Jákvætt afl í veröldinni - að ganga til góðs

sudanRauði Krossinn er tvímælalaust eitt af þessum jákvæðu öflum í veröldinni.  Hann er til staðar um allan heim, hvort sem er á Íslandi eða í Afríku.  Og í dag er gengið til góðs og safnað fé til að sameina sundraðar fjölskyldur í Kongó.

Ég hvet alla til að leggja söfnuninni lið með smærri eða stærri hætti og þakka öllum þeim sem nú þegar hafa lagt sitt af mörkum.

Við skulum öll taka þátt í því að ganga til góðs. 


Að horfa á stjörnurnar

planets1stonehenge_perkinsÉg er í alveg ágætu skapi þessa dagana.  Jú efnhagskerfi landsins rambar á barmi hyldýpis, en þegar upp er staðið er það ekki mitt vandamál.  Ekki beint.  Að vísu mun ég sjálfsagt tapa einhverju eins og svo margir aðrir, en lífið mun halda áfram og sem betur fer á ég góða fjölskyldu  og fullt af vinum...að ég held...

Kannski er ég líka í góðu skapi vegna þess að kolbrjálaðir athafna- og framkvæmdamenn fá núna hvergi fjármagn til þess að framkvæma glórulausar hugmyndir sínar.  Hugmyndir sem alltaf hafa verið út í hött. Og íslensku fjárglæframennirnir standa núna frammi fyrir eigin gjörðum.  Það er komið að skuldadögunum. Það eru margir sem hljóða og kveina.

Það er nefnilega svo merkilegt, að helvíti er ekki staður ofan í jörðinni, heldur hugarástand hér í þessum heimi.  Græðgi og dýrsleg hegðun eru líka ákveðnar tegundir hugarástanda sem  óþroskaðir einstaklingar sökkva oft ofan í og komast ekki upp úr.   Það skiptir miklu máli fyrir hvern einstakling að reyna að hefja sig upp yfir fljót þjáninganna og nálgast það sem er heilagt og mikils virði innan í hverjum einstaklingi og í alheiminum í þessu lífi hér og nú.  

Við erum ekki í þessu lífi til þess að safna fjársjóðum hér á jörðu, við eigum að safna fjársjóðum á himnum sem þýðir í raun að við eigum að leitast við að nálgast hið heilaga og upphefja okkur yfir aðstæðurnar hversu ömurlegar sem þær annars kunna að vera.  Þessi upphafning eða "transcendence" er að miklu leyti byggð á trúarlegum grunni.  Án hennar myndi maðurinn aldrei horfa lengra en á tærnar á sér.  Þannig að við skulum líta upp og horfa á stjörnurnar.  Við skulum velta fyrir okkur ystu rökum alheimsins.  Við skulum halda áfram full trúnaðartrausts og bjartsýni.  Heimurinn er ekki að farast.

  

 

 


Var einkavæðing bankanna mistök?

us-money-photoDavíð Oddsson seðlabankastjóri stendur við orð sín, um að tryggja sparifé landsmanna og bjargar Glitni.  Það verð ég að segja honum til mikils hróss.

Hins vegar hljóta að vakna ýmsar áleitnar spurningar við þennan gjörning.  Hvaðan koma peningarnir sem eiga að bjarga Glitni?  Koma þeir ekki úr vösum venjulegs fólks hvort eð er?  (Tapast þá ekki spariféð óbeint?)  Og af hverju í andsk. voru menn að einkavæða bankana í bráðræði, þegar bankarnir geta ekki staðið á eigin fótum og þegar bönkunum er einfaldlega stjórnað af spilafíklum sem ættu að fara í meðferð.

Í mínum huga eru bankastjórar sem tekið hafa sér hundruðir milljóna í laun og kaupréttarsamninga ekkert annað en ótíndir glæpamenn og ég verð að taka á öllum mínum kristilega kærleika eigi ég nokkru sinni eftir að geta fyrirgefið þeim (sem ég er reyndar ekki viss um að ég geti).   Sumt er einfaldlega ofvaxið mannlegum mætti.  Og sumt getur einungis Guð fyrirgefið, - einkum þegar tollheimtumenn og ræningjabæli eru annars vegar.

Og maður hlýtur einnig að spyrja: Eiga fleiri íslenskir bankar eftir að fara sömu leið - og hefur ríkið þá efni á því að bjarga þeim???? 

 


Af hverju íhaldsmenn eru alltaf að fjárfesta í orku!

71366AEC-188B-4976-D1C1B0025A59B940Íhaldsmenn kallast sá flokkur manna sem er fylgjandi og styður hið kapítalístíska hagkerfi.  Ég geng jafnvel svo langt að kalla íhaldsmenn pólitíska varðhunda kerfisins þ.e. þeir eru tilbúnir til að verja það með öllum tiltækum og ótiltækum ráðum.  Þeir horfa oft framhjá hrapalegum göllum kerfisins og segja að þeir séu smámunir einir miðað við arðsemina sem fáist út úr kerfinu.  Ef arðseminni væri bara aðeins betur dreift...

Sú kreppa sem gengur núna yfir heimsbyggðina er hins vegar kreppa kapítalsins og kreppa nýfrjálshyggjunnar sem hélt því fram að náttúrulögmál stjórnuðu markaðskerfi heimsins (Chicago skólinn - Milton Friedman).  

New Scientist er mjög harðort í garð nýfrjálshyggjunnar í nýlegri grein sinni og liggur við að þeir kalli Milton Friedman fífl.  En það versta er að í nafni kenninga þessa manns voru Pólland og Rússland markaðsvædd og öllum heiminum umbreytt til hins verra.  Lýðræði á í vök að verðast og æ meiri einræðistilburðir koma í ljós hjá valdhöfum jafnvel rótgróinna lýðræðisríkja.  þetta ástand á sennilega bara eftir að versna.

Markaðurinn er óstöðugur, hann er mesta ólíkindatól, en eitt er það sem er öruggt að fjárfesta í telja menn - og það er orka.  Orkunotkun heimsins hefur aukist tífallt, á meðan að fólksfjöldi hefur einungis fjórfaldast á öldinni sem leið.  Orkuþörf mannkyns virðist vera óseðjandi hít.  Það er því mikil freisting fyrir kapítalið, og þá íhaldsmenn sem eiga peninga að fjárfesta í orku.  Einkum þegar svo margt annað í veröldinni virðist hverfult og undirorpið einhverjum ólukkans sósíalisma.

Þess vegna er það sem íhaldsmenn vilja byggja virkjanir.  Þeir telja að þeir séu að koma peningunum sínum í öruggt skjól þegar þeir treysta ekki lengur því markaðshagkerfi sem þeir sjálfir hafa skapað og viðhaldið. 

En einu gleyma íhaldsmenn.  Íhaldsmenn eru miklir hagfræðingar og trúa ekki á kraft náttúrunnar nema hann sé beislaður af mannkyninu. Þeir trúa t.d. almennt ekki á loftslagsbreytingar.  En loftslagsbreytingarnar eru samt sem áður þegar byrjaðar að breyta heiminum og þegar þær hafa náð sínum fulla þunga mun ekki heldur þýða fyrir kapítalið að fjárfesta í orkugjöfum, nema þá þeim orkugjöfum einum sem örugglega leiða ekki til loftslagsbreytinga í neinum skilningi.   Þegar loftslagsbreytingar skella yfir heiminn, mun fjúka í flest skjól í bókstaflegum skilningi þar sem hætta er á því að fellibyljir og náttúruhamfarir muni ógna þeim stöðugleika sem hefur verið aðalsmerki hagkerfisins til þessa (sbr. Stern skýrsluna svokölluðu).

Þannig að sennilega er ekkert betra hægt að gera við peningana en að geyma þá undir koddanum og eyða þeim smám saman, eða hvað? 


Árborg stækkar en ríkið er stikkfrí!

Sveitarfélagið Árborg er ört stækkandi sveitarfélag, og eru íbúar nú að nálgast 8000.  Þessari öru fjölgun íbúa fylgir ýmis kostnaður, svo sem eins og nauðsyn þess að byggja nýja skóla og þar fram eftir götunum. 

Á sama tíma er ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar ekkert á þeim buxunum að fara að auka framlag ríkisins til sveitarfélaganna.  Árborg fær ekki meira peninga frá ríkinu nú en fyrir nokkrum árum, jafnvel þótt  að íbúafjöldi hafi vaxið mikið.

Þannig vaknar spurningin.  Er ríkið alltaf stikkfrí?  Getur ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins afneitað þeirri fjölgun íbúa sem er í Árborg og er ekki löngu kominn tími til að ríkið endurskoði reglur sínar um stuðning við sveitarfélögin almennt?


Framtíðarauðlindir Rússlands o.fl.

artic_iceRússland á eitt sem Bandaríkjamenn eiga sífellt minna af.  Rússar eiga gífurlegar auðlindir.  þá á ég við náttúruauðlindir, olíu, gas, málma o.fl. sem að miklu leyti er ennþá fólgið í sífreranum í Síberíu. 

En nú er sífrerinn að bráðna, norðurskautsflutningaleiðin að opnast og það er ekki spurning að Rússar ætla sér stóra hluti í framtíðinni.  Af hverju eru rússneskar flugvélar að fljúga inn á íslenskt yfirráðasvæði?  Jú, vegna þess að Rússar eru að sýna Bandaríkjamönnum (ekki okkur) að þeir vilji gjarnan ráða yfir svæðinu fyrir norðan Ísland.  

Það ríkir keppni um norðurskautið í dag, og reyndar er kapphlaup um allar auðlindir norðurslóða.  Sumir athafnamenn sjá í þessu kapphlaupi tækifæri, aðrir eins og ég sjá í þessu ákveðna hættu fyrir frumbyggja norðurslóða og íslendinga sem eru hálfgerðir frumbyggjar á þessu fallega landi.  

Hvergi á jörðinni hefur hlýnað jafn hratt og við norðurskautið á undanförnum 100 árum.  Og það er  vissulega áhyggjuefni hvað mun gerast með lífríki norðurskautsins þegar ísröndin hverfur og framboð á krabbadýrum og svifþörungum fer að minnka vegna hlýrri sjávar, og vegna þess að ísinn er ekki til staðar sem búsvæði fyrir þörungana.  

Fiskistofnar munu elta rauðátuna og færa sig þangað sem hún fer.  Munu fiskistofnarnir kannski færa sig út úr íslenskri lögsögu?  Spyr sá sem ekki veit, því staðreyndin er sú að ég veit ekki nákvæmlega hvað er að gerast í hafinu.

 


Íslenska leyniþjónustan

james_bond__pierce_Þegar ég var yngri og var að læra rússnesku við Uppsalaháskóla, auk þess sem ég hlustaði á Lars Erik Blomquist flytja erindi um framtíðarauðlindir Rússlands við austurevrópsku stofnunina í Uppsölum, var ég vön að grínast við vinkonu mína sem er í dag stærðfræðingur í USA að báðar gætum við unnið fyrir íslensku leyniþjónustuna í framtíðinni.

Auðvitað var ég bara að grínast, - ég sá sjálfa mig sem sérfræðing í austur evrópskum fræðum og hana sem stærðfræðing að ráða flókna dulmálskóða.  En kannski var smá sannleikskjarni í þessu öllu saman.

Staðreyndin er sú að menntun mín er þess eðlis að það fer ekki hjá því að maður horfi dálítið öðrum augum á veröldina en allur þorri almennings.   Ég hef t.d. komið inn í kjarnorkuverið í Oskarshamn í Svíþjóð og farið 500 metra ofan í jörðina til þess að skoða framtíðargeymslur undir kjarnorkuúrgang. Fyrir mér er kjarnorkuúrgangur áþreifanlegur raunveruleiki.

Einnig hef ég lært um nánast alla þá tegund mengunar sem hægt er að hugsa sér.  Hvort sem um er að ræða kjarnorku eða koltvíoxíð, eiturský, eldgos eða flóð - þá er ég á heimavelli.  

En vegna þess að ég játa ekki heilög trúarbrögð Sjálfstæðisflokksins, heldur kristna trú, hefur mér nú ekki verið boðin staða í utanríkisráðuneytinu - a.m.k. ekki ennþá, - enda alls óvíst að ég myndi taka boðinu.

Þannig að ég held bara áfram að blogga... 


Hvernig heimurinn er í raun og veru!

http://www.mpiresearch.com/images/MainPagePhotos/News.jpg

Ef maður vill vita hvernig heimurinn er í raun og veru eða a.m.k. nálgast betri vitneskju um orsakir atburða verður maður að fá upplýsingar sínar annarsstaðar frá en frá íslenskum fjölmiðlum.  Einkum er fréttavalið hjá ríkissjónvarpinu lélegt og litað af heimsmynd og viðhorfum ríkjandi stjórnmálaafla. 

En hvar á hinn almenni borgari þá að nálgast upplýsingar ef hann vill komast nær sannleikanum um heiminn.  Eina leiðin er að lesa sjálfur og panta sjálfur þær bækur sem geta leitt mann í rétta átt.  Einnig er internetið ennþá tiltölulega frjálst, en hve lengi það varir veit enginn.  

Þeir sem ekki nenna sjálfir að lesa, eða afla sér upplýsinga eru dæmdir til að lifa í fáfræði.  Ekki er hægt að treysta sjónvarpinu, en meirihluti bandaríkjamanna fær t.d. allar upplýsingar um heiminn úr sjónvarpi.  Stjórnvöld í USA vilja halda fólki í fáfræði, vegna þess að það er auðveldara að stjórna þeim sem ekki vita.

Ég er í hópi þeirra sem vilja lifa og deyja með augun opin.  Það eru hins vegar margir sem vilja lifa í blekkingu og það fólk sem kýs það má lifa í sinni blekkingu áfram.  Ég nenni ekki að bjarga öllum heiminum. 


Pönnukökur og hlynsíróp

syrup2Ættingjarnir í Maine og Boston gáfu mér ekta hlynsíróp þannig að nú var pönnukökuveisla með hlynsírópi.  En annars þá hef ég svo mikið að gera þessa dagana að ég hef alls ekki tíma fyrir blogg.

Sjáumst síðar. 


Það sem eftir er af Ike

IKELeifar fellibylsins Ike ganga nú yfir landið.  Ike myndaðist upphaflega vegna þess að hitastig sjávar í Karabíska hafinu fór yfir 26,5 gráður.  Þá myndaðist hitabeltislægð sem dýpkaði og breyttist í hitabeltisstorm sem síðan náði vindhraða fellibyls. 

Það er ljóst að hitastig sjávar í Karabíska hafinu hefur hækkað á undanförnum áratugum að öllum líkindum vegna hnattrænnar hlýnunar af völdum loftslagsbreytinga.  Þetta þýðir ekki endilega að fleiri fellibyljir myndist árlega, heldur telja vísindamenn æ líklegra að þeir fellibyljir sem myndist á annað borð verði æ sterkari og dýpri.  

En hvað þýðir þetta fyrir okkur Íslendinga?  Jú við fáum jú oft yfir okkur leifar af fellibyljum frá Karabíska hafinu sem berast norður í Atlantshaf.  Ef fellibyljirnir í Karabíska hafinu verða enn sterkari en áður aukast einnig líkurnar á því að við hér á Íslandi fáum yfir okkur dýpri lægðir og sterkari storma.

Ég segi að líkurnar aukist, - þar með er ekki sagt að allar haustlægðir eigi eftir að verða eins og leifarnar af Ike, einungis að við Íslendingar þurfum að fara að fylgjast mun betur með þróun fellibylja í Karabíska hafinu og e.t.v. búa okkur undir nokkuð snarpar lægðir í framtíðinni.  Allur er varinn góður.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband