Ryðgað járn - sagan af honum Fúsa

Heilbrigðisfulltrúinn horfði með vanþóknun á málmhrúguna sem gnæfði mikilúðleg fyrir utan fyrirtækið Bílar og húdd ehf. Hann tók fram stafrænu myndavélina, stillti fókusinn, og smellti af mynd. KLIKK! Þar með var brotið staðfest.


- Hey hvað ertu eiginlega að gera, sko? hrópaði mjóróma mannsrödd og Fúsi aðaleigandi Bíla og húdda ehf. kom þjótandi út úr fyrirtækinu í bláum vinnuslopp reyrðum um mittið. Hann var með hamar í annarri hendinni. Heilbrigðisfulltrúinn teygði úr sér og gerði sig sem stærstan.


- Þessi ruslahrúga hjá þér er farin að teygja sig yfir á lóðirnar í nágrenninu og við höfum fengið kvörtun. Þú verður að gjöra svo vel að fjarlægja þetta járnarusl eða það verður flutt burt af yfirvöldum á þinn kostnað, samkvæmt reglugerð nr. 338/2001 og Evróputilskipun 35/251/EC.


- En þetta er ekki járnarusl, - þetta eru verðmæti ... sko - þetta er eftirlaunasjóðurinn minn - ég ætla að nota þetta járn ... sko til þess að smíða bíla...


- Smíða bíla, ? sagði heilbrigðisfulltrúinn tortrygginn og gretti sig. Hann ætlaði nú ekki að trúa hverju sem er.


-Já ... sko fornbíl, frændi minn á gamlan enskan MG sportbíl sem hann ætlar ... sko að leyfa mér að gera upp. Aðeins örfáir svoleiðis bílar á landinu.


- Og hvenær ætlar þú að byrja á þessu verki ? Ég vil helst losna við þessa járnhrúgu sem allra fyrst. Ég minni þig á að samkvæmt reglugerðum 457/1999 og 36/2003 hefur borgin rétt til að grípa til aðgerða.

 

- Jaaa, sko, þetta tekur allt smá tíma, ... sko ... frændi minn er á Spáni núna að gera upp hús fyrir Íslendinga - hann er sko ... smiður ... sko. En ég þarf ...sko að nota allt járnið ... sko. Ég byrja kannski á næsta ári ... já, á næsta ári, .... alveg örugglega ... sko.


- Ég er hræddur um að ég geti ekki beðið svo lengi. Það hefur verið kvartað yfir umgengninni hjá þér áður. Getur þú ekki geymt þetta járn innandyra ?


Fúsi hrökk við. - Innandyra, sko ... neeeeeeiiii ... það er sko ekkert pláss innandyra... Ég er að geyma nokkra bíla fyrir frænku mína og síðan er einn gamall Saab 900i sem ég er að vinna við ... algjör eðalvagn...


Heilbrigðisfulltrúinn stundi og skrifaði eitthvað niður í blokkina sína. - Hvernig er það eiginlega með þína fjölskyldu - geta þessar frænkur þínar og frændur ekki geymt bílana sína sjálf ?


Fúsi horfði tærum sakleysissvip á heilbrigðisfulltrúann og sagði síðan í barnslegri einlægni – Sko ... þú veist nú hvernig þetta er ... fjölskylda er nú einu sinni fjölskylda ... sko ... maður verður að bjarga ættingjum sínum og járnið er auðvitað verðmæti, sko... jaaáá, ... hreint og klárt verðmæti...


Heilbrigðisfulltrúinn þagði í smá stund og horfði inn í sakleysisleg gráblá augu Fúsa. Hann horfði á grátt hárið sem stóð út í loftið og brúna rák af mótorolíu sem lá eftir öðrum vanganum og niður í bláan sloppinn. Síðan leit hann á járnhrúguna sem stóð hrikaleg, rústrauð og teygði sig til himins.


- Ætli ég gefi þér ekki frest... sagði fulltrúinn mæðulega og reyndi í huganum að rifja upp reglugerð nr. 358/1998 eða var það reglugerð nr. 369/1998. - Þú færð frest í þrjár vikur til þess að taka til á lóðinni hjá þér og koma öllu í betra horf. Ég vil ekki þurfa að fá fleiri kvartanir þín vegna ...- og þú mátt ekki geyma neitt drasl á lóðum annarra hér í nágrenninu skv. Evróputilskipun 456/56/EC. Þú verður að halda öllu á þinni eigin lóð.


Fúsi beygði sig og hneigði sig og nikkaði ákaft með kollinum. - Jááá, ég skal sko...já ... gera það. Ég vil ekki standa í neinum erjum við nágrannana eða yfirvaldið - ó nei, alls ekki... og þetta eru nú verðmæti,...já verðmæti... Fúsi blikkaði augunum og brosti tanngulu brosi. Það vantaði eina framtönn í efri góm.

Heilbrigðisfulltrúinn reif blað úr blokkinni sinni og rétti Fúsa. - Hérna færðu kvittunina og við viljum sjá að þú takir til hér sem allra allra fyrst. Ég kem og lít til þín aftur eftir þrjár vikur.


Fúsi greip blaðið skjálfandi hendi og brosti um leið. Heilbrigðisfulltrúinn renndi upp rennilásnum á bláa jakkanum og kinkaði kolli um leið og hann gekk í áttina að bílnum sínum. Hann fann til dapurleika. Hann grunaði að eftir þrjár vikur yrði allt við það sama. Það var eins og draslið í borginni yxi af sjálfu sér og þetta var ekki í fyrsta skipti sem kvartað var yfir Fúsa. Best að gefa karlinum smá tíma hugsaði fulltrúinn um leið og hann skellti bílhurðinni.


Fúsi settist niður við lítið eldhúsborð með plastdúk á kámugu verkstæðinu og fékk sér Frón kremkex. Kaffið var volgt og hálfsúrt. Hann horfði á almanak með mynd af Ungfrú Vesturlandi 2003. Hann hafði þrjár vikur til stefnu. Ungfrú Vesturland brosti til hans seiðandi og heillandi brosi. Það var eins og hún vildi draga hann til sín inn í jökulinn. Kvenfólk. Fúsi var næstum því búinn að gleyma því hvernig það leit út. Konan hans sáluga hafði dáið úr krabba fyrir meira en tíu árum. Fúsi tók með olíubrúnum höndum utan um skiptilykilinn og sneri sér að Saabnum. Hann strauk með hægri hendinni mjúklega og varlega yfir gyllt lakkið. Hvílíkur eðalvagn, upprunalega í eigu málarameistara í Keflavík. Hann hafði komist yfir hann fyrir algjöra heppni þegar fimmti eigandinn, kona á fimmtugsaldri hafði ætlað að farga bílnum í Vöku. Farga bílnum ! Hvernig datt fólki slík vitleysa í hug ? Henda verðmætum? Fúsi ætlaði sko ekki að láta þau mistök henda sig.


Í þrjár vikur hugsaði Fúsi ekki um neitt annað en Saabinn. Hann þurfti að skipta um gírkassa. Það var það eina sem gat klikkað í Saabnum – gírarnir. Og þessi skrýtni siður hjá Svíunum að skilja bílinn alltaf eftir í bakkgír. Og svissinn var niðri á milli sætanna. Þessara mjúku plusskenndu sæta. Fúsi var u.þ.b. að fara að loka verkstæðinu og ganga frá fyrir nóttina þegar hann sá bláklæddan heilbrigðisfulltrúa, þrjóskulegan á svip með blýant og blokk standa gleiðfættan við hliðina á risavaxinni járnhrúgunni á miðri lóðinni. Æi – hann hafði gleymt bévítans járninu. Nú voru nágrannarnir enn einu sinni orðnir vitlausir.


Heilbrigðisfulltrúinn var mjög þrjóskur að eðlisfari en hann hafði samt þá trú að hann væri sæmilega sanngjarn maður. En nú var honum misboðið. Járnhrúgan hafði einungis stækkað á þeim þremur vikum sem liðnar voru og ekkert benti til þess að brotamaðurinn iðraðist synda sinna eða ætlaði að bæta um betur. Heilbrigðisfulltrúinn stundi og tók fram blokkina.


- Ég get sko útskýrt þetta, sagði Fúsi með bænarrómi og það vottaði fyrir örvæntingu í svipnum. – Ég hef sko verið mjög önnum kafinn undanfarið,... það voru sko gírarnir ... já gírarnir...ég sver það... ég var bara alveg búinn að gleyma þessu.


- Fékkst þú ekki bréf frá Reykjavíkurborg þar sem vísað var í reglugerð nr. 78/1993, Evróputilskipun 356/56/EC og þú beðinn um að fjarlægja draslið skilyrðislaust ? sagði Þorsteinn þvermóðskulega og það var þungt í honum hljóðið.


-Ha,...bréf,sko...nei...ég ... fæ ekki alltaf póstinn...ég skil hvort eð er ekki þessi formlegu bréf...ég er bara einn hérna...engin skrifstofa sko...það getur svo sem vel verið að það hafi komið bréf... maður fær nú svo oft bréf frá yfirvöldunum...sko...já skattinum ...ekki má gleyma skattinum...sko.


Heilbrigðisfulltrúinn horfði með þrjóskusvip á Fúsa. Hvernig fór karlfauskurinn að því að lifa af í nútímaþjóðfélagi ? Kunni hann ekki að lesa ? Fulltrúinn horfði inn í sakleysisleg augu Fúsa og bráðnaði. Kannski kunni karlgreyið bara alls ekki að lesa. Kannski var hann einn af þessum örfáu sem kunnu ekki á internetið og fylgdust ekki með því sem var að gerast. Kannski var þetta mál fyrir Félagsþjónustuna. Heilbrigðisfulltrúinn horfði á olíusmurðar hendur Fúsa og bláan sloppinn. Karlgreyið leit út eins og hann hefði ekki borðað ærlega máltíð dögum saman.


- Ef þú tekur ekki til á lóðinni hjá þér innan einnar viku þá neyðist ég til þess að áminna þig – sagði heilbrigðisfulltrúinn þunglega, með mikilli alvöru í röddinni. Hann yrði einhvern veginn að gera karlinum það ljóst að honum væri alvara. – Og ef þú sinnir ekki áminningunni þá flytjum við allt járnið burt á þinn kostnað og það verður dýrt. Við viljum ekki fá fleiri kvartanir þín vegna.


- En þetta eru sko verðmæti... sagði Fúsi, tók upp ryðgaðan járnbút og strauk honum mjúklega með hendinni. – Og sko... ég skil ekki af hverju nágrannarnir...sko... eru að kvarta. Þeir eru sko sjálfir með stóran gám á lóðinni hjá sér. Það er hægt að smíða mikil listaverk úr svona járni...


Heilbrigðisfulltrúinn stundi. – Það kemur málinu ekki við. Það hefur verið kvartað yfir umgengninni hjá þér og þú verður að taka til á þinni lóð. Þú ert að brjóta að minnsta kosti þrjár reglugerðir og eina Evróputilskipun. Ég gef þér viku frest í viðbót. Annars færðu áminningu.


Fúsi beygði sig lítillega fyrir heilbrigðisfulltrúanum og brosti vingjarnlega. - Ég skal þá taka til sko ... strax á morgun... ég lofa því... Hann strauk kámugri hendinni um úfið og tætt grátt hárið og gekk hægt til baka í átt að verkstæðinu.


Þremur vikum síðar stóð stór rauður vörubíll og þrír menn frá hverfismiðstöð borgarinnar fyrir utan verkstæðið hjá Fúsa og virtu fyrir sér málmhrúguna. Gul hjólaskófla gerði sig líklega til þess að fjarlægja efstu járnbútana. Það heyrðist ískrandi skraphljóð þegar stál mætti járni. Þá kom skyndilega grannvaxinn fullorðinn maður í bláum vinnuslopp hlaupandi út úr fyrirtækinu Bílar og húdd ehf., klifraði óvenju fimlega (miðað við aldur) upp á málmhrúguna og hengdi sig utan í hjólaskófluna. Skóflan nam staðar og maðurinn hékk kyrr á skóflunni. Blái sloppurinn blakti eins og fáni í vindi.


- Hvað ertu að gera öskraði einn af mönnunum þremur frá hverfismiðstöðinni – ertu brjálaður ? – Þið skuluð sko láta járnið mitt í friði sko, hrópaði mjóróma mannsrödd.


Hjólaskóflan stóð fyrst kyrr en seig svo hægt niður og lét manninn í bláa sloppnum snerta jörðina. Hann stóð á fætur og steytti hnefana í áttina að gröfustjóranum. Mennirnir þrír gerðu sig líklega til þess að grípa fullorðna manninn en hann stökk aftur fimlega upp á járnhrúguna. Í sömu mund kom lögreglubíll akandi eftir götunni. Daginn eftir mátti lesa stutta frétt í Dagblaðinu á þriðju síðu neðarlega undir fyrirsögninni: Lögreglan handtók óðan verkstæðiseiganda í Höfðahverfi. Til hliðar var mynd af gráhærðum manni í bláum vinnuslopp sem gerði tilraun til þess að berja þrekinn lögreglumann í aðra öxlina með hamri. Á bakvið sást gul hjólaskófla moka járnarusli upp á vörubílspall.


Að bíða í hljóðri þögn

The image “http://web.mit.edu/fjk/Public/gifs/Medvedev-young.gif” cannot be displayed, because it contains errors.

Roy og Zhores Medvedev voru frægir bræður og andófsmenn í Sovétríkjunum.  Zhores var stimplaður geðveikur fyrir að gagnrýna Stalín og Roy var rekinn úr starfi fyrir að skrifa gagnrýna ævisögu um þennan sama Josif Vissarionovich.

Á meðan Zhores reyndi að útskýra að hann væri í raun eðlilegur og normal (þrátt fyrir skoðanir sínar), sat Roy Medvedev og skildi ekkert í því afhverju hann fékk aldrei bréf, afhverju enginn hringdi í hann eða bankaði upp á?  Roy var umlukinn óendanlega mikilli þögn.  Ef hann skrifaði grein í blöðin var henni ekki svarað.  Ef hann hrópaði upp mótmælaorð var einfaldlega ekkert sem gerðist.  ...nema þögn.

Nú hef ég sjálf t.d. gagnrýnt stjórnvöld fyrir að ætla að virkja á virku jarðskjálftasvæði í Neðri hluta Þjórsár. Ég fór meira að segja í fjölmiðla og gagnrýndi stjórnvöld og Landsvirkjun.  En ... ekkert svar kom nema þögn.  ...endalaus þögn.  Ingibjörgu Elsu Björnsdóttur er einfaldlega ekki svarað!

Þannig er ég að upplifa dálítið það sama og Roy Medvedev upplifði á sínum tíma.  Ég skrifa og skrifa - gagnrýni og gagnrýni en ekkert mætir mér nema þögnin. Látum hana bara blogga, - hugsa andstæðingarnir og svara engu.  Við þegjum hana í hel hugsar Landsvirkjun.

En ég mun halda áfram að blogga.  Ég mun blogga um þöggun í íslensku þjóðfélagi, hvað er sameiginlegt með Hannesi Hólmsteini og Suslov, Hvað er íslenskur hægri-stalinismi og hvað er sameiginlegt með  íslenska Sj-St-Flokknum og sovéska kommúnistaflokknum eins og hann var og hét.

Og ég bíð í hljóðri þögninni. 

 


Hinn ópólitíska og sjálfgefna pólitík sjálfstæðisflokksins

Sjálfstæðisflokkurinn eða Flokkurinn eins og við skulum kalla hann lítur ekki á sig sem pólitískan.  Hann lítur á sig sem eðlilegan og normal.  Algengar eru setningar eins og: ég þoli ekki pólitík og kýs þess vegna sjálfstæðisflokkinn.

Hins vegar eru VG alveg hræðilega pólitískir í augum Flokksins og allir sem kjósa þá - eru að taka afstöðu í pólitík (á móti Flokknum sem er auðvitað bannað). 

Sjálfstæðisflokkurinn er nokkurs konar sjálfgefið gildi (default value) í pólitík.  Það er einkennandi fyrir fylgismenn Flokksins, að þeir eru mjög stoltir af því að vera í Flokknum og eru alltaf að blaðra um Flokkinn og Flokkslínuna fram og til baka.  

Á meðan sitja fylgismenn annarra flokka og þegja þungri og merkingarþrunginni þögn.  Þeir þegja af því að þeir hafa kannski misst vinnuna, eða tapað viðskiptum af því að þeir voru ekki í Flokknum.

Fylgismenn Flokksins eru sjálfhverfir.  Þeir skilja alls ekki af hverju einhverjum getur liðið illa í fyrirmyndarríki Flokksins.  Íslendingar eru hamingjusamasta þjóð í heimi.  Á Íslandi á öllum að líða vel a.m.k. meðan Flokkurinn stjórnar.

En það eru alltaf fleiri og fleiri sem eru farnir að þegja og horfa á Flokksmennina án þess að segja orð.

Þeir eru að hugsa. 

  


Dagurinn þegar ég breyttist í andófsmann - íslensk mannréttindabrot

http://lts.brandeis.edu/webarchive/50th/images/sakharov.jpg

Ég breyttist í andófsmann í íslensku þjóðfélagi daginn sem mér var sagt upp starfi hjá ríkinu vegna baráttu minnar í umhverfismálum.  Ég hafði starfað sem sérfræðingur hjá ríkisstofnun og var orðin ansi háttsett undir menntamálaráðuneytinu.  Þá var mér fyrirvaralaust sagt að ráðningarsamningur við mig yrði ekki endurnýjaður.  Engar athugasemdir voru gerðar við starf mitt.   Opinbera skýringin var fjárskortur.  Nokkrum mánuðum síðar var ráðin ný manneskja í minn stað.

Raunverulega ástæðan fyrir uppsögn minni var að ég hafði lýst yfir andstöðu við hvalveiðar stjórnvalda, álversframkvæmdir og virkjanaframkvæmdir.  Ég hafði mótmælt stefnu stjórnvalda og ég var einnig nýbyrjuð að blogga.  Því segi ég að það er ekki skoðanafrelsi, málfrelsi eða ritfrelsi í íslensku þjóðfélagi og íslensk stjórnvöld brjóta hiklaust mannréttindi komist þau upp með það frá lagalegum sjónarhóli.

Eftir að ég gerðist andófsmaður hef ég passað mig á því að láta engan annan stjórna minni lífsafkomu eða mínu lífi.   Núna stjórna ég mínu lífi sjálf og það kemur engum öðrum við hvernig ég fer að því að bjarga mér.

En í dag treysti ég hvorki stjórnvöldum né stjórnsýslunni almennt.  Ég er andófsmaður. 

 


Pólitískur hráskinnaleikur og blekkingar í fjölmiðlum

The image “http://www.leksikon.org/images/konsentrasjonsleir1.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.Ég er fyrst og fremst vísindamaður, andófsmaður og þýðandi en ekki stjórnmálamaður.  Ég neyðist þó stundum til að skipta mér af stjórnmálum þegar farið er beinlínis rangt með vísindalegar staðreyndir eða þegar reynt er að ljúga að almenningi. 

Íslendingar eru upp til hópa svo illa að sér í umhverfismálum, að þeir halda að umhverfismál séu bara pólitík.  

Umhverfismál eiga rætur sínar að rekja til ákveðinna niðurstaðna raunvísindanna og það er til sérstök grein innan raunvísindanna sem heitir umhverfisvísindi, síðan eru til umhverfisefnafræði, umhverfiseðlisfræði og aðrar slíkar greinar sem tengjast inn í umhverfisvísindin.

Umhverfisefnafræðin segir okkur að ákveðin efnahvörf eigi sér stað í andrúmsloftinu.  Efnahvörf þessi eru algjörlega ópólitísk og lúta bara ákveðnum náttúrulögmálum.  Skv. þessum efnahvörfum eru mengandi lofttegundir sem maðurinn losar út í andrúmsloftið að breyta samsetningu þess.  Og samkvæmt þeim mælingum og þeim niðurstöðum vísindanna sem eru að berast til okkar um allan heim, er jörðin og loftslag hennar að taka breytingum.

En ekki hér á Íslandi.  Íslendinga vita alltaf allt best sjálfir, jafnvel þótt að þeir séu margir illa menntaðir  í raunvísindum og geti ekki lesið efnaformúlur.  Egill Helgason er einn af þessum sjálfskipuðu og sjálfmenntuðu sérfræðingum okkar í loftslagsmálum.  Ekki veit ég hvað Egill fékk í efnafræði í menntaskóla en hann er greinilega viss um að hann viti allt um eðlis- og efnafræði andrúmslofts jarðar.  Egill þykist vera algjör sérfræðingur í kolefnishringrásinni.  Síðan fær hann með sér annan snilling, einn pólitískasta efnafræðing landsins, - Glúm Björnsson og saman skemmtu þeir sér við að gera grín að vísindasamfélagi veraldarinnar - af því að þeir vita jú allt betur, þessir tveir, en allt vísindasamfélag heimsins.  

Egill Helgason vitnaði líka óspart í bloggara sér til stuðnings.  Hvílíkar gæðaheimildir.  Ekki datt Agli Helgasyni eða Glúmi Björnssyni í hug að vitna í Michael B. McElroy, yfirmann umhverfisstofnunar Harvard Háskóla, enda er Michael B. McElroy ekki sammála Agli Helgasyni eða Glúmi Björnssyni í loftslagsmálum.  Edward O. Wilson, einn kunnasti líffræðingur heims er heldur ekki sammála Agli og Glúmi.

Staðreyndin er sú að á Íslandi er það Ríkisstjórnin og Flokkurinn sem reynir að stjórna hugsanagangi fólks og hann stjórnar reyndar flestum fjölmiðlum líka.  Flokkurinn krefst hlýðni og hollustu og flokksmenn verða að fara eftir Flokkslínunni.  Á Íslandi er ekki lengur skoðanafrelsi, hugsanafrelsi, málfrelsi eða ritfrelsi.  Flokkslínan segir að Íslendingar eigi að þegja, borða hval, borga okurvexti, og tala af hroka og fávisku um loftslagsbreytingar.

Og á meðan að Egill Helgason segir íslensku þjóðinni að loftslagsbreytingar séu bull í anda Flokksins, heldur ísinn á Kilimanjaro áfram að bráðna, snjórinn í Ölpunum hverfur hratt, þurrkar í Afríku aukast, Bangladesh fer að sökkva í kaf, eyjar í Kyrrahafinu hverfa undir sjávarmál, kóralrif hvítna og eyðileggjast, lífverur og heilu lífkerfin færa sig um set eða deyja út, skordýraplágur aukast, og malaría breiðist út.

Hvenær ætlar mín íslenska þjóð að losa sig undan oki Flokksins að byrja að horfast í augu við raunveruleikann? 

Minni í þessu sambandi á skrif Zceslaw Milosz um pólska kommúnistaflokkinn og hvernig hann reyndi á sínum tíma að hafa áhrif á hugsanagang fólks.  Þeir sem ekki eiga Milosz geta í staðinn lesið Machiavelli. 


Þrjátíu þúsund orð

Var að klára 30.000 orða þýðingu.  Húrra,  Jibbý, Loksins.  Alveg að verða vitlaus á þessari tölvumállýsku en núna er þessu verkefni vonandi endanlega lokið.

Spennt að vita hvað kemur næst ?


Að varast poshlost, vulgarity og lágkúru

http://www.history.ucsb.edu/faculty/marcuse/classes/201/pix/31DaliPersistenceOfMemory.jpg

Á rússnesku er til hugtakið poshlost sem er einhvers konar lágkúra eða það sem englendingar kalla vulgarity.  Eitt af því mikilvægasta sem hægt er að gera er að forðast melodramatíska lágkúru t.d. í bókmenntum eða í sjónvarpi.  Reyndar finnst mér alltof mikið af sjónvarpsefni vera melodramatískt bull,  þannig að ég horfi orðið frekar lítið á sjónvarpið.  Mér finnst sjónvarp lágkúra. 

Í staðinn les ég bækur.  T.d. er ég núna að lesa Peril at End House eftir Agöthu Christie á rússnesku.  Það er yndilega skemmtilegt og krefjandi að lesa um Hercule Poirot á rússnesku.  Ég efast um að ég myndi vilja lesa hann á íslensku.  Annars þá les ég alltaf bækur á frummálinu, ef ég get.  Ég keypti mér meira að segja kennslubók í arabísku en hætti við að lesa bókina þegar ég uppgötvaði að það þarf að lesa hana aftur á bak. 

En það er mikilvægt að stefna hátt og hefja sig upp yfir hversdagsleikann.  Algjör óþarfi að sökkva ofan í fen lágkúru og leiðinda enda nóg af verðugum viðfangsefnum sem hægt er að takast á við í lífinu.   


Gaman að kenna

kennslaÞótt ég starfi nú að langmestu leyti við þýðingar og textavinnslu þá hef ég verið að kenna aðeins hér á Selfossi.  Bæði hef ég kennt í Fræðsluneti Suðurlands, svo og hef ég prófað að kenna í FSU sem stundakennari.  Það er skemmst frá því að segja að mér finnst kennslan afskaplega gefandi og skemmtileg að öllu leyti nema það að launin hafa ekki verið neitt sérstaklega spes.  En ég hef verið einstaklega heppin með nemendur og fengið að kenna mörgu úrvalsfólki. 

Nú er það svo að ég á ekki langt að sækja kennaragenin, enda faðir minn prófessor, afi minn líka og móðir mín hefur alla tíð verið barnakennari.  Þannig að sennilega er ég barasta með kennaragenið í mér sem Kári í íslenskri erfðagreiningu hefur örugglega áhuga á að einangra og skoða nánar.  

Ekki hef ég þó áhuga á því að fá að vita meira um genamengi mitt a.m.k. ekki persónulega.  Mig langar t.d. ekkert að vita það hvort að ég er í sérstökum áhættuhópi varðandi einhverja skelfilega sjúkdóma.  Til hvers að hafa áhyggjur af því fyrirfram hvort að maður fái eitthvert sjaldgæft heilkenni í ellinni eða bullandi hjartveiki?

En kennslan er skemmtileg og það er gott að vera innan um fólk og umgangast nemendur og aðra kennara.  Síðan sit ég líka mikið heima við þýðingar og ritstörf (og blogg auðvitað).  En ég er afskaplega sátt við líf mitt eins og það er í dag.   Loksins er ég orðin nógu gömul til að vita hvað ég vil gera og hvað ég vil ekki gera.  Og þrátt fyrir allt krepputal virðist alltaf vera nóg að gera hjá mér og þetta er líka spurning um það að vera dugleg að skapa sér verkefni og búa til verkefni, sé eitthvað lítið að gera, sem er nú svosem aldrei a.m.k. ekki þegar ég er annars vegar.

Ég ætti kannski að vera með námskeið varðandi það hvernig maður á að skapa sér starfsvettvang utan Reykjavíkur?  Hef reyndar verið að hugsa um að skrifa bók sem myndi heita:

1001 starf sem þú getur unnið utan Reykjavíkur.  

Viss um að hún yrði metsölubók.

Góðar stundir. 

 

 


Nettó erlendar skuldir þjóðarinnar

Er einhver sem getur sagt mér hvað kostnaður vegna álversframkvæmda og virkjunarframkvæmda er stór hluti af núverandi nettó erlendum skuldum íslensku þjóðarinnar?  Og er það ætlun ráðamanna að auka við þessar nettó erlendu skuldir þjóðarinnar með það í huga að hagvöxtur kann að fara minnkandi á næstu árum en ekki vaxandi?

Glöggt er gests augað

http://i57.photobucket.com/albums/g230/lurkur_2006/Skaftafell/skaftafell107.jpg

Glöggt er gests augað og ég hef verið að ræða við ferðamenn og innflytjendur hér á Íslandi sem skilja ekki alveg hvernig Íslendingar hugsa.  Dæmi:  Hér á Íslandi flokkum við ekki sorp heldur hendum öllu almennt á sömu öskuhaugana.  Af hverju gerið þið þetta segja hinir erlendu gestir.  Vitið þið ekki að eftir 20-40 ár verður eitrað kvikasilfur og kadmíum farið að leka úr þessum eitruðu sorphaugum ykkar auk þess sem þeir verða fullir af gasi.  Er ekki viturlegra að flokka lífræna sorpið frá og henda ekki rafhlöðum á haugana?

Fleira skilja erlendu gestirnir ekki.  Af hverju leggið þið ekki áherslu á að útbúa fleiri gangstíga um landið ykkar þannig að landið geti tekið á móti fleiri ferðamönnum án þess að skemmast?  Af hverju seljið þið ekki aðgang inn í þjóðgarðana til þess að fá fé til þess að vernda þá náttúru sem þar er að finna.  Af hverju spyrjið þið ekki ferðamenn sem hingað koma fyrirfram hvert þeir ætla að fara þannig að ekki þurfi að leita að þeim uppi um fjöll og firnindi þegar þeir lenda í villum?

Af hverju verndið þið Íslendingar ekki náttúruna, fyrirbyggið að hún eyðileggist og vinnið það starf sem þarf til þess að landið geti tekið á móti fjölda fólks án þess að skemmdir verði á umhverfinu?  Af hverju byggið þið virkjanir og álver þegar miklar líkur eru á því að þorskstofninn hafi minnkað vegna þess að framburður ánna kemst ekki lengur til sjávar?  Af hverju eru Íslendingar svona ákafir að eyðileggja land sitt? 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband