5.6.2008 | 17:13
Kalda stríðið og pyntingar nútímans
Á dögum Kalda stríðsins fréttu Bandaríkjamenn af því að Rússar væru orðnir fróðir um það hvernig ætti að pynta fólk. Alexander Solsjenitsyn lýsti þessum pyntingaraðferðum Stalínstímans í bókum sínum um Gulag eyjaklasann. En færri vissu að Bandaríkjamenn vildu náttúrulega ekki vera eftirbátar Rússa í þessum efnum og þróaði CIA ásamt hjálp sálfræðinga eins og Ewen Camerons pyntingaaðferðir sem enn eru notaðar í fangelsum Bandaríkjamanna í dag.
Aðferðir Bandaríkjamanna voru síðan notaðar í Chile á dögum Pinochets og hafa verið notaðar víða um heim síðan. Það er vitað mál, að alveg sama hvað einstaklingurinn er sterkur fyrir, það er hægt að einangra hann og brjóta niður á 3 dögum eða svo. Þeir sem eru svo óheppnir að lenda í höndum böðlanna eiga engan sjens.
Það er óhugnanlegt til þess að hugsa að það eru ekki lengur bara kommúnistarnir og vondu kallarnir sem eru að beita pyntingum. Í dag virðast það ekki síður vera Bandaríkjamenn (þ.e. góðu gæjarnir) sem eru að beita pyntingum, og nota fangaflug og fangaskip. Það er því mjög nauðsynlegt að styrkja óháð samtök eins og Amnesty International sem berjast gegn þessum óhugnaði án tillits til landamæra. Og við skulum biðja fyrir þeim sem sitja í einangrun á þessari stundu og hafa e.t.v. þegar liðið miklar þjáningar.
Það er ekkert í veröldinni sem afsakar pyntingar eða slíka meðferð á fólki. Þetta er hrein grimmd.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
3.6.2008 | 21:33
Mannkynið er óaðskiljanlegur hluti af náttúrunni
Náttúruhamfarir og jarðskjálftar minna okkur á að við erum óaðskiljanlegur hluti af náttúrunni. Við erum ekki hafin yfir náttúruna, heldur erum við hluti af henni. Við uppgötvum skyndilega að það skiptir okkur máli að eiga góð vatnsból og við skiljum betur að við verðum að eiga sterkar byggingar til að mæta veðri og vindum. Stór hluti frumanna í líkama okkar er örverur sem lifa sínu eigin lífi og þegar við deyjum gengur efnið í líkama okkar inn í hringrás náttúrunnar. Við erum komin af jörðinni og verðum aftur að jörðu (þar með er ekki verið að segja að upprisan sé ekki góð og gild).
En vestræn siðmenning hefur í þúsundir ára gengið út frá því sem vísu að mannkynið væri upphafið yfir lög og reglur náttúrunnar. Það er einn mesti misskilningur sem er til staðar í veröldinni í dag. Náttúrulögmálin gilda um okkur líka, okkar samfélög og þau setja okkur ramma sem við VERÐUM AÐ FARA EFTIR. Ef við tökum ekki tillit til náttúrulögmálanna erum við að stefna sjálfum okkur í voða og framtíð næstu kynslóða.
Náttúrulögmálin eru ekki eitthvað sem hægt er að semja um eftir hentugleikum. Það er ekki hægt að fá undanþágu frá eldgosi. Þess vegna skiptir miklu máli að við reynum að aðlaga samfélög okkar þeirri náttúru sem þau búa við.
Það er ekki framtíð Jarðarinnar sem er í húfi, - það er framtíð og velferð mannkynsins.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.6.2008 | 07:37
Lífið færist í eðlilegt horf
Nú er lífið loksins að færast í eðlilegt horf hér á Selfossi og í dag er fyrsti vinnudagurinn eftir skjálftann. Annars er það misskilningur að öll hús hér séu skemmd, - það er fullt af húsum á Selfossi sem voru á púðum og skemmdust nánast ekki neitt. Einnig er það ekki rétt að allir Selfyssingar séu í sjokki, þótt sumum sé náttúrulega illa brugðið.
En núna er skjálftavirknin í rénum og ekki von á fleiri skjálftum á næstunni. Losnað hefur um spennu við Selfoss þannig að nú ætti að ríkja hér friður næstu 20-30 árin a.m.k.
En það er samt full ástæða til að festa nú bókaskápana við vegginn og taka niður af efstu hillu verðmætu blómavasana vegna þess að slíkt ættu allir að hugsa út í sem búa hér á Íslandi, - einnig Reykvíkingar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
30.5.2008 | 22:31
Skjálfti og skyndihjálp
Af gefnu tilefni vil ég taka fram að við Valgeir vorum í Reykjavík þegar skjálftinn reið yfir. Við fórum hins vegar austur eins fljótt og við gátum (Valgeir strax - ég snemma í morgun). Síðan ég kom til Selfoss hef ég verið að vinna sem sjálfboðaliði hjá Rauða Krossinum, enda hef ég verið sjálfboðaliði þar síðastliðin fimm ár.
Rauði Krossinn er stórkostleg mannúðarhreyfing og mjög gott starf sem hann vinnur. Það eru fáir sem kunna betur að takast á við afleiðingar náttúruhamfara en einmitt Rauði Krossinn. Virðing mín fyrir Rauða Krossinum eykst sífellt eftir því sem ég kynnist starfinu betur. En í dag var ég mest að búa til kaffi, hita mat, redda hinu og þessu og þar fram eftir götunum.
Það er ekki spurning að fólk á að leita áfallahjálpar ef því líður illa. Ég vil því hvetja alla á Suðurlandi sem líður illa vegna skjálftanna að tala við Rauða Krossinn. Það er ekkert óeðlilegt að fólk finni fyrir streitu, bregðist illa við titringi (t.d. þegar bíll ekur framhjá), eða eigi erfitt með að sofna. Best er að viðurkenna og leyfa sjálfum sér að líða illa - þá minnkar áfallastreitan smám saman.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.5.2008 | 21:26
Heldur Hellisheiðin?
Suðurlandsskjálftar hafa þann eiginleika að byrja austast í þverbrotabeltinu og færast síðan vestar. Skjálftinn sem varð í dag er í samræmi við þetta mynstur. En eitt vekur óneitanlega athygli þegar dreifing jarðskjálfta er skoðuð. Það er mikið af jarðskjálftum á Hengilsvæðinu og mikið af jarðskjálftum jafnan á Reykjanesinu og við Kleifarvatn, en Hellisheiðin sjálf er yfirleitt tiltölulega róleg.
Bergið í Hellisheiðinni er svo sterkt að það virkar sem einskonar þröskuldur og kemur í veg fyrir að skjálftaórói við Hengil tengist beint skjálftunum á Reykjanesinu. En hvað gæti gerst ef bergið í Hellisheiðinni myndi hrökkva til? Gæti þá orðið skjálfti t.d. á Bláfjallasvæðinu eða þar fyrir ofan?
Með skjálftanum í dag virðist þrýstingurinn aukast á Hellisheiðina og Bláfjallasvæðið. Ég er alls ekki að segja að það verði annar stór skjálfti á næstunni, jafnvel ekki næstu áratugina. Ég vil einungis benda á, að líkurnar á skjálfta vestan við Ölfus og á Hellisheiða- og Bláfjallasvæðinu hljóta smám saman að aukast með tímanum. Þetta verða menn að hafa í huga þegar þeir eru að skipulegga frekari virkjanir á Hellisheiði og einnig verður að gæta að því að ef skjálftavirkni færist nær höfuðborginni þarf að gæta fyrirhyggju og undirbúa að skjálfti um 6 á Richter gæti hugsanlega orðið í Bláfjöllum eða á Hellisheiði.
Allur er varinn góður!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.5.2008 | 09:38
Hver er náungi minn?
Á þeim 20 mínútum sem tekur þig að skoða bloggið, munu um 1100 manns deyja í þróunarlöndunum af völdum vannæringar og skorts. Mörg dauðsföll má einnig rekja til þess að fólk neyðist til þess að drekka mengað vatn sem getur smitað það af taugaveiki eða jafnvel kóleru. Fjölónæmir berklar eru algengir í Rússlandi og Austur Evrópu, einkum í fátækari hlutum þessara landa þar sem aðbúnaður fólks er lélegur. Á meðan þú lest þessar línur býr um 1 milljarður manna við fátækt sem veldur tjóni bæði á sál og líkama.
Við sem búum í ríkustu löndum heims berum sameiginlega ábyrgð á þessari stöðu mála. Við erum sameiginlega sek í því að viðhalda heimsmarkaðskerfi sem tekur frá þeim fátæku og gefur þeim ríku. Ríkar þjóðir nota auðlindir og hráefni fátækari ríkja sjálfum sér til hagsbóta en jaðarsvæði og fátækustu íbúar heims bera lítið sem ekkert úr býtum.
Þessi sameiginlega sekt okkar er erfið viðureignar. Fæstir stjórnmálamenn þora að horfast af alvöru í augu við spurningar um félagslegt réttlæti og raunveruleg mannréttindi. Þeir eru flestir varðhundar kerfisins og verja hina óréttlátu skipan veraldarinnar með kjafti og klóm. Stjórnmálamenn eru einnig flæktir í allskyns hagsmunatengsl, og þeir eru margir hverjir háðir stórfyrirtækjum sem hafa greitt í kosningasjóði. Það er því vandfundinn sá stjórnmálamaður sem þorir að ráðast gegn kjarna vandans, gegn hinni óréttlátu heimsskipan.
Við eigum þannig réttilega að vera með samviskubit vegna þess hvernig við sameiginlega förum illa með fátækustu íbúa jarðar. Það skiptir því miklu máli að við, íbúar ríku landanna, öxlum ábyrgð og reynum að draga úr fátækt og örbirgð í heiminum. Einnig ættum við að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda undireins, vegna þess að loftslagsbreytingar munu bitna harðast á fátækari íbúum heimsins. Það er okkar að grípa til aðgerða.
Viskan er nefnilega fólgin í því að hugsa fyrst og fremst um aðra, en ekki alltaf um sjálfan sig.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.5.2008 | 20:51
Júróvisjón - ópíum fyrir fjöldann
Júróvisjón keppnin er með lélegri tónlistarviðburðum hvers árs. Fæst laganna skilja nokkuð eftir sig, ekki einu sinni laglínu. En Júróvisjón keppnin er guðsgjöf fyrir lélega stjórnmálamenn. Í nokkrar vikur er ekkert annað í fjölmiðlum en Júróvisjón og tala nú ekki um ef að Ísland myndi vinna Júróvisjón, þá myndi kreppan gleymast og fylgi ríkisstjórnarinnar rjúka upp úr öllu valdi.
Þannig er Júróvisjón keppnin ágætis ópíum fyrir fjöldann, leið til að svæfa umræðuna og komast hjá erfiðum spurningum. Það skiptir varla máli hvað gerist í pólitíkinni á meðan að Júróvisjón er í gangi. Aðeins velgengni Íslendinga í Júróvisjón getur aukið fylgi ríkisstjórnarinnar.
Bloggar | Breytt 3.6.2008 kl. 08:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.5.2008 | 07:33
Fingrafar Guðs
Ég er ljós heimsins, sagði Kristur og það er staðreynd að í veröldinni er alltaf eitthvað ljós, einhver óútskýranleg birta. Einnig er það óneitanlega staðreynd að heimurinn er fagur. Þessi fegurð heimsins er mikil ráðgáta því að ekki virðist vera nein sérstök ástæða fyrir henni önnur en sú að Guð - skapari heimsins gat ekki annað en skapað eitthvað sem var í eðli sínu gott og fallegt. Þessi fegurð veraldarinnar er því nokkurs konar fingrafar Guðs. Ljósið og birtan, litirnir, margbreytileikinn, liljur vallarins, allt vísar þetta til hins eilífa kærleika og hinnar miklu fegurðar sem er að finna í hjarta skaparans. Þess vegna er ekki annað en hægt að viðurkenna að veröldin er óendanlega fögur þótt stundum sé vegur lífsins grýttur og seinfarinn. En Guð gat ekki skapað veröldina án þess að skilja eftir eitthvað af sjálfum sér í þessum heimi og þess vegna, og einvörðungu vegna þess, er heimurinn fagur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.5.2008 | 08:41
Sól á suðurlandi
Af því að ég er búin að skrifa svo mikið um realpólitík verð ég að taka fram að ég er nú ekki alltaf að hugsa um mannkynssöguna. Eins og t.d. í dag. Ég fór í gönguferð í morgunsárið og naut sólarinnar. Þetta lítur út fyrir að verða fallegur og bjartur dagur.
Grasið er að verða grænt og loksins finnst manni sumarið vera komið. Vorlaukarnir heppnuðust vel og marglitir túlípanar skreyta nú blómabeðið í garðinum. Annars er garðurinn ein stór grasflöt sem bíður eftir því að búin verði til beð eða eitthvað skemmtilegt skipulagt.
Moltugerðin gengur sinn gang og það lækkar hratt í tunnunum þessa dagana. Mér skilst að við minnkum sorpmagnið um a.m.k. 30% með því að jarðgera lífræna úrganginn. Það þýðir 30% minni urðun og það munar um minna. Einnig erum við með græna tunnu og getum sett í hana dagblaðapappír og þar fram eftir götunum.
Seinna í dag þarf ég að fara með reiðhjólið út á bensínstöð og setja loft í dekkin. Það verður alltaf svo loftlaust eftir veturinn. En ég ætla að hjóla mikið í sumar. Þegar bensínið er svona dýrt er óþarfi að vera að aka stuttar vegalengdir.
En það er yndislegt að sumarið skuli vera komið og gott að geta setið úti í garði. Og svo er alltaf kaffi á könnunni!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.5.2008 | 01:19
Hvað er realpólitík?
Realpólitík kallast sú óhugnanlega, miskunnarlausa valdapólitík sem alþjóðastjórnmál láta oft stjórnast af, einkum þegar stórveldi eins og Rússar, Bandaríkjamenn eða Bretar eru annars vegar. Það er út frá röksemdum realpólitíkur og valdajafnvægis sem farið er í stríð og það er út frá köldum og miskunnarlausum rökum hennar sem kjarnorkusprengjum var varpað á Hiroshima og Nagasaki.
Realpólitík er með öðrum orðum pólitík sem afsakar valdbeitingu, stríð, morð og pyntingar með einhverjum rökum sem snerta valdastöðu, valdajafnvægi og þar fram eftir götunum. Realpólitík er pólitík allra einræðisherra og hún er örugglega sú pólitík sem iðkuð er í helvíti, ef helvíti er til annarsstaðar en hér á jörð.
Það er nauðsynlegt fyrir Íslendinga að vita að realpólitík er til og að henni er beitt í veröld sem er oft á tíðum alveg miskunnarlaus. Hitt er annað mál, að það er ákvörðun hvers einasta manns hvort að hann ákveður að ganga á vegum kærleikans og miskunnseminnar eða ganga á vegum hins veraldlega valds. Kristur sýndi okkur veg kærleikans en í ritningunni stendur skrifað að varast skuli hið veraldlega vald (beware of the Powers that be). Maður skyldi því varast að láta heilsa sér á torgum og vísa sér til hefðarsætis í veislum. Allt er það hégómi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)