Færsluflokkur: Bloggar

Ennþá rok og rigning

Ég er ennþá á Selfossi og það er ennþá rok og rigning. Var að skoða veðurspána og sá að það verður rok og rigning langt fram í næstu viku. Svaf á skrifstofunni innan um tölvurnar og serverinn. Nennti ekki að fara til Reykjavíkur bara til þess að sofa. Venjulega er ég ekki svona vinnusöm en við erum að koma vefnum í gang og hann verður opnaður næsta miðvikudag.
Selfoss virðist vera hinn yndislegasti bær - hann verður það a.m.k. eftir að ég er flutt þangað. Kem með bókasafnið með mér. Ég veit ekki hvort Selfyssingar gera sér almennt grein fyrir því en þeir geta núna fengið kennslu í rússnesku og fornkirkjuslavnesku alveg á spottprís. Byrja náttúrlega á því að kenna Da og Njet. Einnig stefni ég að því að skella mér í kór á Selfossi enda er það hluti af lífsstílnum.
Og úr því að ég er komin í sveitina þá verður náttúrulega alltaf kaffi á könnunni og allir vinir og ættingjar velkomnir í heimsókn. Tilvalinn sunnudagsbíltúr að skreppa til mín í kaffi. Góðar stundir.

Að hlusta á stjörnurnar hreyfast

Forngrikkir trúðu því að stjörnunar mynduðu tónlist og samhljóm um leið og þær hreyfðust um himinhvolfið. Það var hins vegar ekki mönnum gefið að heyra þessa tónlist. En stundum hefur mér fundist alheimurinn vera eitt allsherjar tónverk þar sem hvert hljóðfæri hefur sinn einstaka tón. Og líf einnar manneskju er eins og ein nóta í þessari veraldarsynfóníu. Þannig hefur tónverkið upphaf og endi, takt og ákveðinn rythma sem hægt er að greina og skynja. Það er kontrapunktur í verkinu og alls kyns krúsídúllur. En ég er örugglega ekki eina manneskjan sem upplifi veröldina sem listaverk. Er ekki hvert mannsbarn sem fæðist algjört listaverk ?

Alexander galdrakarl og kötturinn hans

Það er til saga af Alexander galdrakarli sem bjó í borginni. Hann átti kött sem hét Misha. Einu sinni þegar Alexander þurfti að bregða sér út komst kisi í galdrabókina stóru. Í bókinni fann hann töfraformúlu sem passaði akkúrat fyrir kött: Þar stóð: Tregur eða fús - ég breyti þér strax í mús. Og kötturinn Misha breytti hurðinni í mús, veiddi músina, og fór síðan út í borgina þar sem hann breytti umferðarskiltum, ljósastaurum og trjám í mýs. Mikill músafaraldur kom upp í borginni. Þegar Alexander galdrakarl kom heim sá hann hvers kyns var. Hann fór út í borgina, náði í kisu og bannaði henni að haga sér svona. Köttur úti í mýri setti upp á sig stýri og úti er ævintýri.

Rigning og rok

Jæja, ég sit hérna fyrir framan tölvuna og hlusta á rigninguna lemja glerið. Ég er smám saman að flytja mig yfir á Suðurlandið. Er byrjuð að vinna á Selfossi og 1.maí fáum við húsið afhent. Þá taka við nokkrir dagar í að mála og síðan flutningar. Það verður að segjast eins og er að það er lýjandi að aka yfir Hellisheiðina fimm daga í viku. Þegar ég verð komin til Selfoss reikna ég með að skreppa svona 1-2 sinnum í viku til Reykjavíkur.
Ég er komin á þá skoðun að það dýrmætasta sem maður á fyrir utan fjölskylduna og vinina er menntunin og kunnáttan. Ef maður kann eitthvað fyrir sér þá getur maður alltaf bjargað sér sama á hverju dynur. Nú ætla ég ekki að telja upp allar þær breytingar sem hafa orðið í lífi mínu á síðustu tveimur árum en þær eru miklar og margar. Þessvegna tek ég hlutunum með æðruleysi, slaka á vegna þess að ég veit að allar breytingar hvort sem þær eru jákvæðar eða neikvæðar skapa streitu. En ég er eins og þjálfaður maraþonhlaupari - held bara áfram að hlaupa...rólega.

Fyrirlitning hinna sterku á hinum veiku.

Guð elskar manninn skilyrðislaust hvort sem hann er sigurvegari í lífinu eða ekki. Hins vegar lifum við í kapítalísku samfélagi sem dýrkar styrkleika en fyrirlítur veikleika í hvaða mynd sem hann birtist. Guð veit hins vegar að viðkvæmni og veikleiki er hluti af því að vera manneskja. Veikleikinn er eitt að því sem gerir okkur að manneskjum, gefur okkur mennska mynd. Flestir menn öðlast samkennd með öðrum gegnum veikleika sinn og erfiðleika en fáir menn hafa lært nokkurn skapaðan hlut af styrkleika sínum.
Vesturlönd hafa greitt dýrt gjald fyrir fyrirlitningu sína á veikleika og smæð mannsins. Fólk sem lifir á öskuhaugum Kalkúttaborgar er hamingjusamara en heimilislaust fólk á Íslandi. Vegna þess að hinir ríku hafa jú alltaf sagt að fátæktin sé hinum fátæku að kenna. Hinir fátæku nenni ekki að vinna. En það getur bara ekki staðist. Margir eru atvinnulausir af því að þeir neyðast til þess, fátæktin ber að dyrum í kjölfar veikinda og sjúkdóma sem ekki gera boð á undan sér.
Velgengni og ríkidæmi eru orðnir guðir í okkar vestræna samfélagi. Við dýrkum þá og sýnum því fólki fyrirlitningu sem af einhverjum ástæðum verður undir í samkeppninni. En það má spyrja þeirrar spurningar: Er það þess virði að sigra í kapítalísku samfélagi ef sigurinn er á kostnað fjölskyldunnar, kærleikans, mennskunnar og alls þess sem gerir manninn þrátt fyrir allt að manneskju.

Við erum frumbyggjar norðursins.

Við öll sem hér búum eru frumbyggjar landsins þótt okkur sé meinilla við að litið sé á okkur sem slíka. En í raun og veru erum við bara infædd - "indigenous peoples" eins og í Amason frumskóginum eða í Síberíu. Við erum fólkið sem með miklum dugnaði heldur þessu landi í byggð. En hvernig skyldu erlend stórfyrirtæki líta á okkur. Í augum erlendra stórfyrirtækja erum við einhvers konar norrænir eskimóar, "the indigenous population " sem verður að meðhöndla og umgangast á ákveðinn hátt. Við erum frumbyggjarnir, vinnuaflið sem hægt er að flytja til eftir hentugleikum. Eigum við ekki meira sameiginlegt með frændum okkar í Færeyjum og á Grænlandi en við viljum viðurkenna. Erum við ekki í svipaðri stöðu og frændur okkar á Grænlandi og í Færeyjum. Eigum við virkilega nokkuð sameiginlegt með stórþjóðunum ????

Norðursvæðin eru eftirsóknarverð.

HPIM0275Öll norðursvæði jarðar,  í Alaska, í Síberíu, á Íslandi og á Grænlandi þykja nú eftirsóknarverð til þróunar eða development.  Vegna hlýnunar jarðar eru norðursvæðin að opnast, hættan af hafís minnkar og fjármagnið leitar norður.  Ríkar þjóðir vilja fjárfesta og "þróa" óröskuð svæði norðurhjarans þar sem þessar sömu þjóðir eru búnar að þróa nánast allt sem hægt er heima hjá sér.  Útrásin leitar norður á bóginn. 

Íslendingar vita ekki hvernig á sig stendur veðrið þegar þeim berast hvert gylliboðið á fætur öðru.  En ekki er allt gull sem glóir.  Það er auðvelt að finna áhugasama erlenda fjárfesta.  En borga fjárfestingarnar sig ?  Eitt sem nánast aldrei er tekið með í reikninginn er kostnaðurinn fyrir umhverfið.  Norðursvæðin eru viðkvæm, bæði náttúrufarslega og gróðurlega.  Þau þola ekki mikla "þróun" í þeim skilningi, án þess að náttúran bíði mikið tjón.  Í raun og veru erum við að fórna náttúru okkar fyrir gull og gersemar sem erlendir aðilar bjóða okkur.  Erum við ekki að láta kaupa okkur á ódýran hátt eins og gerðist á nýlendutímanum í Afríku ?  Erum við ekki hinar nýju nýlendur norðursins ?  Hve lengi getum við haldið sjálfstæði okkar andspænis ásókn erlendra fjárfesta ?

 

 


Með góðfúslegu samþykki.

Bygging rússneskrar olíuhreinsunarstöðvar á Vestfjörðum er að sjálfsögðu með samþykki ríkisstjórnar Bandaríkjanna. Þið haldið þó ekki að Geir og Jón fari að gera eitthvað án þess að fá fyrst leyfi í Washington. Hversu bláeyg getið þið verið ? Þetta er rússnesk olíuhreinsunarstöð á íslensku landsvæði með samþykki Bandaríkjamanna. Stórveldin skyldu þó ekki vera að skipta Íslandi á milli sín ? Rússland fær Vestfirði, USA fær Austurland...vill einhver kannski fá Alþingishúsið á lowest price ever ?

Rússarnir koma!

oliuhreinsunarstodNú berast fréttir af því að til standi að byggja olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum. Þessi hugmynd sem er ekki alveg ný af nálinni - fyrir nokkrum árum ætlaði Finnur Ingólfsson að byggja olíuhreinsunarstöð í Skagafirði en nú hefur olíuhreinsunarstöðin greinilega verið flutt til Vestfjarða. Olían á líklega að koma frá Pechorasvæðinu í Síberíu og verður flutt á risaolíuskipum norðurleiðina. En hvers konar fyrirbæri er olíuhreinsunarstöð ? Þær eru svosem ekki svo hroðalega slæmar, eru að vísu forljótar í útliti og losa líka gróðurhúsalofttegundir út í andrúmsloftið vegna leka í leiðslum o.s.frv. Hversu mikið fer sjálfsagt eftir aðstæðum. Það verður hins vegar forvitnilegt að vita hvort að rússarnir ætla að nota rússneska tækni eða BAT tækni eða rússneska BAT tækni ? Verður þetta rússnesk olíuhreinsunarstöð byggð á rússnesku hugviti ? Hins vegar eykst hættan á olíumengun og olíuslysum all svakalega við byggingu olíuhreinsuanrstöðvar. Það þarf ekki nema strand eins stórs olíuskips og... Það er dálítið fyndið að núna þegar herinn er loksins farinn skuli ríkistjórnin bjóða rússunum í heimsókn. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins er að bjóða rússum í kaffi að byggja olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum. Hvað ætli Hvíta Húsið segi ?????

Handtaka Kasparovs!

kasparovSkákmeistarinn Garrí Kasparov er að skipa sér í sveit með helstu andófsmönnum og hetjum Rússlands eins og Andreij Sakharov og Alexander Solsjenitsyn. Það hefur alltaf verið hættulegt að gagnrýna stjórnvöld í Rússlandi og til þess þarf mikið hugrekki sem Kasparov hefur greinilega til að bera. Það vantar alla hefð fyrir lýðræði í Rússlandi. Rússar vita varla hvað lýðræði er og þeir vilja margir hafa bara nógu sterkan leiðtoga í miðjunni og ganga jafnvel ennþá um með skilti sem lofa gamla Josif Vissiaronovich Stalin. Hverjir geta lofað mann sem drap 30 milljónir ? Lýðræði á því erfitt með að festa rætur og þar er ekki einungis við Pútín að sakast. Pútín tók við hálfgildings einræðisríki frá forverum sínum og rússar eru ekki einu sinni vissir um að þeir vilji þetta vestræna lýðræði sem alltaf er verið að þröngva upp á þá. Rússar líta á lýðræði sem eitthvað erlent og vestrænt sem passar ekki allskostar inn í þeirra hálfasíska raunveruleika. En hvað um það. Kasparov er hetja dagsins og við verðum að skapa þrýsting þannig að hann fái stuðning erlendis frá. Annars gæti hann lent í Síberíu.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband