Færsluflokkur: Bloggar
28.6.2015 | 20:33
Til Vigdísar Finnbogadóttur
Draumadís íss og elds
alls þess sem lifir.
Baugalín bjarnarfelds,
er bregður sólu yfir.
Unnir þér álfaborgin,
eldsins logandi berg.
Brennur þar burt sorgin,
brotnar af gráum merg.
Sindra þér sólarstafir,
seims ertu himnadís.
Fjallanna fornu nafir,
flytja þér ást, eldur og ís.
IEB (2015)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.6.2015 | 13:31
Í Flóa
Í Flóa á fögru kveldi,
fuglinn húmið sker.
Rökkur í roðaveldi
rís við fjallshring hér.
Þögull er Þríhyrningur
þar jökulinn ber við loft.
Fagur er fjallahringur
ferðast þar andinn oft.
Niðar við fossa og fleina
fram streymir Þjórsá öll.
Ber með sér aur og steina,
úr sandi skapar fjöll.
Lífæð lands og þjóðar,
lífsins móðir, vatnadís.
Verndi þig vættir góðar,
vermi þig eldur og ís.
IEB (2015)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.5.2015 | 11:06
Vartan - smásaga tileinkuð Nikolaj Gogol
Geir Gíslason Pipp hafði alltaf gengið með forsetann í maganum. Þegar hann var lítill gutti hafði hann klætt sig í sparifötin og veitt systur sinni orðu eins og forsetar gera gjarnan og síðan hélt hann langar ræður yfir hundinum, honum Snata um landsins gagn og nauðsynjar, einkum eftir að hann hafði á unglingsaldri lesið bæði Ármann á Alþingi og rit Jónasar frá Hriflu.
En þetta vesen hafði bara ekkert elst af honum með aldrinum og núna var hann orðinn virðulegur lögfræðingur á lögfræðistofu í miðbænum, sem átti sér þann barnalega draum að verða forseti Íslands. Hann vann eins og skepna myrkranna á milli til að safna fé til framboðsins sem hann geymdi á stöndugum Vörðureikningi í Landsbankanum. Síðan var hann alltaf að leita að mögulegum styrktaraðilum í atvinnulífinu. Hann hafði þegar náð einu fiskvinnslufyrirtæki úti á landi og bróðir Geirs sem rak kaffihús í Norðurmýrinni var einnig öruggur "sponsor".
En Geir átti í vandræðum með einn hlut. Fyrir nokkrum mánuðum síðan hafði farið að myndast ægileg varta á nefinu á honum og þrátt fyrir vörtueitur og límbandsmeðferðir lét vörtuskepnan ekki undan síga, heldur jókst og ágerðist. Það var alveg sama hvað Geir reyndi að gera til að sminka yfir hana. Hún kom fram á öllum ljósmyndum og alveg sérstaklega kom hún vel fram í sjónvarpi. Hver myndi vilja kjósa forseta með stóra, næstum græna, búsældarlega vörtu á hægri neföxlinni?
Geir ræddi við einn fremsta lýtalækni landsins, en sá gaf afsvar og sagði að vartan myndi að öllum líkindum hverfa af sjálfu sér. En Geir hafði ekki tíma. Forsetakosningar voru framundan og þetta yrði e.t.v. hans fyrsta og eina tækifæri. Hann var búinn að safna nægum fjölda meðmælenda og var u.þ.b. að fara að skrá sig sem frambjóðanda. Vartan yrði að fara.
Gegnum starf sitt á lögfræðistofunni hafði Geir kynnst undirheimum Reykjavíkur lítillega. Hann hringdi nú í Glófinn Eiríksson sem alltaf var kallaður Glófinnur Grifla og spurði hann hvort hann vissi um eitthvað svæsið og vel virkandi vörtueitur, helst smyglað inn frá Kína.
Glófinnur sagðist mundu útvega vörunna, því hann vildi eiga inni velvild hjá lögfræðingnum, svona ef eitthvað kæmi upp á og t.d. kannabisræktunin hans í Þykkvabænum myndi skyndilega uppgötvast af löghlýðnum aðilum. Svo ekki væri talað um ræktunarlampana sem hann hafði hnuplað með harðfylgni í Hveragerði eftir að hafa barist við bannsetta Rottweiler hundana (hann klæjaði ennþá í sárin).
Þannig að nokkrum dögum síðar fékk Geir Gíslason Pipp afhenta rauða krús með stóru svörtu kínversku letri, sem var honum algjörlega óskiljanlegt. Í krúsinni var illa lyktandi krem eða salvi og einu leiðbeiningarnar sem Geir fékk, voru að bera salvann á vörtuóhræsið sem myndi einfaldlega detta af eftir nokkur sekúndubrot.
Eða svo hafði Glófinnur grifla a.m.k. lofað.
Um morguninn, eftir að hafa drukkið stórt glas af appelsínusafa með hráu eggi og eftir að hafa rakað af sér brúnleit skegghárin, opnaði Geir næstum því hátíðlega krúsina með salvanum.
Hann ætlaði fyrst að bera kínverska salvann bara á vörtuna en ákvað síðan að til að ná öllum rótunum alveg örugglega væri best ef hann bæri á stærstan hluta nefsins. Honum fannst nefnilega önnur varta vera farin að myndast á hinni neföxlinni og ekki vildi hann að ógeðið myndi margfaldast eins og amaba í vexti.
Geir setti á sig plasthanska og bar salvann ríkulega á nefið. Salvinn var grár á litinn og Geir fann fyrir örlitlum sviða er hann bar hann á. Síðan settist hann spenntur og beið fyrir framan spegilinn á baðherberginu í risíbúðinni í Hlíðunum.
En eftir smá stund setti að Geir mikinn hnerra. Hann hnerraði og hnerraði og hnerraði og allt í einu flaug eitthvað flykki af honum og datt niður á gólf. Þarna fór hún bévítans vartan, hugsaði hann ánægður og leit í spegilinn vongóður. Það var þá sem hann varð fyrir svæsnasta áfalli lífs síns.
Þar sem nefið hafði verið var núna ekkert nef, heldur einungis sléttur flötur með stórri, grænni, búsaldarlegri vörtu á. Vartan semsagt hafði lifað kínversku atlöguna af, en nefið ekki.
Það var þá sem Geir öskraði. Það var vein sem kom frá dýpstu rótum mannlegrar örvæntingar og því var einfaldlega ekki hægt að lýsa með orðum. Þetta var svona nokkurs konar væl, eins og væl í hrægammi sem hefur uppgötvað að allt kjötið í eyðimörkinni er búið. Þetta var hámark hinnar tilvistarlegu einsemdar eins og hún var tjáð af Camus og Sartre, því hvað er mannskepnan án nefsins og nefið án mannskepnunnar? Hvað verður um okkar identitet án nefsins og hvernig getur maður skilgreint sig sem homo sapiens sapiensis án nefs?
En nefið lá ennþá á gólfinu. Geir tók um nefið sitt og vafði því af kostgæfni inn í dýrindis dúk sem amma hans hafi saumað út í Heimilisiðnaðarfélaginu. Núna yrði hann bara að útvega sér nógu gott lím til að líma nefið á aftur (yfir vörtuógeðið) og hann vissi hver átti að skaffa honum það.
Símtalið á milli Geirs Gíslasonar Pipp og Glófinns griflu var sem betur fer aldrei tekið upp. Geir sem yfirleitt var hið mesta prúðmenni, missti sig algjörlega, enda miður sín út af nefmissinum og hótaði glæpaforingjanum öllu illu ef hann myndi ekki skaffa lím sem límt gæti nefið aftur á. Glófinnur grifla lofaði öllu fögru og sagðist myndu útvega límið frá Kína í trássi við öll lög og reglugerðir um innflutning á hættulegum efnum.
Stuttu síðar fékk Geir pakka í hendur með torkennilegu lími í grænni túpu. Hann flýtti sér inn á bað og bar límið á flatneskjuna þar sem nefið hafði verið og á vörtuóhræsið sem næstum glotti grænt og ósvífið út í loftið. Og nú gerðist það ótrúlega, vartan steindrapst og datt af í heilu lagi, en nefið vildi samt engan veginn tolla. Það var sama hvað hann reyndi, vörtuógeðið var horfið, en nefið var ennþá ekki á sínum stað.
Geir endaði því að lokum inni á Landspítala með nefið innvafið í dúkinn hennar ömmu sinnar. Læknavísindin höfðu aldrei séð annað eins og fregnin um nefið sem datt af fór sem eldur í sinu um alla vefmiðla heimsins. Geir varð frægur sem maðurinn sem hafð misst nefið. En hann varð aldrei forseti Íslands. Í staðinn var nefið grætt á hann, en hann bar alltaf örin í andlitinu.
Það brast eitthvað innra með Geir sjálfum og hann reyndi aldrei aftur að bjóða sig fram. Hann forðaðist frekar fjölmenni, en eignaðist þó fáa og góða vini. Lýtalæknirinn sem græddi á hann nefið í víðfrægri aðgerð varð einn besti vinur hans og þeir fóru að spila bridds á fimmtudagskvöldum með nokkrum góðum og sönnum félögum.
Glófinnur grifla flutti til Danmerkur og var að lokum skotinn í átökum á milli harðsvíraðra mótorhjólagengja. Öldruð móðir hans var sú eina sem stóð yfir moldum hans og grét af því að hún mundi enn eftir fimm ára saklausum dreng sem einu sinni hafði verið til, áður en hann ánetjaðist áfengi og fíkniefnum.
Á hverjum sunnudegi mátti sjá gömlu konuna ganga upp brekkuna að Landakotskirkju þar sem hún kveikti á kerti og bað til heilagrar Maríu um að bjarga sálu sonar síns. Glófinni var vissulega fyrirgefið og án þess að móðir hans vissi nokkurn tímann, var hann tekinn inn til kærleikans og ljóssins þar sem hann er elskaður að eilífu.
IEB (2015)
Bloggar | Breytt 6.10.2015 kl. 10:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.5.2015 | 20:53
Þú varst mér sem engill
Til Valgeirs Bjarnasonar
Þú varst mér sem engill,
elsku vannst úr sorg.
Komst með ljósið bjarta
í brostna hjartans borg.
Þú varst mér sem ljós,
engill lífsins kraftaverka.
Þú opnaðir hjarta mitt
til kærleikans sanna, bjarta.
Stundum geng ég ein
í sársauka og sorg.
Þá kemur þú til mín,
þögull, segir ekki orð.
Hendi þín mjúk og hlý
í minni hendi hvílir
Þú ert minn ástarengill,
er hjarta mínu skýlir.
IEB (2015)
Bloggar | Breytt 15.6.2015 kl. 15:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.5.2015 | 11:03
Ég sá svo fagran engil
Ég sá svo fagran engil
flögra á minni ferð.
Hann bað mig breyta stefnu,
brýna lífsins sverð.
Um skýjaveröld ferðast,
heimur verður nýr.
Borin af englahöndum
faðmur sterkur, hlýr.
Mín fá eru eftir sporin,
á harðri heimsins Jörð.
Því af engli var ég borin
um heimsins fjallaskörð.
IEB (2015)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.5.2015 | 11:58
Til Maríu
María ver mér móðir skær,
verm barn þér við hjarta.
Ver mér ætíð hendi nær,
veit mér ljósið bjarta.
Vak þú yfir veröld hér,
veikum manna börnum.
Miskunna þínum barna her,
hlú að mildum örmum.
Ver þú enn sem móðir mín,
björt og hrein á Jörðu.
Hugsa æ um börnin þín,
ver þau meini hörðu.
IEB (2015)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.5.2015 | 20:29
Ljóð til lítillar stúlku
Ég hnýti þér krans
úr sólstöfum
úr tindrandi silfri.
Gef þér enda
regnbogans
í örlitlu
perlulögðu
skríni.
Í skríninu búa
englar Guðs
og stjörnur
himinsins.
Sem vaka
yfir þér
allar þínar
stundir.
IEB (2015)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.4.2015 | 19:18
Ástarljóð til Krists
Þú ert ljósið hlýtt
sem að vori lifnar.
Þú ert blómstrið blítt
sem dauðann sigrar.
Þú ert svo fagur sem
skínandi hvítust rósin.
Þú ert svo fagur sem
kærleiks jesserótin.
Þú ert Drottinn Guð
allra engla á himni.
Faðir og hirðir alls
er býr í ásýnd þinni.
Þú ert mitt hjartaljós
er æ bjargar sálu minni.
Þú ert mitt líf og hrós
er andans bjargar sinni.
IEB (2015)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)