Færsluflokkur: Bloggar

Vísindalegt gildi náttúrunnar

Náttúruvísindi eru eins og tónlist og listir meðal mestu afreksverka mannsandans. Ýmis náttúrufyrirbæri geta verið hversdagsleg í útliti en haft mikið vísindalegt gildi. T.d. eru ægifagrar pikrítdyngjur með grænum ólivínkristöllum á Reykjanesi sem eru mjög merkilegar jarðfræðilega séð en ber lítið á. Það gleymist líka að þekking þarf ekki alltaf að vera hagnýt í sjálfu sér. Það er leyfilegt að afla þekkingar þekkingarinnar vegna. Þannig er þekking á náttúrunni óendanlega mikils virði þótt að þekkingin hafi ekki hagnýtt gildi og sé ekki undirbúningsvinna fyrir einhverjar framkvæmdir. Hrein náttúruvísindi hafa innra gildi óháð hagnýtingu þeirra. T.d. er steingervingurinn Archaeopterix sem oft er talinn fyrsti fuglinn ómetanlegur að vísindalegu verðmæti þótt hann hafi ekkert efnahagslegt gildi eða hagrænt gildi. Húsöndin er t.d. einstök fyrir Ísland og örninn okkar er mjög verðmætur vísindalega séð. Fjölbreytileiki íslensku vatnableikjunnar og íslensku hornsílanna er einnig ómetanlegur og hefur ótrúlega mikið vísindalegt gildi. Vísindin segja okkur söguna um sögu jarðarinnar og sögu mannsins. Sú saga er óendanlega mikils virði.

Áfangasigur í baráttu sem er engan veginn lokið

Hafnfirðingar tóku rétta ákvörðun í gær.  Þeir sögðu nei við stækkun álversins í Straumsvík.  En baráttunni er engan veginn lokið.  Lúðvík Geirsson bæjarstjóri sagði að aðeins þessari ákveðnu skipulagstillögu hefði verið hafnað sem gefur í skyn að fleiri tillögur séu í farvatninu.  Að auki er rætt um að stækkun álversins verði einungis frestað um þrjú ár.  Þetta sýnir að baráttan gegn stóriðjustefnunni er langtímabarátta.  Þetta er maraþonhlaup en ekki spretthlaup.  Ég fagna innilega niðurstöðu kosninganna í Hafnarfirði og þakka Hafnfirðingum kærlega fyrir frábæran sigur en minni jafnframt á að slagnum er ekki lokið.  Alþjóðleg stórfyrirtæki hafa læst sínum álklóm í Ísland og þau vilja helst ekki sleppa takinu.  Það skiptir gífurlega miklu máli hvernig við kjósum í Alþingiskosningunum í vor.  Við verðum að standa saman og hafna stóriðjustefnunni alfarið.    


Fagurfræðilegt gildi náttúrunnar

Náttúran hefur eitt gildi sem ekki verður frá henni tekið. Það er hið fagurfræðilega gildi eða m.ö.o. náttúran er falleg. Þessi fegurð heimsins er óumdeilanleg og á stóran hlut í skemmtigildi náttúrunnar. Maðurinn nýtur náttúrunnar vegna þess hversu falleg hún er. Jafnast Dimmuborgir ekki á við Kölnardómkirkjunna eða Notre Dame ? Á Dettifoss ekki heima á heimsminjaskrá UNESCO ? Náttúran er stórfengleg og hefur þetta fagurfræðilega gildi sem er hennar innra gildi sem hún á sjálf. Ísland hefur fram til þessa verið meðal fallegustu landa heims, en ef stóriðjan heldur áfram óbreytt mun landið ekki halda fegurð sinni. Þannig rekst hagræna gildið um nýtingu á hið fagurfræðilega gildi landsins. Stóriðjustefnan felur í sér misþyrmingu landsins og eyðileggingu lífsins.

Að hafa frelsi frá farsímanum.

Einn ágætur vinur minn benti mér á það um daginn að mílljónamæringar ganga ekki um með farsíma. Þeir hafa aðra til þess að svara í síma fyrir sig. Milljónamæringarnir spranga í friði um Bali eða Fiji eyjar og njóta lífsins meðan þrælarnir sitja sveittir við símtólin og tölvurnar. Þetta segir manni hvað frelsið getur verið tvíbent. Fyrst finnst manni farsíminn skapa frelsi en síðan fær maður engan frið. A.m.k. er ég farin að ganga um með farsíma sem þýðir að ég er ekki milljónamæringur á Balí eða Fiji eyjum (Just in case you were wondering!). Ég er bara venjulegur Íslendingur sem situr við tölvu með farsíma. En einhvern daginn ætla ég að fá frelsi frá farsímanum og fara til Hawaii að skoða eldfjöllin Mauna Loa og Mauna Kea. Þangað til verð ég við símann...


Hin nýja peningalykt.

Frá því að virkjunin á Hellisheiði tók til starfa hefur styrkur brennisteinsvetnis (H2S) farið yfir viðmiðunarmörk Kaliforníubúa fyrir lyktarmengun. Fólk ekur í fýlu yfir Hellisheiðina og gott er ef fýlan berst ekki niður í nyrstu byggðir Reykjavíkurborgar.
Ef til kemur meiri uppbygging stóriðju á Suðvesturhorninu mun verða virkjað meira á Hengilsvæðinu og fýlan á Hellisheiðinni mun breiðast enn meira út.
Það skyldi þó ekki vera að hin nýja peningalykt af virkjununum muni á endanum ná niður í Alþingi við Austurvöll og gera mönnum þar lífið leitt. Þá myndu margir fara í fýlu. Sjá nánari upplýsingar og línurit á heimasíðu Landverndar www.landvernd.is

Kadmíum frá álverum

Kadmíum er málmur sem er skaðlegur umhverfinu þótt hann sé til staðar í litlum mæli. Nanógrömm af kadmíum geta skipt máli. Kadmíum er krabbameinsvaldandi og veldur m.a. lungnakrabba. Hefðbundin álframleiðsla losar kadmíum út í umhverfið þótt ekki sé losunin mikil. Lítið hefur verið rætt um þessa losun hér á landi og mælingar á kadmíum í nágrenni álvera eru ekki samfelldar. Það á að gera þær lágmarkskröfur til álfyrirtækja að þau mæli öll mengandi efni með bestu fáanlegu tækni (BAT) og séu með síritandi mælingar á þeim efnum eins og SO2 sem hægt er að mæla síritandi. Við gerum kröfur um bestu fáanlegu tækni inni í álverinu. Eigum við ekki að krefjast þess að BAT tæknin sé notuð við mælingar á efnum fyrir utan álverið sem geta skaðað bæði náttúru og heilsu fólks ?

Umhverfissiðfræði og álversframkvæmdir

Umhverfissiðfræðin fjallar um viðhorf mannsins til náttúrunnar og hin mismunandi gildi náttúrunnar.  Það er ljóst að náttúran hefur mörg mismunandi gildi sem geta stangast á.  Hið ríkjandi gildismat á náttúrunni er hið hagræna gildi þar sem litið er á náttúruna sem hráefnisbanka sem verðmæti eru sköpuð úr.  Þetta er það gildi sem er álitið eðlilegt og "normal" í samfélaginu.  En hagræna gildismatið stangast á við margskonar önnur siðferðisleg gildi sem snerta náttúruna.  T.d. er út frá hreinu hagrænu sjónarmiði æskilegt að byggja álver.  Það skapar verðmæti og peninga.  Hins vegar hefur náttúran einnig skemmtigildi.  Það er gaman að fara í gönguferðir um t.d. Reykjanesskagann.  Hins vegar rýrnar sú ánægja ef mikið er af rafmagnslínum og verksmiðjum allt í kring.  Á sama hátt er flest iðnaðarstarfsemi þess eðlis að hún eyðir lífi en skapar það alls ekki.  Út frá sjónarmiðum um virðingu gagnvart lífinu getur verið ástæða til að hafna hreinum hagrænum gróðasjónarmiðum.  Iðnaður mengar og veldur ýmiss konar tjóni á lífríkinu beint eða óbeint í gegnum loftslagsbreytingar.  Að lokum hefur náttúran fagurfræðilegt gildi á sama hátt og Notre Dame dómkirkjan í París eða málverkið af Mónu Lísu.  Ef eyðileggja ætti Notre Dame myndu Parísarbúar mótmæla.  Á sama hátt mótmælum við Íslendingar þegar eyðileggja á okkar náttúrugersemar.  Það er einfaldlega ekki peninganna virði. 

Skemmtigildi náttúrunnar

Það er löngu þekkt að manneskjan nýtur náttúrunnar þrátt fyrir það að hún hafi ekki beinan hag af henni. Margir njóta þess að sjá skýin á himninum breytast eða horfa á brimið á ströndinni. Fólk nýtur þess að vera úti í náttúrunni, fara í gönguferðir og upplifa eitthvað sem er stærra en það sjálft. Maðurinn er líka í grundvallaratriðum venjuleg lífvera og má jafnvel leiða að því líkur að mannkynið hafi djúpa innri þörf fyrir hið náttúrulega umhverfi. Þeir sem búa nánast alla ævi sína í manngerðum borgum sækja út í náttúruna til þess að komast í tengsl við sjálfan sig og annað lífríki.

Hagrænt gildi náttúrunnar

Fuglarnir búa sér til hreiður og kanínur grafa holur.  Maðurinn er í engu frábrugðinn að því leyti að hann umbreytir umhverfi sínu í hagræna auðlind.  Hráolía hefur kannski ekkert verðgildi en það er hægt að eima hana í olíuhreinsistöð og vinna úr henni verðmætt bensín.  Með því að leggja fram vinnu sína skapar maðurinn verðmæti úr náttúrunni.  Að þessu leyti hefur náttúran hagrænt gildi fyrir manninn.  Í vissum skilningi má segja að maðurinn geti ekki skapað neitt sjálfur.  Hann tekur það sem er til í náttúrunni og nýtir það.  Meira að segja tölvan sem ég skrifa á er búin til úr náttúrulegum efnum, þ.m.t. þungmálmum og olíu.  Hinn skapandi mannshugur kann að drýgja auðlindir náttúrunnar og finna nýjar lausnir.  En við eigum samt bara eina jörð og auðlindir eins og fosfór í jarðskorpunni og olía eru takmarkaðar auðlindir sem einhvern daginn munu ganga til þurrðar.  Auðlindum jarðar er einnig mjög misskipt. 

Mannvinurinn Albert Schweitzer

albert-schweitzer4.jpg

Albert Schweitzer, fæddist 14.janúar 1875 í Alsace-Lorraine. Hann er þekktastur fyrir að hafa sett á stofn Lambaréné spítalann í Gabon, vesturhluta Mið-Afríku. Schweitzer lærði bæð guðfræði og læknisfræði. Hann var frjálslyndur guðfræðingur og lagði áherslu á líf Jesúm Krists sem fyrirmynd fyrir líf mannsins (christology). Heimspeki Alberts Schweitzers var byggð á virðingu fyrir öllu sem lifir ("Ehrfurcht vor dem Leben") . Hann vildi ekki einu sinni drepa óþægileg skordýr og í þessum efnum fylgdi hann tíbetskum munkum og Lev Nikolaevich Tolstoj að málum. Schweitzer hélt því fram að siðfræði fæli í sér að bera ómælda virðingu fyrir öllu lífi og leitast við að fá allt líf til að vaxa og dafna. Albert Schweitzer naut mikillar virðingar af því að hann lifði samkvæmt skoðunum sínum. Hjá Albert Schweitzer áttu bæði dýr og menn sitt skjól.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband