30.12.2008 | 12:21
Við þurfum að hugsa eins og þeir heimspekingar sem við erum
Öll erum við heimspekingar. Öll höfum við margvíslegar hugmyndir um lífið og tilveruna. En þar með er ekki sagt að við hugsum alltaf rökrétt eða ástundum gagnrýna hugsun. Páll Skúlason heimspekingur hefur verið duglegur að benda á mikilvægi gagnrýnnar hugsunar í gegnum tíðina. Einnig bendir Páll gjarnan á mikilvægi umræðunnar sem þurfi að vera á hærra plani en hjá þeim sem eru með órökstuddar fullyrðingar og freistast jafnvel til þess að vera með beint skítkast.
Umræðan á Íslandi er oft ansi svört og hvít. T.d. er sagt, "Já hún er nú vinstri græn." ...og þar með er búið að afgreiða viðkomandi manneskju og allt sem hún segir. Í stað þess að hlusta á rökin og sjá hvort að eitthvað vit er í röksemdafærslunni. Þannig erum við alltof fljót að flokka fólk niður í mismunandi flokka og afgreiða það þarmeð skv. þeim fordómum sem við höfum hverju sinni. En um leið og við setjum upp girðingar og flokkum fólk niður í hólf, erum við að útiloka einnig okkur sjálf. Vegna þess að um leið og við förum að beita hugmyndafræði útilokunar og flokkunar gagnvart öðru fólki skapast sú hætta að við sjálf verðum flokkuð einnig og afgreidd út af borðinu.
T.d. getum við öll orðið öryrkjar og öll eldumst við og verðum að þeim hópi sem kallaðir eru aldraðir eða eldri borgarar. Með þetta í huga vekur furðu að ekki skuli hugsað betur um gamla fólkið hér á Íslandi. Með því að hugsa vel um aldraða erum við að hugsa vel um okkur sjálf og búa í haginn fyrir börnin okkar sem eiga einnig eftir að eldast. En það er eins og hugsun stjórnmálamannanna nái sjaldnast svona langt. Stjórnmálamennirnir eru svo uppteknir við að hugsa um efnahagsmálin sem þeir telja forsendu hamingjunnar.
Auðvitað er ekki gott að kúldrast uppi á kvistherbergi, auralaus og félaus eins og einhverskonar íslenskur Raskolnikov, en peningar eru ekki forsenda alls. Það er hægt að gera mjög margt án þess að nota peninga og nota t.d. í staðinn tíma. Með því að gefa af hvort öðru, með því að gefa börnunum og gamla fólkinu tíma okkar erum við að skapa betri heim fyrir þau og okkur sjálf.
En öll þurfum við að læra að hugsa eins og þeir heimspekingar sem við í raun og veru erum. Við skulum taka okkur heimspekina til fyrirmyndar.
Athugasemdir
Vel mælt.
Of mikil áheyrsla undanfarið á peningar, ríkur, græða...... Bah!
Mér finnst þetta eigi að snúa meira að persónunni sjálfri. Ég er ég, þú ert þú, og við erum við.
Hvað varð af gullnu reglunum tveim? "Gjörðu öðrum það sem þú vilt að þeir gjöri þér", OG alveg eins mikilvægt: "Ekki gjöra öðrum það, sem þú vilt EKKI að aðrir gjöri þér".
Ef fleiri færu eftir þessu, þá væri (held ég) heimurinn betri.
En gleðilegt nýtt ár.
Einar Indriðason, 30.12.2008 kl. 13:20
Takk fyrir góðan pistil. Það er grundvallaratriði að fólk þroski dómgreindina. Taki afstöðu til mála á grundvelli gagnrýnnar hugsunar. Við verðum líka að virða margbreytileikann. Það gildir ekki alltaf að aðrir vilji það sama og við viljum sjálf en það það er samt gott að hafa mannkærleikann að leiðarljósi.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 30.12.2008 kl. 16:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.