Um daginn og veginn

713px-Der_arme_Poet_(Ausschnitt_1)Eina huggunin þegar maður liggur heima með pest er að geta hugsanlega lesið eitthvað (á milli hóstakastanna).  Þannig hef ég verið að lesa bæði Davíð og Matthías Joch. og mér hefur liðið næstum því eins og brjóstveikum stúdent í lærða skólanum á 19. öld. 

En eins og Dostojevskij benti svo vel á í Glæp og refsingu,  þá er ekkert rómantískt við hitasóttir, kulda og vosbúð.  Verst var alltaf að búa í kvistherbergi í gamla daga, vegna þess að þar var rakinn mestur og kaldast.  Auk þess hvein í öllu þegar stormar geisuðu.  Davíð Stefánsson bjó í kvistherbergi í einni af ferðum sínum til Noregs og þakið lak og vindurinn gnauðaði inn um götin.  

Þegar ég bjó í kvistherbergi á Keilugrandanum hélt ég oft að þakið ætlaði að rifna af þegar norðangjósturinn var sem naprastur og ekkert skjól af Esjunni.  En nú er ég semsagt komin niður á fyrstu hæð og dettur ekki í hug að flytja aftur upp á kvist.  Það er nóg að hafa búið einu sinni í kvistherbergi.  

Það er nú samt alltaf eitthvað rómantískt eftir á að geta rætt um fátæktina á námsárunum en í raun og veru er fátækt samt ekkert rómantísk í raun og veru.  Ekki þegar hún bítur eins og Hannes Smárason hefur þurft að upplifa undanfarnar vikur.  Það er aumt að eiga ekki 6 milljarða í skotsilfri.


Snert hörpu mína

akureyriVar að ljúka við að lesa ævisögu Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi.  Sagan er lipurlega skrifuð og er afskaplega skemmtileg aflestrar einkum framan af.  Í ævisögunni kemur vel fram að Davíð Stefánsson frá Fagraskógi hefur alla tíð verið ljúfur og góður drengur sem lét sér annt um mennina og mannlífið allt.  Saga Davíðs er falleg og látlaus eins og maðurinn sjálfur og er þessi ævisaga vel þess virði að lesa hana. 

Núna á ég bara eftir að lesa ævisögur Matthíasar Jochumsonar og Hannesar  Hafsteins, og jú ég á víst eftir að lesa seinna bindið af "Jóni Sigurðssyni". 

Hlakka til að eiga eftir að lesa svona mikið af góðum bókum.   Hlýtur að vera uppbyggilegt og auðgandi fyrir andann eins og Þórbergur sagði þegar hann keypti sér stóru reykjarpípuna.  Sem betur fer reyki ég nú ekki og hef aldrei reykt.  En Þórbergur reyndi að svæla sig upp í hæstu hæðir eins og hann lýsir í bók sinni Íslenskum aðli.

Einnig á ég allt ritsafnið hans Davíðs Stefánssonar þannig að nú er ljóðalestur framundan.   


Sálmur bókasafnarans

031505_Divinity_Library_57Nú er það svo að báðir afar mínir voru miklir bókasafnarar og þegar ég var krakki var ég alin upp við mikla virðingu fyrir hinu ritaða máli.  Ég fékk bókasafnarabakteríuna frá öfum mínum og á í dag allgott og viðamikið bókasafn (sem fer frekar stækkandi).  Ég get ekki lengi bóklaus verið og ef ég kem inn á bóklaust heimili þá líður mér ekki vel.

Skáldið Davíð Stefánsson frá Fagraskógi var einnig mikill bókasafnari.  Hann lýsti tilfinningum sínum í ljóðinu "Sálmur bókasafnarans" sem kom út í ljóðabókinni Að norðan árið 1936:

"Frá barnæsku var ég bókaormur,

og bækurnar þekkja sína.

Það reynist mér best, sé regn og stormur,

að rýna í doðrantana mína.

Og þegar ég frétti um fágætan pésa,

þá fer um mig kitlandi ylur.

Að eigin bækur sé best að lesa,

er boðorð, - sem hjartað skilur. 


Hvernig skiptir andrúmsloftið um jafnvægisástand?

clouds3Við lifum á spennandi tímum.  Aldrei hefur veðurfarið verið jafn spennandi eins og nú, og spennan á bara eftir að aukast.

Allt frá iðnbyltingu hefur verið í gangi risastór tilraun með andrúmsloftið.  Gróðurhúsalofttegundum hefur verið dælt út í hið þunna andrúmsloft Jarðar, líkt og verið væri að setja efni út í tilraunaglas.  Vindakerfið sér síðan um að blanda vel og vúps ... aldrei hefur verið jafn mikið af gróðurhúsalofttegundum í andrúmsloftinu a.m.k. síðustu 650 þús árin.

Til eru vísindamenn sem segja að andrúmsloftið sé hreinlega að skipta um jafnvægisástand.  Fara yfir í nýtt "manngert" jafnvægi sem heimurinn hefur aldrei séð fyrr.  Það eru því spennandi tímar framundan og má búast við ýmsum öfgum og óróleika á meðan andrúmsloftið er að finna sitt nýja jafnvægi.  

Enginn veit nákvæmlega hvernig andrúmsloftið fer að því að skipta um jafnvægi.  Við höfum engar skriflegar heimildir fyrir slíku.  Þetta er svipað eins og þegar jörðin breytir segulpólum sínum, fyrir þessu eru fá fordæmi.

Ég ætla því að fylgjast vel með veðurfarinu næstu árin og áratugina og sjá hvað gerist.   En á meðan þá skulum við vera viðbúin alls kyns öfgum í veðurfari.  Sjálfsagt best að eiga bæði kuldagalla og sólarvörn.  You never know!


Undarlegar öfgar í veðurfari

162Crutzen2Samkvæmt kenningunni um loftslagsbreytingar leiðir losun gróðurhúsalofttegunda ekki einvörðungu til hlýnunar andrúmslofts jarðar. 

Losun gróðurhúsalofttegunda leiðir til þess að sjálft heildarjafnvægi andrúmsloftsins verður óstöðugt og jafnvel raskast.

Óstöðugt jafnvægi getur aukið allskyns öfgar i veðurfari, bæði þurrka á sumum stöðum og kuldaköst á öðrum stöðum.  Aðalatriðið er að loftslagið er að verða óstöðugra og óstöðugra og því meiri líkur á sveiflum.

Paul Crutzen hefur stungið upp á að við séum að skapa alveg nýtt "manngert" jafnvægi í loftslagi jarðarinnar, og þar með séum við að skapa veðurfar sem enginn hefur kynnst áður.  Crutzen er núna vísindamaður og nóbelsverðlaunahafi við Max Planck Institute í Þýskalandi.

Ég hef því tilhneigingu til þess að líta á þetta kuldakast sem öfgar í hina áttina sem benda til vaxandi óstöðugleika í loftslagskerfi jarðar.  Og við hér á Íslandi megum búast við meiru af þessu taginu. 


Nöldur um skort á heitu vatni

FirstFrostOnFoliage20051021-789909Nú er víst sumsstaðar á landinu skortur á heitu vatni vegna mikilla frosta.  Ekki vantar nú virkjanir og virkjanaáformin hjá orkufyrirtækjunum.  En hafa orkufyrirtækin verið að sinna hlutverki sínu?  Er ekki frumskylda þeirra að sjá íbúum landsins fyrir heitu vatni til húshitunar frekar en að vera að selja rafmagn til stóriðju.  Af hverju er t.d. ekki lögð ný leiðsla frá Helliðsheiðavirkjun niður á suðurlandsundirlendið til þess að skaffa meira af heitu vatni.  Mér skilst að Hellisheiðavirkjun fari einvörðungu í raforkuframleiðslu fyrir stjóriðju eins og staðan er í dag.  Mikið af heitu vatni fer til spillis sem mætti nýta til upphitunar. 

Spurningin vaknar hvort að það sé ekki nógu flottur bissness að skaffa hitaveituvatn til húshitunar?  Ekki nógu margir milljarðar í boði?  Mönnum væri nær að styrkja innviði  hitaveitna í stað þess að röfla alltaf um stóriðju og milljarðaframkvæmdir. 


Of lasin

200Náði mér loksins í almennilega umgangspest.  Ráfa hóstandi með hita um húsið og hugsa um það hvað maður er heppinn að gleyma því alltaf hvað það er vont að vera veikur.  Hef ekki verið svona veik í mörg ár (eða er ég svona gleymin?)

Er með hósta sem nær næstum niður í maga.  Flísjakkinn og síðu nærbuxurnar koma í góðar þarfir í frostinu.  

Kötturinn kom heim í dag og hefur elt mig á röndum allan daginn.  Ég svaf, - hann svaf, ég fór út í eldhús - hann fór út í eldhús.  Það er mesta furða að kattarrófan sé ekki farinn að blogga eins og ég. 

Öllum heimsóknum og allri vinnu aflýst í bili.  Bið að heilsa.

 

Með hóstandi kveðjum,

Ingibjörg 


Of bissí

egypt-giza-sphinxNú hef ég bara alls ekki tíma til að blogga og verður ekki bloggað næstu daga.  Sjáumst síðar.

 


Um fordóma gagnvart geðsjúkdómum - Britney Spears o.fl.

spears-britney-photo-britney-spears-6226346Nú hefur mikið fjölmiðlafár verið í kringum Britney Spears sem greinilega á við einhverjar geðsveiflur að stríða.  Fordómar vestrænna samfélaga gagnvart geðsjúkdómum kristallast mjög greinilega í þessari umræðu sem gerir grín að Britney og þeim hremmingum sem hún er lent í.  Einnig er umræðan um Ólaf F. Magnússon hér á Íslandi óvægin og miskunnarlaus.  Að vísu má spyrja sig þeirrar spurningar hvort að Ólafur hefði átt að taka að sér að vera borgarstjóri?  Um mjög lýjandi og erfitt stjórnunarstarf er að ræða og ekki víst að Ólafur sé í nógu góðu formi til þess að takast á við hlutverkið.  Hitt er annað mál að það að þjást af þunglyndi er ekkert öðruvísi en það að þjást af t.d. slitgigt í baki eða svæsnu ofnæmi.  Hvoru tveggja veldur óþægindum og getur komið venjulegum vinnudegi úr skorðum. Það er ekki víst að maður sem þjáist af miklu ofnæmi treysti sér í erfitt stjórnunarstarf.

Fordómarnir gagnvar Britney Spears og Ólafi F. valda öllu því fólki sem þjáist af geðröskunum vandræðum.  Í hverri einustu fjölskyldu eru einhverjar geðraskanir en fordómarnir gera það að verkum að fólk veigrar sér við að ræða málin opinberlega.  Einnig eru margir fársjúkir sem vilja ekki fara til geðlæknis af því að þeir/þær/þau eru hrædd við stimplun og "stigma". Nýlega var sýnd mjög góð mynd um geðhvarfasýki með Stephen Fry þar sem hann lýsir reynslu sinni af bipolar disorder.

Nú er það svo að það eru um 500 milljónir manna í heiminum sem búa við einhvers konar geðraskanir og flestar manneskjur missa einhvern tímann stjórn á sér yfir langa mannsævi.  Einungis lítill hluti þeirra sem þarf aðstoð vegna geðraskana fær aðstoð.  Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin telur geðsjúka einstaklinga þá vanræktustu í öllu heilbrigðiskerfi veraldarinnar.  Er ekki kominn tími til þess að ræða um geðraskanir og geðvernd á ábyrgan og hreinskilinn hátt?


Allt á kafi í snjó

sakharovÞað eru engar nýjar fréttir, en hér á Selfossi er allt bókstaflega á kafi í snjó.  Allir eru búnir að moka út bílana sína mörgum sinnum, en ég skokka nú bara í verslanir á tveimur jafnfljótum.  Gönguskórnir frá Cochem í Móseldalnum nýtast vel. 

Mikið afskaplega er ég fegin að vera ekki í Reykjavík.  Ekki einungis vegna svifryksins sem leggst yfir lungnablöðrurnar við Laugaveginn, heldur ekki síst vegna þess að hér á Selfossi gengur starfið í bæjarstjórninni vel eftir því sem ég best veit.  

Farsinn í borgarmálunum í REI-kjavík er hættur að vera fyndinn og valdagræðgi sjálfstæðismanna gengur út fyrir allan þjófabálk.

Ég hef alltaf sagt það.  Sjálfstæðismenn eru víðsýnir og umburðarlyndir á meðan valdastöðu þeirra er ekki ógnað.  Hins vegar um leið og ráðist er gegn völdum þeirra, grípa þeir til undirförulla klækja sem sæma myndu mönnum á borð við Jósef Stalín.

Ég hef alltaf verið fegin að vera ekki félagi í FLOKKNUM og þurfa ekki að fylgja FLOKKSLÍNUNNI.  Í Póllandi Jarúselskís voru margir sem þurftu að fylgja FLOKKNUM ef þeir vildu hafa vinnu og koma börnunum sínum til mennta.

Ég hef alltaf borið meiri virðingu fyrir mönnum á borð við Andrej Sakharov og Alexander Solsjenitsyn. Lifi skoðanafrelsi, tjáningarfrelsi og sjálfstæð hugsun. Stöndum vörð um lýðræðið!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband