Færsluflokkur: Bloggar

Hversu langt kemstu á ljósári ?

Satúrnus
Fjarlægðin á milli stjarnanna er svo mikil að ekki er hægt að nota venjulegar lengdareiningar. Þessvegna var ljósárið fundið upp. Ljósárið er sú vegalengd sem ljósið ferðast á einu ári, en hraði ljóssins er 300.000 km/sek. Á einu ári fer ljósið því vegalengd sem samsvarar 9,4605 þúsund milljörðum kílómetra (9,4605 x 10 í tólfta veldi).

Landvernd er frábær!

Ég er svo heppin að vera félagi í frábærum félagasamtökum sem heita Landvernd. Margir halda að Landvernd sé einhvers konar ríkisstofnun, en svo er nú aldeilis ekki.
Landvernd er frjáls félagasamtök sem starfa að umhverfismálum til að bæta lífsgæði almennings nú og í framtíðinni. Hlutverk Landverndar er að standa vörð um íslenska náttúru og vera virkur þátttakandi í stefnumótun, fræðslu og upplýstri ákvarðanatöku í málum er varða landnotkun, auðlindir, náttúru og umhverfi.
Landvernd er með verkefni eins og Grænfánann og Bláfánann. Einnig geta fjölskyldur sem vilja prófa að lifa umhverfisvænt stundað Vistvernd í verki og hafa um 200 fjölskyldur þegar farið á slíkt námskeið. Landvernd er líka vettvangur þar sem ólík sjónarmið mætast og þar sem rætt er um náttúru og umhverfismál fram og til baka. Ég vil benda áhugasömum á að skoða heimasíðu Landverndar, www.landvernd.is


Hvað drap Dauða Hafið ?

Dauða hafið er ekki haf heldur stórt stöðuvatn. Það liggur á landamærum Ísraels og Jórdan og er lokað salthaf án afrennslis. Aðrennslið í vatnið kemur frá Jórdan. Dauðahafið liggur 393 metra undir yfirborði sjávar og er þarmeð það stöðuvatn jarðar sem lægst liggur. Það er einnig saltasta stöðuvatn jarðar vegna þess að vatnið gufar mjög hratt upp við það háa hitastig sem ríkir á þessum slóðum.
Vegna þess hve saltinnihald stöðuvatnsins er hátt er það nánast líflaust og þessvegna kallast það Dauða Hafið. Á miðöldum héldu menn að loftið yfir vatninu væri eitrað vegna þess að þar sést aldrei fugl, en afhverju ættu fuglar að fljúga yfir vatn þar sem enga næringu og engan mat er að finna.
En geta vötn dáið af öðrum orsökum en salti ? Til eru lítil súr vötn þar sem sýrustigið er nálægt 4 (4 pH). Þessi vötn eru tær og í þeim eru rauðleitir þörungar en ekkert annað líf þrífst lengur í þeim. Ástæða þess að súr vötn hafa myndast t.d. í Suður-Svíþjóð er súrt regn sem komið hefur frá kolaorkuverum eða öðrum verksmiðjum. Rigningin á Íslandi hefur náttúrulegt sýrustig um 5,6 pH en í Suður Svíþjóð var sýrustigið í regninu árið 1995 komið niður í 4,4 pH.
Annað sem getur drepið stöðuvötn er ofnæring. Þá berst of mikið af næringarefnum eins og köfnunarefni eða fosfór út í vötn og þau verða brún, gruggug og illa lyktandi. Ekkert líf þrífst í slíkum vötnum. Súrefnið hverfur úr vatninu og þau "deyja". Sumir hlutar Eystrasaltsins eru nú þegar súrefnislausir og dauðir, að sumu leiti vegna ofnæringar eða annarrar mengunar.
Á Íslandi verðum við að gæta þess að vernda vötnin okkar þannig að þau verði ekki eyðileggingu að bráð. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið og rétt er að koma í veg fyrir að það sem farið hefur úrskeiðis annarsstaðar gerist hér á landi.

Hvar er kaldast á jörðinni ?

images_112029.jpg
Á báðum heimskautasvæðunum er svo kalt að menn geta einungis dvalist þar um lengri tíma með því að grípa til sérstakra ráðstafana til þess að lifa af. Áður fyrr voru heimskautasvæðin nánast óþekkt og enn í dag er meira vitað um tunglið en Suðurskautslandið. En þetta er að breytast. Hagsmunir er snerta olíu og verðmæta málma í jörðu hafa gert það að verkum að það verður æ eftirsóknarverðara að brjótast inn á heimskautasvæðin. Margir vísindamenn benda á að með hlýnandi loftslagi sé norðurskautsísinn einnig að bráðna og geta þá myndast nýjar siglingaleiðir við norðurpólinn.
Suðurskautslandið er í raun og veru heil heimsálfa hulin ís. Hún er helmingi stærri en Vestur-Evrópa og umhverfis hana er gríðarstórt opið hafsvæði. Á Suðurskautslandinu mældist kaldasta hitastig jarðar um -89°Celsíus í rannsóknarstöðinni Vostok (vostok þýðir austur á rússnesku), og er því kaldast á jörðinni á Suðurskautslandinu. Á heitum sumardegi á Suðurskautinu er hitastigið um -17°Celsius. Meðal-vetrarhiti er -55 gráður á Celsíus.
En af hverju er Suðurskautið kaldara en Norðurheimskautið ? Landmassi er eðlis síns vegna kaldari en hafmassi. Hafið á Norðurskautinu skapar þannig hlýrra umhverfi en kaldur freri meginlandsins á Suðurskautinu.

Hvað eru halastjörnur ?

images.jpg

Halastjörnur eru gerðar úr ískjarna sem líkist skítugum snjóbolta. Snjórinn er að mestu leyti úr vatni en 1 af hverjum 20 efnasamböndum halastjörnunnar er sérstakt efnasamband og oft getur verið um flóknar, jafnvel lífrænar efnaformúlur að ræða. Óhreinindin í snjóboltanum eru grjótagnir. Hali halastjörnunnar myndast síðan þegar ísklumpurinn eða halastjarnan lendir í sterkri útgeislun sólar þannig að ísinn bráðnar og myndar hala.

Fyrstu halastjörnuna sem sást í sjónauka sá þýski stjörnufræðingurinn Gottfried Krich fyrir tilviljun árið 1680 þegar hann var að skoða tunglið. Eðlisfræðingurinn Isaac Newton reiknaði síðan út braut halastjörnunnar og birti niðurstöður rannsókna sinna í ritinu Principia árið 1687.

McNaught halastjarnan sést á himni þessa dagana og er hún rétt austan við sólu. Gætið þess vel að horfa ekki beint í sólina og alls ekki í kíki.


Nokkur meginþemu í rússneskum bókmenntum

Rússneskar bókmenntir eru með þeim afrekum sem stórkostlegust eru á sviði mannsandans.  Einkum er þá verið að vísa til 19.aldarinnar og fyrri hluta þeirrar tuttugustu.  Á þessu tímaskeiði urðu til margbrotin bókmenntaverk sem eru í senn sérstæð fyrir Rússland en kallast einnig á við hinn vestræna bókmenntaheim.  Bækur eins og Anna Karenína og Glæpur og refsing hafa verið lesnar sem skemmtiefni í gegnum tíðina en markmið rússneskra bókmennta hefur ætíð verið annað og meira en að skemmta fólki,  þótt ekki skuli mælt gegn því hér að bækur séu skemmtilegar, vegna þess að annars nennir enginn að lesa þær.

Hlutverk rússneskra bókmennta er hvorki meira né minna en að lýsa veruleikanum í sínum margbreytilegu myndum og einnig að lýsa því hvernig mannshugurinn stendur agndofa og ráðþrota gagnvart tilgangi lífsins sem í rússneskum bókmenntum er yfirleitt alls ekki skiljanlegur.  Morðinginn Rodion Romanovich Raskolnikov í Glæp og refsingu stendur á brún hengiflugs þar sem óvissan og myrkrið tekur við.  Þetta hyldýpi sem rússar finna svo oft fyrir tengist því hversu Rússland er gífurlega stórt og víðfeðmt land og hversu erfitt er að stjórna slíku landi.  Það er einkennandi fyrir rússnesku skáldsöguna að hún tekur alvarlega á dýpstu rökum tilverunar, hlutum sem flestir rithöfundar á Vesturlöndum forðast að nefna eða skauta framhjá í umræðum sínum um dýpstu rök tilverunar.

En meira um það síðar.180px-AlexanderPushkin


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband