3.9.2008 | 01:05
Spilað á kirkjuorgel

Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.8.2008 | 18:47
Alþjóða Rauði Krossinn býr sig undir loftslagsbreytingar
Alþjóða Rauði Krossinn hefur sett upp stofnun í Hollandi til þess að bregðast við loftslagsbreytingum. Stofnunin heitir Red Cross/Red Crescent Climate Center og vinnur nú markvisst að því að mæta þeim náttúruhamförum sem talið er að muni skella á vegna loftslagsbreytinga.
Margir vísindamenn ræða nú sín á milli hvort að fellibyljirnir Katarina og Gustav hafi orðið svona öflugir vegna þess að hitastig sjávar í Karabíska hafinu hefur hækkað og almennt má segja að meiri orka sé í andrúmsloftinu vegna hnattrænnar hlýnunar. Skoðanir eru skiptar en æ fleiri vísindamenn hallast að þeirri kenningu að fellibyljir í Karabíska hafinu eigi eftir að verða öflugri eftir því sem andrúmsloftið og hafið hlýnar.
Loftslagsnefnd Sameinuðu Þjóðanna óttast að loftslagsbreytingar eigi eftir að bitna verst á fátækustu íbúum heims.
Loftslagsstofnun Rauða Krossins hefur gefið út ársskýrslu um loftslagsbreytingar fyrir árið 2007 og bendi ég áhugasömum á að nálgast skýrsluna á pdf. formi á heimasíðu stofnunarinnar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.8.2008 | 23:11
Sögur frá Skaftáreldi - hugleiðing um bækur
Er að lesa Sögur frá Skaftáreldi eftir Jón Trausta. Gefin út í Reykjavík af bókaverslun Sigurðar Kristjánssonar árið 1912 og árituð af höfundi sem gjöf til langafa míns, séra Magnúsar Bjarnarsonar á Prestsbakka á Síðu.
Bókin er skrifuð á fögru máli og gulnaðar síðurnar segja enn stórkostlega sögu um örlög fólks, náttúruhamfarir og sögu þjóðarinnar.
Býsna margir eru það sem skamma mig þessa dagana fyrir að safna bókum og hugsa vel um bækur. Menn segja að bækur séu einskis virði og henda þeim jafnvel án þess að skoða nánar hvað þeir eru með í höndunum.
Víst er það að sá hnútur sem fastast vér bindum raknar og bókfellið velkist og eyðist. En það má ekki gleyma því að tölvur eru tiltölulega nýleg fyrirbæri og að stór hluti íslenskrar menningar og sögu er enn geymdur á bókum og gulnuðum blöðum.
Þessi gulnuðu blöð geyma æðaslátt aldanna, og ég gæti ekki lifað af í því andleysi sem ríkir nú um þessar mundir hér á landi, án þess að hafa bækur til þess að tengja mig við landið, söguna og veröldina alla.
Íslensk tunga er lifandi á þessum gulnuðu blöðum og ef ég hef ekki þessi gulnuðu blöð í kringum mig þá mun ég veslast upp eins og jurt sem nær ekki í blessað vatnið.
Auk þess þá les ég bækurnar mínar, hverja af annarri, blaðsíðu fyrir blaðsíðu. Þær eru alls ekki bara upp á punt. Ég er jú alin upp á Aragötu, götu Ara fróða, við hliðina á Árnagarði, ég er afkomandi Arngríms lærða og það er alveg forkastanlegt að ætlast til þess af mér að ég hugsi ekki vel um bækur og varðveiti þær eins og sjáaldur auga míns. Engin bók sem komist hefur í mínar hendur hefur verið svo aum að henni hafi ekki verið a.m.k. flett og hún könnuð örlítið. Einni bók hef ég hent um ævina - það var bókin Timeline eftir Michael Chrichton. Mér fannst hún svo ógeðfelld að ég ákvað eftir lestur hennar að henda henni beint í ruslið.
Alla jafna hef ég þá stefnu að hugsa vel um og varðveita alla hluti. Það sem ég get alls ekki notað sjálf kem ég í notkun til annarra. Að henda hlutum er yfirleitt ekki valkostur.
Ég veit að gamlar bækur eiga eftir að fá uppreisn æru og verða aftur verðmætar. En jafnvel lítið kver sem e.t.v. hefur ekki mikið fjárhagslegt gildi, getur verið mikil Guðs gjöf og þess vegna skyldi ætíð umgangast bækur af umhyggju og virðingu.
Bloggar | Breytt 5.9.2008 kl. 06:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.8.2008 | 20:49
Velkominn heim
Velkominn heim Óli minn. Nú er ég viss um að Þórir Kr. hefði verið afar stoltur af þér og pabbi minn reyndar líka!
Með kærri kveðju af Aragötunni,
Ingella
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.8.2008 | 06:50
Mensa og mannfélagið
Um daginn tók ég ókeypis greindarpróf á netinu. Það væri svosem ekki í frásögur færandi nema að ég stóðst prófið og komst inn í einhverskonar félagsskap sem tengist Mensa. Í þessum umræðuhópi sem ég komst inn í er fullt af Mensa félögum og núna er ég farin að velta því fyrir mér í alvörunni hvort að ég eigi að gera tilraun til þess að komast inn í Mensa.
Spurningin er hvernig ég get tekið Mensa próf hérna á Íslandi? Ég þekki engan á Íslandi sem er í Mensa og veit ekki hvernig Íslendingar fara að því að taka Mensa próf. Kannski verður maður að fljúga til Danmerkur eða Svíþjóðar til þess að taka slíkt próf.
Ég væri svosem ekkert að reyna að komast inn í Mensa, nema vegna þess að ég held að þar sé fullt af áhugaverðu fólki og umræður um raunvísindi sjálfsagt mjög áhugaverðar. En ég myndi þurfa að undirbúa mig vel undir Mensa próf. Ég efast um að ég treysti mér til þess að fara í slíkt próf án viðamikils undirbúnings.
Ef einhvert ykkar veit hvernig maður getur tekið Mensa próf - vinsamlegast látið mig vita!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
23.8.2008 | 20:54
Fara fornleifar frá landnámsöld undir vatn?
Á jörðinni Þjótanda við Þjórsá hafa fundist og er verið að grafa upp mjög merkar fornleifar. Um er að ræða minjar frá landnámsöld að hluta til, og er þar á ferðinni einhvers konar skáli og annað samfast hús. Ýmsar hugmyndir hafa komið fram, m.a. að hugsanlega geti verið um einskonar veiðistöð að ræða við ána. Einnig eru á svæðinu forn gripahús sem eru þó mun yngri en frá landnámsöld og hefur þessi staður því verið í notkun í margar aldir.
Skálinn sem er frá landnámsöld er einungis hlaðinn úr torfi. Það er ekkert grjót í veggjunum. Eldstæði er í miðjum skálanum, öskuhaugur undir vegg og þrepskjöldur við innganginn sem er ótrúlega vel varðveittur.
Minjar þessar teljast merkilegar, ekki bara hér á Íslandi, heldur einnig á öllum Norðurlöndunum, og þær gefa okkur innsýn í menningu og hugarheim víkingaaldar. Innsýn sem við megum ekki glata.
Það er því umhugsunarefni að ef Þjórsárvirkjanir verða að veruleika hverfa þessar fornleifar að eilífu undir vatn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
22.8.2008 | 10:19
Gamli sjálfstæðisflokkurinn og nýji frjálshyggju-sjálfstæðisflokkurinn
Það er til fullt af eldra fólki sem kýs ennþá sjálfstæðisflokkinn af því að það man einhvers staðar í afkimum hugans eftir flokki sem sagðist standa vörð um velferðarsamfélagið og sem sagðist vera flokkur allra stétta. Það var fullt af verkafólki sem kaus Sjálfsstæðisflokkinn í gamla daga, af því að það trúði því í einlægni að flokkurinn stæði vörð um hagsmuni þeirra smáu, ekki síður en þeirra háu.
Sjálfstæðisflokkurinn hafði á þessum tíma félagslega vídd, eða velferðarvídd sem átti a.m.k. skv. kenningunni að ná til allra Íslendinga. Við vorum öll ein stór fjölskylda hér á Íslandi og Íslendingar stóðu saman.
En nú er samstaðan rofin. Nú er sturlungaöld hafin. Eftir að Nýfrjálshyggjan í anda Tatchers og Reagans náði tökum á Sjálfstæðisflokknum undir stjórn Davíðs Oddssonar, Hannesar Hólmsteins, Guðlaugs Þórs hefur velferðarsviði sjálfstæðisflokksins verið slátrað. Félagslega sinnuðum sjálfstæðismönnum hefur verið ýtt út í horn, auðmenn og verktakar vaða uppi innan flokksins og enginn trúir því lengur í alvöru að sjálfstæðisflokkurinn sé í dag flokkur allra stétta.
Ef maður fylgist með borgarmálunum eða landsmálunum sér maður bara botnlausa spillingu meðal sjálfstæðismanna, valdafíkn, græðgi og aðra lesti sem teljast til dauðasynda meðal kaþólskra manna.
Ég hef stundum verið sökuð um það að svíkja Sjálfstæðisflokkinn. En það er ekki rétt. Það var Sjálfstæðisflokkurinn sem sveik mig. Sjálfstæðisflokkurinn sveik mig þegar hann byggði Kárahnjúkavirkjun, Sjálfstæðisflokkurinn sveik mig þegar fatlaður bróðir minn fékk ekki þá aðstoð í skólakerfinu sem hann átti rétt á skv. lögum. Sjálfstæðisflokkurinn sveik mig þegar ég var rekin frá RANNIS vegna þess að ég mótmælti bullandi einelti sem viðgekkst á vinnustaðnum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur svikið mig svo oft, að ég er löngu búin að gefast upp á því pólitíska hjónabandi.
Sjálfstæðismenn hafa meira að segja boðið mér að ganga í flokkinn og breyta honum innan frá. Ef þú ert svona gagnrýnin, segja þeir, af hverju kemur þú ekki bara til okkar og breytir málunum?
En því miður. Ég hef akkúrat enga trú á því að einmitt ég muni breyta ferlíki eins og Sjálfstæðisflokknum og einhvern veginn finnst mér ég hafa miklu betri félagsskap og njóta þess betur að starfa innan VG.
En gamla fólkið heldur áfram að kjósa.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
21.8.2008 | 19:59
Stjörnusjónaukinn stilltur fyrir veturinn
Núna er rétti tíminn til þess að taka fram Bushnell Voyager 78-9570 stjörnusjónaukann og stilla hann fyrir veturinn. Fyrst er að tína til þrífótinn og sjónglerin og athuga hvort að batteríin eru í lagi. Ég get ekki beðið eftir því að koma sjónaukanum upp þannig að ég geti skoðað fyrst tunglið og síðan hinar reikistjörnurnar eftir því sem aðstæður leyfa.
Það er eitthvað við stjörnufræðina sem vekur upp barnslegan áhuga hjá mér. Ég verð alltaf eins og 10 ára krakki þegar sé sé eitthvað flott á stjörnuhimninum. Og síðan er svo spennandi öll þessi tækni sem fylgir stjörnufræðinni - sjónaukar - myndavélar - geimflaugar.
Ég læt mér nú samt nægja að skoða stjörnuhimininn af jörðu niðri. Það er örugglega skemmtilegur vetur framundan.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.8.2008 | 12:46
Hver á skrifstofustólinn?
Fyrir nokkrum árum keypti ég mér forláta skrifstofustól. En það er kominn upp ágreiningur á milli mín og kattarins hvor okkar á stólinn. Skrifstofustóllinn er nefnilega orðinn einnig að uppáhaldsstól kattarins. Eins og þið sjáið á meðfylgjandi mynd þá er ekki spurning að kötturinn lítur núna á skrifstofustólinn minn sem SINN stól.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.8.2008 | 13:06
Í góðu skapi á Selfossi
Nú er mígrenið sem hrjáði mig í gær horfið, og ég komin í þetta líka sólskinsskap. Búin að svæfa köttinn og fá mér Tahiti jurtate sem bragðast eins og málverk eftir Gauguin. Lífið hér á Selfossi er rólegt og yndislegt. Fólkið hvert öðru betra, og notalegt hverfi sem ég bý í. Alltaf hægt að skreppa í kaffi á Kaffi Krús, eða í Sunnlenska bókakaffið hjá Elínu og Guðbjörgu þar sem oft er glatt á hjalla.
Mér finnst reyndar gaman að skreppa til Reykjavíkur í 2-3 daga til að hitta ættingjana og fara niður í miðbæ, en jafn gott finnst mér að koma heim aftur í rólegheitin og notalegheitin. Og það er nóg að gera hjá fyrirtækinu Ingibjörgu Elsu Björnsdóttur, - er að klára að þýða 386 bls. vísindarit og fleiri verkefni detta svosem inn eins og gengur.
Svo þarf ég endilega að fara að klára meistararitgerðina mína í þýðingarfræðinni. Hún er reyndar langt komin og fjallar um Vladimir Nabokov og þýðingar hans. Ritgerðin er á íslensku, ensku og rússnesku og ég er að vona að hún sé einnig skemmtileg aflestrar. Þannig að ég þarf ekki að kvarta yfir verkefnaskorti þótt að ég búi úti á landsbyggðinni enda alltaf hægt að finna verkefni ef viljinn er fyrir hendi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)