23.8.2008 | 20:54
Fara fornleifar frá landnámsöld undir vatn?
Á jörðinni Þjótanda við Þjórsá hafa fundist og er verið að grafa upp mjög merkar fornleifar. Um er að ræða minjar frá landnámsöld að hluta til, og er þar á ferðinni einhvers konar skáli og annað samfast hús. Ýmsar hugmyndir hafa komið fram, m.a. að hugsanlega geti verið um einskonar veiðistöð að ræða við ána. Einnig eru á svæðinu forn gripahús sem eru þó mun yngri en frá landnámsöld og hefur þessi staður því verið í notkun í margar aldir.
Skálinn sem er frá landnámsöld er einungis hlaðinn úr torfi. Það er ekkert grjót í veggjunum. Eldstæði er í miðjum skálanum, öskuhaugur undir vegg og þrepskjöldur við innganginn sem er ótrúlega vel varðveittur.
Minjar þessar teljast merkilegar, ekki bara hér á Íslandi, heldur einnig á öllum Norðurlöndunum, og þær gefa okkur innsýn í menningu og hugarheim víkingaaldar. Innsýn sem við megum ekki glata.
Það er því umhugsunarefni að ef Þjórsárvirkjanir verða að veruleika hverfa þessar fornleifar að eilífu undir vatn.
Athugasemdir
Það væri mikil vanvirðing við menningarverðmæti okkar og sögu. Bendi í tengslum við þetta á tvö Spegilsviðtöl í tónspilaranum á bloggsíðunni minni. Bæði eru þau við Guðrúnu Helgadóttur, prófessor við Hólaskóla, merkt: Spegillinn - Guðrún Helgadóttir - Menningarverðmæti 1 og 2.
Lára Hanna Einarsdóttir, 23.8.2008 kl. 21:20
Var þarna á ferð í síðustu viku og fékk smá leiðsögn um þessi stómerku mannvirki. Það var sól og blíða þennan dag og auðvelt að fara í huganum þúsund ár aftur í tímann og dást að eljusemi, seiglu og örugglega stolti þessara forfeðra okkar. Eitthvað annað er uppá teningnum í dag, því miður. Íslandi öllu skal sökkt...
Ásgeir Kristinn Lárusson, 24.8.2008 kl. 09:44
Ég skil sjónarmiðið sem fornleifafræðingur, en rannsóknin hefði hins vegar varla farið fram í fyrra ef virkjunarframkvæmdir væru ekki fyrirhugaðar.
Aðrar fornleifar í Þjórsárdal hafa því miður ekki verið varðveittar nógu vel. Ég reyndi með húsafriðunarnefnd Þjóðminjasafnsins að bæta ástand rústarinnar á Stöng. Því miður hef ég ekki getað fylgt því eftir. En líklegast er þar allt á afturfótunum eins og vant er.
Þjóðveldisbærinn (Gúmmístöng) og kirkjan við Búrfell, sem menn segja að sé byggð á grundvelli kirkju þeirrar sem ég rannsakað á Stöng, eru ein stór blekking. Þjóðveldisbærinn var hugarsmíð rómantísks skólastjóra. Enginn bær hefur litið út eins og Þjóðveldisbærinn. Kirkjan er hugarsmíð einhvers arkitekts í Reykjavík, sem var fenginn til að gera reisa kirkju í stíl við Þjóðveldisbæinn, án þess að hafa fornleifafræðinginn sem gróf hana upp í ráðum.
Hér er smá lesefni um minjar í Þjórsárdal
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 24.8.2008 kl. 14:35
Sæl Ingibjörg.
Leifar frá þjóðveldisöld eru til víða um land, sumt sem vitað er um annað ekki. Á mörgum sveitabæjum er núverandi bæjarhús byggt á rústum bæja allt frá því á söguöld og annað eins undir sléttuðu túninu. Það er nú einu sinni svo að byggð hefur haldist í landinu í ellefu hundruð ár og því miður þurfa þeir sem uppi eru á hverjum tíma að byggja eins og þeim hentar. Mér sýnist reyndar að þessi rúst sé ekki lengur til, aðeins uppraðaðir steinar sem væntanlega verður mokað yfir. Og svo teikningar af henni og myndir. Og hvernig skyldi standa á því að hún var grafin upp?
Þó gamlar minjar séu merkilegar og fróðlegt að skoða þær og sjálfsagt að láta þær óhreyfðar, þar sem hægt er, og jafnvel sneiða hjá þeim í mannvirkjagerð. En það er ekki samt svo að hægt sé að hlífa öllu. Ef svo væri væri líklegast best að flytja burt af landinu.
Jóhann Zoëga (IP-tala skráð) 24.8.2008 kl. 14:55
Það er áhugavert að verið sé að grafa eftir fornminjum á Íslandi. Þessi fræðigrein er nú ein af mörgum sem illa hefur fengið að líða fyrir lítinn áhuga stjórnmálamanna og þeirra sem hafa peninga aflögu að leggja í slíkt fyrirtæki sem og að grafa í íslenska jörðu.
En samt vil ég taka undir orð Vilhjálmar Arnar, að ef ekki hefði komið til þessarar undirbúningvinnu vegna virkjanaframkvæmda, hefði líklega aldrei verið grafið þarna.
Annað er að ég sé ekki að þetta sé stórmerkilegt, en vissulega áhugavert. Þú segir í textanum þínum: "Minjar þessar teljast merkilegar, ekki bara hér á Íslandi, heldur einnig á öllum Norðurlöndunum, og þær gefa okkur innsýn í menningu og hugarheim víkingaaldar." Ég held ég leyfi mér að segja að tæpast gefi þessi uppgröftur okkur innsýn í "hugarheim víkingaaldar". Fáir "víkingar" munu hafa búið á Íslandi, og þá heldur uppgjafa víkingar" en "starfandi" sem slíkir. Hitt er að hugarheimur téðrar víkingaaldar sem þú nefnir svo, mun hafa verið mikið blandaður hinum kristna hugarheimi - ef ég má nota slíkt orðfæri. "Víkingatíminn er yfirleitt álitinn hefjast árið 793 þá er norrænir menn gerðu árás á klaustrið í Lindesfarne. Lok þessa tímabils eru miðuð við stríð Haraldar Guðvinssonar og Vilhjálms sigursæla við Hastings árið 1066. Svo mikið af þessum tíma hefur farið framhjá vesturförum frá Skandinavíu, sem leituðu jarðnæðis og friðar frá smákóngadeilum og jarðnæðisþrengslum í Nórvegi, Svíþjóð og löndum Dana.
Nóg um það. Annars Vilhjálmur - hvar getur maður séð þínar niðurstöður og nú meina ég ekki það sem þú nefnir rómatískar hugmyndir - heldur tilgátulíkön þín og kenningar? Hvar finnur maður þetta efni. Bestu kveðjur, Baldur
Baldur Gautur Baldursson, 24.8.2008 kl. 17:02
Fyrirgefðu, en hvað er merkilegt við holu með nokkrum steinum í sem á að vera frá landnámsöld? Sorry, ég bara spyr.
Ættir kannski að skreppa til Evrópu, Grikklands t.d. og virða fyrir þér byggingarstílinn frá sem þeir höfðu uppi í kringum 800 e.k. Það er svolítið annað en holur í mold með torfþaki yfir.
Sorrý, en Íslendingar hafa engar byggingar (holur) sem virði er að varðveita og ef einhver efnahagslegur hagur fylgir því að fylla þetta svæði af vatni, þá á aðsjálfsögðu að gera það. Holur með steinum í skipta engu máli.
Bó, 24.8.2008 kl. 19:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.