Færsluflokkur: Bloggar
27.11.2008 | 10:43
Um bloggið og tilveruna
Sumir virðast halda að þeir sem blogga geri varla neitt annað. Þetta hljóti að taka svo mikinn tíma að enginn tími sé eftir fyrir venjuleg störf. Að maður hangi á netinu allan daginn.
Í mínu tilviki er það þannig að ég vinn ein við tölvu allan daginn. Ég er um fimm mínútur að setja inn nýja bloggfærslu. Þannig eyði ég kannski klukkutíma á netinu yfir daginn og af því fer kannski um hálftími í blogg. 8-9 klst. á dag er ég að vinna við þýðingar og nota þá sérstök þýðingarforrit sem ekki tengjast netinu. Ég vinn oft á kvöldin og um helgar.
Suma daga blogga ég ekki neitt, aðra oftar en einu sinni.
Þar sem ég vinn ein, er ágætt að hafa einhver samskipti við fólk í gegnum tölvuna. Og þar sem ég sit við tölvuna hvort eð er, munar mig lítið um að kíkja í fimm mínútur á bloggið.
En auðvitað myndi ég ekki blogga svona ef ég væri ekki í vinnu hjá sjálfri mér, þ.e.a.s. væri ekki sjálfstætt starfandi.
En af því að ég er með skrifstofu heima hjá mér segist ég stundum vera "heimavinnandi" og sumt fólk heldur víst að ég geri bara alls ekki neitt!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.11.2008 | 07:24
Nýfrjálshyggjan á sök á kreppunni í heiminum
Það er alltaf verið að leita að sökudólgum. En orsök kreppunnar er fyrst og fremst hugmyndafræðileg. Hennar er að leita í nýfrjálshyggjunni svokölluðu sem gengið hefur ljósum logum um veröldina á undanförnum áratugum.
Maður er nefndur John Maynard Keynes. Hann vildi koma í veg fyrir að heimskreppa skylli aftur á og hann vildi koma í veg fyrir heimstyrjaldir. Þess vegna byggði hann upp kerfi sem átti að tryggja efnahagslegan stöðugleika og frið. Keynes var faðir velferðarkerfisins og hann var hlynntur nauðsynlegum ríkisafskiptum og eftirliti.
En nýfrjálshyggja Miltons Friedmans þurfti endilega að vita allt betur. Lærisveinar Friedmans komust til valda og eyðilögðu það viðkvæma kerfi sem Keynes hafði sett upp til að fyrirbyggja kreppur og heimstyrjaldir. Eftirliti með fjármálakerfinu var nánast hætt og markaðsskrímslinu var einfaldlega sleppt lausu. Lærisveinar Friedmans gerðu allt það sem Keynes vildi að menn gerðu ekki.
Og afleiðingin er núna ljós: djúp kreppa sem mun vara í mörg ár.
Þá spyr maður sig: hvaða flokkur íslenskur hefur haldið mest nýfrjálshyggjunni á lofti?
Þar finnið þið svarið við því hverju er um að kenna hér á landi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.11.2008 | 23:31
Að vera á skjön við samtíð sína
Ég og samtíðin erum upp á kant við hvort annað. Engum í samtímanum dettur í hug að taka mig alvarlega enda einungis leiðinlegt fólk sem heimurinn tekur alvarlega eins og ráðherrar og bankastjórar. Mér hefur t.d. aldrei verið boðið í neina merkilega samtalsþætti í útvarpinu enda er þar einungis alvarlegt fólk sem tekur hlutina mjög alvarlega enda alvarleg mál til umræðu.
Ég hef heldur enga stöðu í samfélaginu. Ég er bara aumur frílans þýðandi en þýðendur hafa löngum staðið í skugga annarra, eins bráðnauðsynlegir og þeir annars kunna að vera.
En það versta sem hægt er að segja um nokkurn mann í dag er að hann sé í takti við samtímann. Hvílík samtíð. Eymd, kreppa og volæði. Þannig legg ég mikla áherslu á það í dag að vera algjörlega úr takti við samtímann og ég vona svo sannarlega að engum lifandi manni detti í hug að taka mig of alvarlega.
Það væri synd.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.11.2008 | 18:01
Spakmæli dagsins
Ég veit að Geir Haarde bjargar ekki heiminum, en það gætu hins vegar bókmenntirnar gert!
Höfundur: ókunnur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.11.2008 | 17:04
Meira um Óskar Wilde
Ég er ennþá að lesa ævisögu Óskars Wilde, og þó hún sé langt frá því að vera fullkomin, þá get ég ekki hamið hlátursrokurnar. Það er ómetanlegt að geta lesið eitthvað fyndið og skemmtilegt þegar ástandið í þjóðfélaginu er svona hörmulegt.
Auk þess er ég búin að vera með umgangspest og hef þessvegna góða afsökun fyrir því að liggja í rúminu og lesa. Las t.d. Stríð og Frið eftir Tolstoj þegar ég var einu sinni með flensu (tæpar 900 bls.).
Óskar Wilde sagði að hægt væri að kaupa alla gagnrýnendur og sennilega væri verðið á þeim ekki heldur mjög hátt ef miðað væri við útlitið.
Í þessu sambandi verður að hafa í huga að margir gagnrýnendur fóru mjög illa með Óskar Wilde.
Einu sinni kom maður til Óskars Wilde, klappaði á öxl hans og sagði: "Þú ert alltaf að verða feitari og feitari!" Óskar svaraði að bragði: "Og þér eruð alltaf að verða dónalegri og dónalegri!"
Þannig að ég sit og græt af hlátri yfir Óskari Wilde. Ekki get ég hlegið eins mikið að fjármálunum þessa dagana en það er önnur saga.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.11.2008 | 16:01
Leyfi athugasemdir en aðeins með samþykki
Ég lagðist undir feld í nokkra daga og ákvað að leyfa athugasemdir á blogginu mínu en ég mun hins vegar geta neitað þeim ef þær eru ókurteisar eða hreint og beint svívirðilegar.
Hins vegar skiptir ekki máli þótt lesendur séu á öndverðri skoðun við mig. Mér finnst að öll málefnaleg rök megi koma fram hvort sem að þau eru mín eigin eða annarra.
Þannig að þið skulið ekki hika við að senda inn athugasemdir!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.11.2008 | 21:38
Norski skógarkötturinn Geir!
Geir Haarde er grautfúll. Hann er reiður. Hann er bálreiður út í sjálfan sig fyrir að hafa mætt á fundinn í Háskólabíói. Af hverju sat ég ekki heima, hugsar Geir. Þvílíka niðurlægingu hefur hann aldrei upplifað - að vera skammaður opinberlega af þjóðinni sjálfri.
En af hverju má ekki ganga til kosninga? Jú, vegna þess að Geir Haarde og Davíð Oddsson eru búnir að ganga til samninga við erlend ríki sem verður að standa við. Bíddu við, samninga við ERLEND RÍKI! Er verið að selja okkur erlendum aðilum á nauðungaruppboði? Er þjóðin orðin að skiptimynt í erlendum samningum.
Og hver skyldi vera skrifaður fyrir láninu hjá Alþjóða Gjaldeyrissjóðnum? Það er ODDSSON en ekki HAARDE. ...Einungis ODDSSON. Getum við ekki bara látið MR. ODDSSON borga lánið prívat og persónulega.
24.11.2008 | 21:10
Það skortir ekki nýtt fólk til að stjórna landinu!
Miðað við þann mikla kraft og þá miklu djörfung sem er núna á borgarafundi í Háskólabíói og miðað við allt það fólk sem er að sýna gífurlegt hugrekki og standa upp og taka til máls þá sé ég ekki betur en að það sé til nóg af nýju fólki, konum og körlum sem er tilbúið að taka við stjórn landsins. Og þetta er alveg óháð stjórnmálaflokkakerfinu!
Þetta nýja fólk er greinilega miklu betur hæft um að stjórna landinu en sú ríkisstjórn sem situr nú við völd.
Ég held að ég hafi aldrei verið jafn bjartsýn á framtíðina þrátt fyrir ástandið.
24.11.2008 | 07:27
Umdeildur Alþjóðagjaldeyrissjóður
Það hefur frekað lítið verið rætt um það á Íslandi hversu Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er umdeildur á alþjóðavettvangi og hvað hann hefur gert mörg mistök í gegnum tíðina.
Menn sem hafa gagnrýnt sjóðinn harkalega eru m.a. nóbelsverðlaunahafinn Joseph Stiglitz sem er fyrrverandi starfsmaður sjóðsins, auk bandarísku fréttakonunnar Naomi Klein sem heldur því fram að sjóðurinn hafi á undanförnum áratugum beitt hagfræðilíkönum af nánast trúarlegu ofstæki m.a. í Chile á dögum Pinochets.
Það virðist sem hópur hagfræðinga hafi fjarlægst raunveruleikann og trúi staðfastlega á hagfræðistærðfræðilíkön sín, án þess að hafa mikið verið að bera þau saman við afleiðingarnar í raunveruleikanum. Friedman hélt því líka fram að hinn alþjóðlegi markaður stjórnaðist af hreinum náttúrulögmálum og að markaðurinn myndi alltaf stilla sig af sjálfur. Annað hefur nú komið í ljós.
Það má ekki gleyma því að hagfræði Miltons Friedmans er hrein trúarbrögð, og æðstuprestar nútímans eru í raun hagfræðingarnir sem lesa í stjörnurnar og segja stjórnmálaleiðtogunum hvað þeir eigi að gera. Stjórnmálamenn hlusta af athygli á hagfræðinga, en því miður hlusta þeir minna á raunverulega trúarleiðtoga heimsins sem tala meðal annars um siðferðislega ábyrgð.
Ég veit ekki hve mikið er eftir af nýfrjálshyggjunni innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í dag. Ég veit hins vegar að sjóðurinn virðist ekki koma fram með nein samfélagsleg, félagsleg eða velferðartengd úrræði. Sjóðurinn einbeitir sér að styrkingu krónunnar, og nú munum við væntanlega fá að sjá hvað sú styrking mun koma til með að kosta í raun. Því miður erum við Íslendingar orðnir að tilraunadýrum í hagfræðilegri rannsóknarstofu Alþjóða Gjaldeyrissjóðsins, IMF.
23.11.2008 | 17:05
Ráðamenn óttast um völd sín
Nú eru Sjálfstæðismenn enn einu sinni farnir að gera út bloggara til þess að setja inn andstyggilegar athugasemdir hjá fólki sem mótmælir stefnu þeirra. Spurning hvað fólk færi mikið borgað fyrir að vera með skítkast út í aðra.
Það góða er að valdamenn hljóta að vera orðnir skíthræddir úr því að þeir eru farnir að beita þessum brögðum.