Færsluflokkur: Bloggar

Möguleg orkuþörf ?

Núverandi orkuþörf landsins er um 8,6 Twh (Teravattstundir) á ári. Miðað við núverandi stefnu stjórnvalda virðist orkuþörfin fara upp í 28,7 Twh á ári strax árið 2015 eða jafnvel fyrr. Hvernig er þetta reiknað út ? Almenn notkun raforku er um 3,8 Twh, Núverandi stóriðja notar 5,3 Twh, stækkun Norðuráls tekur 2,5 Twh, Fjarðarál á Reyðarfirði tekur 5,1 Twh, stækkunin í Straumsvík þarf 4,4 Twh, álverið í Helguvík þarf 3,8 Twh og að lokum þarf álverið á Húsavík 3,8 Twh samtals 28,7 Twh. Það sér hver maður að til þess að ná þessu marki þarf að virkja nánast hvert virkjanlegt vatnsfall og jarðhitasvæði á landinu. Enda munu menn horfa til þess einnig að selja raforku til útlanda um sæstreng og eykst þá orkunotkun enn frekar.

Hvað er Bláfáninn ?

blafaniBláfáninn er alþjóðlegt umhverfismerki sem sýnir að umhverfi hafna og stranda er til fyrirmyndar. Bláfánahafnir og strendur uppfylla ströng skilyrði um flokkun sorps, umgengni, öryggisbúnað og aðgengi svo eitthvað sé nefnt. Margir erlendir ferðamenn þekkja Bláfánann vegna þess að hann blaktir á meira en 3000 stöðum víða um heim. Það að fá Bláfánann afhentan er mikil viðurkenning og er vonast til að þeim höfnum og ströndum sem hafa Bláfána fjölgi hér á landi.

Tunglið Io

Io og JúpíterIo er eitt af tunglum Júpíters og er örlítið stærra en tunglið okkar. Io hefur þunna kísilríka skorpu og í kjarna tungslins er bráðinn járnríkur kjarni. Mikil eldvirkni er á Io og hafa verið skráð um 80 stórar megineldstöðvar á tunglinu, auk margra gíga. Hitastig á yfirborði nálægt eldfjöllunum getur náð um 1.230°C sem er hæsti yfirborðshiti sem vitað er um í sólkerfinu. Fyrir utan eldvirku svæðin er skorpan hins vegar köld. Io er eitt af athyglisverðustu tunglum sólkerfisins.

Akademískt frelsi

Það hefur löngum verið vitað að einhversstaðar verða menn í þjóðfélaginu að fá að hugsa frjálst. Einhversstaðar verður að vera svigrúm til þess að greina kenningar og greina þá þróun sem er að eiga sér stað í heiminum. Háskólarnir hafa fram til þessa verið þeir griðastaðir þar sem frjáls hugsun og þekkingarleit hefur átt sér stað. En er þetta að breytast ? Það færist sífellt í vöxt að stöður við háskóla séu kostaðar af fyrirtækjum og einnig færist í vöxt að fyrirtæki eða hagsmunaðilar veiti myndarlega styrki til háskóla. Spurningin hlýtur að vakna varðandi það hvað verður um hið akademíska frelsi við þessar aðstæður ? Getur prófessor sem er styrktur af ríkisfyrirtæki gagnrýnt það fyrirtæki ? Háskólarnir voru upphaflega stofnaðir af stúdentum sjálfum til þess að stunda frjálst nám. Ef háskólar fara að þjóna hagsmunaaðilum en ekki stúdentum eru þeir komnir mjög langt frá upphaflegu markmiði sínu.

Er Rauða hafið rautt ?

Rauða hafið fær nafn sitt frá miklu magni rauðra þangskóga sem eru í vatninu. Þangið gefur vatninu rauðan lit. Gula hafið er hinsvegar gulleitt vegna mikils framburðar Gulafljóts (Hwang Ho) og annarra fljóta. Svarta hafið getur verið ansi dimmleitt en það er samt aldrei svart. Svarta hafið fær nafn sitt vegna stormasams veðurs sem oft er á þessum slóðum en ekki vegna þess að vatnið sé svart á litinn.


450 milljónir

Alþjóða Heilbrigðismálastofnunin telur að um 450 milljónir manna þjáist af geðrænum vandamálum í heiminum í dag.  Aðeins hluti þessa hóps fær þá aðstoð sem hann þarf á að halda.  Margir eru heimilislausir, atvinnulausir og ráfa um stórborgir heimsins án þess að fá nokkur úrræði.  Fólk með geðræn vandamál upplifir félagslega höfnun, atvinnuleysi, fátækt og margir verða einnig fyrir fordómum.  Flest lönd eyða minna en 1% af heilbrigðisútgjöldum sínum til geðsjúkdóma. Þar af leiðandi er aðstaða geðsjúkra oft mun verri en hún ætti að vera.  Alþjóða Heilbrigðismálastofnunin segir á vef sínum www.who.int að geðsjúkir séu vanræktasta fólk heimsins. 

Grænir lækir

EARTH Árið 1993 ferðaðist ég til austurhéraða Eistlands skammt frá borginni Narva.  Eftir því sem við komum nær landamærum Rússlands varð landslagið furðulegra.  Í olíuskífunámunum runnu sjálflýsandi grænir lækir og svartir kolahaugar teygðu sig til himins.  Skammt frá rann áin Purtse olíumenguð og brún út í Eystrasaltið.  Okkur var sagt að öll vatnsból í nágrenninu væru menguð af fenóli.  Gamlar sovéskar verksmiðjur stóðu tómar eins og fornar risaeðlur með brotna glugga og auða sali.  Eistlendingarnir sögðu að þetta væri það sem sovéska stjórnin hefði skilið eftir sig þegar hún fór.  Ég vil benda þeim á sem vilja kynnast alvöru mengun að fara til staða eins og Níkel eða Novosíbírsk.  Við hljótum að hugsa til þess hér á Íslandi að koma í veg fyrir að slík eyðilegging eigi sér stað hér á landi. 

Vetrarbrautarþyrpingar

þyrping Alheimurinn er svo stór að í honum eru óteljandi vetrarbrautir.  Vetrarbrautirnar safnast saman í þyrpingar sem snúast um sameiginlega miðju.  Stundum rekast vetrarbrautir saman vegna þyngdarafls og éta hvor aðra.  Stjörnufræðingar skoða vetrarbrautarþyrpingar til þess að komast að því hvort að svart efni (dark matter) sé til.  Komið hafa upp kenningar um að til séu svartar vetrarbrautir sem séu gerðar úr vetnisgasi og efni sem sé of þunnt til þess að falla saman undan þyngdarafli og mynda stjörnur.  Hugsanlegt er að ein slík svört vetrarbraut hafi fundist í Virgo vetrarbrautarþyrpingunni árið 2005. 

Stærsta stöðuvatn heims.

Kaspíahaf sem liggur á landamærum Írans, Rússlands, Azerbajdjan, Kazakstan og Túrkmenistan er stærsta stöðuvatn heimsins. Vatnið liggur í 30 metra hæð undir sjávarmáli og er þannig lægsti punktur Evrópu. Kaspíar voru gömul þjóð sem bjó á þessu svæði og heitir vatnið í höfuðið á þeim. Styrjuhrogn frá Kaspíahafi þykja lostæti.
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hvað verður um hafið ?

Kárahnjukar Ein af ósvöruðum spurningum vegna áhrifa Kárahnjúkavirkjunar er sú hvaða áhrif það hefur að silt og leir jökulsár á Brú berst ekki lengur til sjávar. Guðmundur Páll Ólafsson, náttúrufræðingur hefur lýst áhrifunum á eftirfarandi hátt: 1 Uppleyst næringarefni stíflaðra jökulfljóta skila sér verr til sjávar. Frumframleiðsla svifþörunga í sjó minnkar og dregur úr þrótti allrar fiskauðlindarinnar. 2 Vor- og haustflóð truflast, jafnvel hverfa; dægursveiflur hætta. Þetta þýðir að þegar næringarefni fallvatna gusast til sjávar á vorin stilla þau takt sjávarlífs, sjálfan lífsrythmann. Dægursveiflur jökulvatna viðhalda ástandinu. Í yfirborði strandsjávar myndast af þessum sökum ferskvatnshimna vegna minni eðlismassa og eðlisþyngdar ferskvatns en á mörkum þess og brimsalts sjávar myndast eins konar næringarteppi þar sem svifþörungar og svifdýr dafna best. Við næringarsturtuna margfaldast svifþörungar og á sama tíma klekjast svifdýr og þessum takti fylgja seiði margra nytjastofna. Sjávarlíf er þannig drifið áfram af þrótti svifþörunga og virkjanir jökulvatna skaða starfsemi þeirra. 3 Í svifaur jökulvatna eru uppleyst efni sem binda koltvísýring í hafinu og mynda kalk fyrir sjávarlíf. Í þessu samhengi má einnig spyrja þeirrar spurningar hvað myndi gerast ef bændur hættu að bera áburð á tún sín? Siltið og leirinn hefur verið sem áburður fyrir hafið og með sífelldum virkjunum t.d. í Þjórsá má búast við að áhrifin á hafsvæði umhverfis landið verði umtalsverð. Þetta er a.m.k. mál sem skoða hefði þurft betur áður en allar þessar virkjanaákvarðanir voru teknar.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband