12.7.2008 | 20:58
Ég fyrirgef þér, virkjanasinni!
Ég fyrirgef hér með öllum þeim sem vilja eyðileggja náttúru Íslands, en lýsi því jafnframt yfir að ég tel að þeir hafi algjörlega rangt fyrir sér og sýni með atferli sínu að þeir eru í hugarástandi græðginnar sem er varasamt hugarástand (state of greed).
Ég fyrirgef vegna þess að ég vil ekki upplifa neikvæðar tilfinningar eins og reiði og hatur innra með sjálfri mér og ég vil heldur ekki telja sjálfa mig vera handhafa hins eina endanlega sannleika.
Ég tel þá sem vilja eyðileggja náttúru Íslands haldna geðröskunum sem eiga sér djúpar rætur í sameiginlegri meðvitund þjóðarinnar. Virkjanafíknin er birtingarform ákveðins brjálæðis sem liggur í neikvæðu hugarástandi græðginnar, reiðinnar, valdafíkninnar og mikilmennskubrjálæðis.
Ég bið fyrir því að sameiginleg vitund þjóðarinnar vaxi og þroskist þannig að sameiginlega áttum við okkur á því að við höfum verið að gera rangt. Ég bið þess að Friðrik Sophusson og Geir Haarde komist í tengsl við sjálfa sig og komist yfir sínar neikvæðu hugsanir og uppgötvi sannleikann innra með sjálfum sér.
Ég á enga óvini, - en ég er ósammála þeim sem eyðileggja náttúru heimsins. Ég er ekki betri en þeir, en ég er ósammála. Ég geng um þessa veröld í friði en ég mótmæli samt eyðileggingunni á náttúru heimsins.
Athugasemdir
Það er alltaf stórmannlegt að fyrirgefa andstæðingum sínum. Ég les alltaf bloggið hjá þér öðru hvoru, finnst þú vera að koma fram með mjög góða hluti og hvet þig til að halda því áfram.
Eins mikið álit og ég hef á fyrirgefningunni þá þarf meira til í þessu máli. Fíkn eða ekki fíkn er ekki aðalatriðið. Vandamálið er að við erum komin á þessa braut þar sem efnahagskerfið heimtar alltaf meiri innspýtingu í formi stóriðjutengdra framkvæmda.
Drifkrafturinn er eflaust ágirndin eins og þú bendir á, en spurningin er hvernig getum við stöðvað þessa hraðlest dauðans. Virkjanir eru ekki slæmar í hófi og vandinn liggur líka hjá okkur sjálfum. Lífsstíll okkar krefst framleiðslu og hagnaðar. Með því að breyta lifnaðarháttum okkar sveltum við rætur stóriðjustefnunnar.
Við getum hjólað meira, haft eitt sjónvarp á heimilinu, ekki í öllum barnaherbergjunum, keypt okkur bændagistingu á ferðalögum í stað þess að draga skuldahalana með okkur út um allt land. Ég var á eftir einum í dag á 70 km hraða og var að verða vitlaus.
Vandamálið er líka að virkjanafíkillinn (efnahagslífið) neitar að ráðast að rót vandans og heimtar meiri stórframkvæmdir. Rót vandans eru okurvextirnir (sjá nýjasta bloggið mitt.) Lækningin, hækkun vaxta, er orðin að sjúkdómnum, vextirnir eru að drepa allt atvinnulíf og sjálfsbjargarviðleitni.
Theódór Norðkvist, 12.7.2008 kl. 22:17
Fiskurinn úr sjónum sem veiðanlegur er- heldur ekki lífinu í allri þjóðinni. Landbúnaður til viðbótar dugar skammt. Við verðum og erum háð innflutningi á nauðsynjavörum - þjóðinni fjölgar. Eini vaxtabroddurinn sem við eigum möguleika á að nýta - er orkusala til útflutnings. Ferðamannaiðnaður er sýnd veiði en ekki gefin á tímum hækkandi orkuverðs og loftssagskvaða. En það er ekki sama hvernig við stöndum að verki við okkar auðlindanýtingu. Síðan getum við sem þjóð lifað spart og lagt af bruðl liðinna ára- þá endast auðlindirnar lengur- er það ekki ?
Sævar Helgason, 12.7.2008 kl. 23:32
Anna, það er enginn að tala um að hætta að framleiða ál. Þú hefur greinilega ekki séð töfluna sem ég póstaði hjá Láru Hönnu. Þar kemur í ljós að Ísland er orðið langmesta álframleiðsluland í heimi miðað við höfðatölu. Með 23,5 tonn á íbúa af framleiddu áli, meðan Noregur er með 2,9 tonn á íbúa í öðru sæti!
Ef álframleiðslan er svona mikill vaxtabroddur ættu lífskjör þá ekki að vera nær tífalt betri en í Noregi? Auk þess hef ég aldrei skilið hvaða hagnaður er í því að nánast gefa orkuna til álfyrirtækjanna, en rukka heimili og innlend fyrirtæki um áttfalt orkuverð miðað við álið.
Theódór Norðkvist, 13.7.2008 kl. 00:58
Lög um Landsvirkjun segja að tilgangur fyrirtækisins sé að afla raforku fyrir stóriðjufyrirtæki ef ég man rétt. Það þarf lagabreytingu um fyrirtækið ef það á að hætta þessari iðju
Hér er ein spurning:
Ef þið ættuð nógan pening til að kaupa Landsvirjun, munduð þið kaupa fyrirtækið? Rökstyðjið svarið.
Guðmundur Geir Sigurðsson, 13.7.2008 kl. 01:43
Fólk er bara farið að sjá í gegnum álsvikamylluna. Hvert einasta nýtt álver og stórvirkjun hefur átt að vera framkvæmdin sem myndi redda efnahagnum og atvinnuástandinu og færa okkur betri tíð með blóm í haga. Blóm í haga hafa a.m.k. ekki fylgt álverunum, það eitt er víst.
Við erum orðin mesta nýlenda álrisanna í heiminum, á sama tíma og aðrar vestrænar þjóðir hafa verið að losa sig við áliðnaðinn, en samt þarf meira til að allt fari ekki til andskotans.
Efnahagskerfið er ekki lengur háð sjávarútveginum þó vissulega spili hann stórt hlutverk enn, en hugbúnaðar- og fjármálageirinn eru ekki minni stoðir í dag. Mér er illa við að nefna síðarnefnda geirann, því ég held að hann sé loftbóla sem er að springa framan í okkur.
Af hverju þurfa grænmetisbændur, á tímum sem matvælaskortur blasir við um allan heim, að búa við sex- eða sjöfalt orkuverð miðað við mengandi áliðnaðinn? Er ekki sóknarfæri þar? Eða á áleggið að vera eina eggið í körfunni?
Theódór Norðkvist, 13.7.2008 kl. 01:50
Hver ert þú og að dæma aðra á þennan hátt og koma fram eins og þú sért einhver heilög og alsaklaus vera? Þeir sem koma fram eins og þú og þykjast geta fyrirgefið öðrum, láta einmitt sem svo að þeir séu: "handhafar hins eina endanlega sannleika". Reyndar má finna fyrir þessu sama yfirlæti og "umhverfishelgislepju" víða hjá umhverfissinnum og þá ekki síst hjá "yfirgúrúnum", Björk Guðmundsdóttur.
Ekur þú ekki um á bíl eins og aðrir, þótt ekki sé það 25 lítra herjeppi eins og "yfirgúrúinn"? Notar þú ekki rafmagn og kaupir þú ekki vöru pakkaða inn í plast, kaupir þú ekki gos úr plastflöskum og bjór í áldósum, flýgur þú ekki 3svar til 4um sinnum út á ári?
Hvílík skynhelgi! Þú ert líklegast eins og við flest, bersyndug. Ég viðurkenni þó syndir mínar og afglöp, það er jú fyrsta skrefið í átt til sáluhjálpar. Það gerir þú reyndar einnig, sem ég virði þér að einhverju leyti til vorkunnar. Samt finnst ykkur "náttúruverndarsinnum" þið vera betra fólk en við hin - raunsæisfólkið, sem sér hvað gæti haldið þessu skeri gangandi næstu árin og áratugina.
Þið hagið ykkur þó litlu skár en aðrir, en virðist fá einhverskonar "hópsyndaaflausn" með því safnast saman, hlusta á rokktónleika, mótmæla eða festa ykkur upp í mastur einhversstaðar á hálendinu. Við þessar helgiathafnir ykkar skiljið þið síðan eftir einhver reiðarinnar býsn af áldósum og plastflöskum eftir ykkur.
Auðvitað þurfið þið - eins og aðrir sértrúarhópar - að hafa leiðtoga, sem eru Björk Guðmundsdóttir. Og líkt og flest trúarbrögð hafið þið einhvern heila eða fræðimann á bak við þetta, sem er að sjálfsögðu Andri Snær Magnason. Þið eruð meira að segja með almannatenglsafulltrúa, sem lengi vel var borgaður af ríkinu og hafði ótakmarkaðan aðgang að ókeypis auglýsingum á málinu hjá RÚV.
Á milli samkoma - þar sem hópsefjunin fer fram - þeysist "yfirgúrúinn" heimshornanna á milli á útspýjandi og mengandi þotum og þá sennilega ekki í sjálfboðavinnu? Hún segir allavega að það sé hægt að græða jafnmikið á poppi og á álverum. Það er ekki græðginni eða mikilmennskubrjálæðinu að fara fyrir á þeim bænum.
Þessi "öfgaumhverfistrúarbragðastefna, sem tröllríður öllu í dag varðandi umhverfismálin - þá er ég ekki að tala um þá auknu almennu umhverfisvitund, sem vaknað hefur á undanförnum árum og er nauðsynleg og af hinu góða, heldur firringuna - minnir mig óneitanlega á gömlu herstöðvarandstæðingana, sem voru einnig samviska Íslands og mikið betri en við hin - raunsæisfólkið. Þetta minnir mig líka á kommúnistana, sem voru alltaf að frelsa alla undan okinu, sem endaði með því að þeir undirokuðu stóran hluta mannkyns um áratuga skeið - og gera reyndar enn í Kína.
Herstöðvarandstæðingarnir fengu líka svona "hópsyndaaflausn" þegar þau mótmæltu fyrir utan sendiráð Bandaríkjanna eða þegar þeir marseruðu á Keflavíkurflugvöll. Það er viss hluti af fólki, sem alltaf heldur að það sé samviska heimsins og viti betur en allir aðrir og það er svo skrítið að það lítur alltaf eins út, nema í stað Hekluúlpunnar er það núna komið með Palestínuklút.
Maður á að byrja að fyrirgefa sjálfum sér og þegar það er búið er maður að mínu mati fær um að fyrirgefa öðrum. Svei mér þá ef mér finnst örla á innibyrgðri reiði hjá mér þarna einhversstaðar. Málið er að mér finnst þessi reiði út í ykkur "sjálfskipaða náttúruverndardýrlingana" vera algjörlega réttmæt.
Nú koma einhverjir grænir siðapostular fram og segja að af pistlinum að dæma sé ég einmitt reiður og þjáist af stórmennskubrjálæði og hugsanlega geri ég það? Samkvæmt þínum kokkabókum þjást jú allir stóriðjusinnar af þessu neikvæða hugarástandi: græðgi, reiði, valdafíkn og mikilmennskubrjálæði? Það verður víst svo að vera, en ég frábið mér einhverja fyrirgefningu á þessum nótum frá þér eða öðrum "náttúruverndarpostulum".
Ég þigg hins vegar fyrirgefninguna ef þú fyrirgefur heimsbyggðinni allri - að náttúruverndarsinnum meðtöldum. Við erum öll samsek og þurfum svo sannarlega að velta umhverfismálum fyrir okkur núna og í framtíðinni, þar er ég sammála þér! Hluti af þessari breyttu hugsun er einmitt að nýta endurnýjanlega orku til framleiðslu á áli, líkt og við erum að gera hér. Annað skref væri t.d. að breyta samgöngum á Íslandi: léttlestakerfi, rafmagnsbílar o.s.frv.
Guðbjörn Guðbjörnsson, 13.7.2008 kl. 12:10
Ég fyrirgef þér Ingibjörg og þínum líkum líka því að þið eruð einföld í ykkar annars góðu hugsunum, en munið að þakka fyrir að hafa vinnu þegar þið farið með bænir ykkar á kvöldin því að það eru ekki allir sem hafa vinnu til að brauðfæða sig og sína.
Högni Jóhann Sigurjónsson, 13.7.2008 kl. 14:42
Landinn er ólatur við að gagnrýna umhverfisspjöll og oftast nær næst sameiginleg niðurstaða með framkvæmd hinna ýmsu og þörfu framkvæmda. Utanaðkomandi "besservisserar" hafa aldrei verið vel séðir hjá okkar nýfrjálsu þjóð - gera þeir málstað hinna innlendu meira ógagn en gagn?
En "svartagullið" okkar er vatnið, bæði heitt og kalt, og í þurfandi heimi er ófyrirgefanlegt að nýta ekki þessar náttúruauðlindir - sem í sjálfu sér eru umhverfisvænar. Væri ég einbeittur andstæðingur umhverfismengandi orkugjafa myndi ég beina sjónum mínum að olíulindum heimsins í stað þess að setjast á vindbarða íslenska hálfuppfokna grasþúfu í miðjum heitavatnsgufunum.
Stundum hvarflar að mér að olíufurstar heimsins kynnu að eiga hagsmuna að gæta gegn samkeppnisorkugjöfunum - hver fjármagnar annars rakarafélagið?
Kolbrún Sig (IP-tala skráð) 13.7.2008 kl. 15:24
Gaman að lesa pistilinn þinn Ingibjörg og líka öll kommentin. Það er greinilega mjög frjó umræða og ekki allir á einu máli um hvaða stefnu skuli taka. Það í sjálfu sér er kannski hið besta mál - að umræða sé meðal þjóðarinnar um hvert stefna skuli í auðlindanýtingar- og orkumálum. Ég á bágt með að skilja fólk sem fær illt í rassinn yfir að fólk með skoðanir geti borið virðingum fyrir skoðanamótherjum og vilja leiða skoðanaskipti niður á plan svívirðinga, sbr.Guðbjörn. Megum við finna leið til að skapa Íslandi framtíð sem vistvæn orkunýtingarþjóð, með eða án álvera, og með sem fjölbreyttast atvinnulíf sem að gerir okkur eins farsæl efnahagslega og á síðustu þrjátíu árum.
Anna Karlsdóttir, 13.7.2008 kl. 16:42
Það er ekkert smá gott að vera heilagur og njóta samt alls sem í boði er. Þið megið menga og framleiða ál, bara ekki í garðinum hjá mér er boðskapur ykkar hérna á Íslandi. Blessuð snúðu þér að einhverju sem þarf virkilega að mótmæla og þeirra sem hafa það virkilega skítt.
Snjólaug A. Sigurfinnsdóttir, 13.7.2008 kl. 18:02
Þessi pistill Ingibjargar Elsu er undarlegt sambland af auðmýkt og hroka.
Auðmýktin kemur fram í orðunum „ég vil heldur ekki telja sjálfa mig vera handhafa hins eina endanlega sannleika.“ og „Ég er ekki betri en þeir“.
Hrokinn lýsir sér í því að þrátt fyrir að telja sjálfa sig ekki betri telur Ingibjörg Elsa sig þess umkomna að staðhæfa að þeir sem eru á öðru máli en hún séu „í hugarástandi græðginnar sem er varasamt hugarástand (state of greed)“. Hún telur þá „haldna geðröskunum sem eiga sér djúpar rætur í sameiginlegri meðvitund þjóðarinnar. Virkjanafíknin er birtingarform ákveðins brjálæðis sem liggur í neikvæðu hugarástandi græðginnar, reiðinnar, valdafíkninnar og mikilmennskubrjálæðis.“. Þessa veilu þeirra sem eru henni ósammála telur hún „eiga sér djúpar rætur í sameiginlegri vitund þjóðarinnar“. Minna má ekki gagn gera.
Og hrokinn lýsir sér í sjálfu orðinu að „fyrirgefa“ í því samhengi sem það er hér notað. Menn fyrirgefa misgerðir við sig. Engu er líkara en að Ingibjörg Elsa telji það misgerð við sig að vera á annarri skoðun en hún. Það er háskalegt og hrokafullt að hugsa svo. Á Íslandi er skoðanafrelsi. Skoðanafrelsið er í hættu ef menn fara að telja það misgerð við sig að vera á annarri skoðun. Að telja andstæðar skoðanir bera vott um „græðgi, reiði, valdafíkn og mikilmennskubrjálæði“ eða aðrar neikvæðar eigindir.
Ingibjörg Elsa hefur fyllsta rétt til að vera ósammála „virkjanasinnum“. En þeir eiga sama rétt til að vera henni ósammála. Við skulum umbera skoðanir hvers annars þótt við séum þeim ekki endilega sammála.
Jakob Björnsson
Jakob Björnsson (IP-tala skráð) 15.7.2008 kl. 13:52
Kæri Jakob,
Meira að segja Masai menn á Masai Mara svæðinu í Kenya vita það nú þegar sem þú gerir þér ekki enn grein fyrir.
En við skulum virða skoðanir hvors annars.
Með kærri kveðju,
Ingibjörg Elsa
Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir, 15.7.2008 kl. 16:10
Kæra Ingibjörg Elsa !
Ég er sammála þér um að við skulum vera sammála um að vera ósammála en vera góðir vinir fyrir því.
Góðir vinir þurfa ekkert endilega að vera sammála !
Óska þér og fjölskyldu þinni alls góðs.
Jakob Björnsson
Jakob Björnsson (IP-tala skráð) 16.7.2008 kl. 10:44
Góðan daginn Ingibjög já og þið öll,
nú á ég við stórkostlegan vanda að etja eftir lestur svona málefnalegra pistla og getur allt eins verið báðu megin borðs á eftir, Mér fannst ég vera að stefna í ákveðna átt en er ekki viss á þessum tímapúnkti hvað verður.
En rétt er það virðum skoðanir annara.
Hver getur svarað hvað sé rétt og hvað sé rangt??
Lifum sátt og kveðjum með bros á vör!!
Hjörtur Sævar Steinason.
Hjörtur Sævar Steinason (IP-tala skráð) 26.7.2008 kl. 09:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.