21.12.2007 | 11:08
Jólakveðja
Óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs.
Þakka vináttu og hlýhug á liðnu ári.
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir
Myndirnar hér til hliðar eru af rússneska jólasveininum, heilögum Nikulási, eða Frosta afa (ded Moroz) eins og hann er stundum kallaður. Við skulum vona að enginn gleymist um þessi jól.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.12.2007 | 14:54
The rise and fall of the Roman empire

Bloggar | Breytt 21.12.2007 kl. 11:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.12.2007 | 14:18
Penninn er beittari en sverðið!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.12.2007 | 05:36
Landsvirkjunarsápan hefst
Nú er guðfaðirinn Friðrik búinn að uppgötva að hann getur farið með Þjórsárvirkjanir í útrás þrátt fyrir öflug mótmæli heimamanna og Össur aðstoðarmaður hans segir að ekki sé um einkavinavæðingu að ræða enda einkavæðing ekki á dagskrá fyrr en mjög fljótlega. Frést hefur að Friðrik sé farinn að flytja út landeigendur þurrkaða í gámum til Indlands til þess að losna við þá vegna þess að þeir eru hvort eð er alltaf til vandræða.
Mótmælendur í Flóanum hafa vaknað við það að orðin COSA NOSTRA hafa verið máluð með hestablóði á framdyr bæjarhúsa. Það er óhugur í mönnum.
Peningaþvættisfyrirtækið LV POWER er nýjasta afurð fjölskyldunnar og er til umræðu að fá Soprano fjölskylduna inn sem hluthafa. Heyrst hefur af skotbardögum niðri við Sundahöfn en engin lík hafa fundist (ennþá).
Friðrik guðfaðir er að leita að sálfræðingi, enda hefur hann verið svo hvekktur og pirraður upp á síðkastið. Hann er farinn að dreyma umhverfissinna á nóttunni og orðin Saving Iceland svífa honum stöðugt fyrir hugskotssjónum. "Ég hlýt að vera farinn að meyrna", hugsar Friðrik og hefur áhyggjur af því að hann sé að verða soft.
Fylgist með í næsta þætti þegar: Friðrik finnur dauðan kött í rúminu hjá sér. Marlon Brando kemur til Íslands, fjárfestir og reykir vindla í höfuðstöðvum LV Power. Össur dreymir Dalai Lama og ákveður að fara í pílagrímsferð til Tíbet. Björn Bjarnason flytur inn kjarnorkuskriðdreka til þess að gefa Friðrik guðföður í afmælisgjöf.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.12.2007 | 23:40
Nýfrjálshyggjan er kommúnismi nútímans
Margaret Tatcher og Karl Marx eiga það sameiginlegt að líta á efnahagsleg gæði sem meginviðmið allra hluta. Fyrst skuli efnahagurinn skoðaður, síðan fylgi allt annað í kjölfarið. Að auki tók Tatcher nýfrjálshyggjuna frá Pinochet einræðisherra í Chile, sem var frægur fyrir mannréttindabrot. Tatcher hélt alltaf hlífiskildi yfir Pinochet og kom í veg fyrir að hann hlyti refsingu.
Sagan endurtekur sig og í sögunni hefur það alltaf gerst að valdastéttir myndast, eins konar aðall eða elíta sem reynir síðan að tryggja völd sín. Elítan í dag notar frjálshyggjuna sem afsökun til þess að slátra velferðarkerfinu og draga úr lýðræði. Í Rússlandi var þessi elíta kommúnistaflokksins kölluð nomenklatúra.
Lýðræði er nefnilega alveg óþolandi í augum aðalsmanna, og velferðarkerfi - er það ekki bara til þess að púkka upp á almúgann eða pöpulinn sem á ekki einu sinni skilið að vera menntaður í augum valdamanna. Fyrir frönsku byltinguna voru miklar umræður meðal franskra aðalsmanna varðandi það hvort að það borgaði sig að vera með almenna skólagöngu þ.e. menntun fyrir almúgann. Margir aðalsmenn héldu því fram, að almenn skólaganga myndi einungis æsa upp lýðinn - fáfræði væri best. Í Bandaríkjunum vissu menn að ef þræl var kennt að lesa, þá gat hann ekki verið þræll lengur. Hve langt skyldi vera í það að almenn skólaganga verði afnumin af frjálshyggjumönnum eða henni breytt í hreina innrætingu?
En þó að frjálshyggjan hafi vaðið uppi á undanförnum árum, og geri að vissu leyti enn, skulu menn ekki gleyma frönsku byltingunni. Frjálshyggjumenn halda nefnilega að byltingin sé dauð en frjáls hugsun er þó a.m.k. ennþá starfandi í einstaka heilabúum. Ennþá lifir á meðal okkar hugsandi fólk sem talar ekki bara Newsspeak og hlýðir ekki bara stóra bróður.
Hannes Hólmsteinn sem hefur verið Suslov Sjálfstæðismanna er að mestu leyti þagnaður. Kannski hefur hann nú þegar gegnt sínu hlutverki og má missa sín? En frjálshyggjan er bara ein alræðisstefnan í viðbót. Hún mun ekki lifa að eilífu fremur en annað alræði. Spurningin vaknar hins vegar: Mun frjálshyggjan ganga að lýðræðinu (og velferðarkerfinu) dauðu?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.12.2007 | 14:42
Losun kolmónoxíðs (CO) frá samgöngum
Losun kolmónoxíðs út í andrúmsloftið af mannavöldum hefur alla tíð tengst aðallega samgöngum. Losunin hefur þó minnkað frá 1970 aðallega vegna betri véla í bifreiðum. Þrátt fyrir að kolmónoxíð, CO komi fyrir í náttúrunni, er það kæfandi eiturefni gagnvart lifandi verum af því að það binst hemoglobíni í blóðinu í stað súrefnis. Ef magn CO fer upp í 100 ppm eins og getur gerst í jarðgöngum í mikilli umferð, þá getur fólki farið að líða illa, það fengið ógleði og höfuðverk. Rannsóknir hafa einnig sýnt að mikið magn CO frá umferð í borgum eykur tíðni hjartasjúkdóma.
Almenn umferð losar ýmis önnur óskemmtileg og algjörlega ósýnleg efni út í andrúmsloftið eins og bensen, tólúen og xýlen. Þessi efni hafa ekki síður áhrif heldur en svifryk til þess að rýra lífsgæði og þau auka líkurnar á því að fólk fái krabbamein (skapa stökkbreytingar).
Kolmónoxíð losnar frá samgöngum en hvarfast tiltölulega fljótt í náttúrunni. Það er aðallega í jarðgöngum og á lokuðum svæðum sem magn þess getur farið yfir óþægileg mörk.
Heimild: Chemistry of The Environment, second edition.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.12.2007 | 08:30
Haraldur talar um sjávarflóð
Dr. Haraldur Ólafsson ræddi í útvarpinu í gær um hættu á sjávarflóðum vegna loftslagsbreytinga. Nefndi hann sérstaklega Seltjarnarnesið sem dæmi en þar varð á sínum tíma hið mikla Básendaflóð. Það var ánægjulegt að heyra að Haraldur viðurkennir veruleika loftslagsbreytinga, og er ekki að taka undir efasemdarraddir olíufélaganna sem eiga að sjálfsögðu hagsmuna að gæta. Ekki taldi Haraldur skynsamlegt að byggja mikið á landfyllingum úti í sjó, hann sagði að menn yrðu þá að nota vatnshelt parkett á neðstu hæðirnar í húsunum. Dr. Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur hefur einnig bent á heimsku þess að byggja á landfyllingum þegar allir vita að sjávarstaða fer almennt hækkandi og hætta á sjávarflóðum eykst.
Dr. Sigurður Sigurðsson afi minn kenndi mér að alltaf skyldi maður sýna fyrirhyggju og horfa langt fram í tímann. Hugsa þyrfti til langs tíma þegar ákvarðanir væru teknar. Fyrirbyggja þyrfti slys og koma í veg fyrir manntjón. Það er ljóst að vilji stjórnvöld og borgaryfirvöld í Reykjavík hugsa til langrar framtíðar munu þau ekki byggja hús sín á sandi úti á landfyllingum nema til standi að nota húsin einungis í 10-15 ár. Ef byggja á til framtíðar verður að byggja á öruggum grunni. Annað er kæruleysi.
Setja þyrfti verkfræðinga strax í það verkefni, að skrifa skýrslu um hugsanleg sjávarflóð vegna loftslagsbreytinga og aðgerðir sem hugsanlega þarf að grípa til í því sambandi. Verkfræðiþekkingin er hér sem oftar lykilþekking til þess að hægt sé að draga úr afleiðingum alvarlegra loftslagsbreytinga.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.12.2007 | 06:44
Að rugla saman ósonlaginu og gróðurhúsaáhrifum
Það eru ótrúlega margir sem rugla saman ósonlaginu og gróðurhúsaáhrifunum svona almennt. Þekking fólks á umhverfisvísindum virðist vera frekar takmörkuð og þegar komið er að eðlisfræði andrúmsloftsins verða flestir alveg kjaftstopp.
Þetta er bagalegt, vegna þess að ef fleiri áttuðu sig á vísindunum á bakvið gróðurhúsaáhrif og loftslagsbreytingar, þá væri ekki alltaf þetta sífellda rifrildi í gangi um loftslagsmál.
Ég hef sjálf verið með fyrirlestra þar sem ég útskýri vísindin á bakvið loftslagsbreytingarnar. Ég hef tekið það skýrt fram að ég er ekki að tjá mínar persónulegu skoðanir heldur að leggja fram ákveðin vísindaleg rök.
Það er mjög flókið að útskýra eðlisfræði andrúmsloftsins fyrir áheyrendum sem e.t.v. geta ekki stillt eina einustu efnajöfnu. Þetta hefur Al Gore þó sennilega tekist best manna, en þrátt fyrir það er hann ennþá mjög umdeildur.
Mikið vildi ég óska þess að fleiri nenntu að kynna sér vísindaleg rök i stað þess að detta ofan í einhverja misheppnaða heimóttarlega pólitík.
Umhverfismál eru ekki pólitík, þau eru vísindi og það er til sérstök fræðigrein sem heitir umhverfisvísindi. Íslendingar haga sér aftur á móti eins og vísindin væru ekki til.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.12.2007 | 08:56
Að bæta stöðu kvenna
Að bæta stöðu kvenna í heiminum er eina vitræna leiðin til þess að stemma stigu við óheftri fólksfjölgun jarðar. Fólksfjöldinn sem er núna um 6,4 milljarðar stefnir í 9-10 milljarða árið 2050. Það er ekki nóg að fæða nýfætt barn inn í heiminn. Það þarf að gefa barninu föt og húsaskjól, mat og framtíð, menntun og möguleika.
Það er enginn sem veit hvernig jörðin á að fara að því að brauðfæða 10 milljarða manna. Svo mikill mannfjöldi hefur aldrei verið á jörðinni fyrr. Nú felur aukinn mannfjöldi að sjálfsögðu aukinn mannauð í sér, en á sama tíma fer hreinlega að skorta pláss fyrir allt þetta fólk hér á Jörð sem er með endanlegt flatarmál.
Það hefur sýnt sig, að fái konur að ráða þá eignast þær ekki 7 börn, heldur 2-3 börn. Það er því eina leiðin til þess að draga úr fólksfjölguninni, að bæta stöðu og menntun kvenna þannig að þær eigi valmöguleika á því hvað þær eignast mörg börn. Það skiptir því miklu máli fyrir heill alls mannkynsins að konur fái að ráða lífi sínu sjálfar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.12.2007 | 00:04
Fjúkandi ruslatunnur
Jæja, það er hvasst undir Hafnarfjalli og hér á Selfossi er veðrið að ná hámarki en gengur sennilega einnig fljótt niður aftur. Ruslatunnurnar okkar tvær fuku nú samt um koll enda ekki nema hálfar. (Sorpflokkunin hlýtur að virka).
Í vissum áttum getur orðið hvasst undir Ingólfsfjalli, einkum á móts við námuna. Ég ætla mér þó ekki að fara út í veðrið til þess að tékka á þessu.
Sem betur fer er ekkert mikið af lauslegum hlutum úti í garði. Ég vona bara að jarðgerðartunnurnar fari nú ekki af stað. Jarðgerðin okkar gengur mjög vel, blússandi hiti og líf í tunnunum, en þær eru að sjálfsögðu úti í garði.
Jæja, gott að tölvan virkar í svona veðri og alltaf hægt að fara inn á vedur.is
Spurningin vaknar hvort að dýpri lægðir hér við Ísland tengjast loftslagsbreytingum???
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)