18.5.2008 | 00:40
Hverjir eiga Ísland?
Nú er það svo að Íslendingum hefur löngum staðið uggur af Rússum og má rekja þann ugg aftur til Kalda Stríðsins og þess ástands er þá ríkti. Íslendingar reyndar voru svo hræddir við Rússa að þeir flúðu beint í faðm Bandaríkjamanna og NATO til að leita sér hjálpar - kannski flúðu menn of langt.
Ekki skal borið á móti því að það er erfitt að vera smáríki í veröld þar sem neitt er aflsmunar og reglur realpólitíkur virðast gilda. En faðmur stórveldanna er kaldur og miskunnarlaus. Hann gefur ekkert af sér en krefst í staðinn blóðfórna eins og hjá Astekum hið forna.
Bandaríkjamenn virðast hafa krafist þess að fá aðgang að orkulindum Íslendinga í skipti fyrir vernd í varhugaverðum heimi. Herinn hvarf á braut en í staðinn komu bandarísk stórfyrirtæki og náðu tangarhaldi á efnahagslífi landsins og fengu aðgang að "endurnýjanlegu" orkulindunum.
Nú vaknar spurningin. Hvernig eiga Íslendingar að fara að því að endurheimta sitt sjálfstæði úr járngreipum stórvelda og stórfyrirtækja? Eigum við íbúar þessa lands að þegja og leyfa Bandaríkjamönnum og Rússum að skipta landinu á milli sín? Rússar fá Vestfirði og olíuhreinsunarstöð, Bandaríkjamenn fá Austfirði og álver.
Það skal enginn maður halda að Rússar fái að byggja olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum án góðfúslegs leyfis og samþykkis Bandaríkjamanna.
Þá vaknar óneitanlega spurningin: Hvaða stórveldi ræður stjórnarráðinu og er Sjálfstæðisflokkurinn kannski á leiðinni að verða Ósjálfstæðisflokkurinn? Myndi það bjarga einhverju að fara að ráði Samfylkingarinnar, - blanda ESB í málin og gefa Evrópu t.d. Suðurlandið? Langar Frakka og Breta líka að skipta Íslandi á milli sín?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.5.2008 | 22:11
Að byggja á bjargi
Nú er það svo að kristin trú er stundum talin gamaldags og fjarri nútímanum enda sumar frásagnir Biblíunnar mjög fornar. En þegar nútíminn er í vanda, þegar sverfur að og nútímamaðurinn upplifir að hann hefur ekkert fast til þess að byggja á, er gott að leita til þeirrar visku og þeirrar trúar sem hefur lifað í þúsundir ára. Það má jafnvel segja að það sé ákveðinn styrkur kristinnar trúar að hún er ekki bundin við eina ákveðna siðmenningu, eða ákveðinn tímapunkt í mannkynssögunni. Boðskapur kristinnar trúar er ætíð tímabær, á ætíð erindi og leitar alltaf inn í þá menningu sem er til staðar á hverjum tíma. Þannig er kristin trú og hinn kristni boðskapur í senn hluti af mannkynssögunni og einnig upphafinn (transcended) yfir mannkynssöguna. Hinn kristni boðskapur felur í sér að á bakvið hið skammvinna, hverfula og hvikula er eitthvað eilíft, fast og varanlegt sem er kærleikur Guðs. Á sama tíma gerðist Guð maður í Jesúm Kristi og gengur þannig að fullu inn í hina mannlegu tilveru. Sjálfur Guð, skapari heimsins, er orðinn hluti af mannkynssögunni. Þannig mætast hið tímabundna og hið eilífa og hvert einasta andartak lífsins fær eilífa vídd gegnum samband og tengsl mannsins við Guð. Þannig má segja að hin kristna trú byggi á bjargi sem vísar til hins eilífa grundvallar hennar þar sem líf hvers manns hvílir ekki í tímabundum ranni sögunnar heldur í kærleiksríkri hendi Guðs.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.5.2008 | 18:12
Ást við fyrsta mjálm - naggrís fæst gefins
Alexandra fór í fyrsta skipti til dýralæknisins í dag. Þar var hún formlega skráð sem í minni umsjá, þannig að núna ber ég ábyrgð á lífi hennar og heilsu. Alexandra var ekkert sérstaklega hrifin af bílferðinni. Hún mjálmaði stöðugt og henni var illa við hraðahindranir. En hún var bara góð hjá dýralækninum.
Naggrísinn, hann Goggi, er hins vegar ekkert sérstaklega hrifinn af kettinum Alexöndru. Alexandra vill alltaf leika við hann þannig að það er hætta á því að þegar kötturinn stækkar geti leikurinn við naggrísinn endað með ósköpum.
Þannig að ef ykkur langar í afskaplega indælan skapgóðan og ljúfan naggrís sem er barnavænn og bítur ekki, þá getið þið haft samband í síma 562 4776. Búr og hús með matarskálum fylgir.
Athugið að myndin er ekki af Gogga naggrís, en er samt dáldið lík honum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég hef nokkrum sinnum dottið í það að taka greindarvísitölupróf á netinu af því að mér finnst gaman að leysa slíkar þrautir. Árangurinn er nokkuð misjafn eftir því hvernig prófin eru og eftir því hvort að ég er þreytt, er að leysa prófið um miðja nótt (eins og núna) eða hvort að ég er í stuði.
Greindarvísitölupróf eru punktmæling, þ.e. þau mæla bara greindina á þeim tímapunkti þegar prófið var tekið. Þannig segir prófið í raun mjög lítið um erfðafræðilega greind.
Ég hef komist að því að greindarvísitala mín er nokkuð fljótandi eftir því hvort að ég er í stuði. Ef ég er að taka slíkt próf andvaka um miðja nótt fæ ég út töluna 135 en ef ég er í stuði um miðjan dag og í góðu formi get ég farið upp í þetta 140-150. Hæsta sem ég hef fengið í online greindarvísitöluprófi á netinu er 150 en alls er óvíst að ég nái þeirri niðurstöðu nokkurn tímann aftur.
Skv. þessu er ég álíka greind og Hillary Clinton, og greindari en núverandi forseti Bandaríkjanna sem er metinn á sléttar 125 (sem á reyndar að þýða að hann er ekki eins vitlaus og margir halda).
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.5.2008 | 15:27
Hvað þýðir það ef framkvæmd hefur farið í umhverfismat?
Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, sagði skv. frétt á visir.is nýverið að það væri í lagi með virkjanir í neðri hluta Þjórsár af því að þær hefðu staðist umhverfismat. En hvað þýðir þetta "að standast umhverfismat"? Hvað er maðurinn nákvæmlega að segja.
Umhverfismat er unnið af verkfræðistofum sem eru algjörlega háðar stórum verkkaupum, þ.m.t. Landsvirkjun og verktakafyrirtækjum um verkefni. Umhverfismötin eru unnin af "hlutlausum" sérfræðingum sem eiga þó á hættu að missa jafnvel vinnuna ef þeir komast að rangri niðurstöðu eða telja að framkvæmdin eigi ekki fram að ganga.
Þrýstingurinn á þessu örfáu einstaklinga sem vinna hvert umhverfismat er gríðarlegur. Fyrirtækið sem þeir vinna hjá eiga á hættu að tapa verkefnum ef umhverfismatið misheppnast.
Það er mikill misskilningur að umhverfismat geti stöðvað framkvæmdir. Umhverfismat hefur aldrei stöðvað eina einustu framkvæmd. Umhverfismatið hefur þann eina tilgang að sníða af helstu vankantana sem eru á framkvæmdinni svo sem eins og að fyrirbyggja að hún skemmi verðmætar fornleifar.
Þannig er umhverfismat aðferðafræði sem er ekki alveg gagnslaus en dugar þó skammt. Umhverfismatið er langt í frá að vera hlutlaust tæki, enda er það framkvæmdaraðili sem borgar fyrir umhverfismatið og notar sína starfsmenn að hluta til til að vinna að slíku mati.
Í þessu sambandi er vert að hafa í huga, að það er ekki til ein einasta verkfræðistofa á Íslandi sem þorir að storka valdi Landsvirkjunar eða sambærilegra stofnana.
Yfirleitt eru umhverfismatsskýrslurnar sendar í yfirlestur til framkvæmdaraðila fyrir birtingu þannig að framkvæmdaraðili getur valið að "sleppa" óþægilegum staðreyndum í skýrslunni ef svo ber undir. Það er því full ástæða til að skoða hvað stendur ekki í hverju einstöku umhverfismati ekki síður en hvað stendur þar.
Þótt framkvæmd hafi staðist umhverfismat hefur það nákvæmlega enga þýðingu eins og staða mála er í dag. Það hefur nánast aldrei komið fyrir að framkvæmd hafi EKKI staðist umhverfismat og er því ekki hægt að líta á umhverfismatið sem próf sem þarf að standast. Umhverfismatið er einungis hluti af undirbúningi framkvæmdar og þess vegna hefði verið réttara af forstjóra Landsvirkjunar að segja að miklu fé og miklum tíma hafi verið varið í tæknilegan undirbúning virkjana í Neðri hluta Þjórsár, sem er eflaust rétt, en þýðir samt sem áður ekki að framkvæmdin sé hagkvæm né æskilegt að fara í hana. Þvert á móti.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.5.2008 | 07:33
Verkefni sumarsins
Er komin með verkefni sumarsins, sem er að þýða bók. Hef yfirleitt verið að þýða minni verkefni svosem eins og þriggja daga eða viku verkefni, en fæ semsagt núna heila bók til að þýða. Hvað bókin heitir segi ég ekki á þessu stigi málsins. Þeir sem eru rosalega spenntir verða bara að hringja í mig og spyrja.
Annars er allt gott hér á Suðurlandinu. Vorlaukarnir eru farnir að springa út í garðinum og Alexandra litla stækkkar með hverjum deginum. Þessi köttur er algjör rúsína og hjartað í mér bráðnar þegar hún sofnar á maganum á mér.
Fyrir mér er jafn eðlilegt að vera með dýr eins og að draga andann. Mér finnst bara menn og dýr eiga að vera saman á þessari Jörð svoleiðis, en ég verð nú samt að viðurkenna að ég borða ennþá skinku.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.5.2008 | 22:51
Að vera orðlaus
Hvað á maður að blogga um þegar maður hefur ekkert að segja. Bara lýsa þessari hversdagslegu hamingju sem felst í því að sætta sig við lífið og tilveruna svona almennt. Ég tel sjálfa mig vera bara nokkuð hamingjusama manneskju, og talsvert lánsama. Ég á marga vini og kunningja, yndislega fjölskyldu, tvö sjarmerandi gæludýr (köttinn og naggrísinn) og ég lifi við tiltölulega mikið öryggi.
Auðvitað getur ýmislegt ógnað þessu hversdagslega öryggi mínu. Það er nóg sem hægt er að hafa áhyggjur af. Nefni sem dæmi útbreiðslu kjarnorkuvopna, geislavirkan úrgang og förgun hans, loftslagsbreytingar, heimskreppu, ollíukreppu og þá staðreynd að ýmis frumefni jarðar gætu gengið nánast til þurrðar innan 100 ára.
En hugvit mannsins er óendanleg auðlind og þess vegna aldrei að vita hvað mannkynið á eftir að gera næst. En ég er viss um að sá tími mun koma þegar ruslahaugar jarðarinnar verða grafnir upp aftur og þeir endurnýttir. Það kemur að því að við hættum að henda, sóa og týna og förum að spara og varðveita. Þá verður aftur hægt að gera við gömul sjónvarpstæki og það verður gert við gömlu skóna en þeim ekki fleygt. Er það ekki bara heilbrigð skynsemi?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.4.2008 | 07:30
Hverjir eru fatlaðir og hverjir ekki?
Nú er það svo að skilin á milli fatlaðra og ófatlaðra eru langt í frá að vera jafn skýr og margir vilja vera láta. Stundum hefur sú hugsun flogið í gegnum huga minn, að allir séu með einhverja fötlun á einhverju sviði. Það getur þó verið mismunandi hvers eðlis fötlunin er, að því leyti hversu mikil áhrif hún hefur á líf viðkomandi.
En skiptir fötlunin raunverulega máli? Er það ekki manneskjan sem skiptir máli? Nú er það svo að ég átti bróður sem hét Sigurður Björnsson og hann var bundinn við hjólastól fyrst og síðar rafmagnshjólastól. Bróðir minn var einn hugrakkasta, sterkasta og yndislegasta manneskja sem ég hef nokkru sinni kynnst. Samt var það oft svo að þegar fólk hitti bróður minn, þá sá það ekkert nema hjólastjólinn og hélt jafnvel að það þyrfti að tala öðruvísi við hann en annað fólk.
En það var ekki hjólastólinn sem skipti máli. Hjólastólar eru bara hjálpartæki á sama hátt eins og gleraugu. Það dettur engum í hug að koma öðruvísi fram við þá sem nota gleraugu en aðra. Af hverju á þá einn hjólastóll að skipta máli?
Mér fannst bróðir minn alltaf vera miklu stærri en þessi litli hjólastóll sem hann var sitjandi í. Bróðir minn var stórkostleg manneskja og ég verð að segja fyrir mitt leyti að núna skipta hjólastólar, hækjur og gleraugu mig engu máli. Það er manneskjan sem situr í hjólastólnum sem vekur áhuga minn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.4.2008 | 00:03
Hækkandi verð á olíu og vandi ráðamanna
Það hefur löngum verið vitað að veraldlegt vald er vandmeðfarið, og að það spillir þeim sem með það fara. Algjört vald spillir algjörlega. Þannig voru Faraóarnir og Babýlóníukonungarnir í Gamla Testamentinu gjörspilltir af valdi og valdhroka. Þeir voru ekki í neinum tengslum við raunveruleikann. En af hverju er ég að nefna þetta.
Jú, vegna þess að íslenskir ráðamenn eru farnir að minna dálítið á Babýlóníukonunga. Þeir fljúga um á einkaþotum, hitta erlenda höfðingja og líta á sjálfa sig sem alþjóðlegar stjörnur á heimsmælikvarða. Þeir láta aka sér um á eðalvögnum og þegar örvæntingarfullir vörubílstjórar grípa til aðgerða heima fyrir verða íslenskir ráðamenn bara pirraðir, reiðir og svekktir.
Undanfarið ár hefur bensínverð hækkað um 40%, kornverð fer hækkandi, það er ákveðinn skortur á matvælum í veröldinni og verð á sáðkorni hefur einnig farið hækkandi.
Hvað ef það er olíukreppa í uppsiglingu? Ef olíukreppa skellur yfir veröldina mun alþjóðavæðingin kafna í eldsneytisskorti. Það mun ekki lengur borga sig að flytja kiwi frá Nýja Sjálandi til Íslands. Allar samgöngur munu lamast.
Við skulum ekki gleyma því að franska byltingin hófst með brauðskorti. Brauðskortur er hættulegur, olíuskortur ekki síður. A.m.k. er hann hættulegur fyrir ráðamenn sem hugsa lítið um velferð og daglegt líf almennings. Hættulegur fyrir ráðamenn sem hunsa vörubílstjóra.
Nú er það svo að ég hef lesið mikið um bæði frönsku byltinguna og rússnesku byltinguna. Mig langar satt best að segja ekkert sérstaklega að upplifa byltingu persónulega nema þá helst hugarfarsbyltingu. Byltingar eru sögulegar hamfarir, með yfirleitt grimmum blóðsúthellingum og átökum sem ekki eru eftirsóknarverð fyrir þá sem lenda í þeim. En hugarfarsbyltingar eru aftur á móti frekar friðsamleg fyrirbæri. Það er í huga hvers manns sem vinna þarf sigur. Það er með því að breyta hugarfarinu sem sigurinn vinnst að lokum. Engu fæst áorkað með ofbeldi nema náttúrulega frönsku byltingunni - en hver vill lenda í slíkum hamförum?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.4.2008 | 18:10
Gleðilegt sumar!

Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)