Færsluflokkur: Bloggar

Hvað hefur Valgerður á móti Svíum ?

Nú skilst mér að Valgerður Sverrisdóttir sé búin að bjóða strákunum í norska og danska hernum í fullt af ókeypis heræfingum á Íslandi (þ.e. ókeypis fyrir þá en ekki fyrir okkur).  Þessi ofmetni indíána og káboj leikur verður með fullt af byssum, flugvélum og skipum.  Rosa gaman fyrir þá sem halda að þeir séu Rambó eða Arnold Schwartzenegger og eru með mikilmennskubrjálæði í þokkabót.  En hvar eru Svíar ?  Ætlið þið að segja mér að sjálfur Sænski Herinn fái ekki að vera með ????  Kallast þetta ekki að skilja einhvern eftir útundan ?  Er þetta ekki hreint og beint einelti ?  Er Valgerður kannski svona hrædd við Monu Sahlin  og sænska velferðarkerfið ?  Það skyldi þó ekki vera að Svíar hafi EKKI VILJAÐ VERA MEР eða er það bara af því að þeir eru ekki með í NATO ?  

Skref fyrir skref

Landvernd og umhverfisráðuneytið voru nú í vikunni að gefa út bæklinginn Skref fyrir Skref sem er leiðarvísir fyrir okkur öll varðandi það hvernig við eigum að taka á okkar daglegu umhverfismálum.  Bæklingurinn er byggður á upplýsingum frá Grön hverdag og ríkulega myndskreyttur.  Ég vil hvetja alla sem hafa áhuga að hafa samband við Landvernd og fá eintak af þessum frábæra bæklingi.  

Rannsóknaleyfi varðandi gullvinnslu.

Mig langar að spyrja yfirvöld þessarar ágætu minnar þjóðar hvort að rétt sé að rannsóknaleyfi til þess að rannsaka hvort vinnanlegt gull sé á Íslandi hafi verið selt í hendur erlendu fyrirtæki ?  Ég minnist þess ekki að hafa heyrt á þetta minnst í fjölmiðlum en vildi gjarnan vita meira um málið.  Hverjir eru með rannsóknarleyfi fyrir gull á Íslandi ?  Erlendir aðilar ?  Ég bara spyr.  Og ef gull skyldi finnast stendur þá virkilega til að nota sterkar sýrur til þess að vinna það hér á landi ?

Ánægjulegur dagur umhverfisins.

JBÍ dag er dagur umhverfisins og að því tilefni var dagskrá á Kjarvalsstöðum þar sem vefsíðan www.natturan.is var opnuð.  Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra hélt mjög góða ræðu og kynnti  einnig bæklinginn Skref fyrir Skref sem Landvernd og Umhverfisráðuneytið gefa út í sameiningu.  Það verður að segjast eins og er að Jónína Bjartmarz er að standa sig vel sem umhverfisráðherra þótt ég sé henni reyndar ekki sammála í öllum málaflokkum.  Hún ber flokki sínum gott vitni og vísar til þess góða gamla bændaflokks sem Framsóknarflokkurinn var og er stundum enn þann dag í dag. Til hamingju með daginn við öll segi ég nú bara enda í frekar góðu skapi í tilefni dagsins. 


Allt sem er EKKI í gangi!

Að sögn ríkisstjórnarinnar stendur ekki til að fara í frekari virkjana og stóriðjuframkvæmdir á næstunni.  Á sama tíma er verið að undirbúa álver á Helguvík á fullu, verið að teikna og hanna byggingar, reikna burðarþol o.s.frv.  Hitaveita Suðurnesja ítrekar einnig vilja sinn um að byggja álver í Helguvík.  En að sögn yfirvalda er nákvæmlega EKKERT að gerast.  Á sama tíma er einnig verið að undirbúa virkjanir í neðri hluta Þjórsár og það kæmi mér ekki á óvart ef einhverjir eru ekki farnir að undirbúa álver á Húsavík.  En þetta er EKKI að gerast!Furnace

Kjarnorkan er ekki endilega lausnin.

nuclearErlendis ræða menn um að kjarnorkan geti leyst vandamál loftslagsbreytinga.  Hún losar ekki gróðurhúsalofttegundir en framleiðir í staðinn kjarnorkuúrgang.  En hvað er kjarnorkuúrgangur.  Fyrsta stigs kjarnorkuúrgangur getur verið geislavirkur í hundruðir þúsunda upp í milljón ár.  Það er því úr vöndu að ráða þegar setja á slíkan úrgang í geymslu.  Svíar eru lengst komnir meðal þjóða í þeirri viðleitni að finna framtíðargeymslustað fyrir kjarnorkuúrgang.  Þeir hafa borað 500 metra niður í massíft granítið við Äspö og þar undirbúa þeir geymslu á úrgangi.  Ég hef reyndar farið ofan í jörðina og skoðað þessar geymslur.  Mesta vandamálið við geymslu kjarnorkuúrgangs er tæring.  Við viljum ekki að úrgangurinn losni út í umhverfið einhvern tímann í framtíðinni.  Þessvegna þarf úrgangurinn að vera í tæringarheldum ílátum, hann þarf að vera öruggur fyrir jarðskjálftum og allskyns jarðhræringum.  Út frá þessu má sjá að geymsla kjarnorkuúrgangs er ekki einfalt mál.  Og þannig er það með kjarnorkuna.  Hún er aldrei einföld þótt afhendingaröryggi rafmagnsins sé gott og orkan ódýr sé kostnaðurinn við förgun úrgangsins ekki tekinn með í reikninginn.  Þetta verður vandamál sem kynslóðir framtíðarinnar þurfa að leysa. 

Nýjustu fréttir af loftslagsbreytingum.

Í febrúar fengum við að heyra frá IPCC að það sé nú óumdeilt að mannkynið sé að breyta loftslagi jarðar.  Í apríl kom síðan skýrsla um að þeir fátækustu á jörðinni muni verða verst úti.  Búið er að fara í gegnum 29.000 rannsóknir sem sýna að loftslagsbreytingar eru nú þegar að eiga sér stað.  Búast má við að minna vatn verði til staðar á þurrum svæðum Jarðar svo sem í Afríku sunnan Sahara.  Búast má við stormum, flóðum og minnkandi vatnsbirgðum er jöklar bráðna.  Margir vísindamenn gagnrýna nú stjórnmálamenn harkalega fyrir að reyna að hundsa niðurstöður vísindanna og viðurkenna ekki alvarleika loftslagsbreytinga.  Einkum eru það stjórnmálamenn lengst til hægri í stjórnmálum sem hafa til þessa ekki viljað viðurkenna vandamálið en það er öruggt að sú afstaða mun breytast eftir því sem loftslagið breytist meira.   


Horft til fortíðarinnar!

Ég hef heyrt Rússa kvarta yfir nútímanum og tala um að þeir hafi haft það svo gott á Brezhnév tímabilinu.  Þá var stöðugleiki,  hægt að standa í biðröð og hægt að lifa sæmilegu lífi.  En ég hef einnig séð Rússa horfa yfir Reykjavík og hrópa upp yfir sig af ánægju yfir litadýrðinni á íslensku húsþökunum.  Rússinn horfði á mig með tilfinningu og sagði:  Heima hjá mér eru öll húsþökin eins.  Þeir sem hafa séð grámóskulegar risablokkir í úthverfum Moskvu skilja hvað hann átti við.  En víst er að margir Rússar horfa með nostalgíu til fortíðarinnar þegar þeir höfðu örugg störf og smá tekjur þótt störfin skiluðu kannski engum hagnaði í kapítalískum skilningi.  T.d. var algengt að eldri konur væru lyftuverðir á hótelum.  Þær sátu fyrir utan lyftuna allan daginn.  Ekki mjög pródúktívt en vinna er alltaf vinna.  
mbl.is Fæðingardegi Leníns fagnað á Rauða torginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég og bækurnar.

saga_booksMaðurinn minn segir að það sé eins og segulsvið í kringum bókabúðir sem dragi mig inn í þær. Ég er kannski að labba í Austurstræti og VÚÚÚPS ég sogast hjálparvana inn í næstu bókabúð. Á þessum undarlegheitum eru sögulegar skýringar. Báðir afar mínir voru miklir bókasafnarar. Þeir söfnuðu bókum á íslensku, þýsku, ensku og latínu og grísku. Hvor um sig átti stórt bókasafn. Ég var alin upp innan um allar þessar bækur. Á meðan að Sigurður bróðir minn lærði Öldina okkar sat ég og las Hjalta Litla eftir Stefán Jónsson. Þessi bókagen afa minna bárust beint til mín. Ég elska bækur, ég fletti þeim, ég les þær, ég anda þeim að mér og þær veita mér hlýju og öryggi. Bréf til Láru árituð af Þórbergi sjálfum. Þar rauður loginn brann, frumútgáfa eftir Stein Steinarr gefin út á kostnað höfundar af því að hann var bláfátækt skáld og ljóðin fengust hvergi útgefin. Þegar ég flyt til Selfoss verður mesta málið að flytja bókasafnið en mikið verður gaman að raða bókunum upp á nýtt í nýja húsinu. :-)

Gönguferð um stórborg Suðurlands.

Fór í gönguferð um miðbæ Selfoss í blíðunni í dag. Var með mótmælahúfuna mína á höfðinu og ætlaði að vita hvort að eitthvað væri að gerast í miðbænum. Tók reyndar eftir því að Selfyssingar virðast ekki ganga neitt rosalega mikið um miðbæinn nema þá á 17.júní en það var hinsvegar nóg af rennilegum bílum sem brunuðu framhjá mér. Leit í verslanir, sá saumavél á tilboðsverði. Nálgaðist hringtorgið við brúna og sá þá risastórt skilti með mynd af Bjarna Harðar þar sem hann bauð öllum í kaffi á Kaffi Krús. Ég þorði hins vegar ekki inn í kosningamiðstöðina. Hélt að ég myndi hitta Guðna og verða sjanghæjuð inn í Framsóknarflokkinn. Það er engin trygging fyrir sjanghæjingu að vera almennur félagi í VG þegar Framsóknarflokkurinn er annars vegar. Þeir eru eins og Íslandshreyfingin - alltaf að leita að góðu fólki. En mikið langar mig að kaupa góða bók af Bjarna Harðar.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband