaða tímapunktur skiptir máli í þessu sambandi.

Og ég þori að veðja einu. Á annarri reikistjörnu langt úti í geim stendur annar Sfinx og horfir einmana til Jarðar. Á þessum merkilega tímapunkti horfast Sfinxarnir tveir í augu. Ef til vill opnast þá lapiz lazuli blá augu þeirra örstutta stund eins og í draumi og þeir horfast ástfangnir í augu gegnum óravíddir alheimsins.

 

Svoleiðis er nú það.

Góðar stundir,

IEB


Afsökunarbeiðni til lesenda

Bið afsökunar á því að athugasemdir við bloggið mitt hafa ekki verið að birtast út af einhverjum heimskulegum stillingum sem mér tókst loks að lagfæra núna.

Bið ykkur öll innilega afsökunar á þessu.

Ég vil hafa frjálsar athugasemdir og allir geta skrifað eins og þeir vilja. :-)


Mygla í peningatanki Jóakims frænda

article-2515520-188078f8000005dc-993_634x704.jpgÞær hryggilegu fréttir hafa borist frá Andabæ að bæði Verkís og Efla hafi fundið myglusvepp í peningatanki Jóakims frænda.

Galdranornin Hexia de Trix er grunuð um aðild að málinu.

Grænjaxlarnir hafa að sjálfsögðu verið kallaðir út, en Andrés Önd er beðinn um að halda sig heima enda illa haldinn af mygluofnæmi eftir að hafa tekið sýni neðst úr tankinum hans Jóakims.

Heimild: Andabæjar-Reuters fréttaþjónustan


Aðeins sannir lygarar geta orðið góð skáld

index2.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Um daginn var ég ásökuð um að vera með of mikið ímyndunarafl. Þetta er alvarleg ásökun, næstum því jafn alvarleg og ásökunin um snilligáfu, sem er næstum örugg til þess að koma manni í alvarleg vandræði í nútímaþjóðfélagi, jafnvel þótt maður sleppi við að verða brenndur eins og á miðöldum.

Til þess að verða gott skáld, þarftu fyrst að læra að ljúga.

En ef eitthvað er til sem hrjáir íslenskar bókmenntir í dag, þá er það skortur á lygi. Arnaldur vinnur heimildavinnuna sína alltof vel í Þýska húsinu og draugarnir hennar Yrsu sem ganga aftur gegnum ritverk hennar eru svo raunverulegir að manni finnst maður kominn á miðilsfund niðri í Sálarrannsóknarfélagi eða á fund með geðklofasjúklingum uppi á Hringbraut. Það er helst Einari Má sem tekst vel upp í Hundadögum, enda var Jörundur Hundadagakonungur þvílíkur snilldar-lygari, að Einar getur ekki annað en smitast til góðrar lygi, af slíku eðalbornu viðfangsefni. Andri Snær kann einnig að skálda frá grunni, en eins og bent hefur verið á, er hann frekar lengi að ljúka við ritverkin. Hvað er þá til ráða, íslenskum bókmenntum til bjargar?

Þetta er furðuleg lenska, að mega ekki lengur ljúga í bókmenntum? Hvað eru bókmenntir svosem annað en lygi? Lygi hafin upp í æðra veldi þar til hún umbreytist í tært og fagurt listform, þvílíkt snilldarlistform að hláturtaugarnar lifna við, heilinn vaknar og hinn tíbetsk-búddíski sofandaháttur meirihluta mannkynsins rofnar og lesandinn kemst um stund til hærra vitundarstigs. Oscar Wilde sagði svo réttilega að sé lyginni úthýst úr bókmenntunum sé stutt í að bæði fegurðinni og listinni sé úthýst líka. Hann hafði rétt fyrir sér. - Ég er því að pára hér eins og sú geðveila manneskja sem ég vissulega er a.m.k. samkvæmt mælikvarða raunvísinda, um endurreisn lyginnar í íslenskum bókmenntum. Því án lygi í listum er heldur enginn húmor.

Það er algjörlega glatað að taka bara einhverjar sögur beint úr blöðunum, tilfinningaklám eða berorðar ævisögur og reyna að breyta þeim í list. Það er uppgjöf gagnvart listsköpuninni sjálfri.

Já, um daginn var ég gagnrýnd fyrir að hafa of mikið ímyndunarafl. Ég hafði skrifað glæpasögu um risaeðlur, sem mun birtast vonandi bráðlega í bókmenntatímariti sem heldur enn uppi einhverjum vott af lygi. Ég var gagnrýnd fyrir að risaeðlur væru ekki nógu raunverulegar og þessvegna gæti glæpasaga með risaeðlum ekki verið raunveruleg glæpasaga.

Þetta finnst mér klént. Hér reynir maður alla daga að upphugsa einhverja listræna lygi alveg frá grunni og í staðinn fyrir að fá klapp á bakið og hrós, er maður skammaður fyrir að vera ekki nógu raunverulegur. Ég er skáld! Ég skálda! Ég er lygari. Það er í mínu innsta eðli að ljúga upp furðulegustu og yndislegustu og fyndnustu atburði, sem ykkur hinum gætu aldrei dottið í hug, ekki einu sinni í draumi. Ég vil frekar ljúga frá grunni, en að taka einhverja aumingja manneskju sem hefur ekkert illt gert og umbreyta henni í sögupersónu. Þannig er nú það.

Mér finnst ég í mesta lagi hafa rétt til að ljúga um eina raunverulega persónu og það er um sjálfa mig. Þórbergur laug ótæpilega um sjálfan sig og ég er alveg sammála honum um þá hernaðarlist skáldskaparins. Og ég sakna Þórbergs Þórðarsonar, rithöfundar. Ekki að ég hafi nokkurn tímann þekkt hann. En ég finn fyrir vissum andlegum skyldleika. Það er einhver vitsmunalegur klaufaskapur sem tengir okkur saman. Einhver einhverf og sjálfhverf hugsun sem brýst í gegnum múra tímans þannig að bæði ég, Þórbergur skáld og Leónardó sjálfur, getum setið saman við kaffihús í Flórens og pælt í því hvort lygin sé ekki nauðsynlegust allra lista, jafnvel þegar maður lýgur því að sjálfum sér og trúir því í barnalegri einlægni að maður sjálfur sé skáld, þótt allir aðrir vilji meina að maður sé ekki nógu raunverulegur. Leónardó da Vinci vissi ósköp vel að það er líka hægt að ljúga með pensli. Hvað er perspektív svosem annað en lygi þrívíddar á tvívíðum fleti. Því í einhverjum skilningi er aldrei hægt að nálgast og þekkja sannleikann nema í gegnum lygina. Á einhverjum tímapunkti umbreytist lygin í list þar sem sannleikurinn verður hin hlið málsins. Lygin verður að listaverki þar sem sannleikurinn skín í gegnum lygina alveg eins og þegar Kristur er svo yndislega samkynhneigður og ástfanginn af heiminum í síðustu kvöldmáltíð Leónardós. Sannur kærleikur spyr nefnilega ekki um kynhneigð, háralit, augnlit eða neitt annað. Hann bara er, án allra skilyrða, sá sem hann er, eins og Guð sjálfur sem er til eilífðar sá sem hann er, bæði kven- og karlvitund, af því að hann er kærleikurinn æðsti og getur aldrei verið neitt annað. Þetta vita öll skáld sem raunverulega kunna að ljúga og þess vegna bera þau virðingu fyrir sannleikanum. Á sama hátt og Kölski trúir á Guð þá er það jafnljóst að engir þeir þekkja sannleikann jafn vel eins og þeir sem kunna að ljúga.

 

Góðar stundir,

 

Ingibjörg Elsa Björnsdóttir, 05. Febrúar 2016.


Umbreyting

index.jpg

 

 

 

 

 

 

 

Eitt faðmlag þitt, Kristur

mér breytir úr stein

í þröst sem syngur

söng dýrðar um heim.

 

 

Ingibjörg Elsa Björnsdóttir, 05.02. 2016


Síðasta viðvörun David Bowie

david-bowie-blackstar.jpg

 

Það síðasta sem listamaðurinn David Bowie gerir áður en hann deyr er að senda heiminum viðvörun. Viðvörun til mannkynsins um að gá að því hvert það stefnir. 

Blackstar - Svarta stjarnan er tilvísun til þess sem Jörðin gæti orðið og er í einhverjum skilningi að verða. Bjartsýnir spámenn út um allt spá tæknibyltingum og endalausum framförum, en við lifum í veröld þar sem stríð eru daglegt brauð. Dauðinn er fylginautur okkar, en við viljum ekki viðurkenna tilvist hans.

Bowie er örugglega bæði að vísa til stöðu umhverfismála, en ekki síður er hann að vísa til hugarfarsins og afneitunarinnar. Blindunnar sem mannskepnan er haldin gagnvart sínu raunverulega hlutskipti í samhengi tilverunnar. Menn segjast trúa á Guði ýmiss konar, en eru að nota kreddur og lögmál mismunandi trúarbragða til að afsaka morð og styrjaldir. Þá eru þeir búnir að umbreyta boðskap trúarbragða úr kærleika og frið sem flest trúarbrögð boða í raun, í grimma hugmyndafræði styrjalda. Þetta sjáum við gerast í dag.

Hvet alla sem vilja skoða og hluta á viðvörun Bowies til að hlusta á tónverkið Blackstar og jafnvel horfa á myndbandið.

Við ættum að hlusta á Bowie!

 

 


Af náð Krists

tequila-sunrise-rose.jpg

Um daginn rann upp fyrir mér ljós. Ég gerði mér grein fyrir því að illska og synd heimsins er í einhverjum skilning okkar sameiginlega illska og okkar sameiginlega synd. Synd er reyndar mjög misskilið hugtak. Synd er í raun lengdareining eins og metri eða ljósár. Hún er mælikvarði á það hversu langt við erum komin frá ljósi almættisins, hversu langt við höfum ferðast burt frá kærleika Guðs. Góðu fréttirnar eru þær, að þótt við séum jafnvel komin út í ystu myrkur, já út á ystu nöf, erum við aldrei aðskilin frá kærleika Guðs, miskunn hans og náð.

Það er ljóst að hið illa verður sálrænt séð ekki aðskilið svo auðveldlega frá manninum sjálfum, þótt hið góða stjórni að mestu og um fyrirmyndarmanneskju geti verið að ræða. Öll höfum við einhverja veikleika, breyskleika og barnalega bresti. Á sama hátt í kristninni verður von Krists, náð hans og frelsun að ná til allra manna og einnig til illskunnar í okkur sjálfum. Þetta gildir einnig þótt við séum yfirleitt til fyrirmyndar og fæstum myndi detta í hug að kalla okkur „ill“. Desmond Tutu gengur meira segja svo langt að segja að Guð sé ekki einu sinnni beinlínis kristinn. Þar er Desmond Tutu að benda á þá staðreynd að framgangur kærleikans í veröldinni er Guði kærari og mikilvægari, en lögmálið og sjálfar svartar bókstafskreddur trúarbragðanna. Þannig elskar Guð alla menn án undantekningar, hvort sem þeir fæðast í Grímsnesinu eða í Súdan.

Það er auðvelt að hljóta fyrirgefningu þegar maður hefur ekki gjört neitt illt. Og það er auðvelt að fyrirgefa öðrum þegar misgjörðir eru smáar og lítilvægar. En hvað með Júdas?

Spurningin um Júdas hefur leitað ansi mikið á mig undanfarið. Hver er Júdas? Júdas var einn af lærisveinunum, sem þýðir að hann er einnig bróðir okkar og systir. Hann er hins vegar sá sem fór út af beinu brautinni. Hann er sá bróðir okkar og systir sem fór að neyta fíkniefna. Hann er sá bróðir okkar og systir sem leiddist út í vitleysu, áfengissýki, glötun, glæpi, vonleysi og ólæknandi geðsýki.

Á þá Júdas enga von? Á þá Júdas enga von þar sem hann liggur í fráhvarfi á Vogi, eða situr þunglyndur og uppdópaður á bráðamóttöku Geðdeildar við Hringbraut? Af hverju er Júdas? Jú Júdas er, vegna þess að í okkur öllum er til eitthvað illt, ekki síður en eitthvað gott. Sum erum við of metnaðargjörn, sum erum við of nísk, sum okkar verða óvart valdasjúk, gráðug eða sum látum stjórnast af ótta, fóbíum og skelfingu. Tollheimtumaðurinn Sakkeus býr innra með okkur öllum og það gerir Júdas líka.

Þeir sem eiga auðvelt með að fá fyrirgefningu manna, þurfa ekki svo mikið á Kristi að halda. En hvað ef maður hefur gert eitthvað af sér sem menn geta hreinlega ekki fyrirgefið? Hvað ef dyr fangaklefans lokast manni að baki, eða ef dyr geðsjúkrahússins lokast og maður er innan girðingarinnar en ekki utan hennar?

Hvaða von geta þeir menn átt, sem enga fyrirgefningu geta fengið hér á Jörð?

Allt í einu rann upp fyrir mér ljós. Það birti til og ljós kærleikans skein um hugarfylgsnin. Þessvegna er Júdas. Það er af því að sumt er þannig að einungis Kristur getur læknað það og fyrirgefið. Einungis Kristur getur fyrirgefið Júdasi.

Einmitt þessvegna þarf Júdas svo innilega á Kristi að halda. Kristur er Júdasar eina von. Kristur gefst ekki upp á neinum og hans fyrirgefning og lækning nær á einhvern hátt sem er ofar mannlegum skilningi til allra manna, einnig til þeirra sem eru eins og Júdas. Og þó við sjáum ekki lækninguna alltaf í þessu lífi, þá finnur Kristur samt leið til að ná til þeirra manna sem mannlegur máttur ræður ekki við.

Mannlegum mætti er það um megn að fyrirgefa og lækna um leið marga þá illsku sem því miður þrífst hér í heimi. Einungis Kristur getur fyrirgefið þeirri illsku sem býr að minna eða meira leyti í okkur öllum og sem birtist í ólíkum birtingarmyndum. Þarna kemur Kristur fram sem sá sem hefur allt vald á Himni og Jörðu. Hann kemur fram sem sá eini sem getur læknað heimsins mein og þau blæðandi sár sem búa innra með manninum sjálfum, ef ekki hér og nú, þá í eilífðinni. Þannig sigrar Kristur hið illa, ekki með sverði heldur með mætti sínum í kærleika.

Faríseiarnir báðu á þann hátt að þeir vildu svo sannarlega ekki vera nálægt glæpamönnum, fíklum, geðsjúklingum eða tollheimtumönnum. Þeir töldu sig hreina og „réttlætta“ af fórnargjöfunum í musterinu í Jerúsalem. Júdas er hins vegar í þeirri viðkvæmu stöðu að hann verður einungis „réttlættur“ fyrir blóð Krists á krossinum á Golgata. Júdas er í þeirri stöðu að þurfa á Kristi að halda. Enginn annar mun faðma hann að sér nema Guð.

Því er það sem miskunsamur skilningur á kristinni trú hlýtur að fela í sér viðurkenningu og innsýn í almennan breyskleika mannsins og okkar sameiginlegu tilhneigingu til að ferðast burt frá Guði og „lenda í synd“. Hún hlýtur að felast í þeim skilningi að við erum þegar upp er staðið öll sama fjölskyldan og að í fjölskyldu Krists er enginn einasti maður utangarðs.

Því ef öll illskan, öfundin, blekkingin og geðsýkin í hjörtum mannanna á sér ekki líka von um lækningu og frelsun Krists? Ef Júdas sjálfur í allri sinni blekkingu og illsku á sér ekki líka von hjá Kristi? Þá mun allt mannkynið einfaldlega ekki eiga sér neina von. Því einungis með því að leita týnda sauðarins, einungis með því að fara inn í hin ystu myrkur alheimsins, nær frelsun Krists til alls sem er og einnig til hins misheppnaða, bitra, beiska og „illa“ sem býr í mismunandi stórum eða smáum mæli innra með okkur öllum, hvort sem við viðurkennum það eður ei.

 

Ingibjörg Elsa Björnsdóttir     28. 01. 2016

 

 


Ást og friður í stórviðri

dscn1981.jpgÚti gnauðar stormurinn. Snjóflyksurnar hraða sér eftir snjóugum götunum og grafa bíla og hús niður í skafla. Einmana manneskja birtist á stangli eins og ljósastaur í fjarska og hverfur út í glórulaust myrkrið.

Mikið er gott að vera inni þegar svona stendur á. Gott að eiga sér stað sem er inni. Hjartað fyllist þakklæti fyrir þá 4 veggi sem umlykja mig og ekki er þakklætið minna fyrir rafmagnið og hitaveituna.

Svo er svo notalegt að setjast í appelsínugula hægindastólinn. Bókin hans Tolla Morthens, Ást og friður bara datt ofan í fangið á mér.

Eftir lestur svona 25 blaðsíðna líður mér bara svo vel. Ég er í svo góðum fíling með Tobba hundi og Heiðmörkinni og vatninu að mér líður bara miklu, miklu betur.

Ég féll nefnilega í þá freistni í dag að hugsa um peninga. Maður á aldrei að hugsa um peninga. Peningar koma nefnilega örugglega ekki frá himnum, þeir vaxa ekki á trjánum og voru örugglega uppfundnir í neðra.

Eins og Tolli bendir á, á maður að lifa í núinu og ræða hamingjuna við sinn æðri mátt.

Peningar koma og fara og þegar þeir eru farnir í bili, hafa þeir tilhneigingu til að koma aftur.

Lífið er einfaldlega of stutt til að eyða því í áhyggjur.

Góðar stundir og ekki týnast í hríðinni eins og hann langafi minn sem varð úti árið 1910.

Ingibjörg Elsa Björnsdóttir


Haustsónata

Myrkrið er vinur þess er þjáist,
lokar hverri þungri brá.
Svefninn elskar allt og nærir
uns sólin vaknar og fer á stjá.autumn.jpg

Er dimmir í skógarsölum,
syngur þröstur fagran söng,
um upprisu vors, rósagarða,
birtu, von og ljóssins göng.

Gegnum myrkur, frost og funa
liggur mannsins langa leið.
Í krafti upprisu, ljóssins bruna,
mun hann að lokum rata heim.

IEB (2014)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband