Færsluflokkur: Bloggar

Eru berklar upprunnir á Indlandi ?

TBNýleg rannsókn bendir til þess að berklabakterían Mycobacterium tuberculosis eigi rætur sínar að rekja til Indlands. Elsta form bakeríunnar er útbreitt á Indlandi sem bendir til að ný afbrigði hafi þróast þar og breiðst til annarra landa. Indverjar geta þannig verið ónæmari fyrir berklum en margar aðrar þjóðir þar sem þeir hafa búið í nábýli við þessa bakteríu í þúsundir ára. Hins vegar eru nýjar tegundir af berklabakteríunni að koma fram eins og Beijing afbrigðið og eru Indverjar illa tilbúnir til þess að takast á við þessar nýju tegundir. Þeir sem þjást af AIDS eru sérstaklega viðkvæmir fyrir berklum en einnig skiptir hreinlæti og allur aðbúnaður miklu máli. Þrátt fyrir að lyf við berklum séu til í dag er mikilvægt að koma eins mikið í veg fyrir útbreiðslu bakteríunnar og mögulegt er. Heimild: New Scientist, Janúar 2007.

Slæmir bílstjórar

Rannsókn á Nýja Sjálandi hefur leitt í ljós að ökumenn sem aka um á stórum jeppum og pick up bílum eru verri bílstjórar en aðrir. Ástæðan er sú að þeir halda að þeir séu alveg öruggir í stóru bílunum sínum. Því miður er þessi öryggistilfinning byggð á fölskum forsendum þar sem þessir bílar geta lent í slæmum slysum eins og aðrir. Einnig kom fram í rannsókninni að ökumenn stórra bifreiða aka oft með einungis aðra hönd á stýri. Heimild: New Scientist 6 January 2007.

Hamfarir í Heiðmörk.

HeidmorkHvað er að gerast í Heiðmörkinni ? Verktaki sem kann ekki að fara eftir beinni línu ryðst með offorsi í gegnum trjáreiti margra félagasamtaka án framkvæmdaleyfis. Hvernig var eiginlega eftirliti með verktakanum háttað ? Datt engum í hug að hringja í Reykjavíkurborg og spyrja hvernig framkvæmdaleyfinu liði ? En málið er dýpra og gruggugra en halda mætti við fyrstu sýn. Hver var eiginlega tilgangurinn með þessari vatnsleiðslu sem átti að leggja þarna ? Málið er að Kópavogsbæ er farið að vanta byggingarland og Gunnar Birgisson horfir nú hýru auga til þess að malbika Heiðmörkina og reisa á henni nýja íbúabyggð. Kópavogsbær ætlar að byggja í Lækjarbotnum og af hverju ekki að taka bara Heiðmörkina eins og hún leggur sig og valta yfir hana ? Er það ekki framtíðarsýn Kópavogsbæjar ? Með þessari drulluframkvæmd sinni í Heiðmörk lýsa Kópavogsbúar sig tilbúna til þess að slátra vatnsverndarsvæði höfuðborgarinnar í einum grænum. En hvar á höfuðborg Íslands þá eiginlega að fá vatn ? Jú, Gunnar Birgisson virðist horfa kátur til þess að hægt verði að leggja risavatnsleiðslu um Mosfellsdalinn frá Þingvöllum til Reykjavíkur. Sú risaframkvæmd yrði bæði ljót og dýr, en verktakarnir myndu fá svaka pening og hvað er Gunnar Birgisson annað en enn einn skítugur verktaki.

Björgum Heilsuverndarstöðinni!

heilsuverndarstodHeilsuverndarstöðin var byggð sérstaklega til þess að þjóna heilsugæslunni í Reykjavík og var afi minn Dr. Sigurður Sigurðsson, landlæknir einn aðalhvatamaðurinn að byggingu hennar.  Markmið hans og annarra af hans kynslóð var að byggja upp öflugt heilbrigðiskerfi í landinu og styrkja heilsuvernd borgarbúa.  Á svipuðum tíma var Borgarspitalinn einnig byggður.  Nú er mér hins vegar alvarlega misboðið þegar í ljós kemur að breyta á Heilsuverndarstöðinni í hótel og grafa alla lóðina sundur og saman.  Það var aldrei markmið afa míns að þetta hús yrði notað í annað en heilsugæslu.  Ég vil því hvetja Heilbrigðisráðuneytið, Reykjavíkurborg og  Húsafriðunarnefnd til þess að sýna myndarskap, kaupa húsið aftur og bjarga því frá grimmum örlögum.  Við skulum bjarga Heilsuverndarstöðinni!


Glæpur gegn almættinu

við jökluÞað getur verið að það sé búið að byggja Kárahnjúkavirkjun og það getur verið að Hálslón sé að verða fullt,  en við erum ekki búin að gleyma því sem gerðist.  Eftir að hafa gengið um gróið svæði við Kringilsárrana,  eftir að hafa skoðað Töfrafoss, eftir að hafa tekið myndir af merkilegu rústalandslagi þá finn ég næstum fyrir líkamlegum sársauka þegar ég hugsa til þess að þetta fallega og gróna land skuli núna vera komið í kaf.  Mín fagra fósturjörð - hvað höfum við gert þér!

Kárahnjúkastíflan er ekki eingöngu glæpur gegn landinu og þjóðinni.  Hún er glæpur gegn almættinu - já gegn sköpun Guðs.  Hvort sem menn trúa á æðri máttarvöld eður ei, ættu þeir að nema staðar og þegja og skammast sín.  Menn ættu að minnast þess að til er vald sem er öllu öðru æðra, vald þess sem skóp þennan alheim, sem mótaði tímann, sem bjó lífinu sess á þessari einmana reikisstjörnu.   Og þetta vald er þess eðlis að engir verkfræðingar eða tæknifræðingar hafa nokkuð um það að segja.  Það er alvarlegt mikilmennskubrjálæði að setja sig í stellingar skaparans og ætla sér að stjórna ferlum náttúrunnar.  Náttúran mun aldrei láta stjórna sér.  Og þegar íslensku jöklarnir eru farnir að hverfa í lok þessarar aldar munu stíflunar standa auðar og tómar eins og minnismerki um heimsku þess mannkyns er aldrei lærir neitt af reynslunni.  Hvað munu komandi kynslóðir þá segja um okkur sem lifum nú ?  Við skulum ekki gleyma því að mannkynssagan er skrifuð eftir á.  Kárahnjúkavirkjun verður aldrei fyrirgefin. 


Hægri öfgamenn.

Einu sinni las ég bók eftir afar hægrisinnaðan stjórnmálafræðing, Wildavsky að nafni,  sem hélt því fram að súrt regn væri ekki til.  Á sama tíma hafði ég verið að mæla sýrustigið í súrum vötnum í Svíþjóð og í sýrustigið í vötnunum og í rigningunni reyndist vera um pH 4,4.  Wildavsky var semsagt að ljúga blákalt að lesendum sínum og það merkilega var að bók hans var gefin út af Harvard háskóla.

Því miður eru til hægri öfgamenn á Íslandi sem halda fram svipuðu bulli og Wildavsky.  Lesa má skrif nokkurra þeirra á Vef - Þjóðviljanum svokallaða.  Það er sorglegt að sjá umræðu þeirra vegna þess að hún byggir einvörðungu á þröngsýnum pólitískum skoðunum, en ekki á niðurstöðum raunvísindanna. 

 Sem vísindamaður verð ég að mótmæla því að stjórnmálamenn,  alveg sama í hvaða flokki þeir eru, hundsi margra ára rannsóknir og niðurstöður raunvísindamanna um allan heim.  Þeir sem halda því fram að súrt regn sé ekki til,  eða að súrt regn myndist ekki frá álverum eiga ekki annað skilið en að hljóta skömm fyrir. 

 Á meðan menn rífast um pólitík á netinu heldur náttúran áfram að eyðileggjast, regnskógarnir eyðast o.s.frv.  Við megum ekki gera umhverfismálin svo pólitísk að þau stjórnist ekki lengur af staðreyndum.

 


Af hverju eru zebrahestar svartir og hvítir ?

zebraZebrahestar eru svartir og hvítir af því að þeir eru í felulitum gagnvart ljónum.  Zebradýr eru uppáhaldsmatur ljónanna og eins og aðrir kettir sjá ljón heiminn í svart hvítu en ekki í lit.  Þannig sjá ljónin zebradýrin illa í háu grasinu þótt við mennirnir sjáum þau greinilega. 

Framtíð Íslands liggur í sprotafyrirtækjum!

Framtíð Íslands liggur ekki í álverum, heldur í fjölmörgum sprotafyrirtækjum sem þurfa að fá meira áhættufjármagn til þess að þau geti haldið velli. Sprotafyrirtækin byggja á menntun Íslendinga öfugt við álverin sem byggja á innfluttu erlendu vinnuafli. Enn hefur ekki tekist að manna álverið við Reyðarfjörð og munu sennilega innfluttir verkamenn skipa þar stóran sess.
Íslendingar eru duglegir að stofna fyrirtæki, þeir vilja taka áhættu, vinna sjálfstætt og nota menntun sína og þekkingu. Við skulum leyfa þeim það, en til þess þarf að setja áhættufjármagn í sprotana. En viti menn. Hefur ekki ríkisstjórnin verið treg við að auka framlög til rannsókna og þróunarstarfs ? Ríkisstofnanir sem eiga að styðja rannsóknir í landinu fá ekki nægilegt fjármagn til þess að halda starfsemi sinni gangandi. Það þarf að styðja við bakið á rannsóknum og þróunarstarfsemi. Hún vex ekki bara af sjálfu sér.
Ég tala af reynslu af því að ég er einmitt þessa dagana að stofna fyrirtæki sem byggir á þekkingu og áratuga reynslu. Ég reikna með að vinna sjálfstætt það sem eftir er ævinnar og njóta þess að auka hagvöxtinn í þjóðfélaginu. Ekki hef ég áhuga á því að vinna í álveri.

Seljum Landsvirkjun til Indlands!

india_mapÁ Indlandi er mikill orkuskortur og stór hluti landsmanna hefur ekki aðgang að rafmagni. Hins vegar eru mjög miklir möguleikar í vatnsorku á Indlandi og stutt til Ástralíu þar sem hægt er að ná í báxít. Það gefur því auga leið að Indland, sem ekki má rugla saman við Ísland, er rétti staðurinn til þess að byggja vatnsaflsvirkjanir og álver. Nú er Alþjóðabankinn að fara af stað að styrkja vatnsaflsvirkjanir á Indlandi. Það er því alveg kjörið fyrir ríkið að losa sig nú endanlega við Landvirkjun og selja hana bara úr landi þ.e. til Indlands þar sem virkjanaæðið verður í algleymingi næstu árin. Indverjar geta bjargað heiminum með því að fórna sínum vatnsföllum. Þeir eru líka miklu nær báxítnámunum heldur en við. Og nóg af skítódýru vinnuafli. Við skulum því selja Landsvirkjun strax til Indlands og kannski nokkrar verkfræðistofur í leiðinni!

Af hverju er svifryk hættulegt ?

Fyrir fimmtán árum síðan sat ég á skólabekk í Svíþjóð og lærði allt um svifryksmengun sem hægt er að vita. Svifryk var þá þekkt vandamál í sænskum borgum eins og Gautaborg og Malmö. Síðan kom ég heim til Íslands og sá að Reykjavík var full af svifryki en viti menn - enginn á Íslandi hafði hugmynd um hvað svifryk var. Þessvegna var fenginn verkfræðistúdent til þess að gera verkefni um svifryk á Íslandi og síðan að skýrsla hennar kom út hefur svifryksumræðan legið í loftinu.
En af hverju er svifryk hættulegt? Mannslíkaminn er aðlagaður að grófu náttúrulegu svifryki eins og t.d. jarðvegsögnum, salti og öðru slíku. En mjög fínar svifryksagnir sem koma helst frá bruna eða útblæstri bifreiða berast ofan í lungu fólks. Þessum fínu ögnum getur fólk ekki hóstað upp. Þannig fara svifryksagnir niður í lungnablöðrurnar, leysast þar upp og efnin í svifrykinu fara inn í blóðið. Efni í svifryki er ekki hollusta enda er um brennd olíuefni að ræða.
Þeir sem eru í mestri hættu vegna svifryks eru asthmasjúklingar, eldra fólk og svo og börn. Hjólreiðamenn geta einnig verið í hættu þegar þeir hjóla meðfram miklum umferðaræðum og anda djúpt að sér. Svifryk getur einnig borist inn í bíla í gegnum miðstöðina eins og margir þekkja sem lent hafa á eftir vörubíl með illa stillta vél.
En hvað er þá til ráða? Mikilvægt er að minnka notkun nagladekkja en einnig skiptir máli að stilla bílvélarnar þannig að útblástur sé ætíð sem minnstur. Minnka skal bílanotkun eins og kostur er og í skipulagningu borga verður að gæta þess að leggja göngustíga eins langt frá akbrautum eins og mögulegt er. Gangandi vegfarendur skulu halda sig eins mikið frá umferðinni og hægt er. Það munar um hvern metra sem maður er í öruggri fjarlægð frá götunni.
Ég vil því taka undir viðvaranir lækna varðandi svifryk. Við verðum að horfast í augu við það að Reykjavík er orðin stórborg með öllum þeim kostum og göllum sem því fylgir. Reykjavík er ekki hrein borg!

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband