Færsluflokkur: Bloggar

Virkjanir halda áfram

Nú þar sem Sjálfstæðisflokkurinn fékk svona mikið fylgi í kosningunum, halda virkjanir áfram af fullum krafti.  OR og Orkuveita Suðurnesja ætla að virkja á Reykjanesi og meira við Hengilinn.  Neðri hluti Þjórsár er á skurðarborðinu og fleiri áætlanir eru í farvatninu.  Spurning hvenær ráðist verður á Langasjó og Torfajökulssvæðið. 

Af hverju kýs þessi mannfjöldi alltaf Sjálfstæðisflokkinn ?  Það er mér hlulin ráðgáta.  Nú segjast allir vilja vernda náttúruna,  en kjósa samt þann flokk sem hefur það á stefnuskránni að eyðileggja sem mest.  Er ekki kominn tími til þess að kalla Sjálfstæðisflokkinn til ábyrgðar fyrir sinnuleysi og ógnarstjórn í umhverfismálum ?

Friðrik Sophusson hefur ekki miklar áhyggjur af þeirri gagnrýni sem Landsvirkjun hefur fengið, - af hverju ?  Jú Sjálfstæðisflokkurinn fær alltaf fylgi í kosningum sama hvaða gagnrýni Landsvirkjun fær og á meðan Sjálfstæðisflokkurinn stjórnar landinu heldur eyðileggingin áfram. 


Eyðilegging náttúrunnar er birtingarform illskunnar

Illskan og óskapnaðurinn birtist m.a. í eyðileggingu náttúrunnar,  misþyrmingu á dýralífi og miskunnarleysi gagnvart þeim sem minna mega sín.  Illskan leitar þangað sem fjármagnið er,  hún birtist ætíð óbeint og oft í gervi umhyggju eða forsjárhyggju fyrirtækja.  Flest stórfyrirtæki heimsins eru siðlaus fyribæri, vélar sem miða að því að græða peninga.  Nú eru þessi siðlausu stórfyrirtæki komin til Íslands og farin að stjórna hér litlum sveitarfélögum sem halda upp á sjálfstæði sitt með veikum mætti á 17.júní. Það þýðir lítið að veifa íslenskum fána gegn ógnarveldi fjármagnsins, milljarðanna og illskunnar.  Sjálfstæði landshluta, og jafnvel landsins sjálfs verður hljóm eitt í slíku samhengi.  Skyldi Ísland vera ennþá sjálfstætt ríki eftir 100 ár eða verður það örlítill hluti af Bandaríkjum Norður Ameríku á svipaðan hátt og Hawaii???  Er feitum ameríkaniseruðum nútíma Íslendingum kannski bara alveg sama þótt þeir breytist í Norður-Ameríkana ?? 


Fallegur heimur

life_is_beautifulHafið þið tekið eftir því hvað heimurinn er fagur ?  Sólin skín í gegnum skýin og sólstafir falla til jarðar.  Grasið grænkar og himinnbláminn finnur spegilmynd sína í regndropunum.  Í stöðuvötnunum synda fiskar um sali úr grænum speglum. 

Það er engin rökrétt ástæða fyrir fegurð heimsins, nema litið sé svo á að þar sem skapari heimsins er fagur og kærleiksríkur hljóti sköpun hans að endurspegla hina eilífu fegurð.  Þannig má segja að fegurð heimsins sé fingrafar guðs, það sem hann skilur eftir sig í heiminum, vegna þess að hann er í heiminum og heimurinn er í honum.  Þannig skulum við þakka fyrir það að hafa fengið að líta þennan fagra heim, jafnvel þótt að lífið reynist stundum erfitt. 


Drápstól á þjóðvegunum

Klukkan korter í átta í dag var ég að aka austur fyrir fjall á þetta 90-100 km hraða.  Á miðri Hellisheiðinni kom tvöfaldur risatrukkur frá EIMSKIP aftan að mér með ógnandi atferli og gerði sig líklegan til þess að aka yfir mig (Hann var stærri).  Mér tókst með naumindum að koma mér út í vegkantinn og hann flautaði og ók fram hjá mér með miklum yfirgangi og ógnandi hraða.  Nú er ég nýbúin að vera að aka á hraðbrautunum í Þýskalandi og í Svíþjóð og ég verð að segja að umferðarmenning á Íslandi er sú lélégasta sem þekkist á byggðu bóli.  Á hraðbrautum erlendis halda flutningabílarnir sig hægra meginn og þeir hleypa öllum framúr sér, en nei EKKI HÉR Á ÍSLANDI...  Hér aka flutningabílarnir eins og þeir eigi vegina og það munaði engu að alvarlegt slys yrði á Suðurlandsvegi í dag.truck

Frábær ferð um Þýskaland og Svíþjóð

CochemNýkomin heim úr frábærri ferð um Þýskaland og Svíþjóð.  Fyrri hluti ferðarinnar samanstóð af kórferðalagi Reykjalundakórsins,  og var farið um Rínardalinn og Mósel, sungið í Trier, og í St. Goar auk fleiri staða.

Síðari hluti ferðarinnar var ferð um Svíþjóð þar sem ég heimsótti m.a. Uppsali þar sem ég var við nám á sínum tíma og Gautaborg þar sem ég stundaði einnig nám.  Þægilegt að vera í Svíþjóð,  allt lagom og veðrið í alla staði frábært.

En það var líka gott að koma heim til Íslands eftir rúmar tvær vikur erlendis, en ekki virðist nú mikið hafa breyst á meðan. Smile


Er á förum til Þýskalands

Javohl - er á leiðinni í kórferðalag til Þýskalands.  Hlakka mikið til.  Ætla ekki að blogga á meðan.  Auf wiedersehen...

Álgarður í Þorlákshöfn

previewHræðilegar eru hugmyndir verkfræðinga um álgarð í Ölfusi.  Sök sér væri ef bara ætti að vinna vörur úr áli sem kæmi frá álverum annarsstaðar á landinu, en NEI,  það þarf að byggja eitt álver í viðbót í tengslum við þennan álgarð.  Maður skyldi halda að álskortur væri ekki beinlínis í landinu,  en þá Ölfusinga langar víst svo mikið í álver að þeir eru alveg að deyja.  Mikil ástæða er nú til þess að dást að hugmyndaauðgi verkfræðinga að láta sér detta í hug eitt álver í viðbót.  Það hlýtur að vera sérstakur áfangi ÁLVER 103 kenndur í verkfræðideildinni.  Dettur þeim aldrei neitt annað frumlegra í hug ?

Hamingjan er í þessum hversdagslegu hlutum

180px-Kant_KaliningradHamingjan er fólgin í þessum hversdagslegu hlutum, eins og kaffibolla á morgnana, eða ljósgeisla sem fellur inn í herbergið.  Hamingjan er fólgin í því að finna vindinn leika um kinnarnar og regnið belja á þakinu (eða haglélið eins og í nótt).  Hamingjan er að vera til, existera,  anda, sjá og heyra, elska og finna til.  Á undanförnum árum hafa raunvísindin sýnt fram á að það er ekki sú gjá á milli skynsemi og tilfinninga sem menn oft vilja vera láta.  Tilfinningar eru skynsamar og það er skynsamlegt að vera með tilfinningar.  Tilfinningalaus maður er til lítils gagns.  Og ef skynsemin brenglast þá brenglast líka tilfinningarnar og ef tilfinningarnar brenglast þá brenglast skynsemin.  Þannig er þetta allt nátengt.  Það er því bara vitleysa að halda því fram að umhverfisrök séu tilfinningarök.  Tilfinningarök eru einfaldlega einnig skynsemisrök og fáránlegt að beita einhverri fornri grískri tvíhyggju gegn umhverfissinnum sem vopni.  Það að vernda náttúruna er ekki einungis tilfinning,  það er líka skynsemi. 

Að halda í höndina

baenÉg get ekki orða bundist að skrifa aðeins meira um dauðann í nútímasamfélaginu.  Margt ungt fólk veit ekki hvað dauðinn raunverulega er og hefur einhverja rómantíska mynd af honum í kollinum eða skakkar hugmyndir úr sjónvarpinu.  Í nútímaþjóðfélaginu væri æskilegt að ræða meira um dauðann,  veruleika hans og þá staðreynd að það þarf að leyfa fólki að deyja með virðingu.  En hvernig gerum við það.  Svarið kemur kannski á óvart.  Staðreyndin er sú að í nútímasamfélaginu flýja allir burt frá dauðanum.  Meira að segja læknar og heilbrigðisstarfsfólk eiga erfitt með að horfast í augu við dauðann og forðast hann í reynd.  En það sem skiptir máli fyrir deyjandi manneskju er að borin sé virðing fyrir henni alveg fram til enda, og að einhver sé tilbúinn að vera til staðar og halda í hönd viðkomandi alveg til enda.  Það er því nærveran sem skiptir öllu máli.  Nærvera einhvers sem er með viðkomandi alla leið.  Vegna þess að það er erfitt að deyja og því skiptir nærvera og kærleikur öllu máli.  Fyrir þá sem trúa er ennfremur sú huggun að Kristur er með viðkomandi og yfirgefur aldrei sitt barn hvað sem á gengur.  Þótt ég gangi um dimman dal þá óttast ég ekkert illt, vegna þess að þú ert hjá mér...

Herr lehre doch mich...

faithDauðinn er eitt af því sem nútímamaðurinn vill helst ekki hugsa um.  Dauðinn á sér stað á elliheimilum og sjúkrastofnunum,  en hann hefur verið tekinn út úr samfélaginu þannig að hann sé sem minnst sýnilegur.  Samt sem áður er fólk sífellt að deyja og reyndar fæðast líka,  eins og sést á minningargreinum og jarðarfarartilkynningum.  Undanfarið ár hef ég verið að hugleiða ýmislegt í sambandi við dauðann.  Hann hefur verið mér nálægur af ýmsum ástæðum.  En það undarlega er að lífsvon mín og kraftur hefur styrkst frekar en hitt.  Tilfinning mín fyrir lífinu hefur dýpkað og ég er sannfærð um að dvöl okkar hér á Jörðinni hefur einhvern ákveðinn tilgang.  Eina mögnuðustu dauðalýsingu heimsbókmenntanna má lesa í smásögu Lev Nikolajitsch Tolstojs:  Dauði Ivans Illych.  Það er ein besta smásaga sem nokkurn tímann hefur verið skrifuð.  Á existentíalískan hátt má segja að maðurinn standi einn andspænis tóminu og óvissunni.  Hann verður því að staðfesta tilveru sína (affirm himself through faith) með því að sýna hugrekki og trú.  Það er reyndar merkilegt hversu margt venjulegt fólk sýnir ótrúlegt hugrekki andspænis veikindum og erfiðleikum.  Ég hef séð svo margar hetjur berjast gegn lífsins straumi að virðing mín fyrir mannkyninu hefur aukist frekar en hitt.  Flest fólk er hetjur innst inni.  Það er bara einfaldlega satt.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband