Að lifa af olíukreppu - nokkrar leiðbeiningar

cambridge_bicycle_racing_track_teamEinhvern tímann mun hún koma - stóra olíukreppan - og þá er eins gott að vera búinn að undirbúa sig.  Nú þegar eru margir farnir að finna fyrir háu olíuverði en þetta er ekki neitt miðað við það sem mun gerast þegar olían fer að klárast í raun og veru (hvenær sem það nú verður).

Nokkrar einfaldar leiðbeiningar fyrir þá sem vilja lifa af olíukreppuna miklu:

1. Losaðu þig við Jeppann eða Pick upinn og þú skalt planta hjólhýsinu í garðinum - það gæti komið í góðar þarfir síðar þegar ættingjarnir flytja til þín (af því að þú varst sá eini sem varst undirbúinn undir kreppuna).

2.  Gerðu þig óháðan olíu að svo miklu leyti sem hægt er - notaðu reiðhjólið - það styrkir þig og bætir heilsuna. (og þú sparar kaup á einkaþjálfara).

3.  Flyttu út úr bílaborginni Reykjavík eða ef það gengur ekki þá eins nálægt vinnunni eins og hægt er.  Ef þú þarft að versla í stórmarkaði þá skaltu gera stórinnkaup einu sinni í viku en ekki smáinnkaup á hverjum degi.  Reyndu að kaupa hús með góðri staðsetningu (þannig að þú getir gengið í verslun eða niður í bæ).

4.  Prófaðu að setja upp sólarsellu eða vindmyllu og gera þig óháðan orkufyrirtækjunum. (Síðan skaltu hlægja framan í Landsvirkjun!)

5.  Settu upp matjurtagarð og borðaðu eins mikið af íslenskum mat eins og hægt er. (hann er hvort eð er bestur).

6.  Ef þú vinnur hjá flugfélagi þá skaltu fá þér aðra vinnu áður en flug leggst næstum því af. (Jarðfræðingar, verkfræðingar og umhverfisfræðingar verða mjög eftirsóttir þegar olíukreppan mikla verður komin á skrið). 

7.  Hugsaðu hvernig þú getur best endurnýtt og endurunnið - gerðu við bilaða sjónvarpið og slepptu því að kaupa flatskjá.  Fáðu þér gott geymslupláss og farðu vel með hlutina. (lifðu eins og afi og amma gerðu)

8.   Notaðu taupoka í staðinn fyrir plastpoka.  

9.  Borðaðu meira af grænmeti og borðaðu íslenskt kjöt. 

10. Og síðast en ekki síst, borgaðu upp verðtryggðu lánin nógu snemma áður en verðbólgan fer upp úr öllu valdi. (Hvað gerir maður við lánin ef verðbólgan er orðin 1300 %?)

13. Sparaðu og eyddu einungis í þá hluti sem eru skynsamlegir fyrir framtíðina.

14.  Ferðastu innanlands. (þú hefur hvort eð er ekki efni á flugfargjaldi lengur).


Gjaldmiðilssjokk í anda Friedmans

great_depression_photographEftir því sem heimsmarkaðurinn hefur farið æ meir eftir kenningum hagfræðingsins Miltons Friedmans hefur hann orðið mun viðkvæmari fyrir áföllum.  Frjálst flæði fjármagns um hnöttinn endilangan ásamt spákaupmennsku hefur gert það að verkum að hagkerfi eins og það íslenska verða æ oftar fyrir áföllum.  Friedman leit ekki á slík áföll sem vandamál heldur tækifæri til þess að koma á ennþá hreinari kapítalisma og keyra í gegn neyðarráðstafanir.

En íslenska hagkerfið er ekki bara að upplifa gjaldmiðilssjokk sem á sér erlendar rætur.  Einkavæðing íslenska hagkerfisins, skuldasöfnun og stóriðjuframkvæmdir hafa lagt grunninn og undirbúið jarðveginn fyrir þá kreppu sem við sjáum í dag.  Kárahnjúkar voru fjármagnaðir með lánsfé aðallega frá USA og Bandaríkjamenn munu vilja fá þá peninga til baka með tíð og tíma.

Þessvegna er helbert brjálæði að ætla að fara að taka fleiri erlend lán til stóriðjuframkvæmda.  Meiri stóriðja mun einungis festa kreppuna í sessi.  Ennfremur þarf ekki ekki nema hressilega lækkun á álverði á heimsmarkaði og þá fer efnahagur Íslands endanlega til andskotans.

Skuldir íslenska þjóðarbúsins eru farnar að slaga upp í skuldir þróunarríkja og við erum farin að líkjast þeim einnig að því leiti að við erum aðallega að flytja út ál og fisk.  Hagkerfi okkar er því opið og afskaplega viðkvæmt fyrir árásum spákaupmanna og sveiflum á heimsmarkaði.

Þessi staða mála er engin tilviljun.  Hagfræðingar af Chicago skólanum hafa unnið markvisst að því að koma á hreinum kapítalisma í mörg ár bæði á heimsmarkaði og jafnvel hér á Íslandi.  Og núna finnum við fyrst fyrir því hvernig hann virkar.

Hagfræði velferðarkerfisins og Keynes var hagfræði sem átti að koma í veg fyrir heimskreppu.  Hagfræði Miltons Friedmans er hagfræði sem beinlínis stefnir að heimskreppu til þess að hið Bandaríska heimsveldi geti tryggt yfirráð sín yfir auðlindum heimsins. 


Hvað var Dr. Jeffrey Sachs að gera á Íslandi?

vegtable venders smJeffrey Sachs er einn aðal hagfræðingur heimsins og hann hefur m.a. komið til Íslands til þess að ræða við forsetann, ráðamenn og koma með ábendingar og ráð.  Sachs getur meðal annars stært sig af því að hafa náð tökum á óðaverðbólgu í Bólivíu og hann átti einnig þátt í því að koma á nokkurs konar markaðshagkerfi í Rússlandi. 

EN...

Dr. Jeffrey Sachs er einnig maðurinn sem stuðlaði einna mest að því að atvinnuleysi og fátækt í Bólivíu jókst um tugi prósenta þannig að landið hefur ekki enn beðið þess bætur.  Sachs notaði shock treatment á bólivískan almenning sem  sökk niður fyrir fátæktarmörkin.  Margir létust úr vannæringu og skorti. Ráðleggingar Jeffrey Sachs hafa því valdið ómældum þjáningum sums staðar þar sem hann hefur komið að málum.

Getur nokkuð verið að Sachs og aðrir ráðgjafar af hans tagi hafi sagt Seðlabankanum að koma af stað snöggri kreppu á Íslandi til þess að geta slegið á verðbólguna?   Er verið að nota bólivísku aðferðina á íslenskt efnahagslíf?  Ég vona ekki.  Ég er orðin þreytt á tilraunum hagfræðinga sem leika sér með almenning eins og hann sé aðeins tölfræðileg tala á pappír. En hvað var þá Jeffrey Sachs að gera á Íslandi og af hverju er akkúrat hann orðinn sérstakur vinur íslenskra ráðamanna?

With friends like these who needs enemies sagði Harding, forseti USA á sínum tíma og hafði vissulega lög að mæla. 


Hverjir hagnast á kreppunni?

bidrodKreppan á Íslandi er engin tilviljun og stafar ekki af efnahagsástandinu í heiminum eins og margir vilja vera láta.  Kreppan á Íslandi er tilbúin, sköpuð af fyrri ríkisstjórnum þessa lands og framkölluð eins og ljósmynd af núverandi ríkisstjórn og Seðlabankanum.  En af hverju?  Jú það eru kannski um 10% íslensku þjóðarinnar sem munu hagnast mjög mikið á þessu kreppuástandi og það eru reyndar nú þegar 10 ríkustu prósentin.  Auk þessa þarf að koma hugmyndum nýfrjálshyggjunnar í framkvæmd.

Það tíðkast nefnilega í dag meðal ríkisstjórna og hagfræðinga af Milton Friedman skólanum að framkalla kreppu aðallega til að ná fram hagnaði fyrir fámenna yfirstétt og til að skapa "hreint" kapítalískt hagkerfi.  Þeim sem græða er sama þótt að matvælaverð hækki og verðbólga fari í þriggja stafa tölu.  Þeim finnst einnig í lagi að slátra millistéttinni og ýta helmingi þjóða undir fátæktarmörk.  Þetta hefur allt verið framkvæmt oftar en einu sinni í veraldarsögunni og nú virðist röðin vera komin að Íslandi.

Þetta kallast að koma á hreinum kapítalisma (pure capitalism) og öllum votti af sósialisma eða einhvers konar velferðarkerfi skal útrýmt.

Það er líka önnur ástæða fyrir því að kreppa kemur í góðar þarfir.  Allt krepputal er notað sem átylla til að byggja fleiri álver og fara í fleiri stórframkvæmdir.  Þannig heldur ríkasti hluti þjóðarinnar áfram að græða og græða á meðan að aðrir sem ekki eru innan hins lokaða hrings missa vinnuna.

Kreppan er eins konar "Shock treatment" til þess að berja þjóðina til hlýðni.  Ríkisstjórnin hótar áframhaldandi kreppu fái hún ekki umboð til að byggja fleiri álver og þóknast stórfyrirtækjum.

Íslenska kreppan er algjörlega heimatilbúin eins og íslenskt skyr og hún væri ekki til staðar nema vegna þess að einhverjir græða á henni.  Hverjir skyldu það vera? 

 


Bloggfrí

Er í bloggfríi og sumarfríi.  Hef samband síðar.   Allt of gott veður til þess að hanga inni yfir tölvunni.  Góðar stundir!


Gönguferðir og fuglaskoðun

Er búin að vera undanfarna daga í bústað við Hreðarvatn.  Fórum í gönguferð um skógræktina í Jafnaskarðsskóg og höfum skoðað fuglalífið og fylgst með himbrimanum við vatnið.  Einnig höfum við séð músarindla, auðnutittlinga, skógarþresti og ýmislegt fleira.

Þótt ekkert rafmagn sé í sumarbústaðnum þá er ekki hægt að segja annað en að við hjónin höfum verið að hlaða batteríin.  Löngu kominn tími á afslöppun og þægilegt frí.

Ég samdi kvæði í bústaðnum og læt það fylgja hér:

Við Hreðarvatn

Ef ég væri fugl á þinni grein

og hoppað gæti greinanna á milli

ég mikla mildi sýna myndi þeim

og muna sérhvert orð þitt, hjartans snilli. 

 

Í ástarinnar fagra sælureit

sigrast allt á döpru mínu hjarta

hvergi heimsins paradís ég leit

fyrr en hér við Vikrafellið bjarta. 


Ég fer í fríið!

hredavatnEftir að hafa upplifað jarðarför, jarðskjálfta og ísbjörn er ég búin að ákveða að fara í viku frí.  Ég verð í bústað við Hreðavatn og það verður ekki hægt að ná í mig nema í gegnum farsíma.

Gönguskórnir verða teknir með, svo og sólarvörn og veiðistöng.  Tilvalið að ganga niður að Glanna, skjótast í Paradís og jafnvel labba upp á fjall. Aldrei að vita nema maður rekist á 7 milljón ára gamla steingervinga af trjálaufblöðum og elftingum sem uxu í mun hlýrra loftslagi en nú er.  Ekki það að ég ætla ekki að leita að steingervingum sérstaklega.  Steingervingar eru friðaðir og eiga að vera kyrrir í náttúrunni þar sem þeir eru.  En ágætt er að láta steingervingafræðinga vita af fundarstað, ef maður rekst á eitthvað forvitnilegt.

Hallarmúli er gömul megineldstöð sem var virk fyrir þetta 6 milljónum ára.  Ýmis græn litbrigði í fjallinu eru merki um fornan jarðhita og eldvirkni.  Hafnarfjall var virk eldstöð á svipuðum tíma.  Síðan er náttúrulega hægt að skokka upp á Grábrók og virða fyrir sér útsýnið.  Hempuklettur við Laxfoss er örugglega á sínum stað.  Ég heilsa honum alltaf eins og gömlum kunningja þegar ég fer uppeftir.

Já, ég fíla Borgarfjörðinn, - sérstaklega Norðurárdalinn. 

 


Tár og tær

toe1Er búin að vera sérstaklega geðvond og pirruð undanfarna daga.  Af hverju?  Jú ég er með líkþorn á litlu tánni og í gær var táin svo rauð og þrútin að ég var viss um að ég væri komin með illskeytta blóðeitrun og að táin væri að detta af.

Engir skór passa, heldur verð ég að ganga í sandölum með tána standandi afkáralega út í loftið.  Meira að segja kötturinn sýnir málinu áhuga og hefur verið að stökkva á tærnar eins og þær væru mýs.  Og ekki varð það til að bæta ástandið þegar ég rak veiku tánna beint í eldhússtólinn, öskraði og hoppaði einfætt eftir eldhúsgólfinu. (sem betur fer var ég ein heima).

Ætlaði síðan að panta tíma hjá lækni, en þá eru allir á sjúkrahúsinu uppteknir við jarðskjálfta og áfallahjálp þannig að ég ákvað að ein lítil tá skipti ekki máli í hinu stóra samhengi hlutanna.  En í gærkvöldi leið mér aðeins betur þegar ég var búin að fara í fótabað og skafa af ósómanum.

En ef ég er semsagt eitthvað morgunfúl og í örgu skapi, þá er það vegna þess að mér er illt í litlu tánni.  ÆÆÆÆ...


Molla og makkaróní

CuteEitthvað grunsamleg þessi hitamolla sem liggur yfir Suðurlandinu.  Minnir á loftslagið á meginlandi Evrópu...skyldi þó ekki vera að hitastigið á Íslandi sé að hækka grunsamlega mikið? Hmmm...hvað skyldi Loftslagsnefnd Sameinuðu Þjóðanna segja?

Einnig þessi ísbjörn!  Hvað var hann að gera á Þverárfjalli?  Ástæðan er sú að norðurskautsísinn er að bráðna og þegar hann þynnist mikið brotnar hann meira upp og stakir jakar losna og fara lengra suður á bóginn.  Með slíkum jökum geta borist ísbirnir.  Við eigum því von á fleiri ísbjörnum næstu misserin (og spurning hvort að við ætlum að skjóta þá alla?)??

Það er orðið svo langt á milli sumra ísjakanna fyrir norðan okkur, að ísbirnir hafa verið að drukkna vegna þess að þeir ná ekki að synda á milli jaka.   Og eru þeir samt mikil sunddýr.

Meira að segja Bush stjórnin hefur viðurkennt að ísbirnir séu í útrýmingarhættu.  Það er eitthvað grunsamlegt við þetta...hmmm


Að bjóða úlfum í mat - Björgvin byggir í Helguvík

http://www.althingi.is/myndir/mynd/thingmenn/653/org/mynd.jpg

Nú er Björgvin Sigurðsson viðskiptaráðherra búinn að taka skóflustunguna að álverinu í Helguvík og orðinn stóriðjusinni.  Af hverju? Jú íslenskir stjórnmálamenn, einkum fyrri ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks tók þá ákvörðun að bjóða stórfyrirtækjunum inn í landið.  Og þegar stórfyrirtækin eru búin að hreiðra um sig getur orðið ansi erfitt að losna við þau.  Þau eru eins og úlfar sem búið er að bjóða í mat. Hvaða stjórnmálamaður þorir að ráðast gegn hópi úlfa?

Lítum á það sem gerist ef stjórnmálamenn ganga þvert á vilja stjórfyrirtækja (og USA).  Salvador Allende í Chile var vinsæll og virtur læknir og stjórnmálamaður sem vildi hag fólksins og landsins sem bestan.  Hann réðst gegn bandarísku stórfyrirtækjunum sem réðu koparnámunum í landinu og þar með voru dagar hans taldir í bókstaflegum skilningi.  Á sama hátt hafa frelsishetjur sem ætluðu að frelsa lönd sín frá bandarískum stórfyrirtækjum horfið í dularfullum flugslysum og svo má lengi telja.

Íslenskir stjórnmálamenn eru búnir að bjóða úlfunum inn í landið.  Og núna eru stjórnmálamennirnir að passa það að verða ekki étnir sjálfir, vegna þess að þegar þú býður úlfum í mat er alltaf hætta á því að þú sjálfur verðir aðalrétturinn. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband