Færsluflokkur: Bloggar

Skriðdrekar á Hringbrautinni.

Stundum geng ég um Reykjavíkurborg og hún birtist mér í nýju ljósi líkt og yfirborð annarrar reikistjörnu.  Þannig var það um daginn að ég velti fyrir mér hvað myndi gerast ef það yrði einhvern tímann herforingjastjórn á Íslandi.  Menn í einkennisbúningum, skriðdrekar á Hringbrautinni, útgöngubann og blóðug átök á Þingvöllum.  Dauðarefsing væri í gildi og bann við mótmælum.  Ég velti því einnig fyrir mér hvað lýðræðið er í raun og veru brothætt og hversu lítið þyrfti til þess að einræðisflokkur eða einræðisherra myndi ná tökum á Íslandi.  Hann myndi að sjálfsögðu vera með yfirskegg eins og allir sannir einræðisherrar og láta reisa sér styttur víða um borgina.  Og fréttamálið væri newsspeak og okkur væri skipað að vera heima og horfa á sjónvarpið þegar einræðisherrann væri að tala til þjóðarinnar.  Ísland gæti eins og Tahiti hentað afskaplega vel fyrir einræðisherra.  Landið er mátulega stórt,  íbúarnir saklausir og engar óþægilegar landamæradeilur við stóra nágranna.  Ég veit reyndar alveg hvar ég myndi lenda í svona einræðisríki.  Í Gulaginu eða í útlegð í Langtibortistan.  En svona getur maður nú fengið skrýtnar hugmyndir í kollinn. 


Heimurinn árið 2170?

Stundum velti ég því fyrir mér hvernig heimurinn verði árið 2170 ?  Verður Reykjavík þá að mestu leyti komin í kaf og byggðin komin upp í Mosfellsdal og efst í Breiðholtið ?  Verða álverksmiðjurnar á Íslandi þær sem ennþá eru starfandi í eigu Rio Tinto ?  Verður kannski herforingjastjórn á landinu og dauðarefsing í gildi.  Herlög og bann við mótmælum.  Helmingurinn af Íslendingunum flúinn og orðinn að umhverfisflóttamönnum víða um heim.  Andófsmenn sendir í útlegð.  LÍL (Leynilega íslenska leyniþjónustan) verður ríki í ríkinu.  Kárahnjúkar verða fullir af aur og síðustu jökulleifarnar að hverfa.  Þeir sem enn þrauka á landinu lifi í stöðugum ótta og eymd.  Við komuna til landsins stendur ryðgað skilti þar sem stendur áletrað: The Rio Tinto Icelandic aluminium base. 

Ég vona að þessi framtíðarsýn sé víðs fjarri raunveruleikanum og komi aldrei til með að rætast en hver veit ?


Óbein áhrif loftslagsbreytinga

Fyrir utan hin hugsanlegu beinu áhrif sem gætu orðið af völdum loftslagsbreytinga á Íslandi sem við eigum að geta brugðist við sökum ríkidæmis okkar og úrræðasemi, eru ýmis óbein áhrif hugsanleg. Tökum t.d. kaffi sem Íslendingar drekka daglega við vinnu sína. Ef kaffiuppskera heimsins bregst vegna loftslagsbreytinga gæti orðið erfitt að fá kaffi hér á landi. Eins og fram hefur komið í Stern skýrslunni svokölluðu geta áhrif loftslagsbreytinga á efnahagskerfi veraldarinnar orðið sambærileg við heimstyrjaldirnar tvær. Íslendingar sluppu tiltölulega vel frá heimstyrjöldunum, en það er ekki líklegt að Íslendingar í dag sleppi jafn vel frá áhrifum loftslagsbreytinga á hagkerfi heimsins. Loftslagsbreytingar geta haft mikil áhrif á alla matvælaframleiðslu heimsins og þar með á verð matvæla um allan heim. Ætli það sé ekki kominn tími til að undirbúa sig undir mögru árin ?

Loftslagsbreytingar eru ekki bara 3.heims vandamál!

Það virðist vera ríkjandi viðhorf á Íslandi að loftslagsbreytingar séu einhvers konar þriðja heims vandamál sem komi okkur ekkert við. Að minnsta kosti var frásögn ríkissjónvarpsins af nýrri skýrslu IPCC á þá leið að afleiðingarnar á Norðurlöndunum væru bara smotterí. Þetta SMOTTERÍ felur í sér breytt veðurfar, mjög líklega meiri úrkomu og dýpri lægðir með hvassari vindum a.m.k. að hausti til. Það er nefnilega ýmislegt sem bendir til þess að hin fræga Íslandslægð gæti dýpkað og vindhraði hér á Íslandi orðið meiri ef loftslagsbreytingar ganga eftir. Ennfremur segir í öllum skýrslum IPCC að sjávarborð muni hækka. Hefur einhverjum dottið í hug að nánast öll byggð á Íslandi er við sjávarsíðuna. Hvað skyldi verða um hina dæmigerðu íslensku eyri þegar sjávarborðið fer að hækka. Eiga þá allir íbúarnir að flytja upp á snjóflóðasvæðin ? En þetta er auðvitað bara SMOTTERÍ og engin ástæða til þess að minnast á það. Við erum svo heppin að vera ekki í Afríku eða í Bangladesh þar sem allt þetta fólk er að drepast og það er engin hætta á því að okkar örugga heimi verði raskað. EÐA HVAÐ ?

Torfæruhjól spæna upp göngustíga í Heiðmörk

Ég fór í gönguferð í Heiðmörk í dag. Göngustígarnir eru að koma undan vetri, eru hálffrosnir og viðkvæmir. Því miður sást greinilega á göngustígunum í reit Ferðafélags Íslands og við Norska húsið að þar hafa torfæruhjól verið á ferð. Hjólin gera ljót för í göngustígana og aðeins nokkur hjól geta eyðilagt ansi mikið. Er ekki kominn tími til þess að setja strangari reglur um þessi hjól ? Eiga menn að fá að eyðileggja göngustíga í algjörum egóisma ? Það þarf greinilega að grípa hér í taumana og það strax áður en meira verður skemmdarvörgunum að bráð.

Gildi náttúrunnar til þess að styrkja og byggja upp einstaklinginn

Eitt gildi náttúrunnar af mörgum er gildi hennar til þess að mennta, þjálfa og byggja upp einstaklinginn. Skátahreyfingin t.d. notar náttúruna til þess að þjálfa upp ungt fólk og björgunarsveitirnar eru í stöðugri þjálfun. Hálendið er staður þar sem hægt er að ganga, svitna, og ýta sjálfum sér áfram. Ég man hvað ég þurfti að beita miklum viljastyrk þegar ég gekk Laugaveginn í roki og rigningu. En það var stórkostleg reynsla sem situr eftir í minningunni. Þeir sem fá að vera úti í náttúrunni læra að umgangast hana af virðingu og þeir vita að þeir verða að hugsa og taka tillit til hennar. Náttúran hefur einnig lækningagildi. Hún læknar margan manninn sem er daufur og þungur. Það er fátt betra en að drífa sig út úr bænum og komast inn í heim friðsældar og fegurðar þar sem karakterinn fær að njóta sín. Við mennirnir erum þrátt fyrir allt bara apategund.


Þöglar þjáningar umhverfisverndarsinna

Ég veit ekki hvort að það er af því að ég er með mígreni en ég er einhvern veginn ekki alveg í stuði. Stundum verður maður að viðurkenna að umhverfisbaráttan tekur sinn toll. Það er erfitt að berjast við stórfyrirtæki og orkufyrirtæki sem hafa allt fjármagnið og ríkisvaldið á bak við sig. Stundum stend ég bara eftir með þjáninguna þögla innan í mér af því að ég veit að þúsundir dýrategunda eru að deyja út. Ég veit að 35000 manns deyja úr hungri á degi hverjum og ég veit að veðrið á Íslandi er nú þegar farið að taka breytingum. Mér varð illt í sálinni þegar landið við Kárahnjúka fór undir vatn. Þetta var glæpur en hvert áttum við að leita ? Glæpamennirnir stjórnuðu landinu. Það þyrfti að vera til einhvers konar alþjóðadómstóll svipaður mannréttindadómstólnum í Haag þangað sem hægt væri að kæra kolvitlausar ríkisstjórnir eða ráðherra sem eru komnir langt út fyrir starfssvið sitt. En núna sit ég bara með sársauka mígrenisins í beinunum, skríð undir feldinn og hugsa. Stundum þarf maður að taka pásu til að undirbúa baráttuna fyrir næsta dag.

Sögulegt gildi náttúrunnar

Ég er að verða hálf þreytt á að telja upp öll gildi náttúrunnar af því að þau eru svo mörg og margvísleg. Það er greinilegt að náttúran er annað og meira en hráefnisgeymsla fyrir iðnað. Eitt gildi sem ég átti eftir að ræða um var hið sögulega gildi náttúrunnar. Íslendingar hafa búið í tengslum við náttúru landsins alveg frá því að land byggðist og það eru margir staðir í náttúru landsins sem hafa orðið sögulegt gildi. Tökum sem dæmi náttúru Þingvalla og Lögberg. Enginn myndi efast um að Lögberg hefði mikið sögulegt gildi. En samt er það svo að margir gleyma öllum gildum náttúrunnar nema þeim sem snúast um peninga. Mér finnst það sorglegt en ég veit svosem ekki alveg hvað ég á að gera í málinu annað en að blogga.

Áhrif loftslagsbreytinga á Bangladesh

Fulltrúar Bangladesh í alþjóðlegu loftslagssamstarfi hafa spurt vestrænar þjóðir hvað þær ætli að gera þegar um 150 milljónir íbúa þessa láglenda lands þurfa að yfirgefa heimili sín. Bangladesh eru óshólmar og ef loftslag hlýnar og sjávarborð hækkar mun láglendið Bangladesh alveg fara á kaf. Önnur ríki sem eru í sömu stöðu eru Vanuatu á Kyrrahafi og ýmsar láglendar eyjar. Það er ekki skrítið þótt fulltrúar Bangladesh sem er ein fátækasta þjóð heims, séu óhressir með þróun mála þar sem mengunin kemur ekki frá þeim sjálfum. Þeir menga einungis lítið brot af því sem bandaríkjamenn og íslendingar menga. Þannig bitnar sóun okkar á þeim sem minna mega sín. Er ekki kominn tími til að stofna samtök um að bjarga Bangladesh ?

Mene, mene tekel ufarsin!

Það hefur löngum verið þekkt að valdið er eins og hringurinn í Hringadróttinssögu. Það spillir þeim sem ber það. Flestir sem höndla hið veraldlega vald ráða ekki við það, verða valdagráðugir og nískir. Í valdinu leynist kjarni hins illa og flestir illir menn eru þeirri náttúru gæddir að þeir elska vald.
Í Gamla testamentinu kemur fram mikil valdagræðgi hjá konungum af ýmsum toga. Bæði margir faraóar Egyptalands og konungar Babýlóníu eru sokknir í valdagræðgi og velllystingar þegar hér kemur við sögu. Þá gerist það að hönd Drottins skrifar á vegginn: Mene, mene tekel ufarsin eða Konungur, dagar þínir eru taldir. Konungurinn verður felmtri sleginn og missir öll völd sín skömmu síðar.
Viðbrögð íslenskra ráðamanna við úrslitum kosninganna í Hafnafirði benda sterklega til þess að einhverjir þeirra séu undir áhrifum Saurons og hafi orðið valdagræðginni að bráð. Þeir eru heiftúðugir og reiðir þegar þeir uppgötva það að fólkið í landinu er þeim ekki sammála. Tala jafnvel um að breyta lögum til þess að fólk geti ekki lengur kosið á móti stóriðjustefnunni. Hvílíkur vísdómur. Hvílík stjórnviska.
Við þessa ríkisstjórn sem mun verða kölluð stóriðjustjórnin með fyrirlitningu í mannkynssögunni segi ég: "Mene, mene tekel ufarsin" Konungur, dagar þínir eru taldir.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband