29.7.2007 | 14:22
Er maðurinn hluti af náttúrunni ?
Nú er það svo að ýmsir þeir sem vilja vernda umhverfið og vera ekosentrískir í hugsun hafa tilhneigingu til þess að kenna mannkyninu um allt sem miður hefur farið og jafnvel fá þeir vissa óbeit á manninum. Þessi afstaða er þó nokkuð vafasöm þar sem því verður vart á móti mælt að maðurinn er hluti af náttúrunni. Það er einmitt klofningurinn á milli manns og náttúru sem skapar vandamál, sú staðreynd að margir menn virðast hvorki skynja né upplifa tengsl sín við hinn náttúrulega heim og eru því firrtir tengslum við náttúrulegan uppruna sinn.
Umhyggja fyrir náttúrunni hlýtur alltaf öðrum þræði að vera umhyggja fyrir manninum líka, þar sem leitast er við að finna sem best jafnvægi á milli þarfa mannsins annars vegar og þarfa náttúrunnar hins vegar. Einhvers konar grundvallar virðing fyrir lífinu almennt hlýtur að liggja hér að baki. Því verður samt ekki á móti mælt, að svo virðist sem þarfir mannsins séu orðnar all viðamiklar hér á Jörðinni. Þörf manna fyrir stóra pickuppa og húsbíla virðist t.d. fara vaxandi, sem aftur gengur hratt á olíuforða jarðar og fer illa með náttúruna og jafnvægið í Miðausturlöndum. Við hljótum að flokka þarfir mannsins niður í frumþarfir annars vegar og lúxusþarfir hins vegar. Lúxusþarfir Vesturlandabúa virðast vera orðnar það heimtufrekar að þær eru að ganga að lífríkinu dauðu. En ef vistkerfi Jarðarinnar hrynur er ljóst að ekkert verður eftir handa manninum og þá verður varla hægt að nota húsbílinn í annað en eldivið, ef þá einu sinni það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.7.2007 | 10:30
Mogginn búinn að fatta þetta með vatnið
Umfjöllun Moggans um vatnsmál í dag er til mikillar fyrirmyndar og sýnir að blaðið er með á nótunum. Vatnið á Íslandi er ekki síður dýrmætt en fiskurinn í sjónum og því skiptir miklu máli að settar verði skorður við einkavæðingu vatnsveitna. Annars sitjum við uppi með kvótakerfi fyrir vatn.
Vatnsskortur er gríðarlegt vandamál víða í veröldinni og við Íslendingar ættum að þakka fyrir rigninguna a.m.k. stundum enda óbærilegt að búa við mikla þurrka. Íslandslægðin reynist í þessu sem öðru vera okkur hliðholl þar sem hún hreinsar einnig loftmassana yfir landinu og beinir mengun frá suðlægum slóðum framhjá Íslandi og norður í höf. Rigningin hreinsar loftið og sjaldan finnst mér eins gott að ganga úti eins og eftir góðan skúr.
Við mættum hins vegar huga betur að afrennslisvatninu - hvert fara regndroparnir - hvert rennur skólpið? Er fráveitukerfið í lagi í sveitarfélaginu? Fer allt kannski óhreinsað út í sjó? Lengi tekur sjórinn við segir máltækið - en hvað ef allir losa allt í sjóinn - hvað þá? Mettast hafið kannski af menguninni einhvern daginn? Losun afrennslisvatns frá fiskvinnslu og iðnaði auk sveitarfélaga á Íslandi er talsverð. Er ekki ástæða til að skoða þau mál betur?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.7.2007 | 10:29
Frábær vinnuaðstaða
Loksins komin með frábæra vinnuaðstöðu heima hjá mér, - stórt herbergi með tölvu og orðabókum. Það er svona þegar maður vinnur sem þýðandi þá verður maður að skapa sér góða aðstöðu. Þótt þýðendur séu stundum sitt í hvoru horninu fer það æ meira vaxandi að þeir tali saman og séu í samskiptum sín á milli. Þannig hefur verið stofnað Bandalag þýðenda og túlka og fagna ég þeirri starfsemi mjög mikið.
Mér finnst soldið skrýtið að vera sjálfstætt starfandi. Enginn beinn yfirmaður sem stendur yfir mér og segir þetta og segir hitt. Á hinn bóginn verð ég að vanda mig við vinnuna - annars fæ ég varla ný verkefni.
Annars man ég varla eftir því að hafa unnið á vinnustað þar sem ekki voru einhver vandamál. Meðvirkni, einelti, fjölelti, of mikið álag, yfirmenn að skilja og láta það bitna á vinnunni. Og stundum var líka farið fram úr fjárhagsáætlun.
Þannig að það er bara ágætt að vera sjálfstætt starfandi og vinna bara heima. A.m.k. lendi ég ekki í vandræðum á meðan. If you like yourself you´re in good company 24 hours a day.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.7.2007 | 09:31
Svar til Óskars
Kæri Óskar,
Þú spyrð um anda og efni. Nú er það svo að vísindamenn eru búnir að stúdera heilann og kortleggja hann fram og til baka, en skilja hann samt ekki ennþá til fulls. Til er sérstök vísindagrein sem fæst við að rannsaka meðvitundina eða consciousness studies þar sem reynt er að skilgreina hvernig þetta sem við köllum ÉG verður til. En öll þessi vísindi eru ófullkominn og leyndardómurinn um meðvitundina er ennþá óleystur. Og þá komum við að spurningunni hvort að maðurinn (og hugsanlega dýrin líka) hafi sál. Það er til önnur vísindagrein sálfræði en hún svarar ekki þessari spurningu, það eru líka til ýmsar heimspekilegar vangaveltur en þær svara spurningunni ekki heldur. Trúarbrögð heimsins halda því hins vegar fram að maðurinn hafi sál, einhvers konar eilífan kjarna, - í búddisma er svipuð hugmynd um búddaeðlið í manninum og karma sem fylgi honum í gegnum mörg líf reyndar.
Aðferðafræði vísindanna er einkum greiningar og smættunaraðferð. Öll ferli og allar eindir eru greindar í sundur og flokkaðar. Aðferðin hefur náð ótrúlegum árangri t.d. í læknisfræði en stundum eins og í kjarneðilsfræði nútímans er eins og menn rekist á vegg sem þeir komast ekki yfir. Sannleikurinn er sá að þótt vísindin hafi leitað dyrum og dyngjum, þótt læknar hafi skoðað heila og framkvæmt skurðaðgerðir þá hefur sálin hvergi fundist. En afsannar það tilvist hennar ? Eru vísindin e.t.v. að beita rangri aðferðafræði eða sjá þau bara það sem þau vilja sjá ? Er vísindamaðurinn alltaf hlutlaus og hafinn yfir sínar eigin tilfinningar ? Er smættun og greining kannski ekki rétta leiðin til þess að finna sálina.
Andspænis ráðaleysi vísindanna er það fyrst og fremst trúarlegt atriði hvort við trúum að sálin sé til eður ei. Þetta er fyrst og fremst spurning um trúarbrögð. Nú hef ég skoðað ótal marga steina í smásjá og ekki fundið neitt yfirnáttúrulegt í þeim. Samt eru margir sem halda því fram að steinar eins og hematít hafi sérstakan mátt. Getur verið að smásjáin mín nemi ekki mátt steinsins ? Nú eru steinar ekki taldir til lífríkisins, en Jürgen Moltmann heldur því fram að heilagur andi Guðs blási lífsanda í allt sem lifir, þ.e. viðhaldi lífinu. Skv. Moltmann ætti að vera sál eða lífsandi í öllu sem er lifandi jafnvel þótt vísindunum takist ekki að finna og negla niður þennan anda e.t.v. sökum takmarkana í aðferðafræði.
Þannig er Moltmann mjög byltingarkenndur að því leiti að hann aðgreinir ekki beint anda og efni. Hann hafnar þessari tvíhyggju sem skiptir heiminum niður í efni annars vegar og anda hins vegar og segir anda og efni vera samofið. Þarna er um að ræða ósannaða kenningu sem erfitt gæti reynst að sanna. Eins og ég segi hafa vísindin ekki enn getað fundið hvað þetta ÉG er sem við öll upplifum þrátt fyrir að þau séu að reyna það.
Niðurstaðan verður sú að það er hugsanlegt að andi Guðs búi í lifandi verum, en það er fyrst og fremst trúarlegt atriði hvort menn vilja trúa því eður ei. Efnafræðin og kjarneðlisfræðin hefur aldrei fundið neinn anda í efninu, aðeins mismunandi eiginleika og mismunandi eindir og krafta, strange charm, color, hypercolor osv.frv. Ég hef sjálf aldrei séð neitt annað í steinum en steindir og kristalla en einhvern veginn grunar mig sterklega að hundurinn minn, hún Ljúfa, hafi sál. Og ef hundar hafa sál, ættu mennirnir þá ekki þess heldur að hafa hana líka ?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.7.2007 | 12:08
Nokkur orð um trú og vísindi
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.7.2007 | 18:33
Kærar þakkir til starfsfólks Kvennadeildar Landspítala Háskólasj.
Ég vil nota tækifærið og þakka kærlega starfsfólki Kvennadeildar LSP-háskólasjúkrahúss fyrir frábæra hjálp og aðstoð síðastliðna helgi. Það er mikill munur að vita af ykkur öllum og því mikilvæga starfi sem þið eruð að sinna.
Kærar þakkir,
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.7.2007 | 08:01
Jörðin er ennþá að verða til - heimsmynd raunvísindanna
Samkvæmt núverandi heimsmynd vísindanna sem gæti breyst er alheimurinn um 15 milljarða ára gamall. Hann myndaðist í stórri sprengingu með gífurlegri orku. Allar vetrarbrautirnar urðu til á nokkrum sekúndubrotum.
Það tók aðra 5 milljarða ára fyrir stjörnurnar að verða til og sólkerfið okkar er talið hafa myndast úr stórum snúningsdiski fyrir um 4,6 milljörðum ára. Hvernig fyrsta fruman varð til veit enginn en hún er talin hafa myndast í hafinu fyrir um 4 milljörðum ára. Fyrir um 3,9 milljörðum ára hófst ljóstillífun og blágrænir þörungar urðu til. Síðan fyrir um 1,9 milljarði ára hófst myndun súrefnis en áður var mjög lítið súrefni í andrúmslofti jarðar. Fyrir um 1,7 milljörðum ára þróuðust fjölfrumu plöntur á hafsbotninum. Síðan gerðist lítið þangað til fyrir 570 milljón árum. Þá varð sprenging í þróun lífsins, til urðu skordýr, svampar, kórallar, lindýr og dýr með seil sem er vísir að hryggsúlu. Síðan varð fjöldaútdauði (Cambrian extinctions) þar sem um 80-90% tegunda á jörðinni dóu út. En lífið hélt áfram og fram á sjónarsviðið komu skriðdýr og hryggdýr, fiskar og tré. Risaeðlur gengu um jörðina en grasið var enn ekki orðið til. Í staðinn voru elftingar og tré. Risaeðlurnar dóu síðan út að mestu en hugsanlegt er að einhverjar þeirra hafi þróast yfir í fugla (Archaeopterix). Lífið hefur síðan haldið áfram að þróast og tekið ýmsum breytingum. Margar tegundir hafa dáið út. Homo Sapiens - nútímamaðurinn er einungis um 200 - 400 þús. ára. Landbúnaðar hófst í Mesópótamíu á milli Efrat og Tígris fyrir um 10 þús. árum og um 3500 ár eru síðan að skriftin kom til sögunnar (cuneiform AB). Nútíma þjóðríki urðu til fyrir um 400 árum og þá var mannfjöldi jarðar um 500 milljónir. Í dag er mannfjöldi jarðar um 6,2 milljarðar.
Bloggar | Breytt 25.7.2007 kl. 11:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.7.2007 | 11:12
9 staðreyndir um mig
1. Ég fæddist 6 vikum fyrir tímann í Edinborg í Skotlandi árið 1966.
2. Ég ólst að hluta til upp á Ægissíðu 70 hjá afa mínum Sigurði Sigurðssyni, landlækni og ömmu minni Bryndísi Ásgeirsdóttur.
3. Ég ólst að hluta til upp í Breiðholti innan um fullt af skemmilegum krökkum.
4. Ég var komin með aukaverkefni strax í 6 ára bekk og var í tilraunabekk hjá Sigrúnu Aðalbjarnar.
5. Ég átti að fara í M.R. en valdi að fara í M.H. og var dux scholae 1985.
6. Ég er með B.A. gráðu í rússnesku, B.Sc. gráðu í jarðfræði og M.Sc. gráðu with distinction í umhverfisefnafræði.
7. Ég er gift Valgeiri Bjarnasyni, líffræðingi og bý á Selfossi.
8. Faðir minn er Dr. Björn Björnsson, prófessor í kristilegri og félagslegri siðfræði.
9. Móðir mín er Svanhildur Sigurðardóttir, barnakennari.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.7.2007 | 17:22
Jón Ólafsson búinn að fatta þetta með vatnið
Jón Ólafsson, athafnamaður, er greinilega búinn að fatta þetta sem við vatnsáhugamennirnir erum búin að vera að segja undanfarin ár. Drykkjarvatnið á Íslandi er álíka dýrmætt og olíulindir jarðar séð í hnattrænu samhengi. Markaður fyrir útflutning á vatni fer örugglega vaxandi vegna vatnsskorts í veröldinni og bara tímaspursmál hvenær um stórgróðafyrirtæki verður að ræða.
Hins vegar er dálítið erfitt að flytja út vatn hérlendis ef vatnið á allt að fara í það að knýja álverksmiðjur. Það er þegar til framtíðar er litið meira gull í vatni en í áli. Þessvegna borgar sig frekar að varðveita vatnsföllin og lindirnar heldur en að tortíma þeim í skammtímagróðafíkn.
Ég óska Jóni Ólafssyni alls hins besta með vatnsverksmiðjuna sína og vona að hann hjálpi okkur vatnsáhugamönnum að standa vörð um vatnið á Íslandi. Hreint vatn er gullforði Íslands.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.7.2007 | 21:07
Að flytja þekkingu til þeirra sem þurfa á henni að halda

Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)