13.12.2008 | 09:29
Allt í rólegheitum og jarðaber úr dós
Núna gengur bara allt í rólegheitum hérna á Selfossi. Við erum að fara að senda jólakortin, kaupa þarf umslög og frímerki, ég er búin að teikna nokkur jólakort og Valgeir er að stússast í bílskúrnum.
Jólasængurverin eru í þvottavélinni, kötturinn sefur í eldhúsinu og lætur sig dreyma um jólamúsa-paté. Naggrísinn Goggi unir sæll við sitt og borðar lífrænt ræktaða tómata frá Laugarási með bestu lyst.
Ég veit að það er kannski skrýtið að upplifa hamingju í miðri kreppunni, en ég get ekki að því gert að þessi hversdagslega hamingja kemur alltaf aftur til mín og lætur mig ekki í friði. Það þarf engin auglýsingaskilti, eða upphrópanir, - jóla-hamingjan læðist hljóðlega inn um dyrnar og kemur sér fyrir og manni líður bara vel jafnvel þótt að sagt sé að allt sé á hverfanda hveli. Svona er nú hamingjan skrýtin.
Jafnvel þótt að jólalærið verði kannski keypt í Bónus í þetta skiptið og ísinn hafi e.t.v. verið á útsöluverði, og jarðaberin verði kannski bara úr dós, þá er svo margt gott við vanilluís með dósajarðaberjum. Og þannig er lífið bara líka stundum - eins og jarðaber úr dós.
Athugasemdir
Notaleg færsla. Það er sko alveg rétt að þessi hversdagslega hamingja þarf ekki miklar umbúðir. Bara það að sjá himininn í morgun vakti mér hamingju. Kannski fylgir þetta bara því að búa á Selfossi
, 13.12.2008 kl. 22:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.