Færsluflokkur: Bloggar

Sorg

kerti.jpg

 

 

 

 

 

 

 

Á hverri nóttu
dey ég agnarögn og kem til þín.

Á hverri nóttu
held ég þéttingsfast í hönd þína.

Á hverri nóttu
hvíslar þú ástarorðum í eyra mitt.

Á hverri nóttu
elska ég þig ennþá.

Á hverri nóttu
eyði ég andartaki til eilífðar með þér.

IEB (2014)

 


Að elska

 

Að elska er að missa allt
sem ástina dreymir um.
Að snerta kalið hjarnið kalt
og syrgja kærleiks stund.

Að ganga myrkri dauðans mót
mannsins köllun er,
að klöngrast yfir lífsins grjót,
hafsins ála, djúp og sker.

En handan nætur, í duldum draumi
skín eilífðarinnar ljós,
skráð björtum eldi í tímans straumi
sem rennur að kærleiks ós.

Því enginn yfirgefinn er,
einn í alheims geimi,
yfir sérhverjum vakir englaher,
kærleikurinn sá sanni og eini.

IEB (2014)

 

 


Haustsónata

Myrkrið er vinur þess er þjáist,
lokar hverri þungri brá.
Svefninn elskar allt og nærir
uns sólin vaknar og fer á stjá.

Er dimmir í skógarsölum,
syngur þröstur fagran söng,
um upprisu vors og rósagarða,
um birtu, von og ljóssins göng.

Gegnum myrkur, frost og funa
liggur mannsins langa leið.
Í krafti upprisu heims og ljóssins bruna,
mun hann að lokum rata heim.

IEB (2014)


Innblástur


Fór í Sunnlenska bókakaffið.

Þar sat skáldagyðjan
að leysa sudoku
og lesa Hómer.

Ég datt um Illionskviðu
ofan í Pétur Gaut
í þýðingu Einars Ben.
Hún var græn og
máð á kilinum.

Áður en ég vissi af
lukust upp fyrir mér
aldir goðsagna
og skáldskapar.

Ég tók andköf,
horfðist í augu við Virgil,
Milton og Blake,
- var í félagsskap
með englum.

Er ég leit upp
var skáldagyðjan
horfin inn í tölvuna
þar sem hún
lagðist yfir fésbókina
eins og bláleit móða
úr myrkum eldum
í Vatnajökli.

Höf. Ingibjörg Elsa Björnsdóttir (2014)


Hrun


Þegar botninn datt úr
samfélaginu,
fór ég að lesa ljóð.

Brodsky brosti við mér
og Akhmatova var
ýmsu vön.

Þetta er nú bara smá kreppa
sagði Marina Svetajeva.

Ég settist í hægindastólinn hennar
Akhmatovu,
þennan fjólurauða
með einungis þrem fótum,
og við töluðum
alla nóttina
um Proust og Baudelaire.

Á meðan gengi krónunnar hrundi,
uppgötvaði ég almættið
í listinni,
elti naut með Hemingway,
og horfðist í augu
við lífsháskann
með Leó í Stríð og Frið.

Við Púshkin
fórum í einvígi
og snérum aldrei
til baka
öðruvísi en
sem skáld...

og Lérmontov
stóð einmana við
fjallgarðinn í Kákasus
og óskaði okkur
góðrar ferðar...

Þið vitið að þetta
er gæfulaust líf,
sagði hann dauflega
og brosti.

En okkur Púshkin
var bara alveg sama.

Höfundur: Ingibjörg Elsa Björnsdóttir (2014)


Kvikukantata

10533165_936129796401485_6406982490582260118_o.jpg
 
 
 
 
 
 
 
 
 
Seiðandi eldur logar í hrauni,
brennur iðra berg.
Steypist logafoss í straumi,
brotnar af gráum merg.

Í brennandi boga
standa gígar og loga.
Tröllastjakar,
við dyngjur og sporða,
heilt tónverk
leikið án orða.

Er líður að kveldi
hljómar kantata úr eldi.

Tónlist Jarðar,
í öllu sínu veldi.

Höfundur IEB (2014).


Í leik með börnum



Ég sé enga visku í kaldhæðni ellinnar
ekkert svar í opinni gröf
enga lausn í valdatafli
eða stanslausum kafbátahernaði.

Ég vil frekar líkjast börnum
þau eru sem Englar himinsins
þau elska með tæru hjarta
og segja sannleikann.

Það er svo margir sem vilja
líta út fyrir að eiga visku
en eiga engan kærleika
og engin svör
nema kaldhæðni og beiskju
reiði og skort á fyrirgefningu.

Ég líkist þeim ekki,
ég leik mér með börnum,
og stunda félagsskap
með englum
og ég vil frekar vera
ásökuð fyrir skort á raunsæi
en skort á kærleika.


Nótt

Nú dvelur nóttin um draumfagran heim

og drengurinn minn hann sefur.

Er ljósið sig hringar um himingeim

engill í faðminn tekur

drenginn minn fagra sem sefur.

 

Höfundur: Ingibjörg Elsa Björnsdóttir

img_0883.jpg


Gelísk blessun


Megi hinn djúpi friður öldu hafsins vera með þér

Megi hinn djúpi friður blæsins vera með þér

Megi hinn djúpi friður hinnar hljóðu moldar vera með þér

Megi hinn djúpi friður skínandi stjarna vera með þér

Megi hinn djúpi friður hinnar mildu nætur vera með þér

Megi tunglið og stjörnurnar úthella miskunnsömu ljósi sínu yfir þig.

Megi hinn djúpi friður Krists sem er ljós heimsins vera með þér.

Megi hinn djúpi friður Krists ætíð fylgja þér.

 

John Rutter


Úr ljóðabálknum Hugir manna (2014)

XXVI.

 

Af því

að skapa varð

alheiminn

með takmörkuðum

fjölda frítalna.

 

Af því að

óendanleg rökvísi

heimsins

krafðist

vissrar

innbyggðrar

grundvallar

óreiðu.

 

Af því að

skortur á jafnvægi

leiðir

að lokum

til hreyfingar.

 

Af því að

skortur á jafnvægi

knýr

áfram

öll efnahvörf

alheimsins.

 

Af því að

stöðug

sköpun

ljóssins

krefst

svartamyrkurs.

 

Byrja ég að skilja

að sá

sem hreyfist

hraðar en ljósið

elskar

bæði hreyfingu

og frelsi.

 

Hann vildi

aldrei

varpa

okkur

í ánauð,

heldur

gefa okkur

ótakmarkað

frelsi

hugans.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband