15.9.2007 | 08:22
Jürgen Moltmann og frelsunarguðfræðin - guðfræði vonarinnar
Jürgen Moltmann er einn af helstu guðfræðingum samtímans og skrifar út frá þýskri lúterskri guðfræðihefð. Því fer þó fjarri að Moltmann sé gamaldags heldur er hann afar nútímalegur og jafnvel róttækur. Guðfræði hans kallast á við samtímann og þá stöðu sem mannkynið er í núna um þessar mundir.
Það er athyglisvert að Moltmann segir í bók sinni Theologie der Hoffnung að upprisa Krists sé merki þess að kristnir menn eigi ekki að sætta sig við dauðann og heldur ekki að samþykkja veröld sem lætur dauða og tortímingu viðgangast. Moltmann gengur svo langt að segja að vilji hinn kristni maður öðlast frið við Guð verði hann að vera í átökum við veröldina einfaldlega vegna þess að veröldin er þess eðlis að ekki er hægt annað fyrir hinn kristna mann/konu en að reyna að breyta heiminum.
Moltmann segir að trúin sé þversögn í heimi dauðans og að von mannkynsins sem birtist í upprisu Krists valdi óróa og átökum gagnvart heiminum en ekki öfugt. "Peace with God means conflict with the World."
Samkvæmt Moltmann sættir hin kristna manneskja hafi hún til að bera bæði trú og von, sig alls ekki við ástand heimsins eins og það er. Kristnir menn reyna að umbreyta heiminum án þess að beita valdi eða sækjast sjálfir eftir veraldlegum völdum.
Synd mannkynsins er þannig ekki einungis fólgin í því að vilja vera eins og Guð, heldur er hin hliðin á syndinni vonleysið og uppgjöfin. Þeir sem fyllast vonleysi, gefast upp og láta dauðann og tortíminguna viðgangast án þess að sporna við fótum eru ofurseldir syndinni og illskunni. Þetta aðgerðarleysi syndarinnar leiðir til síðan beinnar hnignunar, uppgjafar, dauða og eyðileggingar.
Guð hefur gefið manninum fallega reikistjörnu og möguleika á því að lifa í frelsi og víðsýni. En hinn kristni maður á ekki að sætta sig við þennan heim óréttlætis og hörmunga. Hann á að vinna verk hins góða í veröldinni á friðsamlegan og nærgætinn hátt án þess að beita ofbeldi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.9.2007 | 21:52
Merkasti líffræðingur samtímans
Edward Osborne Wilson er án efa einn merkasti líffræðingur samtímans. Hann er prófessor emeritus við Harvardháskóla þar sem hann hefur í fjöldamörg ár barist fyrir verndun líffræðilegs fjölbreytileika. Wilson hefur skrifað margar bækur m.a. Consilience og The future of Life og hann hefur tvisvar sinnum hlotið Pulitzer verðlaunin.
Wilson hefur miklar áhyggjur af því að við séum að glata lífríki jarðarinnar með því að skrásetja það ekki áður en það hverfur. Hann vill hrinda af stað stóru alþjóðlegu verkefni til þess að kortleggja allt líf á jörðunni. Wilson bendir á að við séum langt komin með að kortleggja genamengi mannsins og við séum að undirbúa það að senda manneskju til Mars. Þó vitum við ótrúlega lítið um þá reikistjörnu sem við sjálf byggjum.
Edward O. Wilson er einn fremsti náttúruverndarsinni samtímans og einn sá líffræðingur sem borin er mest virðing fyrir um allan heim. Wilson veit sem er að mannkynið er háð náttúrunni og öðrum lífverum og getur ekki lifað án fjölbreytileika lífríkisins. Náttúruvernd er þannig í eðli sínu umhyggja fyrir manninum og velferð hans ekki síður en umhyggja fyrir lífríkinu (sbr. Albert Schweitzer).
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.9.2007 | 19:43
Af hverju sofa unglingar svona mikið?
Flestir sem átt hafa ungling hafa tekið eftir því að svefnþörf þeirra er nánast óendanleg. Þeir geta sofið endalaust á morgnana en hafa tilhneigingu til að hlusta á tónlist og vaka á nóttunni. En skyldu vera vísindalegar skýringar á þessu?
Vísindamenn hafa komist að því að unglingar hafa mun meiri þörf fyrir svefn en fullorðið fólk og ekki nóg með það. Unglingar eru einnig með öðruvísi tímaskyn (svefnklukku) sem gerir það að verkum að þeir eiga erfiðara með að vakna á morgnana en fullorðið fólk. Sumir vísindamenn ganga svo langt að segja að það ættu að gilda aðrar tímasetningar fyrir unglinga en fullorðna.
Það mun þó áfram verða hlutskipti flestra unglinga að þurfa að vakna klukkan 7 á morgnana til þess að mæta í vinnu eða í skóla. En góðu fréttirnar eru þær að þetta er ekki varanlegt ástand heldur breytist þegar unglingurinn verður fullorðinn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.9.2007 | 21:23
Er mannkynið að eyðileggja Jörðina?
Í frumskóginum á Filippseyjum lifa hundruðir þúsunda tegunda lífvera, þar af mörg hryggdýr. Þau munu þó ekki lifa þar mikið lengur vegna þess að einungis um 20% eru eftir af upphaflega frumskóginum og hann eyðist hratt.
Það deyja a.m.k. 50 tegundir af lífverum út í veröldinni á degi hverjum. Allt er þetta vegna yfirgengilegrar frekju mannkynsins og botnlausrar græðgi en regnskógunum er eytt til þess að m.a. ríkir Íslendingar geti fengið sér mahogany gólf í húsin sín.
Við þekkjum einungis um 1,7 milljónir lífvera í dag. En það er hugsanlegt að það séu um 100 milljónir lífvera á jörðinni. Þá er um að ræða örverur og bakteríur sem eru svo smáar að þær sjást einungis í rafeindasmásjá eða með enn sterkari búnaði.
Við erum að eyða lífríkinu svo hratt að við náum ekki að skrásetja það allt áður en það hverfur. Tegundir sem aldrei hafa verið skráðar í rit vísindanna hverfa af sjónarsviðinu of snemma. Það þarf að hrinda af stað alþjóðlegu átaki til þess að skrásetja og kortleggja lífríki jarðar áður en það verður of seint. Því verkefni má líkja við kortlagninguna á genamengi mannsins.
Algengustu dýr á jörðinni eru ekki við mennirnir heldur nematode ormar. Það eru til 160.000 tegundir af nematode ormum en við mennirnir erum svo miklir klaufar að við tökum ekki einu sinni eftir þeim.
Fæstir menn horfa á stjörnurnar og fæstir menn vita hvað fuglarnir og grösin heita. Að því mun koma eftir um 100 ár að 10-15% af öllum fuglum heimsins verða útdauðir. Á endanum verða kannski bara hrægammar eftir af fuglum himinsins.
Bloggar | Breytt 13.9.2007 kl. 22:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.9.2007 | 19:16
Kapphlaupið um auðlindir Íslands og norðurslóða!
Mikið fjaðrafok hefur verið gert út af því að rússneskar flugvélar hafi flogið nálægt Íslandi nýlega. Hins vegar þykir lítið tiltökumál þótt að alþjóðlegir og amerískir auðhringir eins og Alcoa skuli vera að kaupa upp helstu orkuauðlindir Íslendinga. Og bráðum munu auðhringirnir vilja kaupa upp íslenska vatnið líka, verði það einkavætt eins og frjálshyggjupostularnir vilja.
Það ríkir kapphlaup um auðlindir norðurslóða um þessar mundir. Rússar fylgjast að sjálfsögðu með og þeir hafa séð hvernig auðhringir hafa verið að grafa sig eins og moldvörpur inn í íslenskt efnahagslíf. Eins og hagfræðingurinn og nóbelsverðlaunahafinn Joseph Stiglitz bendir á í bók sinni Globalization and it´s discontents hafa rússar og rússnesk álfyrirtæki slæma reynslu af aðferðum Alcoa (Stiglitz, bls. 173-176). Þannig að rússum líst bara hreint ekki vel á það tangarhald sem amerísku og kanadísku álfyrirtækin eru að ná á íslensku efnahagslífi. Skyldi nokkurn furða þótt þeir fljúgi yfir Ísland til þess að sjá hvort að bandaríska fánanum sé nokkuð flaggað í Stjórnarráðinu?
Bloggar | Breytt 9.9.2007 kl. 17:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.9.2007 | 13:16
Barrtré á Þingvöllum

Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.9.2007 | 09:05
Don´t forget the soil.
Þegar rætt er um loftslagsbreytingar og vatnsmál jarðar gleymist oft að nefna jarðveginn sem er undirstaða gróðurs og landbúnaðar. Jarðvegur bindur kolefni og heldur í vatnið þannig að það renni ekki rakleitt af yfirborði og út í sjó. Í einni lúku af jarðvegi eru ótal lífverur,heilt vistkerfi og er jarðvegur og jarðvegsþekja því eitt af því dýrmætasta sem við eigum.
Við Íslendingar höfum náð góðum árangri í að vinna gegn gróðureyðingu. Í dag tekst að græða upp meira land á ári hverju en tapast. Samt er orrustunni ekki lokið. Við þurfum að leggja meiri áherslu á landgræðslu með náttúrulegum gróðri bæði til þess að halda í jarðveginn og einnig til þess að binda eitthvað af því kolefni sem álverin losa út í andrúmsloftið.
Við skulum því ekki gleyma jarðveginum - Don´t forget the soil.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.9.2007 | 00:30
Liggja þá 20% lónanna á sprungum ?
Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar sagði í viðtali á Stöð 2 nýverið að um 80% af lónum fyrirhugaðra Þjórsárvirkjana muni liggja á þéttum botni í farvegi Þjórsár sjálfrar. Ég spyr, hvað um hin 20% lónanna. Liggja þau þá kannski á sprungum ? Og er ekki nóg að 20% af lónunum leki. Ef einn vatnsdropi lekur þá fylgir yfirleitt annar í kjölfarið. Er ekki nóg að ein sprunga opnist eða færist til af öllum þeim fjölmörgu sprungum sem eru á svæðinu til þess að allt lónið fari sömu leið ?
Upplýsingafulltrúi viðurkenndi ennfremur að Landsvirkjun hefði fengið erlendan sérfræðing til þess að segja sér að ár renni helst þar sem veikleikar eru í berginu. Þetta hefði hver einasti íslenskur jarðfræðingur geta sagt Landsvirkjun og þurfti ekki erlendan sérfræðing til.
Þorsteinn Hilmarsson viðurkenndi semsé að það væru veikleikar í berginu við Þjórsá. Það er kannski það merkilegasta sem kom út úr þessu viðtali. Og einungis 80% lónanna hvíla á þéttum botni. Hvar hvíla hin 20% ?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.8.2007 | 22:23
Svarthol og strengjakenningin (String theory).
Ef þig langar til þess að losna við eitthvað um aldur og ævi þá skaltu henda því niður í svarthol. En inni í svartholinu er stórt tóm, risastórt ekkert, eða hvað ? Það sem virðist vera ekkert er kannski eitthvað...hmmm Strengjakenningin eða string theory segir að inni í svartholunum gætu verið strengir. Það er semsagt eitthvað inni í svartholinu sem varðveitir upplýsingar en hvað er þá strengur.
Strengir eru einskonar DNA alheimsins - eindirnar sem eru inni í atóminu eru ekki eindir heldur litlir samtengdir strengir sem víbra eins og gítarstrengur. Öll veröldin hljómar í einum miklum samhljómi. Þannig að þó að þú myndir henda einhverju ofan í svartholið þá gæti það varðveist sem minniskubbur í streng.
Eftir því hvernig strengirnir víbra koma fram hinar mismunandi agnir. Bosons og leptons og kvarkar. Ef strengjakenningin er rétt er allt sem við sjáum birtingarform strengja hmm. Skyldi Guð vera strengur og lítur hann þá kannski út eins og spaghetti ???
Og fyrir þá sem eru orðnir þreyttir á þrívíddinni þá býður strengjakenningin upp á a.m.k. 11 víddir en er einhver með jöfnurnar á hreinu ?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.8.2007 | 00:53
Burundi og Ísland - að virkja vegna græðgi eða vegna nauðsynja
Burundi er eitt fátækasta land veraldar. Þar búa um 7-8 milljónir manna á svæði sem er minna en Ísland. Í grunnskólunum í Burundi er engin tölva og einungis um 20% af háskólastúdentum í Burundi hafa aðgang að einhvers konar tölvum. Flestir íbúar landsins eru fátækir bændur sem búa á jörðum sem eru 1 hektari eða smærri. Fólksfjölgun er mikil og margar konur eignast 5-7 börn.
Burundi vantar rafmagn og það vantar líka dreifikerfi fyrir rafmagnið. Þessvegna hafa íbúar Burundi hug á því að virkja þau vatnsföll sem þeir hafa til þess að hægt sé að koma rafmagni til fólksins og dreifa því um allt landið. Ef fólkið fengi rafmagn gæti það sett upp sín eigin fyrirtæki og nýtt sér þá ótal möguleika sem rafmagnið býður upp á.
Í Burundi verða menn að virkja til þess að koma rafmagninu inn á venjuleg heimili í landinu. Slík er ekki staða mála á Íslandi.
Ísland er eitt af ríkustu löndum heims í dag. Flest allir eiga tölvu og menntun og læsi er almennt. Íslendingar aka um á glæsivögnum og borða góðan mat. Vannæring er nánast óþekkt. Þá vaknar spurningin: Af hverju þurfa Íslendingar þá eiginlega að virkja? Erum við að virkja til þess að koma rafmagni inn á íslensk heimili - NEI - við erum að virkja til þess að selja rafmagnið í hendur erlendum stórfyrirtækjum.
Íslenskar virkjanir, sérstaklega virkjanir í neðri hluta Þjórsár eru ekkert annað en LÚXUSvirkjanir gerðar til þess að sem flestir Íslendingar geti keypt sér einkaþotur. Er allur lúxusinn þess virði að fórna landinu og landsgæðum fyrir hann?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)