Sögur frá Skaftáreldi - hugleiðing um bækur

031505_Divinity_Library_57Er að lesa Sögur frá Skaftáreldi eftir Jón Trausta.  Gefin út í Reykjavík af bókaverslun Sigurðar Kristjánssonar árið 1912 og árituð af höfundi sem gjöf til langafa míns, séra Magnúsar Bjarnarsonar á Prestsbakka á Síðu. 

Bókin er skrifuð á fögru máli og gulnaðar síðurnar segja enn stórkostlega sögu um örlög fólks, náttúruhamfarir og sögu þjóðarinnar.

Býsna margir eru það sem skamma mig þessa dagana fyrir að safna bókum og hugsa vel um bækur.  Menn segja að bækur séu einskis virði og henda þeim jafnvel án þess að skoða nánar hvað þeir eru með í höndunum.

Víst er það að sá hnútur sem fastast vér bindum raknar og bókfellið velkist og eyðist.  En það má ekki gleyma því að tölvur eru tiltölulega nýleg fyrirbæri og að stór hluti íslenskrar menningar og sögu er enn geymdur á bókum og gulnuðum blöðum.  

Þessi gulnuðu blöð geyma æðaslátt aldanna, og ég gæti ekki lifað af í því andleysi sem ríkir nú um þessar mundir hér á landi, án þess að hafa bækur til þess að tengja mig við landið, söguna og veröldina alla.

Íslensk tunga er lifandi á þessum gulnuðu blöðum og ef ég hef ekki þessi gulnuðu blöð í kringum mig þá mun ég veslast upp eins og jurt sem nær ekki í blessað vatnið.  

Auk þess þá les ég bækurnar mínar, hverja af annarri, blaðsíðu fyrir blaðsíðu.  Þær eru alls ekki bara upp á punt.  Ég er jú alin upp á Aragötu, götu Ara fróða, við hliðina á Árnagarði, ég er afkomandi Arngríms lærða og það er alveg forkastanlegt að ætlast til þess af mér að ég hugsi ekki vel um bækur og varðveiti þær eins og sjáaldur auga míns.  Engin bók sem komist hefur í mínar hendur hefur verið svo aum að henni hafi ekki verið a.m.k. flett og hún könnuð örlítið.  Einni bók hef ég hent um ævina - það var bókin Timeline eftir Michael Chrichton.  Mér fannst hún svo ógeðfelld að ég ákvað eftir lestur hennar að henda henni beint í ruslið.

Alla jafna hef ég þá stefnu að hugsa vel um og varðveita alla hluti.  Það sem ég get alls ekki notað sjálf kem ég í notkun til annarra.  Að henda hlutum er yfirleitt ekki valkostur.

Ég veit að gamlar bækur eiga eftir að fá uppreisn æru og verða aftur verðmætar.  En jafnvel lítið kver sem e.t.v. hefur ekki mikið fjárhagslegt gildi, getur verið mikil Guðs gjöf og þess vegna skyldi ætíð umgangast bækur af umhyggju og virðingu. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórir Kjartansson

Sögur frá Skaftáreldi eru ótrúlega skemmtilegt skáldverk, um  persónur, sem lifðu þessa ógnvænlegu tíma. Merkilegt hvað Jón Trausti gat sett sig inn í alla staðhætti,  með sínum stuttu heimsóknum hingað í Skaftáþing.

Þórir Kjartansson, 28.8.2008 kl. 11:49

2 identicon

Ég á fyrstu útgáfuna af Manni og Konu, og Pilti og Stúlku, þetta eru algerar gersemar í mínum augum og held vel upp á, og kíki oft á gulnaðar síðurnar. Tölvubörn nútímans eiga líklega aldrei eftir að átta sig á gildi gamalla bóka, það fer þó efalaust eftir uppeldinu og skólunum (kennurunum). 

Reyk-víkingurinn (IP-tala skráð) 28.8.2008 kl. 15:37

3 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Þessir hræðilegu atburðir sem Jón Trausti segir frá, mörkuðu söguna víðar en á Íslandi. Talið er að askan frá gosinu hafi breist vítt og breytt um Evrópu og í samtímalýsingum er t.d. rætt um að himininn hafi verið rauður sumarið 1783. Benjamín Franklín var fyrsti sendiherra nýstofnaðra Bandaríkja Norður-Ameríku og mældi hann sólarhæðina þá loksins að sólin náði að skína gegnum mistrið. Var þá sólin komin í 19 gráðu hæð eða eins og sólin rís hæst yfir sjóndeildarhring í byrjun mars! Afleiðingarnar voru skelfilegar ekki síður en á Íslandi. Uppskerubrestur varð mikill þá um haustið sem og næstu ár og olli ólgu víða um lönd sem einna hæst reis í Frakklandi. Ekki þarf að rekja þá örlagasögu lengra.

Varðandi bækur þá hvet eg alla til að lesa um Ingimund prest í Prestssögu Guðmundar góða (hluti Sturlunga sögu) og hvernig hann sinnti bókum sínum eftir að hafa týnt þeim fyrir borð en endurheimt bókakistil sinn rekinn á Ströndum. Mættu fleiri lesa þá frásögn og hafa í heiðri.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 28.8.2008 kl. 15:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband