Eru nýfrjálshyggjumenn að reyna að rústa landbúnaðinum?

milton_friedman_1Mér líst ekki sérstaklega vel á þessar Doha-viðræður og þær tillögur sem þar eru til umræðu.  Þetta hljómar alltof mikið eins og nýfrjálshyggju-hagfræðingar af Chicago - Friedman skólanum séu að reyna að rústa stuðningi við landbúnað um allan heim. 

Þessir Friedman ofur-hagfræðingar halda jú að frjálst flæði vara og óheftur markaður sé lausn allra vandamála og að einhvers konar töfrar geri það að verkum að betri hagsæld skapist fái markaðurinn að ráða verðmyndun og inn- og útflutningi.

Í grein í nýjasta hefti New Scientist kemur fram mjög beitt gagnrýni á þessa Friedman hagfræðinga.  Þar er sagt að markaðurinn leitist hreint ekki við að ná jafnvægi eins og Friedman hélt fram, heldur þróist heimsmarkaðurinn alltaf til meira og meira ójafnvægis.  New Scientist fullyrðir að hagfræðikenningar Chicago skólans og Friedmanistanna séu ofureinföldun og bull.

Ég óttast því hvað verður um íslenskan landbúnað ef það á að fara að rífa niður styrkjakerfið og afnema innflutningstolla.  Ég hef ekki þessa Friedmanísku bókstafstrú á markaðnum.

Ég vona því innilega að það náist EKKI samningar í DOHA og að menn fari þaðan í fússi þannig að það gefist ráðrúm til þess að hugsa og skipuleggja hlutina betur, einnig hér heima á Íslandi.

Markaðurinn hefur ekki virkað í Chile, Bólivíu, Póllandi, Rússlandi fram að þessu og núna er markaðurinn ekki að virka fyrir Bandaríkjamenn sjálfa (né Íslendinga ef út í það er farið).  Hagfræðilíkönin eru of ófullkomin segja sérfræðingar New Scientist en Friedmanistar og Nýfrjálshyggju bókstafstrúarmenn ráða greinilega ennþá yfir World Trade Organisation.

Ég myndi í sporum íslenskra stjórnvalda fara varlega og treysta engu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Mér skilst að það séu nú aðallega fátækari ríkin, sem eru að banka á hjá hinum ríkari - t.d. ESB - og vonast til að þau ríkari opni markaði sína fyrir landbúnaðarafurðum fátæku ríkjanna.

Það eru hins vegar ríkari löndin, sem standa á bremsunni og vilja halda áfram að borga niður landbúnaðarafurðir, en þannig eru afurðir hinna fátækari ekki samkeppnishæfar.

Að auki snýst þetta um ofurtolla á landbúnaðarafurðir (tollavernd) og tollbindingar, þ.e.a.s. hvaða hámarkstolla má setja á viðkomandi vörutegundir.

Þeir fátækari - í fátækari löndunum - óttast hins vegar að með þessu verði enn minna af landbúnaðarafurðum í framboði þar, auk þess sem verðlag hækki.

Þetta hefur sem sagt ekkert með frjálshyggju að gera, heldur að fátæk ríki Suður-Ameríku, Afríku og Asíu vilja selja okkur mat. Við vesturlandabúar viljum ekki kaupa matvæli frá þróunarlöndunum - þótt það sé það eina sem þau framleiða og geta selt okkur - heldur halda áfram að framleiða niðurgreiddar landbúnaðarafurðir í skjóli tollverndar. Þetta snýst ekki bara um kjúklingabringur og nautalundir, heldur korn, ávexti og alla aðra matvöru óunna og unna.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 26.7.2008 kl. 17:40

2 Smámynd: Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir

Sæll Guðbjörn,

Mér skilst að viðræðurnar séu farnar að snúast meira um hrein frjáls viðskipti á milli landa og það er mikill þrýstingur frá iðnríkjunum um að þróunarlöndin lækki sína tolla á iðnvarningi og þar stendur hnífurinn fastur í kúnni.  

Iðnríkin ætla eftir sem áður ekki að fórna sínum landbúnaði, heldur vilja þau knýja þriðja heims ríkin til að afnema tolla þannig að þau geti komist með sinn iðnvarning inn í þriðja heiminn.  Reyndar ættu þessar samningaviðræður að vera á milli stórfyrirtækja þar sem 2/3 hlutar af heimsversluninni eiga sér ekki stað á milli landa heldur á milli stórfyrirtækja. 

Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir, 26.7.2008 kl. 18:05

3 identicon

Það hefur nú sýnt sig hvað skeður ef hagfræði frjálshyggjunnar fær að ráða, Sjálfstæðisflokkurinn hefur rekið þá stefnu hér á landi síðastliðinn áratug.  Núna á að láta markaðinn leysa úr öllum málum, þess vegna er rekin þessi ,,gera ekki neitt" stefna ríkisstjórnarinnar.  Þeir halda að allt lagist ef trúarbrögð frjálshyggjunnar fái að  tröll ríða öllu.

Valsól (IP-tala skráð) 26.7.2008 kl. 18:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband