Gjaldið keisaranum það sem keisarans er - varist hið veraldlega vald

obi-wan460Hið veraldlega vald er í senn skapandi og tortímandi. Það skapar þjóðríki og stuðlar að athöfnum manna en tortímir um leið. Andlit valdsins er í senn töfrandi og ægilegt. Þetta tvíeðli útskýrir afhverju sumir menn verða fangar valdsins, afhverju þeir ánetjast því og geta ekki verið án þess jafnvel þótt á endanum tortími valdið þeim sjálfum. E.t.v. má segja að Davíð Oddsson sé einn af þessum mönnum og að mínu mati er hann orðinn mjög illa haldinn af slíkri valdafíkn á sama hátt eins og Saruman í Hringadróttinssögu.

Hið veraldlega vald er eitt af máttarvöldum þessarar veraldar. Við Íslendingar höfum oft verið ofurseld valdi, bæði erlendu og innlendu, og segja má að við kunnum almennt ekki að umgangast vald. Þessi fáviska okkar hefur nú orðið okkur dýrkeypt.

Valdið spillir þeim sem með valdið fer, og fylgifiskur valdsins er grimmdin. Eftir því sem menn fá meiri völd, því meiri hætta er á því að þeir beiti valdi sínu af grimmd. Dæmi um þetta er þegar Truman bandaríkjaforseti lét falla kjarnorkusprengjur á Hiroshima og Nagasaki. Það var ólýsanleg grimmd.

En sem betur fer eru til önnur og varanlegri verðmæti en þau sem eru ofurseld hinu veraldlega valdi. Þau verðmæti eru fólgin í trúarbrögðum, bæn og andlegri iðkun. Með bæninni ræktum við persónuleg tengsl við Guð og hið heilaga í veröldinni, og smám saman með andlegri iðkun náum við að verða óháðari þeim grimma og oft ótrygga heimi sem er allt í kringum okkur. Gleði okkar og hamingja verður varanleg og óháð ytri aðstæðum. Bæn og andleg iðkun er þannig eins konar læknandi máttur gegn neikvæðum áhrifum hins veraldlega valds.

Því hið raunverulega hlutskipti mannsins er ekki að búa við öryggi, örugga vinnu, öruggt húsaskjól, örugga framtíð, - allt slíkt er blekking. Hlutskipti mannsins er að búa við óöryggi, missa og týna, jafnvel föðurlandi sínu, atvinnu og fjölskyldu en sjálfan tilgang og merkingu lífsins, sjálft innihald lífsins mun enginn veraldlegur máttur, ekkert vald geta tekið frá okkur, jafnvel þótt að allur alheimurinn myndi hrynja strax á morgun. Enginn veraldlegur máttur, ekkert vald, fær aðskilið okkur frá eilífum kærleika Guðs.

Þannig er það að með því að þjóna öðrum, og ástunda þolinmóðan kærleika í veröldinni, - með því að vinna hið góða verk og flytja góðar fréttir vinnum við smám saman bug á hinu illa og spillingu valdsins. Af því að gleðin, umhyggjan, kímnin og hamingjan er þegar upp er staðið miklu sterkari en allt annað sem á jörðinni er. Lykilorðið hér er: þjónusta.

Þannig getur stór skriðdreki beygt sig fyrir litlu blómi og öll veröldin brosað í augum lítils barns. Einungis með því að þjóna bræðrum okkar og systrum getum við notað valdið á skapandi hátt án þess að verða valdinu sjálfu að bráð. Því valdið stenst allt, nema sannan kærleika.

May the force be with you! (Obi wan Kenobi)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góð ábending! 

Skildi samt ekki alveg þetta með að hlutskipti mannsins sé að búa við óöryggi... Þú útskýrir það kannski betur við tækifæri.

kveðja,

Kristín Hildur

Kristín Hildur Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 20.11.2008 kl. 11:36

2 Smámynd: Kristín Ketilsdóttir

TAKK FYRIR GÓÐA GREIN . 
NEI EKKERT VALD FÆR AÐSKILIÐ OKKUR FRÁ EILÍFUM KÆRLEIKA GUÐS

KÆRLEIKSKVEÐJA

Kristín Ketilsdóttir, 20.11.2008 kl. 18:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband