18.10.2008 | 11:03
Lífið gengur sinn vanagang
Lífið gengur sinn vanagang hérna á Selfossi. Það var kalt þegar fólk vaknaði í morgun og hálka á götunum sem er nú óðfluga að hverfa í sólskininu.
Ég er búin að sjóða meiri rabarbarasultu og kaupa hálfan skrokk af rollu sem er nú í frysti og bíður þess að ég búi til tvöfalda porsjón af kjötsúpu á morgun. Kjötsúpan endist okkur í svona þrjá daga og við erum nú farin að kaupa í matinn einu sinni í viku í stað þess að kaupa smotterí á hverjum degi. Að vísu skýst ég ennþá út til þess að kaupa brauð og mjólk.
Mig grunar að sparnaðurinn af þessum breyttu búskaparháttum verði umtalsverður þegar fram í sækir jafnvel þótt að við höldum að sjálfsögðu áfram að versla eftir þörfum.
Síðan nota ég Græna Hlekkinn til þess að panta grænmeti svona 1-2 í mánuði og það fer að sjálfsögðu í kjötsúpuna og naggrísinn Goggi fær einnig slatta af tómötum og gúrku.
Síðan er allt fullt af pakkasúpum og pasta á heimilinu þannig að ég get nú ekki sagt að ég kvíði matarskorti á næstu mánuðum. En mikið er ég fegin að það var ekki búið að leggja niður íslenskan landbúnað (eins og sumir stjórnmálaflokkar virtust vilja).
Athugasemdir
Gott að vera hagsýnn ! Við mamma keypum okkur frystiskáp og erum duglegar að nýta tilboð og eiga matarbirgðir :) Skemmtileg myndin með pistlinum ?
Svava S. Steinars, 22.10.2008 kl. 12:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.