9.7.2008 | 15:44
Það sem þið gerið mínum minnsta bróður!
Íslendingar hafa aldrei staðið sig vel í því að taka á móti flóttafólki að því leyti að mjög fáum hefur verið hleypt sem flóttamönnum inn í landið. Hins vegar hefur verið vel hugsað um þá fáu flóttamenn sem hafa komist inn fyrir landamæri Íslands.
Ég ætla að segja ykkur smá sögu: Fyrir nokkrum árum kynntist ég konu sem hafði lent illa í stríðinu í Sarajevo. Hún hafði þurft að hlaupa undan leyniskyttum og upplifa hungur og hörmungar. En hún kom ekki til Íslands sem flóttamaður heldur einungis sem vinnudýr, þ.e.a.s. hún var flutt inn til landsins til að vinna og fékk þess vegna tímabundið dvalarleyfi.
En Guð minn góður hvað hana vantaði aðstoð. Hún fékk martraðir, hún sveiflaðist í skapi, henni leið illa, en af því að hún var ekki skilgreind sem flóttamaður fékk hún enga aðstoð hér á landi. Það endaði með því að hún fór til Hollands þar sem hún fékk víst einhverja hjálp.
Ég veit um fleira fólk sem hefur upplifað hörmungar, býr hér og starfar, en fær takmarkaða aðstoð af því að það er ekki skilgreint sem flóttamenn. Hvers eiga fórnarlömb stríðsátaka að gjalda?
Hvernig skilgreinir Útlendingastofnun eiginlega flóttamenn? Eru það ljóshærðir aríar með blá augu eða eru það allir sem eru með langan háls? Um leið og byrjað er að flokka fólk niður í hópa eru settar upp girðingar og fyrr en varir er einhver kominn með gyðingastjörnu og í útrýmingarbúðir.
Af hverju var kenýamaðurinn ekki skilgreindur sem flóttamaður og það strax? Hvar er kærleikurinn, hvar er mannskilningurinn? Hvar er miskunnsemin?
Mín skoðun er sú að það eigi að vera nánast FRJÁLST FLÆÐI flóttamanna inn til Íslands og frá landinu líka þ.e.a.s. ef fólk vill flýja frá Íslandi af einhverjum orsökum. Ég get vel ímyndað mér að ýmsir vilji flýja frá Íslandi vegna frjálshyggjunnar og vegna heimsku stjórnmálaaflanna sem ana hér nánast stjórnlaust áfram og valta yfir fólk og firði.
Það þarf líka að auka mjög mikið þá aðstoð sem erlent fólk fær þegar það kemur til Íslands. Auka þarf íslenskukennslu, stuðning við að finna íbúð og starf við hæfi þannig að hæfileikar hvers og eins fái að njóta sín. Þannig sköpum við jákvætt og gott, margbreytilegt samfélag þar sem margir menningarheimar koma saman.
Athugasemdir
Blessuð ég þekki líka slatta af fólki sem að hefur fæðst hér og þarf hjálp en fær ekki hvernig væri að byrja þar og færa síðan út kvíarnar ? Það er allav min skoðun
Jón Aðalsteinn Jónsson, 9.7.2008 kl. 17:45
Hmmm... Hefur nokkuð verið vandamál fyrir fólk að komast burtu héðan?
Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 9.7.2008 kl. 20:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.