18.7.2008 | 01:13
Hvað vita Masai menn sem við vitum ekki?
Masai mennirnir á Masai Mara heimasvæðinu í Kenya vita að eitthvað mikið er að í náttúrunni. Þeir sjá að snjórinn á Kilimanjaro er að bráðna, gróðurbeltin er að færast til, þurrkatímabilin eru að lengjast og úrkoman á regntímanum er að verða ofsafengnari en áður. Masai mennirnir þurfa engar niðurstöður vísindamanna til þess að vita að ef þurrkarnir halda áfram, munu hjarðir af sebrahestum og antilópum hverfa og ljónin verða matarlaus. Ef einhverjir eru sérfræðingar í ljónum, þá eru það Masai menn. Og ljónin borða sebrahesta og antílópur, en kannski ekki mikið lengur.
Lífríki Masai Mara svæðisins er ógnað af loftslagsbreytingum sem eru ekki Afríkubúum að kenna. Það eru ríku iðnaðarþjóðirnar í norðri sem hafa losað gróðurhúsalofttegundir frá kolaorkuverum og álverum sem eru að valda því að veðurfar Afríku er að breytast. Masai mennirnir hafa áhyggjur og þeir óska þess að hvítu mennirnir geri eitthvað, eins og að draga úr losuninni og minnka eyðslu og græðgi. En nýlenduþjóðirnar, ríkustu þjóðir heimsins eru ekki að hlusta og Masai mennirnir óttast að dýrahjarðirnar verði horfnar af sjónarsviðinu eftir nokkra áratugi. Þá verða ekki lengur neinar dýralífsmyndir frá Serengeti eða Masai Mara í sjónvarpinu, heldur einungis myndir af álverksmiðjum og kolahéruðum í Kína.
Athugasemdir
já. þetta er ömurleg þróun, það er að meiru að huga en efnahagsástandi hvers lands fyrir sig. Ég held aðÍslendingar ættu að hætta þessu væli og hætta við öll "ver" hvaða nafni sem þau nefnast og vera alvöru umhverfisvæn eyja í norðri.
alva (IP-tala skráð) 18.7.2008 kl. 02:46
Þú segir:
„Það eru ríku iðnaðarþjóðirnar í norðri sem hafa losað gróðurhúsalofttegundir frá kolaorkuverum og álverum sem eru að valda því að veðurfar Afríku er að breytast."
Þetta er rétt um kolaorkuverin en rangt um álverin sjálf . Nýtísku álver, eins og þau sem reist eru á Íslandi, losa 1,7 kg af CO2 á hvert kg af áli. Hvert kg af áli sem notað er í bíla í stað þyngri efna sparar andrúmsloftinu 20 kg af CO2 yfir endingartíma bílsins, sem er stuttur í samanburði við meðaldvalartíma CO2 í andrúmsloftinu. Ef 8,5% eða meira af álinu er notað í bíla sparar það andrúmsloftinu jafnmikinn eða meiri koltvísýring og fylgdi framleiðslu þess í álverum eins og á Íslandi. Í reynd er miklu hærra hlutfall álsins notað í bíla en 8,5%, þannig að nettóútkoman fyrir andrúmsloftið er minni losun en ef ekkert ál væri framleitt.
Til að vega upp losunina sem fylgir álvinnslu með raforku úr eldsneyti, í álverinu sjálfu og orkuverinu, þyrftu 71% álsins að vera notað í bíla, miklu hærra hlutfall en er notað í reynd.
Frá sjónarmiði baráttunnar við gróðurhúsaáhrifin, mesta vágest samtímans, er það því kappsmál að sem mest af heimsframleiðslunni af áli fari fram með raforku úr öðrum orkulindum en eldsneyti.
Eftir sem áður geta menn auðvitað verið í andstöðu við virkjun vatnsorku eða jarðhita. Þá telja menn að neikvæð áhrif slíkra virkjana á umhverfið vegi þyngra í þeirra huga en jákvæð áhrif þeirra á baráttuna gegn gróðurhúsaáhrifunum.
Hver og einn er sjálfráður um að hafa það sjónarmið. En ég hef það ekki.
Jakob Björnsson
Jakob Björnsson (IP-tala skráð) 18.7.2008 kl. 15:54
Ég hef fulla samúð með Masaimönnum, lífsbaráttan getur verið erfið í umhverfi sem háð er náttúruöflunum. En hver ber ábyrgð á fellingu regnskóganna þar um slóðir?
The Kilimanjaro glacier is melting, not by a warming trend but because the rain forest at the base of the mountain has been cut down. Experts think that if the forest is replanted the glacier will grow again. (Ref: nature.com)
Kolbrún Sig (IP-tala skráð) 18.7.2008 kl. 17:27
Kæri Jakob,
Ég held að í staðinn fyrir að rökræða um álver, og losun þeirra þá ættum við að snúa okkur að því að ræða um mál málanna - loftslagsbreytingar. Ég myndi gjarnan vilja ræða við þig betur um loftslagsbreytingar og hvaða þýðingu þær hugsanlega hafa fyrir heiminn og íslenskt samfélag. Ef þú vilt þá getur þú sent mér tölvupóst á ieb@simnet.is
Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir, 18.7.2008 kl. 19:24
Kæri Þrymur,
Eru þá allir vísindamenn heimsins heimsendaspámenn? Og er fáfræði og heimska dyggð? Auk þess heldur heimurinn áfram að vera til jafnvel þótt að mannkynið hverfi af sjónarsviðinu sem sumir myndu segja að mannkynið ætti skilið.
Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir, 19.7.2008 kl. 08:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.