Alexandra og hvíta lopapeysan

Kötturinn Alexandra er mjög hrifin af fataskápum.  Um leið og fataskápur er opnaður, stekkur hún inn í hann og hreiðrar um sig á bakvið fötin.  Í dag hvarf hún inn í skáp og hreiðraði um sig í hvítu lopapeysunni minni sem var prjónuð í Búðardal.  Ullin er greinilega af fyrsta gæðaflokki vegna þess að ekkert heyrðist í Alexöndru í eina klukkustund á meðan hún svaf í lopapeysunni.

En myndirnar segja meira en þúsund orð.  Takið eftir því hvað blái baðsloppurinn skapar skemmtilegan kontrast. 

Lopapeysa og köttur

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Og síðan er líka svo gott að þvo sér í fataskápum:

Alexandra þvær sér


Vampy og Alexandra

Birman kettir eru hin yndislegustu dýr.  Þeir eru ljúfir og mannelskir,  þurfa aðgát og athygli og vilja gjarnan sofa í fanginu á eigendum sínum.

Set að gamni inn myndir af pabba hennar Alexöndru okkar, Vampy, og síðan mynd af Alexöndru sjálfri.

003

 

 

 

 

 

 

 

 

Alexandra vum Daerchen


Sjálfstæðismenn gera hvað sem er til að halda völdum

Það ætti að vera orðið almenningi ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn er tilbúinn að gera allt, já allt, til að halda völdum.  Sjálfstæðismenn eru núna á fullu að tala um að allir verði að standa saman, allir eigi að vera jákvæðir og það að kalla Flokkinn til ábyrgðar sé óþarfa neikvæðni og nornaveiðar.

Þeir vita semsagt upp á sig sökina.

Að þessu leyti minnir Sjálfstæðisflokkurinn talsvert á pólska kommúnistaflokkinn á dögum Jarúselskís sem gaf fólki Murti Bing pillur til þess að það yrði til friðs.  Cezlav Miloscz lýsti því frábærlega hvernig fólk gat sagt sína raunverulegu skoðun heima við eldhúsborðið en opinberlega varð fólk hins vegar að fylgja flokkslínunni.  Þannig urðu allir í Póllandi eins og tvær persónur, prívatpersónan heima við og opinbera persónan sem fylgdi Flokknum.  Gallinn við þetta kerfi er að það er bara svo erfitt að lifa tvöföldu lífi til lengdar.  Það þolir það varla nokkur maður. 

Sjálfstæðisflokkurinn er sérstaklega var um sig þessa dagana vegna þess að hann er að klofna niður í smærri einingar og það grefur undan flokknum og flokkslínunni með hverjum deginum sem líður. Enda hefur Flokkurinn aldrei verið annað en samansafn ólíkra hagsmunaaðila sem vilja ráða í þjóðfélaginu.


Það jákvæða í mínu lífi

lotuswhite

Ég hef verið beðin um að skrifa nokkur orð um það jákvæða í mínu lífi.  Að sjálfsögðu er margt mjög jákvætt og margt hefur áunnist á undanförnum árum.  Ég á yndislegan mann, kött og naggrís sem lifa í sátt og samlyndi eins og í Edensgarði fyrir syndafallið.

Ég er einnig sjálf á hinni miklu og andlegu þroskabraut sem er mun mikilvægari og æðri en einstaka efnahagsþrengingar.  Það má segja að ég sé einskonar nemandi sem fetar braut viskunnar.  Sú braut er sá þröngi og erfiði vegur sem sagt er frá í helgum ritum, en ég er löngu búin að komast að því að sú leiðin sem virðist erfiðari við fyrstu sýn, er sú einfaldari þegar upp er staðið. 

Ég er núna mikið að skoða allskyns trúarbrögð eins og nútíma búddisma, guðfræði umhverfisins, og ýmsar fornar kenningar.  Mér finnst ég njóta verndar og vera leidd áfram í leit minni að visku og skilningi.  En þessi þroskabraut mín er ekki skráð sem námsáfangi í neinum skóla þannig að það er kannski dálítið erfitt fyrir mig að útskýra hana nánar.

En ég tek örum framförum í þroska og skilningi og er alltaf að nálgast sannleikann þótt að ég viti að ég nái sjálfsagt ekki að höndla sjálfan sannleikann í þessu lífi sem er svo mörgum takmörkunum háð.


Fyrirtæki fjara út eftir því sem stíflan varir lengur

haarde

Ennþá eru gjaldeyrisviðskipti í rugli og skiptir þá engu hvort verið er að flytja gjaldeyri inn eða út úr landinu.  Ekki er hægt að fá sendar erlendar ávísanir vegna þess að bankarnir taka ekki við þeim jafnvel þótt sárvanti gjaldeyri inn í landið. Gjaldeyrisreikningar eru frosnir og ekki hægt að leggja inn á íslenska reikninga í erlendum bönkum.

Þessvegna fjarar nú ört undan ýmsum fyrirtækjum sem hafa verið í miklum erlendum samskiptum.  Það er nóg af verkefnum að vinna en það er ekki hægt að fá greitt fyrir þau af því að ekki er hægt að koma peningunum til landsins til að greiða þann kostnað sem safnast upp.

Ekki veit ég hvað Geir Haarde og Ingibjörg Sólrún eru að gera, en hvað sem þau eru að gera, þá eru þau ekki að vinna nógu hratt.  Hlutirnir ganga of hægt.  Atvinnulífið er að frjósa í bókstaflegum skilningi og það verður ekki hægt að vinna sig út úr kreppunni nema hægt verði að koma gjaldeyri aftur inn í landið.

Ástandið minnir á efnahagsþvinganir sem settar voru á Írak þegar Saddam Hussein var þar við völd.

Þetta er því algjört meiriháttar klúður og ég er hrædd um að þetta klúður verði að skrifast alfarið á reikning Sjálfstæðisflokksins.  Ekki tók ég a.m.k. þátt í þessu.


Er tíminn blekking hugans?

clock_big

Skyldi tíminn vera blekking hugans sem hugurinn notar til að skipuleggja hugsanaflæði sitt.  Ætli það sé til raunveruleiki utan rýmisins og tímans sem er hinn sanni raunveruleiki á meðan það sem við skynjum er að miklu leyti takmörkunum háð?

Er ekki auðveldara fyrir mannkynið að þróast áfram yfir á æðra þroskastig en fyrir lifandi efni að verða til úr engu (creatio ex nihilo)eða verða til úr dauðu efni sem þegar var til???  Getur verið að allur alheimurinn feli í sér möguleikann á lífi, jafnvel í tóminu sjálfu eða á þeim svæðum sem okkur virðast vera tóm.  Er ekki sköpunarkrafturinn allsstaðar?

Við mennirnir erum svo takmarkaðir af skynjun okkar.  Samt finnum við fyrir ljósinu innra með okkur sjálfum og við vitum ýmislegt með hjartanu sem við getum ekki lýst með orðum.  Kannski er tíminn ekki til nema í hugskoti okkar.  Kannski lifum við í raun og veru í eilífðinni þótt við skynjum eilífðina einungis að hluta.

Ef til vill er verið að vernda okkur eins og þegar Guð sagði við Móses að enginn dauðlegur maður gæti litið ásjónu hins guðlega.  Það eru takmarkanir og þröskuldar lagðir á okkar herðar vegna þess að við erum ekki búin að ná nægum þroska.  En í raun og veru erum við börn ljóssins.


Frá fjármálum og að kjarna tilverunnar

andromeda_gendler

Nú er kærkomið tækifæri fyrir marga þá sem hafa starfað eða eru starfandi í bönkum og fjármálastofnunum að líta inn á við og reyna að uppgötva kjarna tilverunnar.  Hver einasti maður er skapaður í Guðs mynd,  og hefur því tækifæri til þess að ganga á braut viskunnar í átt til meiri fullkomnunar og skilnings á því stundlega og eilífðinni.

Það er hins vegar staðreynd að enginn maður öðlast mikla visku á því að hugsa nær einvörðungu um peninga.  Hann fær hins vegar innsýn í græðgi og nirfilshátt mannkynsins og hætt er við því að sú hlið á mannkyninu sé ekki hin fegursta.  En mannkynið á sem betur fer til margar aðrar hliðar.  Hliðar er snúa að umhyggju, kærleika, ástundun, skilningi og von.  Það er með því að leggja áherslu á þessa jákvæðu og björtu þætti hverrar manneskju sem við náum í sameiningu auknum þroska sem samfélag.

Við verðum að gera okkur grein fyrir því, að ákveðið tímabil er að líða undir lok, og að við getum ekki haldið áfram að hugsa eins og við höfum alltaf gert.  Þeir sem festast í fortíðinni munu daga upp sem steingervingar í jarðlögum fyrri alda. 

Það er því kominn tími fyrir okkur öll, að setjast niður og tala saman.  Hugsa fram á við og reyna að finna markmið og tilgang með lífinu.  Það er ekki tilgangur lífsins að telja peninga.


Að vinna sig út úr atvinnumissi

ar118898164079955.jpgÉg lenti í því fyrir 2 árum að missa vinnuna með 2 vikna fyrirvara.  Það var bæði mjög grimm og óskiljanleg ráðstöfun sem e.t.v. átti sér pólitískar skýringar (ég var ekki í rétta flokknum).

En ég fór heim og settist við eldhúsborðið og velti stöðunni fyrir mér.  Hvað í ósköpunum get ég gert núna ???  Ég hugsaði og komst að þeirri niðurstöðu að ég ætti alltaf þá þekkingu, menntun og kunnáttu sem ég hefði tileinkað mér.  Menntunina getur enginn tekið frá manni.

Þannig að ég stofnaði mitt eigið einstaklingsfyrirtæki, gerðist sjálfstætt starfandi ráðgjafi og þýðandi.  Ég fór strax að huga að því að ná tengslum við fyrirtæki og skapa mér verkefni.  Ég beið ekki eftir því að síminn hringdi (vegna þess að hann hringir ekki).  Ég hringdi sjálf og spurði hvort verkefni væru á lausu. 

Síðan eru liðin tvö ár og ég hef haft nóg að gera í þessi tvö ár.  Í dag vinn ég bæði fyrir íslensk og erlend fyrirtæki, ég þýði bækur og er með nægan fjölda verkefna a.m.k. fyrir mig sjálfa.  Einnig hef ég tekið að mér stundakennslu.  Ég flutti meira að segja út á land og flutti eitt starf með mér út á landsbyggðina. Ég bjó til eitt nýtt starf á landsbyggðinni.

Ég hef aldrei tekið lán til fyrirtækisins, - fyrirtækið er skuldlaust og ég sé fram á að hafa ætíð verkefni vegna þess að ég hef bæði menntun og þekkingu sem ég get komið í verð á alþjóðlegum markaði.

Þannig að þeir sem missa vinnuna verða að hugsa vandlega um það hverjir eru þeirra styrkleikar og spyrja sjálfan sig:  Hvað kann ég og get betur en nokkur annar? Og líka:  hvað hefur mig alltaf langað til að gera - því nú er tækifærið!


The latest news from the icelandic ghetto!

saga.jpgLiving in Iceland now is kind of strange.  We the ordinary people of Iceland are like hostages in a financial ghetto created by the Brittish Empire and the IMF.  We expect to be transported to the concentration camps in just a few weeks and maybe just maybe some of us will be taken to the gas chambers while others may survive.

There is still food in the stores but people are not buying so much anymore.  Industry and commerce are on ice and lots of companies are experiencing dire difficulties.  The only thing we really know is that the worst is yet to come.  We are living our lives out like actors in a play waiting for Godot knowing subconsiously that he will never show up.

What is even more Kafkaesque is that we seem to be governed by a group of lunatics or at least people who do not understand the reality of the situation.  Many ordinary people are in a state of shock and they walk around dazed and maybe feeling a bit sad.  

This could be the end of Icelanders as a national entity.  Maybe we will loose our country to foreign corporations and become financial refugees spreading all over the world, hiding in cellars and eating skyr in the catacombs.  The Icelandic language of the vikings will become archaic.  Iceland will turn into a beautiful legend that once was and exists no more, like the land of the Khazars.  And maybe just maybe some of us will survive and be able to tell the story.  When reality becomes a dream, dream is turned into legend which again makes history.


Mín viðkvæma þjóð

jonsigurdsson.jpgMikið hefur nú þjóðarstolt Íslendinga oft verið stærra en flatarmál landsins gefur til kynna.  Hugur okkar hefur verið stórveldi þótt í raun og veru séum við bara örþjóð í samfélagi þjóðanna.  Við höfum sótt innblástur í stórbrotnar (og kostnaðarsamar) hugmyndir okkar til stórskálda eins og Einars Benediktssonar.  Íslensku bankarnir gerðu það nákvæmlega sama í Bretlandi og Einar Benediktsson gerði á sínum tíma.  Þeir seldu vöru sem var ekki til og urðu óvelkomnir í landinu, nokkurs konar persona non grata

En mikið höfum við Íslendingar alltaf dáðst að okkar djörfustu mönnum.  Allt frá því að við lásum um hetjur fornsagnanna  höfum við verið tilbúin að fyrirgefa þeim þótt þeir höggvi mann og annan.  Síðan bætist ofan á þessa hetjudýrkun Garðars hólm komplexinn sem er einskonar dýrkun allra þeirra sem hafa meikað það í útlöndum á meðan ekkert er hlustað á þá spekinga sem tala hér innanlands jafnvel þótt að hlustað sé á sömu spekinga erlendis og þeir hafi jafnvel meikað það líka.

En núna á mín viðkvæma þjóð bágt.  Stoltið hefur verið sært, og mönnum verið kippt all harkalega niður á jörðina.  Flestum líður eins og þeir hafi misst eitthvað sem þeir áttu áður, án þess að vita nákvæmlega hvað það var.  En hvernig sem okkur líður verðum við almenningur að muna að þetta er ekki okkur að kenna, við getum ekki gert mikið í málunum, nema e.t.v. kosið skv. okkar sannfæringu og krafist þess að kosningar verði haldnar strax og mögulegt verður eftir að erfiðustu mál hafa verið leyst í bili.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband