22.8.2008 | 10:19
Gamli sjálfstæðisflokkurinn og nýji frjálshyggju-sjálfstæðisflokkurinn
Það er til fullt af eldra fólki sem kýs ennþá sjálfstæðisflokkinn af því að það man einhvers staðar í afkimum hugans eftir flokki sem sagðist standa vörð um velferðarsamfélagið og sem sagðist vera flokkur allra stétta. Það var fullt af verkafólki sem kaus Sjálfsstæðisflokkinn í gamla daga, af því að það trúði því í einlægni að flokkurinn stæði vörð um hagsmuni þeirra smáu, ekki síður en þeirra háu.
Sjálfstæðisflokkurinn hafði á þessum tíma félagslega vídd, eða velferðarvídd sem átti a.m.k. skv. kenningunni að ná til allra Íslendinga. Við vorum öll ein stór fjölskylda hér á Íslandi og Íslendingar stóðu saman.
En nú er samstaðan rofin. Nú er sturlungaöld hafin. Eftir að Nýfrjálshyggjan í anda Tatchers og Reagans náði tökum á Sjálfstæðisflokknum undir stjórn Davíðs Oddssonar, Hannesar Hólmsteins, Guðlaugs Þórs hefur velferðarsviði sjálfstæðisflokksins verið slátrað. Félagslega sinnuðum sjálfstæðismönnum hefur verið ýtt út í horn, auðmenn og verktakar vaða uppi innan flokksins og enginn trúir því lengur í alvöru að sjálfstæðisflokkurinn sé í dag flokkur allra stétta.
Ef maður fylgist með borgarmálunum eða landsmálunum sér maður bara botnlausa spillingu meðal sjálfstæðismanna, valdafíkn, græðgi og aðra lesti sem teljast til dauðasynda meðal kaþólskra manna.
Ég hef stundum verið sökuð um það að svíkja Sjálfstæðisflokkinn. En það er ekki rétt. Það var Sjálfstæðisflokkurinn sem sveik mig. Sjálfstæðisflokkurinn sveik mig þegar hann byggði Kárahnjúkavirkjun, Sjálfstæðisflokkurinn sveik mig þegar fatlaður bróðir minn fékk ekki þá aðstoð í skólakerfinu sem hann átti rétt á skv. lögum. Sjálfstæðisflokkurinn sveik mig þegar ég var rekin frá RANNIS vegna þess að ég mótmælti bullandi einelti sem viðgekkst á vinnustaðnum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur svikið mig svo oft, að ég er löngu búin að gefast upp á því pólitíska hjónabandi.
Sjálfstæðismenn hafa meira að segja boðið mér að ganga í flokkinn og breyta honum innan frá. Ef þú ert svona gagnrýnin, segja þeir, af hverju kemur þú ekki bara til okkar og breytir málunum?
En því miður. Ég hef akkúrat enga trú á því að einmitt ég muni breyta ferlíki eins og Sjálfstæðisflokknum og einhvern veginn finnst mér ég hafa miklu betri félagsskap og njóta þess betur að starfa innan VG.
En gamla fólkið heldur áfram að kjósa.
Athugasemdir
Hæ Ingibjörg, ég ákvað að kasta á þig kveðju hérna en ég hef ekki séð þig nokkuð lengi núna þar sem ég er í París og verð til 1. október. Ég vona að þýðingarnar gangi vel. Sjáumst vonandi í haust í bókabúðinni:)
Elín Gunnlaugsdóttir (IP-tala skráð) 22.8.2008 kl. 22:59
Ég skil þig MJÖG vel !!
Edda (IP-tala skráð) 23.8.2008 kl. 00:34
Góður pistill, engu við hann að bæta.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 26.8.2008 kl. 11:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.