5.12.2007 | 15:36
Venjulegur miðvikudagur
Það er venjulegur miðvikudagur hér á Selfossi. Rignir ótæpilega en ég sit inni við tölvuna, var að klára stórt verkefni og hef nóg að gera. Hafði það af að fara í klippingu og láta klippa á mér lubbann. Það verður víst seint hægt að segja að ég þjáist af hárskorti, þetta er alltaf sama gamla sagan sumir eru þunnhærðir en svo eru aðrir með hnausþykkan lubba eins og ég.
Gráu hárunum fjölgar smám saman og ég er hætt að reyna að lita yfir þau. Hjá górilluöpum eru grá hár merki um þroska og þeir apar sem hafa flest grá hár standa efstir í virðingarstiganum. Stundum verður mér hugsað til þess hvernig væri ef vestræn samfélög hugsuðu eins og það væri raunverulega borin virðing fyrir gráhærða og gamla fólkinu. Mikið vildi ég óska þess að stjórnvöld og borgaryfirvöld og öll yfirvöld hverju nafni sem þau nefnast myndu nú drífa í því að byggja svo sem 10 hjúkrunarheimili í viðbót. Ég er viss um að það dugar ekkert minna miðað við þá biðlista og þörf sem er fyrir hendi. Og ekki á þörfin fyrir langtímahjúkrun eftir að minnka.
Stundum velti ég því fyrir mér hvort að það væri ekki hollt fyrir núverandi ráðherra alla saman, að taka strætó. Sitja við hliðina á uppgefinni ræstingarkonu sem er að koma heim til sín kl. 10 um kvöldið eftir langan vinnudag, og rabba við öryrkja sem hefur ekki efni á því að eiga bíl og kemst varla inn og út úr vagninum. Ef ríkisstjórnin ætlar að standa við metnaðarfull markmið sín í loftslagsmálum (hver sem þau nú raunverulega eru?), þá ættu ráðherrarnir að ganga á undan með góðu fordæmi og taka strætó. Þá fyrst myndu þeir komast í tengsl við raunveruleikann.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.12.2007 | 10:22
Þagað um Þjórsárvirkjanir
Fjölmiðlar og sérstaklega RÚV hafa verið ótrúlega tregir að flytja fréttir af Þjórsárvirkjunum og baráttunni gegn þeim. Það mætti halda að ekki væri byrjað að grafa og djöflast við Þjórsá en svo er því miður raunin. Menn segja að vísu að gröfturinn tengist ekki virkjuninni sjálfri sem ekki hefur enn fengið framkvæmdaleyfi, heldur skyldum framkvæmdum.
Baráttan gegn virkjununum er ennþá í fullum gangi og heimamenn eru flestir ákveðnir í því að láta ekki valta yfir sig. Umhverfisráðherra hefur sagt opinberlega að ekki verði beitt eignarnámi gagnvart þeim landeigendum sem ekki vilja semja. Hvað gerir Landsvirkjun þá? Mun fara fram dulbúið eignarnám undir einhvers konar öðru nafni (eignalán, eignaskoðun, eignauppgröftur - hvað munu Landsvirkjunarmenn kalla sínar ólýðræðislegu aðferðir???)
En um allt þetta hefur verið undarlega hljótt!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.12.2007 | 11:44
Heimasíða The Planetary Society
Heimasíða félagsins sem Carl Sagan stofnaði ásamt Friedman og Murray er:
http://www.planetary.org/home
Mjög skemmtileg síða fyrir þá sem hafa áhuga á stjarnvísindum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.12.2007 | 01:55
Hvar er STARDUST núna
Geimfarið STARDUST er núna á braut um sólu en á braut sinni fer STARDUST lengra frá sólinni en Mars. Markmið STARDUST áætlunarinnar er að safna stjörnuryki, og reyna að ná sýnum af halastjörnum. Með því að rannsaka stjörnuryk geta vísindamenn fengið nánari upplýsingar um upphaf sólkerfisins og aldur þess.
Braut STARDUST sést hér til vinstri merkt með bláum hring. STARDUST er einungis eitt af mörgum verkefnum NASA.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.12.2007 | 00:31
Vefsíða NASA með nöfnum þeim sem send voru með Stardust 1
Hér er linkur á vefsíðu NASA þar sem nafnið mitt kemur fram:
http://stardust.jpl.nasa.gov/overview/microchip/namesb.html
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.12.2007 | 00:03
Nafnið mitt er á geimfarinu STARDUST sem er nú á ferð út í geim
Ég var í fjöldamörg ár félagi í félagsskap sem heitir The Planetary Society og er í Bandaríkjunum. Í mörg ár var aðalmaðurinn í þessum samtökum Carl nokkur Sagan sem stýrði myndaflokknum Cosmos sem var sýndur í íslenska sjónvarpinu þegar ég var 14 ára. Ég dáði Carl Sagan og fékk brennandi áhuga á stjörnufræði sem ennþá varir.
Árið 1997-1998 bauðst öllum félögum í The Planetary Society að skrá nöfn sín á örflögu (microchip) sem yrði síðan send út í geim með geimfarinu STARDUST. Ég var ekki lengi að skrá mig og skv. nýjustu fréttum er STARDUST núna í OUTER SPACE, semsagt nafnið mitt er komið út í geim. Einhverjir fleiri íslendingar skráðu sig á örflögu þessa, en þeir voru örugglega ekki margir. STARDUST sendi einnig eina örflögu aftur til jarðar með milljón nöfnum og verður flögunni sennilega komið fyrir í Smithsonian safninu í Washington. Þar verður nafnið mitt semsagt líka a.m.k. á meðan siðmenningin varir.
Ég veit að þið trúið þessu varla en þetta er satt. Nafnið mitt er ásamt milljón öðrum nöfnum á vefsíðu NASA yfir þau nöfn sem raunverulega voru send með geimfarinu STARDUST út í geim.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.12.2007 | 23:35
Hljóðskrár, ræður og viðtöl á netinu
Ég er nýlega búin að uppgötva að það er til slatti af gömlum ræðum, viðtölum og öðrum hljóðupptökum á netinu. T.d. fann ég þrjú viðtöl við Vladimir Nabokov og er afskaplega gaman að hlusta á málróm hans og sérkennilegan ensk-rússneskan framburð.
Einnig er hægt að finna á netinu ræðu Josifs Vissiaronovich Stalíns þar sem hann lýsir yfir sigri rússa í seinni heimstyrjöldinni. Ræðan hefur fyrst og fremst sögulegt gildi og það er hálf skrýtið að hlusta á rödd Stalíns og heyra málróm hans.
Ónefndar eru allar fréttirnar, poddköstin og annað þvíumlíkt sem hægt er að finna á netinu, en víst er að það er ansi gaman að hlusta á gamlar upptökur, sérstaklega þegar þær hafa sagnfræðilegt gildi. Þá er eins og talað sé til manns beint úr fortíðinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.11.2007 | 18:11
Of mörg umferðarslys
Ég ók yfir Hellisheiðina í myrkri og hálku í morgun. Ég treysti mér ekki til þess að aka hraðar en á 60 km/klst miðað við aðstæður sem þá ríktu. Þrátt fyrir það þurftu þrír bílar að ryðjast fram úr mér í hálku og miklu krapi og var einn þeirra næstum því kominn inn í hliðina á mér.
Þegar ég fylgist með aksturslagi Íslendinga velti ég því fyrir mér hvort að helmingur landsmanna sé hreinlega afskaplega heimskur. Vita menn ekki hvað gerist ef árekstur verður t.d. við vörubíl á 100 km hraða? Vita menn ekki hvað gerist ef bíll veltur þótt að hann sé bara á 80 km hraða? Halda menn að þeir séu leikendur í teiknimynd eins og Tomma og Jenna þar sem sögupersónurnar hafa milljón líf?
Árekstrar eru því miður aðeins spurning um eðlisfræði. Hraði líkama í km/klst sinnum líkamsþungi í kg samasem krafturinn F og það er sá kraftur sem mætir farþega og bílstjóra þegar líkaminn rekst á hart stálið.
Það eru því miður komin alltof mörg umferðarslys á þessu ári. Eitt alvarlegt slys er einu slysi of mikið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
24.11.2007 | 09:39
Köttur á heimilinu

Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.11.2007 | 20:04
Aldrei jafn mikið að gera
Allir í Reykjavík halda að það sé ekkert að gerast úti á landi, en ég verð nú að segja það að síðan ég flutti til Selfoss hef ég haft alveg kappnóg að gera. Ég er meira að segja ekki viss um að ég hafi nokkurn tímann haft jafn mikið að gera. Það eru upplestrar í Bókakaffinu hjá Elínu og Bjarna, það er kórinn, það eru prjónakvöld, fyrir utan vinnuna mína sem samanstendur af áhugaverðu samblandi af smá kennslu og þýðingum. Og nú fer í hönd jólamánuðurinn með jólaglöggi, jólakaffi, jólaskemmtunum og samkomum af öllu tagi. Það er eins gott að maður getur hvílt sig á aðfangadagskvöld og hlakka ég nokkuð til, enda alltaf notalegt að vera heima í faðmi fjölskyldunnar.
Myndin hér til hliðar sýnir einn nemanda minna að lesa undir próf.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)