Færsluflokkur: Bloggar
29.1.2009 | 22:26
Frábær hljómsveit - frábær einleikur
Við Íslendingar eigum ekki risavaxnar dómkirkjur frá miðöldum með bogadregnum hvelfingum og fólgnum gersemum. Við eigum ekki Versalahallir eða Vetrarhallir fullar af málverkum. En við eigum Synfóníuhljómsveit Íslands, sem jafnast að fullu á við allar dómkirkjur heimsins.
Synfóníuhljómsveitin er djásn íslenskrar menningar, demantur sem geislar af gleði og innlifun og sem ekki má fölna frekar en yngislindir íslenskrar tungu. Það er erfitt að lýsa sýnfóníuhljómsveitinni, slíkur er kraftur hennar og dulmagn.
Ég hvet alla sem ekki hafa séð synfóníuhljómsveitina spila, til að drífa sig í Háskólabíó og njóta andartaksins. Einkum þá sem halda að synfóníur séu alls ekki fyrir þá sjálfa.
En í kvöld spilaði hljómsveitin synfóníuna um Nýja Heiminn eftir Dvorcák, og einnig var fiðlukonsert eftir Martinu á efnisskránni. Einleikari var Helga Þóra Björgvinsdóttir og spilaði hún af einbeitni og krafti sem var í fullkomnu samræmi við andardrátt hljómsveitarinnar.
Öllu þessu stjórnaði Tomas Hanus af mikilli innlifun. Salurinn sprakk af hrifningu þegar tónleikunum lauk og fagnaðarlátunum ætlaði aldrei að linna.
Ég þakka kærlega fyrir mig!
Bloggar | Breytt 30.1.2009 kl. 02:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.1.2009 | 22:25
Allt í rólegheitum
Allt í rólegheitum hjá mér þessa dagana. Blogga betur síðar.
Kveðja, Ingibjörg
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.1.2009 | 22:06
Söknuður - frumsamið ljóð
Söknuður
Sárar eru sorgir mínar
Svalt við kaldan mel
Hrímað þelið hjartans hlýnar
horfið heimsins hel
nú sofa allar ástir mínar
und jarðar hörðu skel.
Að elska er að missa allt
Sem ástina dreymir um
Sem döggvardropi drúpir kalt
Á mosans gljúpu grund
Einhvern daginn ástin mín
Mun ég aftur á þinn fund.
Höfundur: Ingibjörg Elsa Björnsdóttir
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
30.12.2008 | 12:21
Við þurfum að hugsa eins og þeir heimspekingar sem við erum
Öll erum við heimspekingar. Öll höfum við margvíslegar hugmyndir um lífið og tilveruna. En þar með er ekki sagt að við hugsum alltaf rökrétt eða ástundum gagnrýna hugsun. Páll Skúlason heimspekingur hefur verið duglegur að benda á mikilvægi gagnrýnnar hugsunar í gegnum tíðina. Einnig bendir Páll gjarnan á mikilvægi umræðunnar sem þurfi að vera á hærra plani en hjá þeim sem eru með órökstuddar fullyrðingar og freistast jafnvel til þess að vera með beint skítkast.
Umræðan á Íslandi er oft ansi svört og hvít. T.d. er sagt, "Já hún er nú vinstri græn." ...og þar með er búið að afgreiða viðkomandi manneskju og allt sem hún segir. Í stað þess að hlusta á rökin og sjá hvort að eitthvað vit er í röksemdafærslunni. Þannig erum við alltof fljót að flokka fólk niður í mismunandi flokka og afgreiða það þarmeð skv. þeim fordómum sem við höfum hverju sinni. En um leið og við setjum upp girðingar og flokkum fólk niður í hólf, erum við að útiloka einnig okkur sjálf. Vegna þess að um leið og við förum að beita hugmyndafræði útilokunar og flokkunar gagnvart öðru fólki skapast sú hætta að við sjálf verðum flokkuð einnig og afgreidd út af borðinu.
T.d. getum við öll orðið öryrkjar og öll eldumst við og verðum að þeim hópi sem kallaðir eru aldraðir eða eldri borgarar. Með þetta í huga vekur furðu að ekki skuli hugsað betur um gamla fólkið hér á Íslandi. Með því að hugsa vel um aldraða erum við að hugsa vel um okkur sjálf og búa í haginn fyrir börnin okkar sem eiga einnig eftir að eldast. En það er eins og hugsun stjórnmálamannanna nái sjaldnast svona langt. Stjórnmálamennirnir eru svo uppteknir við að hugsa um efnahagsmálin sem þeir telja forsendu hamingjunnar.
Auðvitað er ekki gott að kúldrast uppi á kvistherbergi, auralaus og félaus eins og einhverskonar íslenskur Raskolnikov, en peningar eru ekki forsenda alls. Það er hægt að gera mjög margt án þess að nota peninga og nota t.d. í staðinn tíma. Með því að gefa af hvort öðru, með því að gefa börnunum og gamla fólkinu tíma okkar erum við að skapa betri heim fyrir þau og okkur sjálf.
En öll þurfum við að læra að hugsa eins og þeir heimspekingar sem við í raun og veru erum. Við skulum taka okkur heimspekina til fyrirmyndar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
29.12.2008 | 03:56
Ljósið innra með hverjum manni
Í Búddisma er talað um hið innra grundvallar ljós, eða innri birtu mannsins. Í Kristni er talað um að við séum sköpuð í Guðs mynd og að við séum full af heilögum anda. Kristur sagði: "Á meðan ég er í heiminum er ég ljós heimsins.
Það er skrýtið, en einhvern veginn finnum við flest fyrir þessum innra krafti. Um er að ræða jákvætt afl, sem myndar okkar grunnvitund og grunneðli. Innst inni erum við öll ljóssins verur þrátt fyrir allt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.12.2008 | 10:11
Allt á kafi í snjó
Allt er bókstaflega á kafi í snjó hérna fyrir austan fjall og það snjóar og snjóar. Er að hugsa um að hreyfa ekki við bílnum fyrr en seinnipartinn og labba bara út í búð. Betra fyrir andrúmsloftið að láta bílinn eiga sig. Einnig ódýrara fyrir budduna. Samt er svolítið erfitt að komast áfram gangandi í svona djúpum snjó, líkt og að ganga á Heklu í vikri.
Jæja, nóg um það best að snúa sér að verkefnum dagsins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.12.2008 | 09:29
Allt í rólegheitum og jarðaber úr dós
Núna gengur bara allt í rólegheitum hérna á Selfossi. Við erum að fara að senda jólakortin, kaupa þarf umslög og frímerki, ég er búin að teikna nokkur jólakort og Valgeir er að stússast í bílskúrnum.
Jólasængurverin eru í þvottavélinni, kötturinn sefur í eldhúsinu og lætur sig dreyma um jólamúsa-paté. Naggrísinn Goggi unir sæll við sitt og borðar lífrænt ræktaða tómata frá Laugarási með bestu lyst.
Ég veit að það er kannski skrýtið að upplifa hamingju í miðri kreppunni, en ég get ekki að því gert að þessi hversdagslega hamingja kemur alltaf aftur til mín og lætur mig ekki í friði. Það þarf engin auglýsingaskilti, eða upphrópanir, - jóla-hamingjan læðist hljóðlega inn um dyrnar og kemur sér fyrir og manni líður bara vel jafnvel þótt að sagt sé að allt sé á hverfanda hveli. Svona er nú hamingjan skrýtin.
Jafnvel þótt að jólalærið verði kannski keypt í Bónus í þetta skiptið og ísinn hafi e.t.v. verið á útsöluverði, og jarðaberin verði kannski bara úr dós, þá er svo margt gott við vanilluís með dósajarðaberjum. Og þannig er lífið bara líka stundum - eins og jarðaber úr dós.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.12.2008 | 07:39
Jólabærinn Selfoss
Nú er allt á kafi í snjó á Selfossi, húsin skreytt jólaljósum og afskaplega jólalegt. Það er mikið af fallegum húsum og götum á Selfossi, og var mjög gaman að aka um bæinn í gærkvöldi. Hér koma örfáar myndir:
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.12.2008 | 05:45
Bloggfrí
Ég er að hugsa um að taka mér smá bloggfrí. Er eitthvað svo hugmyndalaus í augnablikinu og hugsa bara um að baka og teikna jólakort.
Sjáumst,
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir
Selfossi
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.11.2008 | 20:04
Við erum alltaf við sjálf!
Það var hroðalegt að fylgjast með fréttunum í kvöld og heyra hve margir eru að missa vinnuna. Ég finn sárt til með öllu því fólki.
Við Íslendingar höfum verið vön að svara spurningunni um hver við séum með því að segja frá starfsheiti. Svo mikilvæg hefur vinnan verið okkur. Núna þurfum við hins vegar að fara að skilgreina okkur upp á nýtt.
Jafnvel þótt fólk missi vinnuna, er það alltaf það sjálft, - það þarf að einbeita sér að því að halda heilsu og að sökkva ekki ofan í þunglyndi eða kvíða. Það getur þó verið auðveldara sagt en gert. Maður breytist ekki sjálfur jafnvel þótt að vinnan hverfi, en líf manns getur tekið miklum breytingum.
Atvinnumissi fylgir ætíð mikil höfnunartilfinning. En núna verður fólk að skilja að ástandið á Íslandi er bara þannig að það eru þúsundir að missa vinnuna. Þess vegna er þetta svipað og að lenda í náttúruhamförum. Það er ekki mikið sem hægt er að gera við þessu annað en að reyna að halda áfram að lifa venjulegu lífi. Það er alls ekki verið að hafna neinum persónulega eins og staðan er núna.
En við verðum bara að reyna að lifa af saman í þessu þjóðfélagi í gegnum næstu mánuði. Hvert og eitt okkar er óendanlega dýrmætt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)