Anna Karenína - eitt af meistaraverkum rússneskra bókmennta

tolstoy2Allar hamingjusamar fjölskyldur eru eins en hver einasta óhamingjusama fjölskylda er óhamingjusöm á sinn einstaka hátt...þannig hefst skáldsagan Anna Karenina eftir Lev Nikolaitsj Tolstoj, en sagan er eitt af mestu meistaraverkum rússneskra bókmennta fyrr og síðar.  Umfjöllunarefni skáldsögunnar er hjónabandið, bæði hið hamingjusama hjónaband, en ekki síður hið óhamingjusama hjónaband Karenin hjónanna og Oblonskij hjónanna svo eitthvað sé nefnt.

Þegar sagan hefst er heimili Oblonskij fjölskyldunnar í uppnámi.  Fjölskyldufaðirinn hefur orðið uppvís að framhjáhaldi með kennslukonu barnanna (hversu lágt er hægt að leggjast?) og eiginkona og eiginmaður talast ekki lengur við (ekki að furða).  Þjónustufólkið reynir að miðla málum en veit ekki í hvorn fótinn það á að stíga.  Þarna er komin ein óhamingjusöm fjölskylda sem er óhamingjusöm á sinn einstaka hátt.  Tolstoj lýsir af ótrúlegri næmni hugsanagangi og átökum sem eiga sér stað.  Realismi Tolstojs er raunverulegri en raunveruleikinn sjálfur.

Anna Karenína fjallar einnig öðrum þræði um stöðu kvenna, þar sem Anna Karenina er ekki frjáls kona, gift manni sem hún elskar ekki (Karenin), en hann vill samt ekki veita henni frelsi.   Hin vonlausa staða Önnu leiðir að lokum til sturlunar hennar.  

Eins og lesandann kannski grunar var Lev Nikolaitsj Tolstoj sjálfur ekki mjög hamingjusamur í sínu eigin  hjónabandi a.m.k. ekki hin síðari ár.  Það er einfaldlega hægt að orða það þannig að konan hans hafi verið dálítil "gribba" og hann kannski líka erfiður á köflum.  Þrátt fyrir það var Tolstoj hlynntur auknu frelsi kvenna svona almennt enda skynsamur og upplýstur maður að eðlisfari. 

Anna Karenina er til í íslenskri þýðingu en hún var þó sennilega ekki þýdd beint úr rússnesku heldur úr dönsku eða ensku. Gæti því ýmislegt hafa skolast eitthvað til í þýðingu. 

 


Bréf til Maríu - spjall

christianitychristianbiblicaltrinitystatueoftheblessedvirginmaryVar að klára að lesa Bréf til Maríu eftir Einar Má Jónsson.  Hreint aldeilis athyglisverð bók sem allir ættu að lesa.  Hann setur fram skoðanir á hinum ýmsu atriðum en allt ber að sama brunni.  Vestræn menning virðist vera að glata fótfestu sinni, bæði á sviði mennta og menningar.  Einkum eru það frjálshyggjuöflin sem eru að leggja vestræna menningu í rúst, en hún molnar einnig innanfrá vegna ístöðuleysis og skorts á samstöðu.  Klassísk menntun hefur verið aflögð með hroðalegum afleiðingum fyrir skólakerfið (að mati höfundar) og alls konar afbygging eða dekonstrúktívismi viðgengst. 

Um leið og vestræn menning er í kreppu og molnar innanfrá vegna þess að menn eru búnir að fórna arfleifð sinni og gildismati fyrir stundargróða og persónulega hagsmuni sækja önnur menningaröfl og önnur trúarbrögð inn í Evrópu, tilbúin að fylla það tómarúm sem myndast eftir því sem vestræn menning gefur meira eftir og verður lausari í reipunum.  Veruleg hætta er á því að nánast öll vísindaleg, trúarleg og sagnfræðileg þekking mannkynsins glatist og sá þráður sem liggur til fortíðar (og áfram til framtíðar) slitni.  Slíkt rof í sagnfræðilegum og tímalegum skilningi er hættulegt vegna þess að samfélag sem lifir einungis í nútímanum er stjórnlaust samfélag.  Frjálshyggjan er í þessu samhengi tortímandi afl sem fer um eins og draugur og skilur eftir sviðna jörð.

Hvort sem menn eru sammála þeim skoðunum sem koma fram í bókinni Bréf til Maríu, eða telja þær svartagallsraus eitt, þá hvet ég allar hugsandi konur og menn til þess að lesa þessa bók og mynda sér skoðun.  Þ.e. ef fólk kann almennt ennþá að lesa bækur sem eru þykkari en 100 bls.  Hvað þá ef bókin væri skrifuð á latínu, amo, amas, amat...

 


Halastjarna hittir vetrarbraut

jhkSíðustu nótt fór halastjarnan 8P/Tuttle framhjá þyrilvetrarbrautinni (spiral galaxy) M33.  Þetta olli ótrúlegu sjónarspili sem teknar voru myndir af út um víða veröld.  Hér má sjá eina þeirra.  Þyrilvetrarbrautin M33 er fyrir neðan.

Nýárskveðja

kissing mumBestu óskir um farsælt komandi ár og þakka frábært ár sem var að líða.

Vampy og Goggi biðja að heilsa.

Ingibjörg Elsa Björnsdóttir 

 


Vesturlönd séð utanfrá

global_warmingVesturlandabúar þ.m.t. Íslendingar eru ekki jafn vinsælir alls staðar í veröldinni.  Í alræðisríkjum þriðja heimsins þar sem ríkir talsverð fátækt er í tísku um þessar mundir að kenna Vesturlöndum um allt sem aflaga hefur farið.  Staðreyndin er hins vegar sú að pólitísk spilling, skortur á athafnafrelsi og málfrelsi hamlar víða efnahagsþróun og framþróun í þeim ríkjum sem búa við alræði.

Það er barnaskapur í Vesturlandabúum að halda að önnur ríki jarðar þróist sjálfkrafa í áttina til vestræns lýðræðis.  Ekkert í þessu sambandi gerist sjálfkrafa og sumsstaðar er hætta á því að lýðræðisfyrirkomulag þróist aftur á bak til meira alræðis.  

Það er líka barnaskapur í okkur Íslendingum að halda að þriðji heimurinn geri einhvern greinarmun á okkur og Bandaríkjamönnum.  Við Íslendingar erum Vesturlandabúar og því megum við reikna með því að mæta jafn mikilli óvild og Bandaríkjamenn og jafnvel hatri í vissum heimshlutum.  Óvild í garð Vesturlanda fer frekar vaxandi og er hún talsverð jafnvel innan Evrópu.  Þessari óvild verður að mæta með ákveðinni festu og ákveðni.  Það þýðir ekki að láta sem hún sé ekki til og afneita henni.   Það er heldur enginn ástæða til þess að skammast sín fyrir það að vera Vesturlandabúi og búa við jafnrétti og lýðræði.  Ég er kristinn vesturlandabúi og ég er a.m.k. sæmilega stolt af því.  


Ekkert ferðaveður

692px-Low_pressure_system_over_IcelandJæja, nú er stormurinn skollinn á ,það hvín og syngur í öllu.  Við vorum heppin að fara yfir Hellisheiðina kl. 18:00 í gær.  Reyndar mistum við af ljúffengu matarboði hjá Rúnu, en ég sé samt ekki eftir þessu.  Strax upp úr kl. 20:00 fór veðrið að versna enn frekar.

Ég reikna með að við verðum hér á Selfossi yfir áramótin.  Við komumst hvort eð er ekki neitt í þessu veðri.  Ég er alltaf að velta því fyrir mér hvort að þessar djúpu lægðir tengist eitthvað loftslagsbreytingum.  Ég spurði Trausta Jónsson veðurfræðing að þessu en hann sagði að ekki væri hægt að segja með vissu um þetta ennþá.  Ástæðan er sú að það hafa alltaf komið tímabil hér á Íslandi með djúpum lægðum, þannig að of snemmt er að segja til um hvort að um einhvers konar meiri háttar breytingu er að ræða.

Vindhraðinn fór yfir 60 m/sek við Hafnarfjall þannig að þar hefur blásið hressilega.  Ég hvet alla til þess að fá sér heitt kakó og vera bara innivið, slaka á og lesa jólabækurnar.


Nokkur undirstöðuatriði í orkumálum

800px-Nuclear_plant_at_GrafenrheinfeldHér koma nokkur undirstöðuatriði í orkumálum.  Í fyrsta lagi hafa allir orkugjafar, einnig jarðhiti, vind- og sólarorka áhrif á umhverfi sitt, bara í mismiklum mæli.   Sólarorkuver þurfa gífurlegt pláss og valda sjónmengun.  Jarðhitinn losar skaðlegar lofttegundir og þungmálma.  Vindorkuver eru plássfrek og áberandi í landslaginu. 

Allt tal um hreina orku er því áróðurskennt og klisjukennt.  Það er aftur á móti hægt að segja að jarðhitavirkjun sé skárri en kjarnorkuver og ennfremur að sólarorkuver sé betra en jarðhiti (sé það mat viðkomandi).  Íslensku orkugjafarnir hafa almennt mjög mikil áhrif á umhverfi sitt.  Virkjuð jarðhitasvæði henta ekki lengur til útivistar og yfirleitt eru þau svæði sem þannig skemmast einnig fallegustu svæði landsins.  Vatnsaflsvirkjanir hafa einnig gífurleg spjöll í för með sér.

Ef segja á að jarðhiti sé að fullu sjálfbær, þá þarf virkjunin að endast að eilífu.  Sama gildir um Kárahnjúkavirkjun.  Nú er það svo að jarðhitavirkjanir endast í 50-100 ár og Kárahnjúkar munu e.t.v. endast í um 200 ár.  Ef við eyðum allri orku landsins á næstu 100 - 200 árum, munum við ekki skilja neitt eftir handa komandi kynslóðum.  Sú staðreynd, er næg röksemd í sjálfu sér til þess að fresta framkvæmdum um sinn.

Íslensku virkjanirnar eru einungis skárri kostur séu þær bornar saman við kjarnorkuver.  Það er skárra að hita hús og heimili með jarðhita en að nota rafmagn frá kjarnorkuverum.  Þetta er vegna hins hroðalega geislavirka úrgangs kjarnorkuveranna sem getur verið skaðlegur öllu lífi í hundruðir þúsunda ára.  Auk þess eru kjarnorkuþjóðirnar í vandræðum með að losna við úrganginn enda enginn sem vill hafa kjarnorkuúrgang nálægt sér þótt hann sé geymdur neðanjarðar.

Það er nú almennt viðurkennt, að orkugjafi framtíðarinnar er sólarorka.  Þjóðverjar hafa veðjað á sólarorku og eru nú fremstir í heiminum á því sviði.  Það er margt sem bendir til þess að í framtíðinni verði hægt að mæta orkuþörf stórs hluta mannkynsins með þægilegri og einfaldri sólarorku.

Meira að segja hér á Íslandi mætti nýta vind- og sólarorku í meiri mæli fyrir frístundabyggðir og sumarhús svo eitthvað sé nefnt.  En áhugi orkufyrirtækjanna virðist ekki vera fyrir hendi.  

Það er svosem gott og blessað að Íslenskir sérfræðingar fari til annarra landa og kenni notkun jarðhita en jarðhiti mun aldrei mæta nema litlum hluta af orkuþörf mannkynsins.  Þar mun sólarorkan og vindorkan eiga stærstan þátt í framtíðinni. 

 


Hreinn heilaþvottur

bild2_litenÝmsir Íslendingar tala mikið um hreina orku um leið og þeir tala um hreinn gróða.  "Hrein orka" er orðasamband eins og perestrojka í Rússlandi.  Sé það endurtekið nógu oft síast það inn í sálina og myndar þar svartan drullupytt. 

Sannleikurinn er sá að það er ekki til neitt sem heitir hrein orka.  Allir orkugjafar hafa neikvæð áhrif á umhverfi og náttúru, þar er bara stigsmunur á.  Jarðhitavirkjanir eru ekki einu sinni sjálfbærar nema öllu affallsvatni sé dælt niður aftur þannig að kerfið endist að eilífu.  Slíkt er ennþá ekki mögulegt.  

Jarðhitavirkjanir losa H2S, CO2 (a.m.k. 30.000 tonn stykkið), SO2 og ýmis önnur gös.  Affallsvatn frá jarðhitavirkjunum sem m.a. rennur út í Þingvallavatn, inniheldur arsen, blý, kadmíum og kopar.  Leiðslur jarðhitavirkjana verða að liggja ofanjarðar, ekki er um að ræða huldar leiðslur (hulduleiðslur?) heldur leiðslur sem eru mjög sýnilegar og sjáanlegar eins og í tilfelli Hellisheiðarvirkjunar.  Jarðhitavirkjun er þannig námavinnsla á jarðhitasvæðum og að segja að hún sé hrein orka er blekking og í raun hrein lygi.  

Vatnsaflsvirkjanir valda spjöllum með stórum uppistöðulónum.  Þær sökkva landi, eyðileggja fiskistofna, hindra rennsli aurs og silts til sjávar, breyta grunnvatnsstöðu, og valda rofi við ströndina.  Egyptar eru ekki ennþá búnir að ná sér eftir byggingu Aswan stíflunnar sem er smám saman að eyðileggja Egyptaland.   Ekki getur Aswan stíflan eða Kárahnjúkar flokkast undir hreina orku.

Það er því ljóst að "hrein orka" er slagorð eins og perestrojka, notað af valdhöfum til þess að slá ryki í augu heimsins.  Við eigum víst skv. skipun að ofan að trúa á hreina orku en því miður hef ég a.m.k. tileinkað mér önnur trúarbrögð. 


Dietrich Bonhoeffer - hugrekki í mannsmynd

Dietrich_BonhoefferDietrich Bonhoeffer var þýskur guðfræðingur sem gagnrýndi Hitler og gyðingahatur opinberlega.  Hann stofnaði ásamt Karl Barth játningakirkjuna svokölluðu (Confessional church) og var óragur við að gagnrýna stefnu nasista.  Hann var handtekinn fyrir að hjálpa gyðingum og síðar kom í ljós að hann hafði tekið þátt í áætlunum hóps herforingja sem miðuðu að því að ráða Hitler af dögum.  Dietrich Bonhoeffer var hengdur af nasistum þann 9.apríl 1945 aðeins nokkrum vikum fyrir endalok síðari heimstyrjaldarinnar.

Fræg eru bréf Bonhoeffers úr fangelsinu (Letters from prison) þar sem hann lýsir óbilandi hugrekki, kjarki og trú.  Bonhoeffer gekk á milli fanga í fangelsinu og hughreysti þá jafnvel þótt hann ætti sjálfur dauðadóm yfir höfði sér.  En Bonhoeffer var ekki einungis hugrekkið holdi klætt, hann var merkur guðfræðingur.  Þótt honum entist ekki langur aldur skrifaði hann áhugaverð rit á sviði guðfræði sem eru lesin og rannsökuð enn í dag.  T.d. skrifaði Bonhoeffer um það að maðurinn ætti að lifa eins og Kristur, þ.e. að taka sér Krist sem fyrirmynd.  Og víst er að hvað hugrekki varðar gekk Bonhoeffer sjálfur í fótspor Krists.

Bonhoeffer er minnst víða um hinn kristna heim þann 9.apríl ár hvert.   

 


Hvaðan koma okkur hugmyndir um rétt og rangt?

copticpainting13Hvort sem mönnum líkar betur eða verr, hvort sem menn telja sig guðlausa eða strangtrúaða, þá kemur siðferði okkar hér á Vesturlöndum úr kristinni trú.  Það þekkist hvergi í öðrum trúarbrögðum að sjálfur guðinn láti krossfesta sig og fórni sér þannig í kærleika fyrir aðra.  Kristur er guð sem elskar mannkynið svo mikið að hann dregur sig til baka til þess að mannkynið fái að njóta sín.  Hann gefur manninum frjálsan vilja.  En þótt maðurinn velji að vera guð-laus er enginn maður án guðs, vegna þess að guð elskaði mennina áður en þeir lærðu að elska hann.  Þannig er enginn maður útilokaður frá kærleika Krists, sama hvað á gengur. 

Munurinn sem er á kærleiksboðskap kristinnar trúar og annarra trúarbragða sést vel þegar horft er til landa eins og Saudi Arabíu og Írans.  Í Sádí Arabíu eru grimmilegar dauðarefsingar jafnvel fyrir yfirsjónir sem okkur hér í hinum kristna heimi finnast smámunalegar.  Kristinn kærleikur og kristið umburðarlyndi er nefnilega ekki eins sjálfsagður hlutur og við viljum oft halda.  Kristið fólk er gjarnt á að sýna umburðarlyndi en slíku umburðarlyndi mæta oft ekki kristnir menn sjálfir í öðrum heimshlutum.  Fregnir berast af því að hin kristna koptíska kirkja í Egyptalandi búi við ofsóknir.  Kristnir menn hafa sumsstaðar þurft að flýja heimili sín.  Við verðum að gera okkur grein fyrir því að við lifum í heimi þar sem trúarbrögð skipta verulegu máli og geta haft úrslitaáhrif fyrir líf og hamingju fólks.

Það er því rétt nú á jóladag að biðja fyrir öllum kristnum bræðrum og systrum í veröldinni, sama hvaða kirkjudeild þeir/þær tilheyra.  Og við skulum biðja fyrir því að hörðum linni stríðum og friður ríki í hjörtum mannanna, því ef ekki ríkir friður í huga og anda, er enginn friður í reynd. 

  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband