6.10.2008 | 20:00
Hvar er hagnaðurinn frá Kárahnjúkum og vill atvinnulífið meiri skuldsetningu ríkisins?
Ég sem hélt að Kárahnjúkar myndu bjarga öllu og hagnaðurinn myndi verða svo mikill að hann myndi halda okkur gangandi í fjöldamörg ár! En hvar er allur hagnaðurinn núna? Týndist eitthvað í útreikningunum? Var orkuverðið of lágt? Settum við öll eggin í sömu körfuna?
Vilhjálmur Egilsson vill meiri stóriðjuframkvæmdir og það strax. En hann gleymir einu. Stóriðjuframkvæmdir eru hroðalega dýrar og þær þarf að fjármagna með lánsfé í erlendri mynt. Er Vilhjálmur að biðja um það að ríkið skuldsetji sig enn frekar og taki óhagstæð erlend lán til að fara í fleiri framkvæmdir sem skila ekki nægilega miklum hagnaði?
Hvar er arðsemismatið fyrir Helguvík? Er ekki orkuverð of lágt? Er ekki gengi álfyrirtækjanna að lækka?
Mér finnst að í stað þess að einblína á stóriðju ætti Vilhjálmur Egilsson að einbeita sér að því að bjarga öllum þeim fjölmörgu smáfyrirtækjum sem munu líklega fara í þrot á næstu vikum, fyrirtækjum sem hafa skapað mun meiri atvinnu til þessa en öll álver landsins.
Athugasemdir
Sæl Ingibjörg. Það er ljóst að baráttan fyrir náttúru Íslands mun verða ansi hörð á næstunni. Að hlusta á Óla Björn í Kastljósinu áðan um að fella eigi úr gildi lög um umhverfismat sýnir að nú á að reyna að ná eins langt og hægt er, í skugga kreppunnar. Með öðrum orðum þá eru sumir farnir að hrópa, að nú séu erfiðir tímar og því verðum við að drífa í að búa til skó úr skinnhandritunum. Skammsýni virðist eiga að vera boðorð áfram, eitthvað sem þjóðin er þó búin að fá yfir sig nóg af upp á síðkastið. Við skulum vona að stjórnvöld hafi meiri ábyrgðarkennd og sterkari framtíðarsýn en svo að hún taki marka á svona. Verst, að maður er ekkert bjartsýnn á það, svona í ljósi reynslunnar.
Friðrik Dagur Arnarson (IP-tala skráð) 6.10.2008 kl. 20:56
Menn eru bara í nettu sjokki og lenda í því að ætla að græja klúðrið með skyndilausnum. Pétur Blöndal toppaði þetta bull í Sylfri Egils í gær þegar hann stakk upp á að selja Kárahnjúkavirkjun og/eða Þjórsá!
Ég frábið mér þessar panikskyndilausnir - held að stóra málið sé að styðja með yfirveguðum hætti við það sem fyrir er. Það er heldur enginn að fara að í stórframkvæmdir á næstunni þar sem óframkvæmanlegt verður að fjármagna þær.
Haraldur Rafn Ingvason, 6.10.2008 kl. 21:45
Nú helt ég að Landsbankinn sé farinn á hausinn þar að segja að lán hans hafa verið látinn falla onn á hann. Það er það sem allir þessir kallar eru að fela það er mín tilgáta!!!!!!
Sendiboðinn (IP-tala skráð) 6.10.2008 kl. 23:47
Kárahnjúkar kostuðu um 200 milljarða en gjaldeyrisinnstreymið og erlendalánabólan var samtals um 1000 milljarðar, þannig að það fóru um 800 milljarðar í aðrar framkvæmdir á sama tíma, sennilega í framkvæmdir á höfðuborgarsvæðinu. Uppbygging á hverfum, háhýsum og öðrum framkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu. Þessir 200 milljarða framkvæmd er farin að skila inní þjóðarbúið gjaldeyri til þjóðabúsins, en fasteignalánin og innstreymi þeirra fjármuna hefur valdið verðbólgu, þar sem of mikið af peningum var í umferð ótengt gjaldeyrisöflun til framtíðar.
Þetta ástand er ekki Kárahnjúkum að kenna heldur efnahagsstjórnar mistökum, því miður þá voru einstaklingar innan stjórnkerfisins ekki að vinna vinnuna sína eða fengu það ekki eða það var ekki tekið mark á þeim, þar sem stjórnandinn var sterkur og ráðríkur einstaklingur. Það voru stjórnvöld sem áttu að taka í taumana fyrir um 6 mánuðum, ég tala nú ekki um ef þeir hefðu gert það á síðasta ári, til að koma í veg fyrir þetta ástand sem er löngu fyrirséð og ef þið lesið þetta innslag sjáið þið að það eru liðnir nokkuð margir mánuður frá því þetta var ljóst.
http://www.vald.org/greinar/060917.htm
Friðrik Björgvinsson, 7.10.2008 kl. 00:02
Það er skelfilegt að sjá þröngsýnismöppudýr tjá sig svona. Við verðum að berjast gegn græðgisvæðingunni sem á endanum lætur okkur standa frammi fyrir komandi kynslóðum afsakandi hvað við vorum lélegar auðjöfrarhækjur. Kannski á að auka þorskkvótann. Kannski eru þessar ráðstafanir ríkisins réttar. En hvenær eigum við að hætta að láta náttúruna njóta vafans?
Ævar Rafn Kjartansson, 7.10.2008 kl. 01:05
Það liggur alveg dagljóst fyrir, að það sem hefur staðið okkur fyrir þrifum hingað til og orsakað þessa svokölluðu kreppu, eru þessi fáránlegu lög um umhverfismat.
Afnema þau og allt verður gott aftur
Hildur Helga Sigurðardóttir, 7.10.2008 kl. 04:31
Þetta er nú bara fáránleg spurning hjá þér, því arðsemin er mjög góð, og þeir sem það vilja vita, vita það, hann er meira að segja miklu meiri en gert var ráð fyrir og skilar gríðarlegum gjaldeyri .
Uppbygging verslunnarmolla, geymslukassa, (=blokkir), tvöföldun á hinum á þessum götum, af því að borgarbúar nenna ekki að taka strætó, skapar hins vegar ekkert nema vesen, vandræði og verðbólgu því að skilar engu inn í þjóðarbúið nema mengunn, bæði sjónmengun og loftmengun.
pjakkur (IP-tala skráð) 7.10.2008 kl. 08:22
Mæl þú manna heilust Ingibjörg Elsa. Smáfyrirtækin eiga erfitt núna og við verðum að leggja allt kapp á að bjarga þeim ekki að rjúka út í fleiri álver eða stórverksmiðjur.
Steingerður Steinarsdóttir, 7.10.2008 kl. 09:15
Ingibjörg, ríkið skuldsetur sig ekki vegna stóriðjuframkvæmda, heldur fer þetta svona fram:
Svona er þetta ferli, hvorki ríkið né almenningur kemur þarna nálægt með neitt fé.
Þeir 1.000 mia.kr. sem komu inn í þjóðarbúið samfara Kárahnjúkaframkvæmdunum fóru mestmegnis til að búa til ný íbúðahverfi á Stór-Reykjavíkursvæðinu, til að kaupa flatskjái, Range-Rovera og Porche-jeppa og til uppbyggingar háhýsa og verslunarmiðstöðva og fjárhættuspil í bönkum og fjármálafyrirtækjum, já hvar haldið þið? - á Höfuðborgarsvæðinu, eða sem svarar 800 mia.kr. í hluti sem engan arð gefa af sér eins og við erum að sjá núna þegar bankarnir hrynja.
Á meðan malar Fjarðarál gull í þjóðarbúið og skapar útflutningstekjur og atvinnu fyrir fjölda manns.
Umhverfisvernd er svo mikið 2007 þegar allt lék í lyndi. Má segja að umhverfisvernd hafi verið orðið einskonar velmegunarsport þess tíma, þegar hægt var að "búa" til náttúruperlur allstaðar úti á landi þar sem átti að framkvæma eitthvað.
Gunnþór Helgi Guðlaugsson (IP-tala skráð) 7.10.2008 kl. 14:03
Kæri Gunnþór,
Það er önnur ógn handan við hornið sem er mun alvarlegri og umfangsmeiri en gjaldþrot íslensku bankanna. Þar er ég að tala um ógnina sem stafar af loftslagsbreytingum.
Ef við notum okkar endurnýjanlegu orkugjafa til að auka losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloft jarðar, erum við ekki að gera neinum greiða, hvorki okkur sjálfum né komandi kynslóðum. Meira um þetta síðar...
Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir, 7.10.2008 kl. 14:35
Kæra Ingibjörg.
Ég veit ekki hvað loftlagsbreytingar koma þessari færslu þinni við nema þá það að nota megi hina umhverfisvænu orku Íslands, fallvötn og jarðhita til að stunda hérna arðbæran og umhverfisvænan atvinnurekstur í staðinn fyrir að slík framleiðslu fari fram í þróunaríkjum þar sem mengunarlög þekkjast ekki. Mér skylst að í Kína séu gangsett 2-3 kolaorkuver á viku hverri, en hvert þeirra svarar til einnar Kárahnjúkavirkjunar í uppsettu afli.
Varðandi loftlagsbreytingar, þá trúi ég ekki á alheimshlýnun af mannavöldum. Til að mynda var verulega hlýrra hér á landi á landnámsöld og reyndar á Jörðinni allri. Allt gæti verið farið að kólna aftur á Jörðinni eftir hlýnun sem hófst kringum 1980. Ýmislegt bendir til að farið sé að kólna á Jörðinni, þróun sem hófst á miðju ári 2004. Þannig var árið 2003 hlýjasta árið á þessari öld, en síðan hefur farið kólnandi.
Árið 1975 var hér á landi haldin ráðstefna þar sem til umræðu var kólnun á norðurslóðum sem menn töldu að myndi eiga sér stað næstu árutugina. Þannig var því haldið fram að árið 2000 myndi vera komin lítil ísöld hér á landi og að land og þjóð yrði að búa sig undir nýja lífshætti sökum þessa. Eins og allir vita stóðust þessar spár ekki
Hvað ætlið þið umhverfisfræðingar að gera ef í ljós kemur að það fari kólnandi á Jörðinni? Ætlið þið að standa fyrir einhverjum björgunaraðgerðum líkt og verið er að gera vegna svokallaðrar alheimshlýnunar?
Gunnþór Helgi Guðlaugsson (IP-tala skráð) 7.10.2008 kl. 15:47
Menn gleyma því að það tekur 100 ár að borga niður Kárahnjúkavrikjun og svo í öllu hagnaðartali af útflutningi álvera gleymist að það er innflutningur sem fylgir þeim líka.
Ekki króna af fjárfestingunum á Káranjúkum fór í jeppa á höfuðborgarsvæðinu. Gleymum ekki að það voru Ítalir sem reistu og kínverski, pólskir og annarra þjóða verkamenn sem reistu álverið og þeir sendu launin sín úr landi.
Jepparnir voru keyptir fyrir gjaldeyrislán eins og Baugsbúðirnar og fleira. Við þann vanda erum við að glíma. Engin Kárahnjúkavirkjun eða álver í Helguvík og Bakka bjargar þessari stöðu. Að halda því fram er bara kjaftæði og blekking.
ga (IP-tala skráð) 7.10.2008 kl. 18:41
ga
Mér heyrist þú vera ga-ga. Það tekur engin 100 ár að borga niður Kárahnjúkavirkjun. Það tekur 40 ár, líkt og það tók að borga niður Búrfellsvirkjunina á sínum tíma. Hvaðan hefur þú þessa tölu??
Ég veit það að ekki króna fór í jeppa eða framkvæmdir á Höfðuborgarsvæðinu, heldur af því fjármagnsflæði sem kom í kjölfar fjárfestingarinnar í Kárahnjúkum.
Hinsvegar fór ekki króna, ég endurtek; ekki króna af skattpenningum landsmanna í framkvæmdirnar við Kárahnjúka og áverið í Reyðarfirði, eins og ég hef bent á í aths. nr. 10 hér að ofan, því ef svo hefði verið hefði orðið að hækka skatta hér á landi, en þeir hafa þvert á móti farið lækkandi undanfarin ár.
ga-ga, hvað áttu við með því að Kárahnjúkavirkjun eða álver í Helguvík og á Bakka bjargi ekki neinu?? Allar þessar framkvæmdir skapa atvinnu og þar með hagvöxt. Skilur þú hugtökin "atvinnulíf" og "efnahagur".
Gunnþór Helgi Guðlaugsson (IP-tala skráð) 8.10.2008 kl. 09:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.