Aðeins sannir lygarar geta orðið góð skáld

index2.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Um daginn var ég ásökuð um að vera með of mikið ímyndunarafl. Þetta er alvarleg ásökun, næstum því jafn alvarleg og ásökunin um snilligáfu, sem er næstum örugg til þess að koma manni í alvarleg vandræði í nútímaþjóðfélagi, jafnvel þótt maður sleppi við að verða brenndur eins og á miðöldum.

Til þess að verða gott skáld, þarftu fyrst að læra að ljúga.

En ef eitthvað er til sem hrjáir íslenskar bókmenntir í dag, þá er það skortur á lygi. Arnaldur vinnur heimildavinnuna sína alltof vel í Þýska húsinu og draugarnir hennar Yrsu sem ganga aftur gegnum ritverk hennar eru svo raunverulegir að manni finnst maður kominn á miðilsfund niðri í Sálarrannsóknarfélagi eða á fund með geðklofasjúklingum uppi á Hringbraut. Það er helst Einari Má sem tekst vel upp í Hundadögum, enda var Jörundur Hundadagakonungur þvílíkur snilldar-lygari, að Einar getur ekki annað en smitast til góðrar lygi, af slíku eðalbornu viðfangsefni. Andri Snær kann einnig að skálda frá grunni, en eins og bent hefur verið á, er hann frekar lengi að ljúka við ritverkin. Hvað er þá til ráða, íslenskum bókmenntum til bjargar?

Þetta er furðuleg lenska, að mega ekki lengur ljúga í bókmenntum? Hvað eru bókmenntir svosem annað en lygi? Lygi hafin upp í æðra veldi þar til hún umbreytist í tært og fagurt listform, þvílíkt snilldarlistform að hláturtaugarnar lifna við, heilinn vaknar og hinn tíbetsk-búddíski sofandaháttur meirihluta mannkynsins rofnar og lesandinn kemst um stund til hærra vitundarstigs. Oscar Wilde sagði svo réttilega að sé lyginni úthýst úr bókmenntunum sé stutt í að bæði fegurðinni og listinni sé úthýst líka. Hann hafði rétt fyrir sér. - Ég er því að pára hér eins og sú geðveila manneskja sem ég vissulega er a.m.k. samkvæmt mælikvarða raunvísinda, um endurreisn lyginnar í íslenskum bókmenntum. Því án lygi í listum er heldur enginn húmor.

Það er algjörlega glatað að taka bara einhverjar sögur beint úr blöðunum, tilfinningaklám eða berorðar ævisögur og reyna að breyta þeim í list. Það er uppgjöf gagnvart listsköpuninni sjálfri.

Já, um daginn var ég gagnrýnd fyrir að hafa of mikið ímyndunarafl. Ég hafði skrifað glæpasögu um risaeðlur, sem mun birtast vonandi bráðlega í bókmenntatímariti sem heldur enn uppi einhverjum vott af lygi. Ég var gagnrýnd fyrir að risaeðlur væru ekki nógu raunverulegar og þessvegna gæti glæpasaga með risaeðlum ekki verið raunveruleg glæpasaga.

Þetta finnst mér klént. Hér reynir maður alla daga að upphugsa einhverja listræna lygi alveg frá grunni og í staðinn fyrir að fá klapp á bakið og hrós, er maður skammaður fyrir að vera ekki nógu raunverulegur. Ég er skáld! Ég skálda! Ég er lygari. Það er í mínu innsta eðli að ljúga upp furðulegustu og yndislegustu og fyndnustu atburði, sem ykkur hinum gætu aldrei dottið í hug, ekki einu sinni í draumi. Ég vil frekar ljúga frá grunni, en að taka einhverja aumingja manneskju sem hefur ekkert illt gert og umbreyta henni í sögupersónu. Þannig er nú það.

Mér finnst ég í mesta lagi hafa rétt til að ljúga um eina raunverulega persónu og það er um sjálfa mig. Þórbergur laug ótæpilega um sjálfan sig og ég er alveg sammála honum um þá hernaðarlist skáldskaparins. Og ég sakna Þórbergs Þórðarsonar, rithöfundar. Ekki að ég hafi nokkurn tímann þekkt hann. En ég finn fyrir vissum andlegum skyldleika. Það er einhver vitsmunalegur klaufaskapur sem tengir okkur saman. Einhver einhverf og sjálfhverf hugsun sem brýst í gegnum múra tímans þannig að bæði ég, Þórbergur skáld og Leónardó sjálfur, getum setið saman við kaffihús í Flórens og pælt í því hvort lygin sé ekki nauðsynlegust allra lista, jafnvel þegar maður lýgur því að sjálfum sér og trúir því í barnalegri einlægni að maður sjálfur sé skáld, þótt allir aðrir vilji meina að maður sé ekki nógu raunverulegur. Leónardó da Vinci vissi ósköp vel að það er líka hægt að ljúga með pensli. Hvað er perspektív svosem annað en lygi þrívíddar á tvívíðum fleti. Því í einhverjum skilningi er aldrei hægt að nálgast og þekkja sannleikann nema í gegnum lygina. Á einhverjum tímapunkti umbreytist lygin í list þar sem sannleikurinn verður hin hlið málsins. Lygin verður að listaverki þar sem sannleikurinn skín í gegnum lygina alveg eins og þegar Kristur er svo yndislega samkynhneigður og ástfanginn af heiminum í síðustu kvöldmáltíð Leónardós. Sannur kærleikur spyr nefnilega ekki um kynhneigð, háralit, augnlit eða neitt annað. Hann bara er, án allra skilyrða, sá sem hann er, eins og Guð sjálfur sem er til eilífðar sá sem hann er, bæði kven- og karlvitund, af því að hann er kærleikurinn æðsti og getur aldrei verið neitt annað. Þetta vita öll skáld sem raunverulega kunna að ljúga og þess vegna bera þau virðingu fyrir sannleikanum. Á sama hátt og Kölski trúir á Guð þá er það jafnljóst að engir þeir þekkja sannleikann jafn vel eins og þeir sem kunna að ljúga.

 

Góðar stundir,

 

Ingibjörg Elsa Björnsdóttir, 05. Febrúar 2016.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband