Færsluflokkur: Bloggar

Flutt á Selfoss

P756754-1Jæja, kæru vinir.  Nú er ég flutt á Selfoss og allt dótið komið austur fyrir fjall.  Bókakassarnir voru drjúgir en það kemur líka í ljós þegar maður flytur hvað maður á mikið af gagnslausu smádóti sem maður tímir samt ekki að henda.  Nýja húsið er æðislegt, gott hverfi og yndislegur garður með palli.... já ég sagði palli.  Loksins fáum við maðurinn minn sitt hvort vinnuherbergið enda veitir ekki af. Yfrið nóg að gera hjá okkur báðum.

En vinir og vandamenn eru velkomnir í heimsóknWink  Alltaf gaman að sjá ykkur!  


Skemmtilegasti vefur á landinu - natturan.is

natturan_logoNú hefur verið opnaður nýr og frábær vefur um umhverfismál sem heitir www.natturan.is.  Vefurinn flytur fréttir og greinar um umhverfismál, auk þess sem hann leiðbeinir öllum um vistvænan lífsstíl.  Auk þess býður www.natturan.is upp á fjölbreytta og stórskemmtilega netverslun þar sem hægt er að panta og fá sendar heim til sín hvar sem er á landinu, allskyns umhverfisvænar vörur, svo sem lavender baðolíu eða lífrænan barnamat.  Vefurinn á eftir að stækka og innihalda upplýsingar um ýmislegt í náttúru Íslands þannig að þróun hans heldur áfram og vonandi á hann bjarta framtíð fyrir sér.

Skemmtilegir útvarpsþættir um Dostojevskij

Dostoevsky_1872Í útvarpinu er ungur maður sem heitir Gunnar Þorri Pétursson með aldeilis frábæra þætti þessa dagana um rithöfundinn Fjodor Mikhailovich Dostojevsky.  Gunnar Þorri hefur greinilega kynnt sér bæði bókmenntir og líf skáldsins í þaula og gat ég ekki heyrt annað en að hann færi alveg rétt með.  Skáldsaga Dostojevskys Minnispunktar úr undirdjúpunum sem er til í íslenskri þýðingu Ingibjargar Haraldsdóttur var til umfjöllunar í þættinum í dag.  Þessi skáldsaga er ólík öllum öðrum skáldsögum sem skrifaðar hafa verið.  Hún er svo öflug og kraftmikil að hún bókstaflega breytir lífi fólks.  Ég t.d. ákvað að eyða fimm árum af ævi minni í að læra rússnesku í háskóla eftir að hafa lesið Minnispunkta úr undirdjúpunum og ég veit um einn ágætan bókmenntafræðing sem gerðist bókmenntafræðingur bara út af þessari einu sögu.  En bókmenntir eru hættulegar.  Þær kenna okkur að hugsa sjálfstætt og ekki í klisjum.  Nú er lokið kosningabaráttu sem hefur einkum einkennst af endalausu klisjukenndu kjaftæði.  Það er eins og fjölmiðlar og auglýsingastofur flokkanna haldi að endalaust sé hægt að spila með fólk.  En ég geri hérmeð uppreisn gegn klisjum, hvort sem þær felast í endalausri endurtekningu eða hreinum óskapnaði.  Ég ætla það sem eftir er ævinnar að einbeita mér að fagurfræðinni,  því sem er fagurt, einstakt, og sérstætt, svo sem eins og náttúru Íslands og rússneskum bókmenntum.  Fyrir þá sem ekki þola þennan klisjukennda raunveruleika sem okkur er boðið upp á í fjölmiðlum, er alltaf hægt að slökkva á tækinu og fara inn í veröld bókmenntanna sem er veruleiki út af fyrir sig eða alternative reality eins og skáldið Josif Brodsky segir. 

St. Pétursborg

chagall-jdÆ fleiri Íslendingar leggja nú leið sína til St. Pétursborgar í Rússlandi. Borg þessi er einstök.  Pétur mikli lét byggja hana á fenja og mýrasvæði og létu þúsundir manna lífið við að byggja borgina.  Rússar segja að borgin sé byggð á beinum þeirra sem dóu.  Það sem einkennir Pétursborg er vatnið.  Það er allsstaðar, í gosbrunnum, í ánni Nevu, í hafinu og í flóðunum sem stundum flæða inn í borgina.  Það er heillandi að ganga eftir granítgangstéttunum í St. Pétursborg með ána Névu sér við hlið og hugsa um dýpstu rök tilverunnar segir ljóðskáldið Josif Brodsky.  Miðborg St. Pétursborgar hefur varðveist að mestu leyti í sinni upprunalegu mynd einfaldlega vegna þess að enginn Rússi þorir að snerta við henni.  Fegurð Vetrarhallarinnar er nánast yfirþyrmandi og alls staðar blasa við stórfenglegar byggingar.  St. Pétursborg ber andlit þjáningarinnar en hún ber það með reisn.  Þetta er borg sem aldrei hefur verið sigruð, heldur stendur stolt eftir átök og styrjaldir,  borg sem ber ennþá virðingu fyrir sjálfri sér.  En borgin er ekki einungis til í raunveruleikanum - hún er líka til í bókmenntum Rússa og má segja að þar hafi hún fundið sér varanlegan existens.  Bókmenntirnar hafa síðan runnið saman við sjálfsvitund borgarinnar og eru hluti af andardrætti hennar og tilveru.  Þetta eru stórkostlegustu bókmenntir heimsins.  St. Pétursborg er borg sem hefur ekki ennþá orðið fjöldaframleiðslunni og klisjum að bráð.  Það eru engar klisjur í St. Pétursborg, aðeins sannleikurinn og hann er meitlaður þar í stein sem veðrast um þúsundir ára.  

Betlarar í Austurstræti

der armeHafa fleiri en ég tekið eftir því að betl hefur vaxið í Austurstræti ?  Um daginn var ég með 150 kr. í vasanum sem enduðu í lófa betlara sem ráfaði illa haldinn um miðbæinn.  Ég hefði látið hann fá þúsundkall ef ég hefði átt hann í vasanum ?  Er þetta sú þróun sem við viljum sjá í borginni ?

Að kjósa yfir sig amerískt heilbrigðiskerfi!

old-peopleNú virðist samkvæmt skoðanakönnunum að ótrúlega margir ætli þrátt fyrir allt að kjósa stjórnarflokkana.  Það á að styðja áfram við þá stefnu sem verið hefur,  byggja álver í fjörðum og gera heilbrigðiskerfið amerískt.  Ég myndi ekki trúa neinum stjórnarmönnum sem segjast ætla að viðhalda velferðarkerfinu.  Það er lygi.  Einkavæðing heilbrigðiskerfisins er á dagskrá og áður en langt um líður munu aldraðir og geðsjúkir ráfa heimilislausir um Reykjavík líkt og gerist í Bandaríkjunum....ef þeir gera það ekki nú þegar.  Og ef afi fær hjartaáfall þá fer öll fjölskyldan á hausinn við að borga fyrir aðgerðina.  Bandaríkjamenn sjálfir vilja ekki sitt eigið heilbrigðiskerfi, - af hverju eigum við Íslendingar þá að flytja það inn til okkar.  Með því að kjósa stjórnarflokkana erum við að segja já við álverum, já við einkavæðingu vatnsveitna og já við amerísku heilbrigðiskerfi.  Er ekki kominn tími til að segja STOPP _EKKI AFTUR SÖMU RIKISSTJORNINA.

Nýtt frábært lag um hálendi Íslands


johanng
Hálendi Íslands
Landvernd stóð, ásamt Náttúruverndarsamtökum Íslands, Náttúruverndar- samtökum Suðurlands, Samtökum um náttúruvernd á Norðurlandi, Náttúruvaktinni, Garðyrkjufélagi Íslands og Framtíðarlandinu, fyrir vinnslu á lagi og texta Jóhanns G. Jóhannssonar, „Hálendi Íslands“. Útsetningar og upptökustjórn annaðist Pétur Hjaltested.

Listamennirnir sem að verkinu komu voru, Ásgeir Óskarsson, Björgvin Gíslason, Pétur Hjaltested, Róbert Þóroddsson, Hörður Torfason, Eyþór Ingi Gunnlaugsson, Magnús Þór Sigmundsson, Ragnheiður Eiríksdóttir, Heiða Ólafsdóttir, Steindór Andersen og Jóhann G. Jóhannsson. Listamennirnir gáfu vinnu sína í þágu náttúruverndar.  Lagið má nálgast á vef Landverndar www.landvernd.is

Ég skal mála allan heiminn...

Kæru vinir.  Er að mála nýja húsið mitt og hef því ekki tíma til að blogga næstu daga.  Blogga aftur síðar.  Með kærri kveðju,  Ingibjörg. 

Hvað hefði Kristur gert ?

Íslenska þjóðkirkjan er kirkja í vanda.  Hún veit ekki í hvern fótinn hún á að stíga.  Á hún að stíga inn í nútímann eða á hún að halda sig í fortíðinni.  Þegar kirkjan er í slíkri kreppu hlýtur hún að líta til fordæmis Krists, hans lífs og kærleika.  Við skulum ekki gleyma því að boðskapur Krists var róttækur á sínum tíma og gekk á skjön við valdakerfi rómverska heimsveldisins.  Kristur umgekkst samverja og tollheimtumenn,  hann upplifði hina mannlegu tilveru til fulls og afneitaði engum hluta mannlegs lífs.  Kristur lagði einnig áherslu á kærleikann,  bæði kærleika Guðs til allra manna  án undantekningar og kærleikann á milli tveggja einstaklinga.  Með þetta í huga fæ ég ekki skilið hvernig íslenska þjóðkirkjan getur leyft sér að hafna hjónaböndum samkynhneigðra.  Það getur verið að eitthvað sé ofvaxið mínum skilningi en ef um sannan kærleika á milli tveggja einstaklinga er að ræða, sama af hvaða kyni þeir eru,  þá hlýtur sá sanni kærleikur að vera Guði þóknanlegur og vera þess umkominn að njóta blessunar.  Íslenska kirkjan verður að gæta sín á því að daga ekki uppi í fortíðinni eins og rómverska heimsveldið.  Við samkynhneigða get ég aðeins sagt:  Kristur sjálfur hefur ekki hafnað ykkur.  

Sjálfstæð herlaus utanríkisstefna

Er ekki löngu kominn tími til að við Íslendingar rekum sjálfstæða og óháða hernaðarlausa utanríkisstefnu.  Ég hef engan áhuga á því að herir erlendra ríkja séu að nota Ísland sem skotæfingasvæði og ég hef engan áhuga á þessum styrjöldum sem núverandi ríkisstjórn er alltaf að etja okkur útí.  Bandaríska þingið er löngu búið að viðurkenna að Íraksstríðið var meiriháttar mistök en íslenskir ráðamenn geta ekki viðurkennt það hvorki fyrir sjálfum sér né öðrum.  Oft finnst mér íslenskir ráðamenn vera langtum lengra til hægri en hægrisinnuðustu Repúblíkanar.  

Ég myndi vilja sjá sjálfstæða hernaðarlausa utanríkisstefnu hér á Íslandi.  Hvaða þörf er á endalausum heræfingum hér á landi.  Erum við umhverfissinnarnir kannski svona hættulegir ? 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband