Færsluflokkur: Bloggar

Hvað er að gerast í Danaveldi ?

ungt folkFréttir berast af því að allt logi í óeirðum í Kaupmannahöfn. En hvað er að gerast og af hverju er þessi órói. Ástæðan er fyrst og fremst sú að hægri stjórnin í Danmörku hefur lagt áherslu á frjálshyggju og alþjóðavæðingu. Atvinnuleysi í Danmörku er talsvert, einkum meðal ungs fólks og gerð er atlaga að velferðinni úr öllum áttum. Ungt fólk í Evrópu í dag á ekki á vísan að róa um atvinnu og framtíðarmöguleika. Vel menntað ungt fólk gengur um atvinnulaust í Danmörku og Þýskalandi og atvinnulífið er farið að líta á ungt fólk sem ódýrt vinnuafl sem hægt er að henda hvenær sem hentar. Verkalýðshreyfingin er alltaf að verða máttlausari og réttindi fólks á vinnumarkaði fara minnkandi. Skyldi þessi þróun nokkuð að vera að gerast hér á Íslandi ?

Betra er seint en aldrei.

gamalt folkFlest eigum við eftir að eldast og breytast í þá manngerð sem gjarnan er kölluð eldri borgarar eða ellilífeyrisþegar.  Það að ná sjötugsaldri þýðir þó alls ekki að lífinu sé lokið.  Þvert á móti sýna allar rannsóknir að virkni í félagslífi og nám á efri fullorðinsárum lengir líf og bætir heilsu.  Þannig að það er aldrei of seint að byrja að læra eitthvað nýtt.  Af hverju ekki að byrja að læra frönsku um sjötugt,  mála, sauma, stunda listsköpun og gera allt það sem mann hefur alltaf langað til að gera.  Ef mér endist aldur og heilsa ætla ég að verða afskaplega virkt gamalmenni,  taka þátt í félagsstarfi, mála, skrifa ævisöguna og drekka eitt (og aðeins eitt) glas af rauðvíni á dag til þess að hreinsa æðakerfið.  Við skulum bera virðingu fyrir eldra fólki.  Það hefur reynslu lífsins að baki sér og almennt séð finnst mér fólk alltaf þroskast svo mikið og batna með aldrinum.  Við skulum bara hlakka til þess að eldast og njóta efri áranna þegar að þeim kemur. 


Tæknilegar lausnir

Ýmsar tæknilegar lausnir hafa verið reyndar til þess að ná koltvíoxíði úr andrúmsloftinu. Í Noregi hafa menn breytt koltvíoxiðgasi í vökva og dælt því niður í jarðlög á hafsbotninum. Koltvíoxíð hefur einnig verið fryst og sett í ísklumpum niður á hafsbotn þar sem það leysist hægt upp í hafinu. Allar þessar lausnir eiga það sammerkt að vera mjög dýrar.
Ein spennandi lausn sem er efnafræðilega möguleg en ennþá á tilraunastigi er að dæla koltvíoxíði niður í basaltjarðlög og láta það hvarfast og mynda kalsít. Þetta verkefni er ennþá á tilraunastigi og á eftir að koma í ljós hvort þetta er mögulegt og einnig hver hagkvæmnin er.
Einfaldasta leiðin til þess að ná koltvíoxíði úr andrúmsloftinu er að græða upp landið eða planta trjám. Sum svæði henta þó varla til skógræktar á meðan önnur svæði eru afar hentug fyrir skógrækt. Í þessu sambandi verður þó að hafa í huga að það þarf ansi mörg tré til þess að vega upp á móti þeirri losun sem kemur frá mengandi iðnaði.

Hvaðan kemur CO2 í andrúmsloftinu ?

Talsvert magn af koltvíoxíði í andrúmsloftinu kemur frá orkuframleiðslu, iðnaði, og flutningum. Einkum er um að ræða kolaorkuver sem eru vaxandi orkugjafi t.d. í Kína. Norður Ameríka, Evrópa og Asía losa samtals um 90% af öllum gróðurhúsalofttegundum.
Koltvíoxíð losnar einnig út í andrúmsloftið vegna breyttrar landnotkunar, einkum þegar skógar eru felldir, vegir eru byggðir eða mýrar ræstar fram. Miklu máli skiptir að gróðursetja tré til þess að binda koltvíoxíð. Ekki má þó nota þá hugsun sem afsökun fyrir því að losa mikið magn gróðurhúsalofttegunda. Almenn landgræðsla skiptir einnig miklu máli.
En hverjir eru að valda loftslagsbreytingum? Sögulega séð voru það iðnríkin sem losuðu mest en þjóðir eins og Indverjar og Kínverjar eru nú farnir að losa talsvert magn af gróðurhúsalofttegundum. Kínverjar eiga gífurlegar kolabirgðir og þess vegna skiptir máli að þeim verði hjálpað að nota umhverfisvæna orkugjafa í stað kolaorku. Segja má í dag að kol og olía séu of ódýr vegna þess að markaðurinn tekur ekki umhverfiskostnaðinn með í reikninginn. Ef umhverfiskostnaðurinn væri reiknaður með í hagfræði heimsins þá myndu orkugjafarnir þróast fyrr í umhverfisvænar áttir. Það má þó ekki gleyma því að víðast hvar eru það orkufyrirtækin sjálf sem eru fremst í því að þróa nýja tækni sem vekur upp spurninguna: Af hverju er Landsvirkjun ekki að þróa vindorku og sjávarfallaorku ?

Frábær heimsóknaþjónusta!

elderly peopleÞað eru því miður alltof margir sem eru einmana og afskiptir í okkar ríka nútímaþjóðfélagi.  Samskiptin á milli kynslóðanna eru of lítil og margir aldraðir og fatlaðir upplifa einangrun jafnvel þótt að þeir búi kannski við ágætan efnahag.  Þess vegna langar mig að benda á frábært starf heimsóknavina Rauða Kross Íslands sem heimsækja einmana fólk, hella upp á kaffi,  spjalla, fara í gönguferðir og lesa fyrir þá sem ekki geta lesið sjálfir. 

Það er afskaplega gefandi og gott starf að vera heimsóknarvinur enda er maður manns gaman.  Ég vil því hvetja sem flesta til þess að taka þátt í gefandi sjálfboðastarfi og heimsækja þá sem eru einmana og komast lítið út.  Við skulum ekki gleyma því í þessu sambandi að félagslegi þátturinn er oft mikilvægari en efnahagslegi þátturinn.  Samverustundir eru dýrmætari en peningar.


Svefnleysi!

capablancaÓlukkans vesen að vera svona glaðvakandi. Klukkan að verða tólf, hroturnar í naggrísnum bergmála um húsið en ég er bara alls ekki á leiðinni að sofna. Svona er að lifa spennandi lífi. Eða er þetta eitthvað sem fylgir aldrinum ? Rithöfundurinn Vladimir Nabokov þjáðist af svefnleysi. Hann notaði næturnar til þess að semja flóknar skákþrautir í anda Capablanca og Laskers. En hann var líka fluggáfaður eitthvað annað en ég sem er svona misgáfuð sem er eitthvað í anda við misþroska bara eitthvað allt annað og alls óskylt. Ég er ein af þessu fólki sem aldrei fellur inn í hópinn. Ef ég fæ kvef, þá er það ódæmigert kvef. Ef ég reyni að fara handahlaup þá fæ ég krampa í fótinn og lendi á litlu tá hægri fótar með miklum harmkvælum. Mér hefur aldrei tekist að standa á höndum þrátt fyrir margvíslegar tilraunir og mikinn vilja. Hins vegar get ég stundað gönguferðir - guði sé lof, og ég var bara góð á skíðum á meðan hægt var að stunda skíði á Íslandi en það er nú liðin tíð. Þessvegna fannst mér frábær hugmynd þegar kennari nokkur talaði um að það þyrfti að koma upp sérkennslu í leikfimi. Sérkennsla í leikfimi! Þvílík snilld. Það hefði akkúrat verið það sem ég þurfti þegar ég var tólf ára. En í dag verð ég að nota næturnar í það að lesa yfir bókina um Samuel Reshevsky eða glugga í Informator. Ef ég nú bara skildi eitthvað í skák! Snýst þetta ekki allt um það að ná valdi yfir miðborðinu og sækja fram á vinstri væng ? Spyr sá sem ekki veit. Góðar stundir!

Áfallahjálp!

Nokkrum bloggvinum mínum hefur brugðið svo mikið að frétta að ég sé í VG að þeir verða lengi að jafna sig. Svona er lífið... fullt af áföllum. En ég er nú bara óbreyttur félagi í VG og það stendur ekki til að fara í framboð þrátt fyrir ótvíræða hæfileika mína á stjórnmálasviðinu.
Aftur á móti er ég að fara að flytja til Selfoss þar sem ég mun vinna í umhverfissprotafyrirtæki auk þess sem ég stunda þýðingar af miklum móð. Selfoss here I come. Aumingja Selfyssingar - þeir vita ekki hvað þeir eru að fá yfir sig.
Ræddi við manninn minn áðan. Spurði hann varfærnislega hvort að ég talaði of mikið. Auðvitað átti hann að segja NEI en hann hló bara og sagði JAAA.....stundum þarftu að tala ansi mikið.... þannig að nú hef ég áhyggjur. Blogga ég kannski of mikið líka ? Á ég kannski að taka mér pásu og fara á Heilsuhælið í Hveragerði ??? Eða á Kyrrðardaga í Skálholti ? Framhaldið kemur í ljós... fylgist með í næsta þætti.

Frábær landsfundur.

Landsfundur VG tókst alveg frábærlega. Ræða Steingríms J. Sigfússonar var einörð og heiðarleg og öll dagskrá landsfundar var áhugaverð og spennandi. Það er gaman að vera félagi í stjórnmálaflokki sem hefur sjálfsvirðinguna og hugsjónirnar í lagi. Ég er afar stolt af því að vera vinstri-græn. Þetta er tvímælalaust skemmtilegasti stjórnmálaflokkur á Íslandi í dag, hvað sem aðrir flokkar segja. Ég vona því að sem flestir styðji VG í komandi kosningum. Við skulum standa saman og koma VG í ríkisstjórn!

Af hverju risaeðlurnar átu ekki gras!

Trex1Það er auðvelt að fara með gröfu yfir hraun og gróðurlendi. Þá vill gleymast að grös hafa ekki alltaf verið til á jörðinni. Nei aldeilis ekki. Grasið er tiltölulega nýtt fyrirbæri í jarðsögunni. Grösin komu fram á Eósen tímabilinu sem hófst fyrir um 55,8 milljónum ára. Á meðan að risaeðlurnar gengu um meginlöndin voru engin grös til, einungis elftingar og tré. Allar risaeðlur dóu út fyrir um 65 milljónum ára (nema þær sem urðu síðar að fuglum). Þannig að risaeðlurnar dóu út um 10 milljón árum áður en grösin komu fram á sjónarsviðið. Þess vegna átu risaeðlurnar ekki grös! Þar sem grasið er einungis um 55,8 milljón ára gamalt og jörðin 4600 milljón ára gömul sést að gras er tiltölulega nýtt fyrirbæri. Það tekur þúsundir ára fyrir íslensk hraun að gróa upp en það tekur aðeins örfáar mínútur að eyðileggja stórar hraunbreiður. Við skulum því bera virðingu fyrir náttúrunni sem hefur þróast óháð manninum í 4600 milljónir ára.

Af hverju sólin skýrir ekki loftslagsbreytingar!

EARTHMenn rembast eins og rjúpan við staurinn til þess að reyna að útskýra hlýnun loftslags án þess að hún sé vegna mengunar af mannavöldum.  Danskur vísindamaður hélt því fram fyrir stuttu síðan að útgeislun frá sólu væri að aukast og það gæti skýrt hlýnun loftslags á jörðinni.  Þegar kenning þessa ágæta dana var skoðuð nánar af jafningjum hans (peer review) kom í ljós að útgeislun sólar hefur aukist um 25% frá því að sólkerfið myndaðist fyrir um 4600 milljónum ára.  Hins vegar getur þessi aukna geislun sólar ekki skýrt nema um 30% af mældri hlýnun jarðar.  Þannig er ljóst að skýringanna verður að leita annarsstaðar og er nærtækast að líta á þær mengandi gróðurhúsalofttegundir sem þegar eru í andrúmsloftinu.  Í raunvísindum gildir að einfaldasta skýringin er yfirleitt rétt, svokölluð rakvél Occams.  Það er því í mínum huga engin ástæða til þess að flækja málin með einhverjum útúrdúrum.  Það eru einfaldlega gróðurhúsalofttegundirnar sem halda hita á jörðinni þ.m.t. vatnsgufa í andrúmsloftinu.   

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband