8.8.2008 | 08:39
Dansað í kringum gullkálfinn
Á síðustu 200 árum hafa komið fram hinir nýju guðir mannlegrar rökhugsunar, tæknihyggju og auðsöfnunar. Einnig hefur sjálfstæði þjóðríkja verið ýtt til hliðar með þeim rökum að markaðurinn einn og frjáls eigi að ráða. Þessir nýju Guðir hafa komið í staðinn fyrir trúna á heilagan Skapara, og á heilagt innihald náttúrunnar og heimsins. Þannig er í nútímanum ekkert lengur sem er heilagt.
Hefðbundin og söguleg tengsl á milli manns og náttúru hafa verið rofin og bóndinn er gerður að verkamanni á meðan kaupandinn er gerður að neytanda.
Hið mikla magn mengunar og gróðurhúsalofttegunda sem er nú í andrúmslofti jarðar eru tengd þessari markaðsdýrkun, og auðsdýrkun. Markaðshyggjan heldur því fram, að með því að safna auði í bönkum og með því að safna gulli eða pappírspeningum, sé hægt að undirbúa sig fyrir framtíðina. Á sama tíma er gengið á hinn eina sanna höfuðstól, sem er höfuðstóll náttúrunnar, -regnskógum er eytt, eyðimerkur eru búnar til, andrúmsloft jarðar er eyðilagt. Það stoðar manninn lítið að eiga gull í bankanum, ef andrúmsloftið er það mengað að það skaðar heilsu manna.
Heimsveldi markaðarins og stórfyrirtæki leitast í dag við að stjórna veröldinni. Gallinn er bara sá að markaðurinn er blindur og stórfyrirtækin eru siðlaus. Þess vegna munum við verða dæmd af náttúrunni og Guði í skilningi Gamla Testamentisins, með þeim dómi sem þó felur í sér endurlausn og möguleika á því að skapa betri og réttlátari heim.
En réttlátari heimur verður ekki að veruleika nema menn snúi af þessari braut markaðsveldisins, og komist aftur í samband við sjálfa sig, hið heilaga í veröldinni og náttúruna sem slíka.
Athugasemdir
Ég hef aldrei skilið svona svartsýni. Viltu að við hverfum aftur til dagana fyrir iðnvæðingu - nú eða jafnvel fyrir landbúnaðarsamfélagið? Hafa ekki alltaf verið til það sem þú kallar "siðlaus" fyrirtæki í einu eða öðru formi? Ekki halda að mannskepnan hafi ekki farið að kúga aðra fyrr en nýlega og að það sé einhver afleiðing af "nútímavæðingunni".
Og hvernig eru þessi hefðbundnu og sögulegu tengsl milli manns og náttúru rofin í dag? Það er einmitt á síðustu einni og hálfri öld sem maðurinn fór að gera sér grein fyrir gildi náttúrunnar og hugtakið "óspillt náttúra" varð til. Sá hugsanagangur leiddi því miður einnig af sér þá rökvillu að maðurinn stæði alltaf andspænis náttúrunni og allt sem hann gerði væri slæmt fyrir hana. Þessi færsla er lýsandi dæmi þess.
Kristján Hrannar Pálsson, 8.8.2008 kl. 09:07
Sæl Ingibjörg.
Ég er sammála hverju orði þessara harmkvæla. Spurningin er hvert eigum við að snúa okkur. Hvað fær þá sem hafa tekið að sér ráðsmennskuna á þessari jörð til að hugsa meira um það sem mölur og ryð fær ekki grandað í stað Gullkálfsins. Þessi alheimslega umferðarteppa sem við erum í, þar sem allir liggja á flautunni, hlýtur að eiga sér lausn. En hver er hún að þínu mati?
Svanur Gísli Þorkelsson, 8.8.2008 kl. 17:35
Það sannast á þér Kristján Hrannar spakmælið sem segir eitthvað á þá lund að það er útilokað að koma nokkrum manni í skilning um það sem launaseðillinn hans meinar honum að skilja.
Þessi hugleiðing þín Ingibjörg er góð og jafnframt sönn um allar ályktanir. Hafðu þökk fyrir hana ásamt ýmsu fleira sem þú hefur sent frá þér um þessi efni!
Árni Gunnarsson, 8.8.2008 kl. 19:24
Mjög góð greining. Vísasta leiðin að Harmageddon Opinberunarbókarinnar er sú leið sem við erum á, leið blindrar peningagræðgi.
Theódór Norðkvist, 8.8.2008 kl. 23:01
Ég held að fólk skilji ekki alveg hversu klikkað það er að halda því fram í fúlustu alvöru að e-k heimsendir sé í nánd þar sem eitthvert afl komi til með að draga fólk í tvo dilka eftir einhverjum loðnum skilgreiningum á því sem telst "gott" og "vont".
Svona "heimur versnandi fer" væl hefur þekkst frá dögum Sókratesar (þar sem hann m.a. vælir yfir unga fókinu "nú til dags" nema hvað ekkert bólar á heimsendi, hvað þá versnandi heimi. Þrátt fyrir að hann sé langt í frá fullkominn og að ýmsu leyti slæmur þá hlýtur það að vera augljóst að mannkynið hefur aldrei haft það betra en einmitt nú.
Kristján Hrannar Pálsson, 9.8.2008 kl. 01:54
Kristján; Það er heimsendir á hverjum degi, bókstaflega hjá þúsundum sem deyja úr sulti, stríði, aids og öðrum sjúkdómum sem eru bein afleiðing þeirrar hegðunar sem þú kallar heimur "versnandi fer væl". - Um helgina kom sterkasta viðvörun vísindamanna fram að þessu hér í Bretlandi um að 2 gráðu hitnun væri ekki lengur raunhæf viðmiðun, heldur væri 4 gráðu hitnun raunhæfari og landið ætti að undirbúa sig undir það. 4 gráður er heimsendir fyrir þann heim sem við þekkjum og það mun ganga eftir á næstu 20 árum. - Um að mannkynið hafi aldrei haft það betur, þá ertu sjálfsagt að tala um sjálfan þig, því ekki ertu að tala um þær miljónir sem daglega líða skort á nauðsynjum eða lifa í stríðshrjáðum löndum. Hvaðan kemur þér þessi sjálfselska og miskunnarleysi að segja að allt sé bara í góðu lagi?
Svanur Gísli Þorkelsson, 9.8.2008 kl. 09:38
Svanur: Þú gerir ítrekaðar tilraunir til þess að misskilja mig. Með heimsendi átti ég við þann sama biblíulega heimsendi og Ingibjörg minntist á - ekki einhvern útúrsnúning á orðinu eins og þú virðist setja það í.
Ég var EKKI að draga úr þeim hörmungum sem dynja yfir heiminn. Ég er einungis að benda á skortinn á samhengi sem setja þarf hlutina í. Hvernig er hægt að stökkva á þá niðurstöðu að e-k heimsendir sé í nánd þótt hitastig jarðar fari hækkandi af manna völdum? Er hægt að rökstyðja það án þess að detta í rennibrautarrökvilluna? (http://en.wikipedia.org/wiki/Slippery_slope)
Með fullyrðingum mínum um að mannkynið hafi aldrei haft það betur á ég við að það litla hlutfall mannkyns sem nú nýtur töluverðra lífsgæða mátti þola sama sult og seyru og hinn fátæki hluti heimsins fyrir nokkrum öldum síðan. Það má lesa þessar nákvæmlega sömu harmtölur í Biblíunni, að heimsendir sé innan skams vegna hnignunar mannkyns - Sókrates drepur á því líka í ritum Platóns og Voltaire gerir svo grín að þessu öllu saman í Birtingi eftir að jarðskjálfti ríður yfir Portúgal, "bein sönnun" þess að dómsdagur þokist nær.
Hvað með þennan heimsendi þar sem við verðum dæmd af náttúrunni í skilningi Gamla Testamentisins, Ingibjörg? Fer ég til helvítis af því ég trúi ekki á þetta kjaftæði? Gerirðu þér grein fyrir því hvað þú ert að segja?
Kristján Hrannar Pálsson, 9.8.2008 kl. 11:50
Kristján Hrannar; Þú virðist halda að sagan sé bara að endurtaka sig og að núverandi ástand sé á par við það sem áður hefur gerst. Svo er ekki samkvæmt mínum skilningi. Ástandið í heiminum er öllu alavarlegra en svo að það sé tilhlýðilegt að vitna í gamla "heimur versnandi fer" klisjur. Málið er að ef hitastigið fer yfir fjögur stig eins og nú er spáð að muni vera, endar stór hluti heimsins. Hann sekkur hreinlega í sæ, aðrir hlutar verða óbyggilegir vegna þurrka, o.s.f.r. En þetta veistu allt eflaust, alla vega ættir þú að vita það og þess vegna skil ég ekki þessar mótbárur við grein Ingibjargar. - Heimsendir trúarbragðanna er mjög misjafn, en öll minnast þau á tímann eftir heimsendi sem gefur til kynna að um "tímabil þrenginga" sé að ræða. Nýr himinn og ný jörð mun verða til þegar nýr skilningur á himni og jörð verður almennur meðal mannkyns.
Svanur Gísli Þorkelsson, 12.8.2008 kl. 01:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.