Að öðlast góðan bókmenntasmekk.

031505_divinity_library_57_697022.jpgLífið er stutt en bækurnar margar sem hægt er að lesa.  Eftir því sem maður eldist hættir maður að nenna að lesa lélega reyfara, og fer að velja bækur af meiri kostgæfni.  Gráu hárin minna mann á að tíminn er naumur.  En hvernig er þá hægt að öðlast góðan smekk á bókmenntum? 

Svarið er einfaldara heldur en halda mætti:  Með því að lesa ljóð!  Ljóðlistin er eldri en bókmenntirnar og hún hefur að sumu leyti þróast einu skrefi lengra.  Ljóðlistin er einnig forsenda alls prósa og hún er í raun grunnurinn sem allur skáldskapur byggir á.  Auk þess eru ljóðabækurnar þynnri og auðveldara að lesa í gegnum helstu ljóðskáld heimsbókmenntanna, en að lesa allan þann framúrskarandi prósa sem skrifaður hefur verið.

Ljóðskáld geta heldur ekki komist upp með að svindla.  Lesandinn sér strax á fyrstu þremur línunum hvort að um lélegt eða afburða gott ljóð er að ræða.  Prósahöfundur getur frekar komist upp með að blaðra endalaust og lesandinn uppgötvar ekki fyrr en á bls. 355 að höfundurinn hefur ekkert að segja.

Sumar bækur eru þannig, að lesandinn óskar þess að þær tækju aldrei enda.  Ég grét söltum tárum þegar ég lauk við Fávitann eftir Dostojevskij.  Mig langaði svo mikið að lesa meira... en bókin var einfaldlega búin.  Svo eru einstaka bækur sem eru svo lélegar að lesandinn sótbölvar sjálfum sér fyrir að hafa verið að sóa tíma í þær, og hendir þeim jafnvel fúll í ruslakörfuna.

Allar bækur eru börn síns tíma og bókfellið velkist og máist, blöðin gulna og fúna.  Flestar bækur lifa þó lengur en rithöfundarnir, jafnvel þótt að þær séu arfalélegar.  Þær sitja þá í hillu á einhverju afskekktu bókasafni og rykfalla í ró og næði.

En rykið biður um að fá að lifa í minningunni, og e.t.v. eru allar bækur skrifaðar í þeim tilgangi að bjarga sandkornum frá eilífiðinni, jafnvel þótt að sandurinn sjálfur endist ekki einu sinni...

að eilífu.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Tómasson

Þarna er ég virkilega sammála þér. Lestur góðra bóka er það besta sem ég dunda mér við.

Heimir Tómasson, 14.10.2008 kl. 18:52

2 Smámynd: Villi Asgeirsson

Sammála þér með bækurnar. Les alveg gegndarlausa gnóft. Ég hef ekki ennþá getað fundið þolinmæði fyrir ljóð, en hver veit. Kannski ég krukki í ljóðabók á elliheimilinu.

Villi Asgeirsson, 17.10.2008 kl. 19:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband