Kaupstaðarferð

Er í kaupstaðarferð í stórborginni Reykjavík til þess að sinna ýmsum erindum.  Ef þið sjáið gulan Suzuki Ignis sem ekur varfærnislega um götur borgarinnar og sýnir hina mestu kurteisi, þá er það örugglega ég. 

Er að sjálfsögðu búin að fara í Kringluna en á eftir að fara í bókabúð Máls og Menningar.  Kannski sleppi ég því af því að ég fór í Bóksölu stúdenta í staðinn.

Ég er orðin eins og sveitamaður til fótanna, í ullarsokkum og gönguskóm.  Í sveitinni þýðir sko ekkert að vera alltaf á háum hælum enda er ég reyndar svo hávaxin að það myndi einungis vera hlægilegt.  

Fer síðan aftur heim í kvöld - vinnan bíður - alltaf nóg að gera!  Passið ykkur á hálkunni!


Birmankötturinn Vampy vum Daerchen...og ég

Stenst ekki mátið að setja inn myndir af mér og honum Vampy.  Njótið vel!

 014

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Erum við ekki sæt saman.

 

Og ein í viðbót...

 

015 Er hann Vampy ekki sjarmör?

 

 

 

 

 

Og hvort okkur haldið þið að ráði meiru á heimilinu

svona yfirleitt ? Úff, ekki svara!  En mikið lifandi skelfingar ósköp þykir mér vænt um litla skottið!


Hið mannhverfa viðhorf til náttúrunnar

7b1442a3b093814d25955da3fd5c56fd2c7Mannhverfa viðhorfið til náttúrunnar gerir ráð fyrir því að náttúran eigi einungis að þjóna hagsmunum mannsins.  Maðurinn er drottnari alheimsins og allir hlutir eru gerðir fyrir hann.  Samkvæmt þessu á maðurinn einn rétt til lífs.  Dýrin eiga engan rétt til lífs nema að því leyti sem þau þjóna hagsmunum mannsins, oftast um stundarsakir.

Ótrúlega margir virðast aðhyllast hið mannhverfa viðhorf til náttúrunnar...að hún sé fyrst og fremst auðlind fyrir mannskepnuna.  Það vill hins vegar oft gleymast í hinu stóra samhengi að maðurinn lifir alls ekki án náttúrunnar og getur engan veginn lifað lengi án vatns, regns, hafs, gróðurs, rennandi vatnsfalla og dýra.  Mannhverfa viðhorfið er heimskt og sjálfhverft viðhorf sem lýsir ótrúlegum hroka mannsins gagnvart öllum öðrum lifandi verum.  Smám saman ætti manninum þó að skiljast að einungis í jafnvægi og sátt við náttúruna getur mannkynið öðlast hamingju og frið til lengri tíma litið. 

Önnur bábilja er að maðurinn stjórni heiminum.  Hvílík firra.  Þegar fellibylurinn Katarina skall á New Orleans gat valdamesti maður heims, Bush bandaríkjaforseti ekki gert neitt fyrr en mesti veðurofsinn var um garð genginn.  Gagnvart náttúruöflunum erum við í raun vanmáttug, varnarlaus og oft hugsunarlaus líka vegna þess að við byggjum of oft á snjóflóðasvæðum, jarðskjálftasvæðum og eldgosasvæðum án þess að hugsa um afleiðingarnar. 


Alfred Wegener og landrekskenningin

igamwww_a-wegenerEinu sinni héldu vísindamenn að jarðskorpan og meginlöndin væru alltaf á sama stað.  En um 1920 setti Alfred Wegener fram þá kenningu að einu sinni hefði verið til eitt risastór meginland Pangea sem síðan hefði byrjað að brotna upp í nokkrum þrepum fyrir um 190 til 90 milljón árum og meginlöndin hefði rekið burt frá hvort öðru þangað til þau komust í þá stöðu sem þau eru í nú.  Þessi kenning Wegeners var kölluð landrekskenningin. 

En í fyrstu trúði enginn Wegener.  Hinir vísindamennirnir sögðu:  "Hvaða kraftur getur verið svo sterkur að hann geti hreyft meginlöndin úr stað"?  Wegener gat ekki svarað þessu til fulls og þessvegna var kenning hans ennþá ósamþykkt þegar hann fór í leiðangur á Grænlandsjökul árið 1930 þar sem hann lést í óveðri.

Það var ekki fyrr en um 1960 sem menn fóru að sjá verulegar sannanir fyrir kenningu Wegeners.  Í dag telja vísindamenn að meginlöndin hreyfist um nokkra cm á ári og hafsbotnsflekarnir sömuleiðis.  Þar sem tvær meginlandsplötur rekast saman myndast fellingafjöll eins og Himalayafjallgarðurinn.  Jörðin er þannig alltaf á hreyfingu þótt sú hreyfing sé fremur hæg.  Á löngum tíma geta meginlöndin færst sundur og saman eins og gerðist þegar Pangea brotnaði upp.  

Sannanir fyrir kenningu Wegeners er m.a. að finna í jökulrákum og jökulmenjum sem finnast í öllum heimsálfum.   Einnig eru sannanir fyrir því að risaeðlur hafi farið um mörg meginlönd í einu þegar þau lágu saman og einnig finnst burkninn Glossopteris á flestum meginlandanna og kolalög gefa auk þess vísbendingar.  Endanleg sönnun kom þó ekki á fram fyrr en vísindamenn fóru að kortleggja hafsbotninn.  Þá fundu þeir úthafshryggina þar sem flekaskil eru og plöturnar færast frá hvor annarri.  Þar með var komin sönnun fyrir kenningu Wegeners.


Hvernig er jörðin að innan?

inner earthFæstir vita það að úthafsskorpan sem við stöndum á er aðeins um 10 km þykk, á meðan að meginlandsskorpan nær í mesta lagi 70 km þykkt.  Og undir Íslandi er svokallaður möttulstrókur sem heldur landinu í raun og veru uppi fyrir ofan sjávarmál.  Möttulstrókurinn færist ekki, en Ísland er hins vegar að gliðna á flekaskilum og er hreyfingin (gliðnunin) að jafnaði um 2 cm á ári. 

Undir skorpunni er síðan hinn mikli möttull jarðar sem er aðallega úr peridótíti sem er ultramafísk bergtegund.  Mötullinn er um 2700 km þykkur og hann er að mestu leyti á föstu formi en er þó aðeins deigur eins og mjúkt kertavax.  Í möttlinum eru straumar þar sem heitt kvika berst upp en köld kvika sekkur niður.  Þessir straumar eru þó mjög hægir.  Í möttlinum eru möttulstrókar eins og t.d. undir Íslandi og Hawaii.  Þeir staðir kallast heitir reitir.  Á heitum reitum er mikil eldvirkni, hitastigull hár og jarðskjálftar og eldsumbrot tíðari en annarsstaðar.  

Neðan við möttulinn er ytri kjarni jarðar.  Hann er úr fljótandi járnblöndu og í honum eru straumar sem skapa segulsvið jarðar.  Innsti kjarninn aftur á móti er undir svo miklum þrýstingi að atómin geta ekki hreyft sig heldur eru með þéttustu pökkun og er innsti kjarninn því algjörlega úr föstu samanþjöppuðu efni.  

Radíus jarðar er einungis um 6371 km og ummál hennar við miðbaug um 40.000 km.  Jarðskorpan er einungis þunn himna sem við stöndum á og andrúmsloftið er einnig þunnt miðað við radíusinn og hinn mikla geim sem tekur við þegar andrúmsloftinu sleppir.  En nóg um það í bili. 


Eru húmanistar að reyna að eigna sér raunvísindin (sem þeir eiga ekki)?

25teresaNú er það svo að ég á bæði vini sem eru húmanistar, búddistar, og múhameðstrúarmenn fyrir utan alla hina almennt kristnu vini mína.  En eitt fer verulega í taugarnar á mér.  Það er hvernig þeir sem segjast vera atheistar og húmanistar reyna stöðugt að eigna sér raunvísindin.  Húmanistar ganga jafnvel svo langt að segja að viðkomandi geti ekki verið raunvísindamaður nema hann sé atheisti og húmanisti um leið. 

Nú er það svo að helstu raunvísindamenn samtímans eins og Hawking og Einstein neituðu því aldrei að Guð gæti hugsanlega verið til á bakvið þau náttúrulögmál eða logos sem er að finna í alheiminum.  Auk þess þá finnst mér að vísindamenn eigi að fá að hafa sín trúarbrögð persónulega í friði ef þeir á annað borð aðhyllast einhver trúarbrögð.  Þar með er ekki sagt að grípa eigi til yfirnáttúrulegra skýringa á náttúrulegum fyrirbærum.  Heldur er það einfaldlega þannig að þekking raunvísindanna nær ekki inn á hið "guðlega svið", þar sem raunvísindin enda þar taka guðfræðilegar pælingar við. 

Mér finnst margir atheistar og húmanistar í raun og veru vera "raunvísindatrúar ", þ.e. þeir trúa á raunvísindin og hina vísindalegu aðferð.  Það er svosem í góðu lagi en viðkomandi verða þá líka að viðurkenna það að bókstafleg trú á raunvísindin flokkast einnig sem trúarbrögð.  Þeir eru því ekki "trú-lausir" vegna þess að hvernig er hægt að vera trú - laus????  Maður sem hefur enga trú hann fer ekki fram úr rúminu á morgnana.  Menn verða því að setjast niður og hugsa:  Á hvað trúi ég eiginlega???  Sú sjálfsuppgötvun er holl.  

 


Verður skipt um æðstu stjórnendur OR?

Í ljósi þeirra atburða sem orðið hafa undanfarið vaknar sú spurning hvort skipt verði um æðstu stjórnendur Orkuveitunnar, - þá sömu og voru farnir af stað með kaupréttarsamninga fyrir sjálfa sig í REI málinu.  Er forsvaranleg stjórnsýsla að embættismenn búi til kaupréttarsamninga fyrir sjálfa sig þegar þeir sitja í stjórn fyrirtækis sem er í almannaeigu?  Hvað segja stjórnsýslulögin í þessu sambandi? 

Ég er ekki sátt við það að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson verði látinn gjalda einn fyrir allt sem úrskeiðis hefur farið í þessu máli.  Spurningin vaknar hversu sterkt bakland stjórnendur Orkuveitunnar hafa.  Geta þeir setið af sér storminn?

Hvor er það sem ræður,  embættismaðurinn Humprey eða stjórnmálamaðurinn James Hacker?  Var það Villi sem stjórnaði málinu?


Hannes, Bjarni, Villi og REI

hannes-og-bjarni-armannsKannski er ég að misskilja eitthvað, en mér virðist augljóst að Hannes Smárason og Bjarni Ármannsson hafi keyrt REI málið áfram af hraði vegna þess að þeir vildu komast inn í Orkuveitu Reykjavíkur sem er jú gullkálfur borgarinnar.  Hannes Smárason var einnig með Geyser Green Energy að reyna að bjarga fjárhagsstöðu FL group og Bjarni Ármanns var að hugsa um að ávaxta sitt persónulega pund. 

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson virðist hafa verið eins og deig í höndunum á bæði Hannesi og Bjarna, sem gátu fengið hann til þess að undirrita hvað sem er þótt hann vilji helst í dag gleyma þessu öllu.   

það er  ekki spurning að það eru miklir möguleikar og miklir peningar í útrás orkugeirans.  Og allir einkaaðilarnir og bankarnir vilja gjarnan eignast Orkuveitu Reykjavíkur og hitaveitu Suðurnesja til þess að geta notað þá þekkingu og þann mannauð sem þar er innan dyra.

Mér finnst þess vegna að það ætti að skoða nánar þátt Hannesar Smárasonar í þessu REI máli.  Hver var aðkoma hans, hvað gerði hann og hvernig spilaði hann úr málum.  Ég vil að Hannes Smárason verði kallaður til ábyrgðar ásamt Vilhjálmi og einnig mætti í leiðinni skoða þátttöku Bjarna Ármannssonar nánar.


Smáfuglarnir

turdJæja, núna er Hellisheiðin lokuð og Þrengslin líka og ekkert ferðaveður hérna á Suðurlandi.  Snjórinn er þungur og blautur en fýkur samt fram af húsþökunum og sveipast í kringum gluggakarmana. 

Krummi á erfitt núna,  auða hvergi lítur tó,  hvað á hrafn að eta?

Ég labbaði örstutta vegalengd heim úr skólanum í dag og ég hélt að ég myndi varla komast alla leið.  Samt var ég með mótmælahúfuna mína og trefil.  Úff...

Snjór er ágætur þegar hann er kyrr á sínum stað, en það er verra þegar hann fer að fjúka í skafla og skafrenning.  

Reyni að komast til Reykjavíkur á Sunnudaginn ef það verður fært. 

Og kæru vinir: 

Gleymið ekki smáfuglunum! 


Hugsað til liðinna tíma

Saga3Ég var svo heppin að fá að kynnast afa og ömmu vel í uppvextinum og bjó meira að segja hjá þeim í um eitt og hálft ár.  Sigurður Gísli Sigurðsson, afi minn var landlæknir og berklayfirlæknir en amma mín Bryndís Ásgeirsdóttir kenndi m.a. leikfimi og spilaði listavel á píanó.  Þegar ég var krakki hafði afi byggt reisulegt hús að Ægissíðu 70 í Reykjavík og hann átti sjónvarp.  Ég man ennþá að við keyrðum í gegnum hálfa borgina til þess að horfa á fréttirnar í svart-hvíta sjónvarpinu hans afa.  Einkum var það pabbi sem var spenntur fyrir fréttunum, en á þessum tíma var bara ein sjónvarpsrás og ekkert sjónvarp á fimmtudagskvöldum.

Á þessum tíma áttum við heima í Breiðholtinu, nánar tiltekið að Maríubakka 12,  og þar var mikið af krökkum og oft glatt á hjalla.  Mér er minnisstætt þegar ég var að læra að hjóla og sleppa hjálpardekkjunum.  Einnig eru mér minnisstæð krakkastyrjaldirnar sem geisuðu stundum á milli bakkanna og ollu miklum hugaræsingi en litlum sárindum.   Yfirleitt var þó allt í bakkahverfinu með friði og spekt. Ég man óljóst eftir að hafa tínt krækiber í móa sem seinna varð að Seljahverfi.  

Svona líður tíminn hratt og bakkarnir í Breiðholtinu eru orðnir grónir og ráðsettir, og sjónvarpið hans afa löngu liðin tíð. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband