8.10.2008 | 01:10
Karlmenn sem blogga eru töff en konur sem blogga eru erfiðar
Ég er ekki hin dæmigerða kona. Ég hef að vísu verið alin upp til þess að hugsa um aðra, vera prúð og sýna öðrum umhyggju og fórnfýsi. Á hinn bóginn hef ég yfirleitt verið miklu greindari en allir aðrir í kringum mig og þess vegna hef ég hugsað og beitt rökhugsun ekki síður en strákarnir. Að sumu leyti hugsa ég með fastri og kaldri rökhugsun eins og karlmaður og ég er afburðagóð í stærðfræði og efnafræði sem er náttúrulega alveg hræðilegt.
En mér hefur líka verið grimmilega refsað fyrir það að passa ekki inn í kvenímyndina. Ég var næstum því lögð í einelti í gagnfræðaskóla, ég var örugglega lögð í einelti í leikfimi og ég hef ekki hlotið þann framgang í þjóðfélaginu sem ég ætti að hafa fengið miðað við menntun mína og hæfileika.
Ég hef haft karlmenn sem yfirmenn sem hafa litið á mig sem ekkert meira en þægilegt kvenkyns vinnudýr. Ég hef verið sett út í kuldann, það hefur verið reynt að fá mig til að þegja og oft hefur mér verið sagt að ég hafi ekkert vit á málunum þótt að ég sé sérfræðingur á því sviði sem verið er að fjalla um. Sumum bregður svo mikið við að kona skuli tjá sig með þessum beinskeytta hætti að þeir segja einfaldlega að ég sé stjórnlaus.
Það er ekkert eins hræðilegt hægt að segja um konu og að hún sé stjórnlaus. Stjórnlausar konur eru hættulegar.
Og ég sem kem úr svo fínni og hámenntaðri fjölskyldu! Hvað fór eiginlega úrskeiðis í uppeldinu?
Skýringin á þessu er sú að ég er einfaldlega of greind til þess að passa inn í þann ramma sem konum er sniðinn hér á landi. Það er ekki mér að kenna. Ég er einfaldlega fædd með þessum ósköpum. Ég er kannski öðruvísi, en það er af því að ég hugsa og tala eins og raunvísindamaður sem ég náttúrulega líka er. Hámenntaður raunvísindamaður... eða á ég að segja raunvísindakona.
En það að konur skuli blogga er náttúrulega alveg ferlegt. Og þeim fer fjölgandi...
Penar og prúðar stúlkur fara allt í einu að blogga og verða síðan bara alveg snarvitlausar...stjórnlausar???
En karlmennirnir - þeir hafa einfaldlega skoðun á þjóðmálunum, enda eru þeir búnir að sigla þjóðarskútunni algjörlega í strand.
Við stelpurnar fengum ekki einu sinni að hjálpa þeim.
Athugasemdir
Hér með er það staðfest að ég sé TÖFF
ÚJE
Ég fer fram á að hafa þetta meðmæli skriflegt hjá þér og ætla að fara með þetta sem VEÐ Í KONUR þegar ég fer út á skemmtannlífið um næstu helgi.
ÉG ER TÖFFF því ég er karlmaður sem blogga...
Undirskrift Ingibjörg Elsa björnsdóttir
#Ég er með skriflegt upp á þetta frá virtum greiningaraðila úr bloggheimum svo vinsamlega komdu heim með mér" mun ég segja þá við kvenfólkið neiðast þá til að taka við mér
Brynjar Jóhannsson, 8.10.2008 kl. 01:19
Ég hef ekki séð að gerður sé þessi greinarmunur á karlkyns og kvenkyns bloggurum eins og þú ert að nefna.
Ég hafði eitt sinn kvenkynsyfirmann sem leit á mig sem óþægilegt vinnudýr. Hún hafði eitt sinn verið í Kvennalistanum og hafði eitt sinn verið einstæð móðir en var nú "hamingjusamlega" gift með fjögur uppkomin börn.
Þrátt fyrir góða háskólamenntun mína og fyrri starfsreynslu var hún alltaf að leita að mistökum hjá mér til þess að geta rekið þau ofan í mig með miklum látum í Þórðargleði sinni yfir óförum mínum.
Hún elskaði og naut þess að kalla mig inn á teppið til sín til að predika yfir mér og gefa í skyn að ég skyldi ekki halda að ég væri neitt sérstakt.
Á hinn bóginn hampaði hún og talaði vel um þær konur í deildinni sinni sem hún hafði velþóknun á, konur sem höfðu sleikt hana upp og vingast við hana. Sérstaklega talaði hún oft vel um þann starfsmann við aðra starfsmenn deildarinnar (sem vildi svo til að var kona) sem hafði gengt því starfi er ég sinnti, og passaði að ég heyrði það.
Ég fékk að sjálfsögðu engan framgang í starfi hjá henni, svo ég hraktist úr starfinu við fyrsta tækifæri sem ég fékk til þess.
Eru kvenkyns yfirmenn nokkuð betri en karlkyns yfirmenn'
Eyjólfur Þór Halldórsson (IP-tala skráð) 8.10.2008 kl. 09:21
Kæri Eyjólfur,
Ég veit líka dæmi um konur sem eru ekki góðir yfirmenn. Þetta vekur upp spurninguna hvernig yfirmenn eru valdir almennt.
Ég tel að yfirmenn séu ekki valdir út frá stjórnunarhæfileikum eða samskiptahæfileikum. Þeir eru kannski valdir út frá dugnaði í því starfi sem þeir gengdu áður, en það er bara enginn trygging fyrir því að þeir kunni að stjórna í nýja starfinu sem yfirmenn.
Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir, 8.10.2008 kl. 09:51
Sæl,
Ég held að þetta sé frekar meinloka í hausnum á þér, heldur en raunverulegt ástand.
Ég get þó sagt að margt kvennfólk á netinu er mjög ómálefnanlegt og ruglar bara, en aftur á móti get ég líka sagt að það eru karlarnir líka
...........
Jóhannes (IP-tala skráð) 8.10.2008 kl. 10:13
Athyglisverð viðbrögð ykkar karlmannanna sem haldið því fram að það sé jafnrétti í raun og veru í veröldinni.
Að mínu mati er það alls ekki svo. Þið karlmennirnir finnið bara ekki fyrir misréttinu í veröldinni enda stjórnið þið heiminum.
Það er jafn athyglisvert að það er engin kona sem gerir athugasemd eða mótmælir?
Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir, 8.10.2008 kl. 11:17
"Þið karlmennirnir finnið bara ekki fyrir misréttinu í veröldinni enda stjórnið þið heiminum." "..karlmennirnir - þeir hafa einfaldlega skoðun á þjóðmálunum, enda eru þeir búnir að sigla þjóðarskútunni algjörlega í strand."
Ef þú ert jafn greind og þú telur þig vera ættiru að gera greinarmun að það eru ekki við karlmenn sem stjórnum heiminum heldur útvalinn hópur örfárra karlmanna sem stjórna heiminum (með einstaka undartekningu).
Við karlmenn finnum alveg fyrir misrétti en þú sem konar finnur ekki fyrir því, ertu ekki bara alveg að falla í þá gryfju sem þú saka (alla?) karlmenn um?
Karma (IP-tala skráð) 8.10.2008 kl. 12:00
Ég upplifði aldrei annað en jafnrétti heldur á Íslandi, en ég fór heldur aldrei yfir í "karlaheiminn" svokallaða... Vann aldrei verkavinnu, reyndi aldrei að komast á þing og s. frv. Samt tel ég ekki að það sé fullkomið jafnrétti á Íslandi (og jafnvel hvergi í heiminum), og það verði aldrei hægt að koma því á, en það er alltaf hægt að nálgast fullkomnun.
Eitt af vandamálunum sem standa í vegi fyrir jafnrétti er því miður konurnar sjálfar. Þess vegna er ég afar ánægð með að þú, Ingibjörg, sért full sjálfstraust og ekki sátt við þitt hlutskipti. Það eru til allt of margar konur sem sætta sig við hvar þær eru. Meiri metnað! Verum erfiðar áfram.
Rebekka, 8.10.2008 kl. 14:23
"Þið karlmennirnir finnið bara ekki fyrir misréttinu í veröldinni enda stjórnið þið heiminum." "..karlmennirnir - þeir hafa einfaldlega skoðun á þjóðmálunum, enda eru þeir búnir að sigla þjóðarskútunni algjörlega í strand."
Athugið að á bak við sérhvern karlmenn stendur kona. Sennilega hafa verið konur bakvið þessa örfáa græðiskarla sem hvetja þá áfram til að græða meira því þeir megi ekki vera minni karlmenni en aðrir karlmenn sem þeir bera sig saman við.
Voru það ekki konur sem öttu þeim saman gegn hvorum öðrum þeim Gunnari á Hlíðarenda og Njáli á Bergþórshvoli?
Eyjólfur Þór Halldórsson (IP-tala skráð) 8.10.2008 kl. 16:35
Ingibjörg, flottur pistill
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 8.10.2008 kl. 19:35
Ég hef verið hugsi yfir pistlinum þínum og tel víst að þú ert ekki sá hroki sem þú virðist vera í þessum skrifum, ég lít á að þarna sért þú fremur meinhæðin.
En ég hef nokkrar athugasemdir.
Í fyrsta lagi finnst mér þú vera á villigötum þegar þú telur þig ekki njóta sannmælis sem greindur, klár og vel menntaður einstaklingur af því þú ert kona. Ef þér finnst þú ekki njóta sannmælis ættir þú að skoða hug þinn og kanna hvort eitthvað annað geti verið orsök þess.
Mér finnst þú tala niður til kvenna þegar þú segist hafa goldið fyrir gáfur þínar, konur eru nefnilega fjölmargar afburðagreindar, vel menntaðar og vel ættaðar. Þær konur eru um allt í þessu samfélagi og hafa flestar komist í gegnum lífið án félagslegra árekstra.
Mér finnst þú líka gera lítið úr konum þegar þú segir: "Á hinn bóginn hef ég yfirleitt verið miklu greindari en allir aðrir í kringum mig og þess vegna hef ég hugsað og beitt rökhugsun ekki síður en strákarnir" Ertu þá að segja að konur geti ekki beitt rökhugsun?
Undirrituð gæti svo sem líka talist greindari en margur annar, var hækkuð um bekk í æsku, sprengdi skalann á greindarprófi, er spreng lærð m.a raungreinamenntuð og afburða góð í stærðfræði, eðlisfræði og efnafræði. Auk þess er ég vel ættuð með afbrigðum, þetta er þvílíkt öndvegisfólk sem að mér stendur og mamma taldi aldrei eftir sér að kenna mér kristilega og góða siði.
En Ingibjörg mín. Ég hef alltaf talið mig eina af stelpunum þótt ég sé þessum miklu gáfum gædd og hafi svellkalda rökhugsun enda er það ekkert sérstaklega karlmannlegt, þ.e. að hugsa skýrt!
. Ég hef bloggað og skrifað fjömargar greinar í blöð og tímarit og aldrei upplifað annað en að á mér sé tekið fullt mark. Mitt góða veganesti að heiman er gott sjálfstraust, mamma hamraði á því oft og iðulega að það væri nákvæmlega ekkert sem ég ekki gæti.
Ég hef verið kennari á öllum skólastigum, frá grunnskóla og upp í háskóla og mun aldrei viðurkenna að stelpur séu eitthvað síðri í raunvísindum en karlar og ekki er þeirra rökhugsun neitt verri en karlanna. Það er svo og ljóst að konur eru orðnar fleiri í flestum greinum háskólans, enda er okkur samviskusemi í blóð borin sem fer vel með góðum gáfum, rökhugsun og stærðfræðihæfileikum.
Hins vegar eru konur ekki nógu sjálfsöruggar og kannski er það einmitt það sem er að plaga þig. Við erum alltaf að efast um eigið ágæti og líklega ekki eins áræðnar og karlmenn. Karlmaður getur haft skoðun og blaðrað heil ósköp um hluti sem hann hefur ekkert sérstaklega mikið vit á. Kona opnar helst ekki munninn opinberlega nema vita fyrir víst að hún hefur rétt fyrir sér og er með heimildir fyrir því sem hún segir.
Við eigum skarpgreindar konur um allt land Elsa mín og ekki held ég að þær séu neitt síður greindar en þú þótt ekki hafi þær allar lagt fyrir sig raungreinar. Konur með skoðanir sem er tekið mark á hvort sem þær blogga eða ekki. Nefni ég þar t.d örfáar af fjölmörgum:
Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra, Oddnýju Sturludóttur, Sóleyju Tómasdóttur, Agnesi Bragadóttur (sem er alveg óhrædd við að opna munninn), Rannvegu Rist, Höllu Tómasdóttur, Eddu Rós Karlsdóttur og svo auðvitað hana mömmu, sem gekk ekki menntaveginn en er ekkert síður vel gefin og vel upplýst en hver annar.
ég gæti hins vegar talið upp í allt kvöld karlkyns besservissara sem blaðra og blaðra um hluti sem þeir hafa ekkert vit á ... en það er víst önnur saga
Við eigum vissulega eitthvað í land enn til að ná fullkomnu jafnrétti, en ekki náum við því með því að standa hnípnar og efast um eigið ágæti.
Hafðu það gott Elsa mín, ég hef alltaf dáðst að þér
kveðja
Gugga, þín gamla skólasystir úr jarðfræðinni
Guðríður Arnardóttir, 8.10.2008 kl. 20:22
Jæja. Stund alhæfinganna er liðin.
Kvenmaður getur haft skoðun og blaðrað heil ósköp um hluti sem hann hefur ekkert sérstaklega mikið vit á.
Í anda jafnréttis kvengerir kvennakirkjan guð, sem heitir aðeins fáeinum öðrum nöfnum, öllum kk., og má það alveg. Fjandinn heitir ótal nöfnum, öllum karlkyns. Það hefur alveg farið fram hjá mér ef kvennakirkjan kvengerir hann.
Konur kúga karlmenn og aðrar konur yfirleitt á annan hátt en karlmenn kúga konur og aðra karlmenn. Stundum er manni stjórnað vel af karli eða konu og maður áttar sig ekki fyrr en löngu seinna á því hverslags fleðulegri undirferlisósvífni var beitt á mann. Stundum er reynir karl eða kona að berja í gegn tillögu sem maður sættir sig ekki við. Seinna rennur upp fyrir manni að tillagan var frábær en andúðin beindist að röngum hlutum.
Ég lít ekki á aðra karlmenn sem fulltrúa mína nema þeir séu á svipaðri skoðun og ég, eins get ég litið á konu sem fulltrúa minn og bandamann ef við erum á líkri skoðun eða með svipuð lífsviðhorf.
Karlar eru í mínum huga - svo að ég nefni útvalin dæmi - ýmist duglegir, frekir eða latir. Konur eru ýmist duglegar frekar eða blíðar. Stundum held ég að orðið duglegur merki ekki það sama hjá konum og körlum. Hjá konu er duglegur karlamaður ,,duglegur að skaffa" , en hjá karli merkti það í mínu uppeldi frekar duglegur til verka eða vinnu. Ég held að hjá körlum merki frekja það sama um konur og karla. Kona gæti sagt um karlmann að hann sé duglegur. Karl gæti sagt um sama mann að hann sé löt frekja.
Að meðaltali eru konur ekki jafningjar karla í stjórnarstörfum og eiga langt í land. Fyrsti svertinginn var kosinn á þing í BNA um 1850. Fyrsta konan var kosin þangað upp úr 1900. Ekki þarf að nefna lönd múslima og hindúa.
Manngildi er oft og víða mælt í lengdareiningum.
Upp úr 1970 kom út í Þýzkalandi bókin Der dressierte Mann () eftir konu sem var dr. bæði í læknisfræði og þjóðfélagsfræði. Hún vakti ekki beinlínis kátínu hjá kynsystrum höfundarins. Þetta er bók sem allir ættu að lesa.
() Dressieren merkir að siða eða temja t.d. hunda.
Aðalsteinn (IP-tala skráð) 10.10.2008 kl. 14:18
Afar athyglisverðar umræður!
Anna Karlsdóttir, 11.10.2008 kl. 13:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.