30.9.2007 | 16:11
Stiglitz og einkavæðingin
Er að lesa bók eftir Joseph Stiglitz, nóbelsverðlaunahafa í hagfræði. Hann segir m.a. um einkavæðingu eftirfarandi og lesið nú vel:
Einkavæðingin byggði á þeirri hugmynd að ríkisstjórnir eyddu oft tíma í hluti sem aðrir gætu gert betur t.d. að reka stálverksmiðjur eins og í Kóreu. Þannig var einkavæðingin ekki svo vitlaus hugmynd. Hins vegar bendir Stiglitz á að til þess að einkavæðing geti farið fram svo vel takist þurfi ákveðnar FORSENDUR:
1. Það eru sumir nauðsynlegir hlutir sem markaðurinn sinnir einfaldlega ekki, og ef markaðurinn sinnir þeim ekki þá þarf ríkið að gera það.
2. Það má ekki vera fákeppni í samfélagi þar sem einkavæðing fer fram. Samkeppni þarf þvert á móti að vera mjög virk ÁÐUR EN EINKAVÆÐING ER REYND til þess að einkavæðing gangi vel fyrir sig. Annars fáum við þá stöðu að einungis örfáir aðilar eiga allt og það er engin samkeppni.
3. REGLUGERÐIR OG LÖG þurfa að vera til staðar ÁÐUR EN EINKAVÆÐING fer fram. Annars endar allt í lögleysu og völd og fjármagn safnast á fárra manna hendur.
4. Einkavæðingin MÁ EKKI SLÁTRA FLEIRI STÖRFUM EN HÚN SKAPAR. Sum störf eru ónauðsynleg í ríkiskerfinu en ef einkavæðingunni fylgir einungis fækkun starfa og uppsagnir þá leiðir hún til samfélagslegra erfiðleika og skapar óánægju og meiri fátækt sem ekki er markmið hennar.
Niðurstaðan er sú að einkavæðing, eigi hún yfirhöfuð að fara fram, þarf að vera hluti af miklu stærra samfélagslegu verkefni. T.d. er fáránlegt að hækka stýrivexti (Háir stýrivextir slátra litlum fyrirtækjum) og einkavæða á sama tíma. Einkavæðing eyðir störfum og ef litlum sprotafyrirtækjum er slátrað á sama tíma þá verður einfaldlega engin atvinna fyrir fólk.
Síðan er það náttúrulega spurningin um velferðarkerfið. Hvar viljum við setja mörkin.
Annað sem Stiglitz segir að fylgi einkavæðingunni er SPILLING! Ríkisfyrirtækjum hefur í mörgum löndum verið komið í hendur vina og vandamanna stjórnvalda, í svo ríkum mæli að menn tala ekki lengur um einkavæðingu heldur græðgisvæðingu. Ef stjórnvöld eru spillt á annað borð eins og er í mörgum ríkjum heims, þá er ólíklegt að einkavæðing leysi vandamálið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.9.2007 | 09:46
Frábær Chechov
Var á frábærri leiksýningu hjá Leikfélagi Selfoss í gær. Sýndir voru stuttir leikþættir eftir Anton Chechov og kallaðist verkið Hnerrinn. Leikþættirnir voru byggðir á nokkrum af fjölmörgum smásögum Chechovs en hann skrifaði smásögur m.a. til þess að koma sér í gegnum læknanám.
Anton Chechov leit fyrst og fremst á sig sem lækni. Hann var mikill mannvinur og væntumþykja hans á fólki skín einhvern veginn í gegnum allar sögur hans. En þegar Anton Chechov fór til Sakhalin eyju um 1880 sá hann þvílíka eymd að hann hugsaði: Ég get haft meiri áhrif á hugsun fólks sem rithöfundur en læknir. Eftir það taldi hann sig fyrst og fremt rithöfund.
Verk Antons Chechovs eru alvarleg með gamansömu ívafi og léttur húmor stundum svartur, svífur yfir vötnunum. Ég grét af hlátri á leiksýningunni í gær og mér heyrðust einhverjir fleiri gera slíkt hið sama. Það skyldi þó ekki vera að andi Chechovs hafi verið þarna á sveimi?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.9.2007 | 21:53
Um þjóðarmorðið í Rwanda
Einhvern tímann var það sagt að borgarastyrjaldir væru verstu styrjaldir sem til væru vegna þess að þá dræpu vinir vini sína. Skólasystkin dræpu hvort annað og miskunnarleysið væri algjört. Það var einmitt þetta sem gerðist í Rwanda. Hútúar sem voru í meirihluta í landinu ætluðu hreinlega að útrýma Tútsum. Það sorglega er að alþjóðasamfélagið var of seint að bregðast við þannig að hundruðir þúsunda manna, kvenna og barna voru myrt áður en blóðbaðið var stöðvað.
Átökin í Rwanda voru ekki bara átök á milli etnískra hópa. Þau voru einnig átök um auðlindir og land til ræktunar sem var orðið af skornum skammti í landinu. Hútúar vildu ráða auðlindum landsins algjörlega.
Þegar lesið er um átökin í Rwanda er undarlegt að sjá hvernig hið ágætasta fólk gat breyst í morðingja á tiltölulega skömmum tíma. Þegar fólk lætur óttann stjórna gjörðum sínum missir það oft alla siðferðiskennd og tilfinningu fyrir því hvað sé rétt og hvað rangt. Það sekkur ofan í myrkrið og virðist varla eiga þaðan afturkvæmt. Enn og aftur komumst við að sömu niðurstöðunni. Til þess að lifa þarf ómælt hugrekki, trú og kærleika.
En það sem skiptir máli er að til þess að lifa af stríð er ekki nóg að lifa það af líkamlega, það þarf líka að lifa það af andlega og það er ekki síður erfitt. Einn maður sagði: það má skipta íbúum jarðar í tvo hluta: þá sem hafa upplifað stríð og þá sem vita ekki hvað það er.
En til þess að lifa stríðið af andlega verður manneskjan fyrst að finna kærleikann innra með sér og jafnvel verður hún að hafa styrkleika til þess að geta fyrirgefið andstæðingum sínum. Vegna þess að án fyrirgefningarinnar nær hatrið að festa rætur og enginn manneskja getur búið við hatur til langframa án þess að bíða mikið tjón á sálu sinni. Fyrirgefningin og kærleikurinn sem er óendanlegur er nauðsynlegur til þess að hægt sé að ná friði eftir allar styrjaldir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.9.2007 | 20:14
Steingrímur Hermannsson alltaf góður
Steingrímur Hermannsson var aldeilis frábær í viðtali við Evu Maríu núna áðan. Hann er tvímælalaust einn besti stjórnmálamaður sem Íslendingar hafa nokkurn tímann átt.
Mér fannst einnig stórmerkilegt að Steingrímur sagði að framsóknarflokkurinn hefði átt að slíta stjórnarsamstarfi við sjálfstæðismenn vegna Íraksstríðsins.
Ég held að framsóknarmenn nútímans ættu að hlusta betur á það sem Steingrímur er að segja. Hann er mjög vakandi og framarlega í umhverfismálum og veit býsna vel um hvað hann er að tala.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.9.2007 | 18:19
Undarleg tilhögun við vinnslu áhættumats
Verið er að vinna áhættumat varðandi þá áhættu sem getur fylgt Þjórsárvirkjunum. Margir telja áhættumatið ekki unnið af hlutlausum aðila heldur sé um sama aðila að ræða og hefur beinan hag af framkvæmdum á svæðinu.
Óskiljanlegt er, af hverju hlutlaus erlendur aðili var ekki fenginn til verksins t.d. frá Evrópu eða Ástralíu. Einnig er ólíklegt að teknir séu með í áhættumatinu hlutir eins og það hvort mannleg mistök geti átt sér stað við stjórnun virkjananna og hvort menn geti misst niður í farveg Þjórsár svo sem eitt uppistöðulón.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.9.2007 | 18:13
Kuldahrollur við Kárahnjúka
Nú styttist í að Hálslón nái fullri hæð sinni. Það er misskilningur að hægt sé að græða upp bakka Hálslóns. Þeir munu ætíð verða til vandræða.
Jarðfræðingar hafa ennþá efasemdir um það hvort að stór jarðskjálfti við Kárahnjúka geti ekki valdið þar tjóni. Enn hefur ekki reynt almennilega á þessi mannvirki og tíminn einn mun leiða í ljós hvað gerist.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.9.2007 | 16:24
Að standa vörð um eldinn
Einu sinni bjuggu á eyjunni Samos snarvitlausir grikkir eins og Pýthagóras sem fann upp Pýthagórasarregluna og Aristarchus sem hélt því fram að jörðin snérist í kringum sólina. Að sjálfsögðu trúði þeim ekki nokkur maður og það var ekki fyrr en á 15.öld sem Kóperníkus rökstuddi það vísindalega að jörðin væri ekki miðpunktur alheimsins. Síðan reiknaði Jóhannes Kepler út brautir reikistjarnanna.
Raunvísindin og þekkingin um heiminn hafa oft átt erfitt uppdráttar gagnvart alls kyns hindurvitnum. Það var eins gott að arabar varðveittu stærðfræðiþekkingu forn-grikkja á meðan galdrabrennur og annað rugl geisaði í Evrópu.
Bruni bókasafnsins í Alexandríu var mikið áfall fyrir menningu heimsins, en þannig er, að það skiptir máli að standa vörð um eld vísindanna. Stærðfræði og heimspeki eru grunnurinn undir öllum vísindum og án vísindanna vitum við nánast ekkert um heiminn.
Það er allt í lagi að trúa á Guð, en það er algjör óþarfi að útskýra jarðskjálfta með vísun í trúarbrögð eða að útskýra náttúruleg fyrirbæri yfirleitt með trúarlegum hætti. Við verðum að standa vörð um eld vísindanna, annars gæti svo farið að við stefndum aftur inn í myrkar miðaldir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.9.2007 | 21:17
Grétuvalsinn
Eftirfarandi upptaka er af Grétuvalsinum eftir Ingibjörgu E. Björnsdóttur (höfundarréttur áskilinn), og heitir valsinn í höfuðið á Grétu ömmusystur minni sem spilaði listavel á píanó. Þeir sem vilja fá nótur vinsamlegast hafi samband við mig sjálfa.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.9.2007 | 16:26
Albrecht Dürer og iðnverkið
Á endurreisnartímanum lærðu myndlistarmenn myndlist sem iðngrein. Þeir fóru í læri hjá meistara og tóku sveinspróf. Þannig voru mörg myndlistarverkstæði sem "framleiddu" myndverk ekki síður en prentverk.
Einn af snillingum endurreisnarinnar sem lauk iðnnámi var Albrecht Dürer. Dürer vakti hneykslan og athygli er hann málaði sjálfan sig með hlutföllum sem fram til þess tíma höfðu einungis verið notuð til þess að lýsa Jesú Kristi. Þessi gjörningur Dürers var dæmigerður fyrir það tímabil endurreisnarinnar sem endurskoðaði ofan í kjölin stöðu mannsins í alheiminum og setti sólina í miðju sólkerfisins.
Menningin felur í sér að færa þekkingu á milli kynslóða. Ef þekkingin týnist eða glatast fer forgörðum tækifæri til þess að varðveita menninguna. Við vitum ekki í dag hvernig Rembrandt fór að því að mála og e.t.v. höfum við einnig glatað hluta af handverki Albrechts Dürers.
Er ekki kominn tími til að sameina list og handverk aftur þannig að virðing fyrir handverkinu aukist enn frekar. Góður handverksmaður er sannur listamaður og Albrecht Dürer sem er einn merkasti myndlistarmaður allra tíma leit sennilega fyrst og fremst á sjálfan sig sem handverksmann.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.9.2007 | 11:27
Gengið um sali hins veraldlega valds
Veraldlegt vald er eitt það vandmeðfarnasta og hættulegasta sem menn geta fengið í hendur. Víða í trúarbrögðum heimsins er varað við hinu veraldlega valdi og áhrifum þess. Ótal dæmi eru um menn sem hafa orðið valdasjúkir og geðsjúkir á valdastólum, ofmetnast og talið sjálfa sig almáttuga. Meðal þessara manna er Mao Tse Tung hvurs ævisaga var að koma út núna fyrir nokkrum dögum að því er mér skilst í frábærri íslenskri þýðingu.
Vald spillir út frá sér, og menn virðast geta orðið háðir valdinu sem aftur gerir þá veruleikafirrta. Til er hin sérstaka valdapólitík eða Machiavellíska pólitík (realpolitik eða power politics) þar sem valdið er ofar öllu og tilgangurinn helgar meðalið eins og hjá Bismarck sem háði þrjár styrjaldir til þess að sameina Þýskaland í eitt ríki. Öfgastefnur, bæði til hægri og vinstri, hafa aðhyllst valdapólitík og fórnað milljónum manna í einskisnýtu valdabrölti. Fyrir Vladimir Lenin voru manneskjur bara tölfræði, - númer á blaði og hann hafði enga tilfinningu fyrir því að hann væri að valda dauða raunverulegs fólks.
Önnur birtingarmynd valdsins er sú að þeir sem hafa völdin á hverjum tíma eru dauðhræddir um að missa þau. Júrí Andropov, sem var sendiherra Rússa í Ungverjalandi þegar uppreisn átti sér stað þar sá hvernig æstur múgur hengdi lögreglumenn upp í ljósastaura. Þeirri sjón gleymdi hann aldrei og seinna þegar hann var orðinn yfirmaður KGB og síðan aðalritari rússneska kommúnistaflokksins barði hann niður alla andstöðu af því að hann var hræddur við blinda heift múgsins, - hræddur um að kommúnistaflokkurinn í Rússlandi gæti misst völdin ef hann sleppti járnkrumlunni sem hann og síðar gerði.
En hvernig á hinn kristni maður að umgangast hið veraldlega vald ? Svarið er: Með varkárni. Hinn kristni maður á að greiða sína skatta og skyldur, hann á að hlíta lögum og leitast við að gera það sem rétt er. En ef hinn kristni maður stendur andspænis algjörlega spilltum veraldlegum valdhöfum þá skal hann minnast þess að hann er undir öðru og æðra valdi. Ef kristinn maður er t.d. kvaddur í herinn og honum sagt að fara fram á vígvöllinn og drepa menn verður hann að lýsa því yfir að hann geti það ekki af trúarástæðum þar sem hans kristna lífsskoðun bannar honum að valda dauða annarra. Sama gildir um náttúruna. Sé hinum kristna manni sagt að eyðileggja náttúru landsins verður hann að minnast þess að með því er hann að ganga gegn kjarna hins kristna samfélags. Og bregðist hinn kristni maður trúarsannfæringu sinni og heilindum hefur hann um leið brugðist sjálfum sér sem er kannski það versta hlutskipti sem til er.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)