12.8.2008 | 08:12
Þriðja leiðin
Um daginn lést maður sem hét Alexander Solsjenitsyn. Hann var andófsmaður og mjög gagnrýninn á sovét kommúnismann. Það gleymist hins vegar, að hann var einnig mjög gagnrýninn á hinn óhefta kapítalisma og taldi m.a. aukið frelsi ekki hafa tilgang án markmiðs. Til hvers að leyfa börnum aukið frelsi til að horfa á hryllingsmyndir, sagði hann. Er frelsið alltaf jákvætt gildi í sjálfu sér? Væri t.d. jákvætt að hafa meira "frelsi" í umferðinni.
Solsjenitsyn benti í skrifum sínum á þriðju leiðina - hann vísaði til skipulags heimsins sem einkenndist hvorki af sovét kommúnisma, né af óheftum kapítalisma í anda Dickens. Kannski má kalla þessa þriðju leið hinn nýja heim. Þessi þriðji heimur myndi vera vistvænn og sjálfbær. Ekki yrði gengið nær höfuðstóli náttúrunnar en mögulegt er. Hann yrði heimur samhjálpar, friðar og innri íhugunar. Meiri áhersla yrði lögð á andleg og vitsmunaleg verðmæti, heldur en efnahagskerfi og ytra skipulag. Stjórnmálamenn myndu hætta að hlusta á hagfræðinga og fara að hlusta á heimspekinga og trúarleiðtoga. Þetta yrði hinn siðferðilega réttláti heimur (An ethically just world).
Það er allavega ljóst af gangi sögunnar, að sovét kommúnisminn er hruninn, kapítalisminn gengur ekki til lengdar vegna þess að hann grefur undan grundvelli siðmenningarinnar, þannig að mannkynið stendur nú frammi fyrir því tækifæri - já við skulum kalla það tækifæri, - að skapa hinn nýja heim. Það er nú í höndum unga fólksins, að reyna að finna nýja og betri skipan mála, og slíkt verkefni er brýnt, vegna þess að segja má að eyðsla og sóun kapítalismans sé að ganga mjög nærri náttúrulegu umhverfi okkar. Ekki er þó nóg að setja upp nýtt efnahagskerfi. Það þarf nýja hugsun, ný innri viðhorf, og visku til að skapa hinn nýja heim.
Athugasemdir
Hvaðan hefur þú þessar upplýsingar um kapitalismann Ingibjörg? Hver segir að í kapitalísku landi eigi ekki að vera lög og reglur eins og í umferðinni og þess háttar?
Jón Jónsson, 12.8.2008 kl. 09:55
Jon Jónsson, Ingibjörg segir hvergi að það "eigi ekki að vera lög og reglur eins og í umferðinni og þess háttar?"...hvernig færð þú þær upplýsingar? Hún vitnar hinsvegar í Solsjenitsyn og segir "Er frelsið alltaf jákvætt gildi í sjálfu sér?
Væri t.d. jákvætt að hafa meira "frelsi" í umferðinni."...
PS....mér finnst vert að allir hugsi um þessa spurningu Solsjenitsyn og svari hvr fyrir sig (án þess að blanda persónu Ingibjargar á Selfossi inní þessa hugsun , eins og Jón Jonsson vill).
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 13.8.2008 kl. 00:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.