Færsluflokkur: Bloggar

Ég lék fyrir þig



Ég lék fyrir þig
Tunglskinssónötuna
á rykugan og gleymdan
flygil Rachmaninoffs
í Villa Senar.

Ég lék fyrir þig
fjarlægt angurvært hljóð
einmana útvarpsvetrarbrautar
í fjarska.

Þú sagðir mér frá póstmódernismanum,
Ég sagði þér frá kærleikanum.
Þú sagðir mér frá endimörkunum,
Ég sagði þér frá voninni.

Þú sagðir mér frá Helförinni.
Ég sagði þér frá Upprisunni.

Ég bar þig í fangi mínu,
faðmaði myrkur huga þíns,
með heilögu ljósi mínu,
í kvenleika hinnar fornu gyðju.

Þar sem ég hvarf að fullu
inn í ljósið,
varð ég
hin eilífa móðir,
móðir Krists,
móðir Kærleikans,
sem bjargar Veröldinni
að eilífu.

 

Höfundur Ingibjörg Elsa Björnsdóttir


Dauðinn og blómið

Dauðanum leið illa. Það hafði verið annríki hjá honum undanfarið og mikið að gera í stríðsátökum víða um heim. En hann var ekki sáttur. Honum fannst hann vera í skítverkunum. Hann var alltaf að hitta sárþjáð fólk, og það eina góða við starfið var að hann gat leyst fólk frá óendanlega mikilli þjáningu. En síðan horfði hann bara á eftir því hverfa inn í hvítt bjart ljósið og hann stóð sjálfur eftir, einn og einmana, umvafinn djúpu, þykku myrkri.

Hann vissi upp á sig syndina. Hann hafði syndgað og það hressilega. Honum hafði verið boðið þetta starf til að bæta fyrir syndir sínar og hann hafði játað, meira að segja svarið eið. En núna leið honum illa. Einmanaleikinn nísti hann inn að beini.  Hann tók utan um ljáinn og fór yfir eyðimerkur Sýrlands þar sem hann hafði dvalið mikið undanfarið. Hann hafði  fengið sig fullsaddan af grimmd mannanna. Hann vissi reyndar að eitt sinn hafði hann sjálfur verið grimmur konungur, e.t.v. grimmasti konungur allra tíma, en núna var hjarta Dauðans fullt af hryggð. Hann fann bara til óendanlegs trega og sorgar þegar hann hugsaði um öll þessi átök milli manna, og allt þetta miskunnarleysi. Kannski var hann að verða þunglyndur.

Allt í einu sá Dauðinn eitthvað rautt og fagurt í miðri eyðimörkinni. Hann nam staðar. Við fætur hans stóð blóm, rautt og hraustlegt, með græn blöð og brosti hamingjusamlega mót birtu sólar. Dauðinn settist niður á hækjur sínar. Hann þorði ekki að snerta blómið, af því að allt sem hann snerti fór yfir fljótið Styx og inn í ríki himnanna. En Dauðinn gat ekki annað en horft. Rauði liturinn í blóminu var regnbogakenndur, og jafn fögur litbrigði hafði Dauðinn aldrei séð. Hann horfði á blómið, og honum fannst sem hann væri að drekka vatn lífsins og hann fann endurnærandi kraft streyma um sig. „Þakka þér Drottinn, Himnanna faðir, „ sagði Dauðinn og grét hvítum tárum. Jafnvel mér sýnir þú miskunn, mér sem var grimmasti konungur Jarðar.

Dauðinn stóð upp. Hann sleit ekki upp blómið, af því að hann kunni að bera virðingu fyrir lífinu. Enginn vissi eins vel og hann hversu lífið var mikils virði. Hann sem var dæmdur til að vera Dauðinn sjálfur. Dauðinn þurrkaði tárin af hvörmum sér. Um leið heyrði hann sprengingu í fjarska. Það féllu sprengjur í Damaskus. Dauðinn andvarpaði, signdi sig og hélt burt í átt til borgarinnar.


Stjarnan

Unga parið hafði misst fóstur. Þau voru alltaf að rífast. Það var þessi ægilegi tómleiki, þessi hræðilega sorg  og þessi napri vetrarvindur sem næddi í kirkjugarðinum þar sem þau stóðu og horfðu þögul á litla krossinn sem stóð á litla leiðinu í duftkirkjugarðinum.

Þau höfðu bæði grátið úr sér augun, en forðuðust þó að láta hitt sjá þegar þau voru að gráta. Þau bitu á jaxlinn, innibyrgðu sársauka sinn og ýttu honum lengst ofan í svartan kassa sem var geymdur neðst í undirmeðvitundinni. Strákurinn var alltaf með hausverk og hann var hættur að geta einbeitt sér í vinnunni. Stúlkan fékk endalaus kvíðaköst og svitnaði í lófunum. Fjármálin voru öll að fara í vaskinn og samband þeirra var sömuleiðis fyrir löngu farið í hundana.

Það var einungis þegar þau stóðu þögul við litla leiðið í kirkjugarðinum sem þau tókust ósjálfrátt í hendur og föðmuðu hvort annað. En þau gátu ekkert sagt. Öll orð voru löngu þornuð upp í kverkunum og ekkert var eftir nema eitthvað hást hvísl sem komst aldrei alveg fram á varirnar.

Það var Þorláksmessukvöld. Þau nenntu ekki að setja upp jólatréð. Strákurinn sat og horfði á sjónvarpið eins og í leiðslu og stelpan var óvenju þreytt og lagðist upp í sófa með skoskt ullarteppi. Þau voru hætt að sofa í sama rúminu. Ástæðan fyrir því að annað hvort þeirra gekk ekki bara út, var sú að þau höfðu engan betri stað til að fara á. Það var ekkert þarna úti nema köld heimskautanóttin sem hvelfdist yfir norpandi borgina.

Strákurinn slökkti á sjónvarpinu um tvöleitið að nóttu og fór inn í svefnherbergi. Stúlkan svaf kyrr í sófanum í stofunni. Allt var hljótt.

Stúlkan rumskaði. Henni fannst hún heyra eitthvað hljóð. Allt í einu finnur hún litla hönd taka í hönd sína og heyrir mjúka barnsrödd segja greinilega. – Elsku mamma, ekki hafa áhyggjur af mér. Ég hef það gott. Stúlkan hrökk upp og horfði út um gluggann út í stjörnubjarta vetrarnóttina. Hún skalf og að henni setti mikinn grát, en síðan var eins og yfir hana færðist ró. Hún sá skæra stjörnu sem skein úti í vetrarnóttinni. Hún fann allt í einu langþráðan frið setjast að í sál sinni.

Um morguninn reis hún á fætur eins og fuglinn Fönix, tók kápuna sína, pakkaði ofan í töskuna og gekk hljóðlega út um dyrnar. Hún myndi tala við strákinn síðar. Hún ætlaði að halda áfram að lifa.

 

Höfundur: Ingibjörg Elsa Björnsdóttir


Fésbókardraugurinn

 

Snjólfur Friðriksson var tölvunörd af Guðs náð. Hann var bæði á fésbókinni og á twitter og hélt uppi umfangsmikilli fréttaþjónustu. Statusarnir hans nálguðust hundraðið á degi hverjum og vinafjöldi hans á fésbókinni var kominn upp í 1522.

Nánast alla daga sat hann eins og límdur við tölvuna og starði á blikkandi skjáinn. Fésbókin fylltist af athugasemdum um frekar einmanalegt líf hans, því þótt hann ætti 1522 vini á fésbókinni átti hann ekki nema tvo vini í raunveruleikanum, hundinn Snata og pabba sinn sem komu til hans einu sinni í viku með fullt af mat meðferðis.

Svo gerðist það einn daginn þegar Snjólfur var á fullu á fésbókinni að spila leiki, að tölvan hans opnaði skyndilega skjáinn og hreinlega át hann. Hún gleypti hann Snjólf í einum bita. Hans líkamlegu tilveru var lokið. Í staðinn var hann orðinn fésbókar-andi, hinn eilífi fésbókarvinur sem ráfar um netheima að eilífu.

Hann gat ennþá búið til statusa. Í stað þess að skrifa þá á lyklaborð, hugsaði hann þá bara og þeir birtust um leið. Hann var orðinn vélmenni – tölvumenni – fésbókardraugur.

Snjólfi fannst þetta fyrst algjörlega æðislegt. Hann var ekki lengur bara að vinna á tölvu, hann var tölvan og tölvan var hann. Hann fann rafmagnið streyma í gegnum sig, ljóseindir, - fótónur á fullu og hann skynjaði víbrerandi strengi strengjakenningarinnar sem bjuggu innan í öllu efni og í öllum krafti.

En síðan fór Snjólfi smám saman að finnast þetta dálítið takmörkuð tilvera. Honum fannst það dálítið súrt í broti að vera takmarkaður við eina tölvu. Þannig að hann braut heilann um hvernig hann gæti sent sjálfan sig sem viðhengi til sjálfs netþjóns Fésbókarinnar í BNA. Ef hann kæmist inn í kjarnann gæti hann ferðast út um allan heim á vængjum internetsins.

Það tók tölvusnillinginn Snjólf einungis 10 daga að fatta hvernig hann gæti sent sjálfan sig sem viðhengi við tölvupóst til höfuðstöðva Fésbókarinnar í BNA. Hann sendi sjálfan sig inn á netþjóninn og brátt var hann kominn eins og hinn fegursti tölvuvírus inn í kjarna Fésbókarinnar. Stuttu seinna fréttist af honum í Japan að horfa á teiknimyndir á Youtube, og síðasti statusinn frá honum kom frá sendi í Himalayafjöllum þar sem hann var á leiðinni með fartölvu upp á Mt. Everest.

Snjólfur náði semsagt toppnum, og eftir það hefur hann ekki skrifað á Fésbókina svo vitað sé.

 

Höfundur:  Ingibjörg Elsa Björnsdóttir

 

Sagan hefur áður birst sem „gjörningur“ á Fésbókinni.


Dropar tveir

Við runnum saman

sem dropar tveir,

eftir dimmt steypiregn.

 

Við elskuðumst

í vatninu

og urðum vot í gegn.

 

Við vorum bara

dropar tveir

á sólarinnar braut.

 

Þú gafst mér

liti regnbogans

í lágri berjalaut.

 

Í eilífðinni dveljum við

sem smáir dropar tveir.

Aldrei, aldrei aðskilin.

Aldrei, aldrei meir.

 

Höfundur: Ingibjörg Elsa Björnsdóttir (2013)


Ferðalag

Ég kippi mér ekki upp
við straum tímans,
við vinsældir dagsins,
eða sorgir morgunsins.

Ég er á eilífu ferðalagi,
hvað skipta mig hundrað ár,
hvað skiptir mig sandur
sem rennur gegnum tímans glas.

Ég ferðast með
lítinn farangur,
tek ekki of mikið með mér
á ferð um þennan heim.

Því ferðalagið er langt,
drjúgur vegur framundan,
fjöll að klífa,
gil að skrönglast um
dalverpi og hæðir.

Ég græt ekki hrukkur og elli,
græt ekki árin að baki,
lít ekki til baka,
verð ekki að salti
og græt ekki
söltum tárum.

Augu mín horfa fram á við,
þau greina litfagrar stjörnuþokur í fjarska,
aðrar veraldir,
aðra heima,
aðrar víddir,
kvasara og útvarpsvetrarbrautir
svarthol og vetrarbrautarþyrpingar.

Ég heyri enduróm upphafs og enda,
bergmál alheimsins,
ruach, andardrátt Guðs,
og
ég stíg létt til jarðar
á leið minni
inn í
botnlausa
eilífðina.

 

Höfundur: Ingibjörg Elsa Björnsdóttir


Sonnetta 116 eftir Vilhjálm Shakespeare

Ég viðurkenni ekki meinbug á sönnum ástum
ást er ekki ást sem breytist
er hún skynjar tímans þunga straum,
né bognar við dauðans skarpa ljá:

Ó nei, kærleikurinn er merki hátt
sem fagnar stormi og hvikar eigi;
Hann er leiðarljós hverjum manni er lifir
sem veit eigi sitt verðgildi, þótt hann hafi verið veginn.

Ástin er ekki leiksoppur tímans þótt
fagrar varir og kinnar verði ljá hans að bráð:
Ástin breytist ekki innan stunda og vikna
heldur þreyir allt til hinsta dóms.

Ef þetta er rangt og sannast,
þá hef ég aldrei ritað, né nokkur maður elskað.

Vilhjálmur Shakespeare

 Þýðing: Ingibjörg Elsa Björnsdóttir


Úr ljóðabálknum Hugir manna (2014)

XXII.


Ég skrifa sixtínsku kapelluna í orðum.
byggi pýramída í þágufalli.
Hlið Jerúsalemborgar standa opin.
hann er kominn aftur.

Bjöllur hringja í fjarska,
sveitir Toscana blómstra kirsuberjum,
Madonna með barn gengur út úr
kirkju í Flórens.

Við sem reiknuðum aldrei með þessu,

við sem töldum þetta algjörlega ómögulegt,
við sem trúðum þessu aldrei í raun og veru,

horfum núna á hann
standa í biðröðinni við Péturskirkjuna
með túristabækling í hendi.

Skakki turninn í Pisa er orðinn beinn.
Sólin er farin að ganga í hringi.
Tunglið vill ekki koma upp
og stjörnurnar standa kyrrar

í lotningu og dýrð.


Páfinn í Róm liggur á bæn.
Kardínálarnir funda.
Hann er kominn aftur.

 Höfundur: Ingibjörg Elsa Björnsdóttir


Ort í 14 stiga frosti síðasta vetur

Veturinn 2013 til 2014 var 14 stiga frost eina nóttina á Suðurlandi. Þá varð eftirfarandi ljóð til í hugskoti mínu:

 

Frostnótt

Það litla líf sem í fangi mínu sefur.
Sá andardráttur einn sem Guð mér gefur.
Að elska litlar hendur og litla fætur
er hjúfra sig upp að móðurhjarta
í skugga nætur.

Er helblátt himinhvolfið hrímar seint um nótt
móðurhjarta verður ekki rótt
nema það geti fundið eld og yl
sem hlúir að því litla lífi
sem er til.

En ást mín er svo heit af funa
að hún þolir allt heimsins frost
og íssins bruna
í norðurheimskauts nótt
ég bý til skjól
svo hvíla megir þú og sofa rótt.

Höfundur: Ingibjörg Elsa Björnsdóttir

 

 

 


Rigningarsumarið 2014

Síðasta sumar 2013 var einnig rigningarsumar. Þá orti ég eftirfarandi:

Vorsónata

Rigningarsumar með vætutíð
vellandi spói, lóan blíð
í vatninu silungur vakir.

Ég sit við bakkann með veiðistöng,
bjart er kvöldið og nóttin löng,
ég elska þig gróskunnar tíð.

Í skóginum allt dafnar, vex og grær,
flugur hjá blómstri fljúga nær.
Berjalyng haustsins bíður.

Er kólna tekur um rökkurstað,
berjaland vaknar um hlíð og hlað,
því sumir blómstra best, er haustar að.

Höf: Ingibjörg Elsa Björnsdóttir

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband