1.7.2008 | 17:34
Almennt um varkárni í Hekluferðum
Hekla er fjall sem hefur gosið nokkuð reglulega undanfarin ár, og Heklugos koma oft skyndilega og án þess að mikill tími gefist til þess að bregðast við. Gönguferðir á Heklu eru all vinsælar og margir sem leggja leið sína alla leið upp á topp og sumir setjast beinlínis ofan í toppgíginn og fá sér nesti (sem ég mæli alls ekki með).
Ég vil hvetja göngumenn til að gæta fullrar varkárni við Hekluferðir og ég vil biðja fólk um að fara helst ekki ofan í toppgíginn vegna þess að þar kemur gosstrókur upp hefjist gos. Æskilegast væri að göngumenn færu einungis upp á öxlina eða könnuðu astæður mjög vel áður en þeir halda hærra. Heklugos hafa yfirleitt ekki gert boð á undan sér og sé fólk á fjallinu þegar gos hefst er hætta á ferðum. Það er því full ástæða til þess að sýna varkárni í Hekluferðum. Finni fólk fyrir jarðskjálfta eða titringi er full ástæða til þess að dvelja ekki lengur á fjallinu heldur drífa sig af stað niður.
Alltaf ætti að gæta varkárni við gönguferðir á Heklu jafnvel þótt að ekki sé endilega búist við gosi.
Athugasemdir
Ég mæli aftur á móti eindregið með því að sitja sem lengst í Toppgígnum og láta líða úr sér ... láta sér líða vel. Gjósi í Heklu þarf gosið ekkert endilega að hefjast í Toppgígnum, í það minnsta ekki í ljósi sögunnar. Það þarf ekki mikla varkárni þegar gengið er á Heklu enda fjallið auðvelt og um að gera að dvelja þar sem lengst og njóta þess sem fjallið hefur að bjóða. Tjaldvera nótt eða tvær í eða við Toppgíginn er hið yndislegasta ævintýr. Aldrei má láta hræðslu við eitthvað sem ef til vill gerist á 10 eða 20 ára fresti varna sér þess að njóta þess að vera til. Þá gera eldgos í Heklu boð á undan sér ... hálftíma áður eða svo er mikil skjálftavirki. Ef svo ólíklega og ótrúlega vildi til að slíkt gerðist þegar ferðafólk er á fjallinu er jú líklega rétt að koma sér niður. Samt sem áður meiri líkur á að maður nái góðum ljósmyndum með því að bíða uppi eftir því að kvikan brjótist til yfirborðs. Þannig yrði líka upplifunin sterkari og myndirnar betri.
Björn Hróarsson (IP-tala skráð) 1.7.2008 kl. 20:34
Takk fyrir ábendinguna, en ég er sammála Birni um það að einhverjir jarðskjálftar hljóta að eiga sér stað rétt á undan gosi. Við sögðum útlendingum að forða sér af Heklu ef þau finndu minnstu jarðskjálfta í ferð okkar um daginn. Enn betra var að ferðast á skíðum, því að leiðin niður getur þá verið um 10 mínútur. En engu máli skiptir hvort maður er ofan í gígnum eða annars staðar á tindinum, maður væri jafndauður ef jörðin opnaðist þar, vegna hraunflugs, ösku og annarra láta.
Lítum á líkurnar: Ef Hekla opnast á tíu ára fresti og það tekur mann klukkustund að hlaupa niður að bíl, þá eru það 365dagar x10árx24klst= 87.600 klukkustundir og því líkurnar 1 á móti 87.600 að maður sé staddur þar í upphafi goss á þeim 10 árum. Ekki svo brjálaður séns, er það? Öllu hættulegra er að aka fram hjá Litlu kaffistofunni.
Ívar Pálsson, 2.7.2008 kl. 00:23
Góðar ábendingar og gagnlegri en hvatning til glannaskapar. Fólk sýnir sjálfu sér og náttúru landsins meiri virðingu með því að fara með gát en þurfa alltaf að ganga út á ystu brúnir í umgengni sinni við náttúruna. Það er ábyrgðarhluti þegar þeir sem ættu að vita betur hvetja almenning til óvarkárni eins og hér er gert í athugasemd og sorglegt að sjá það. Að hvetja almenning til að halda kyrru fyrir á fjalli sem er að fara að gjósa er vonandi sett fram í gríni, sem þó er ekkert sniðugt. Ef ekki, er erfitt að átta sig á því hvað liggur að baki. Þekking og varfærni koma ekki í veg fyrir að menn geti gert skemmtilega hluti, eins og það að ganga á Heklu, en slíkt dregur úr líkum á óhöppum, hvort sem til goss kemur eða ekki. Varnaðarorðin ættu því að vera mönnum leiðarljós í Hekluferðum sem og öðrum ferðum í dreifbýli sem þéttbýli. Það er mikið rétt að það er líklegra að lenda í óhöppum nálgæt Litlu kaffistofunni og þess vegna fara þar flestir um með gát. Það eru hins vegar ekki rök fyrir því að fara ekki með fullri varkárni um Heklu. Og þó hættan sé líka mikil utan gígsins, komi til goss, þá þarftu að minnsta kosti ekki að byrja á því að hlaupa upp úr gígnum til að forða þér af fjallinu ef eitthvað fer í gang.
Ingibjörg haltu áfram að skrifa fræðandi og vitræna pisla og takk fyrir marga slíka að undanförnu.
Friðrik Dagur Arnarson (IP-tala skráð) 2.7.2008 kl. 10:54
Þetta er mjög þörf ábending hjá þér Ingibjörg. Eldfjöllin okkar spyrja ekkert að því, hvort einhverjar mannverur eru í grennd þegar gos hefst. Fyrir um 2 vikum síðan ræddi ég við konu, sem nú býr í Englandi. Hún sat á toppi Heklu daginn fyrir síðasta gos. Hún hafði tekið eftir óvenju miklum hita á svæðinu en samferðamenn hennar (a.m.k. einn jarðvísindamaður í hópnum) gerðu lítið úr því.
Hvað finnst þér annars um vaxandi byggð á sprungusvæðinu í Hveragerði og á Norðlingaholti?
(Ég viðurkenni fúslega, að ég sjálfur er haldinn vissri tegund af eldfjallafælni. Eina lækningin við henni er að kílfa eldfjöll og gá ofan í sprungur.)
Júlíus Valsson, 2.7.2008 kl. 11:15
Lífið væri erfitt ef maður léti algerlega stjórnast af "ef" og "gæti". Ísland er einfaldlega þannig að við myndum öll sitja niður kjallara og naga neglurnar ef hræðslan við náttúruna ræður.
Sjálfsagt er að bera fulla virðingu fyrir náttúruöflunum og hafa vakandi auga fyrir umhverfinu, en það eru einmitt náttúruöflin sem gera þetta land að því sem það er.
Hekla er vita ómerkilegur hóll, nema fyrir það að hún gæti mögulega gosið þegar maður étur nestið sitt. Það er heila málið.
Hrannar Magnússon (IP-tala skráð) 2.7.2008 kl. 11:32
Varkárnisraddir eiga rétt á sér, en um Heklu er það að segja að maður gengur annað hvort á hana eða ekki. Þetta er ekki eins og ferð á Hvannadalsnúk, að varast sprungur, snjóflóð ofl., heldur er tindurinn sárameinlaus (og gígurinn), nema að eldgos fari af stað. Ef búist er við eldgosi, þá er ekki farið. Flugmaður á ekki að fljúga lágt og hægt til þess að fara varlega. Ákvörðunin er sú, hvort flogið er eða setið heima og gefin varnaðarorð.
Ívar Pálsson, 2.7.2008 kl. 18:00
Umræðan minnið mig á annað sem er líkast til öllu hættulegra, en það eru ferðalögin ofan á Kötlu. Á Mýrdalsjökli er rekin snjósleðaleiga þar sem hóparnir eru allan daginn ofan á sprengikökunni miklu, sem á örugglega að gjósa með sprengingu innan tíu ára sk. sérfræðingum. Þar er mikil jarðskjálftavakt og treyst á hana, en töluverðan tíma tæki að koma sér í örugga fjarlægð, enda háfgert Pompeei þegar Katla fer af stað. Ég hef samt farið með hóp þangað, enda verður hver og einn að meta áhættu fyrir sig.
Ívar Pálsson, 2.7.2008 kl. 18:09
Það er spurning, hvort Íslendingar eigi að byggja húsin sína á háhitasvæðum sem eru stöðugt að breytast? Hvort við eigum að byggja hús þar sem kvikan kraumar undir og er að brjóta sér leið upp á yfirborðið eins og á Reykjanesi og í Hveragerði og/eða beint ofan á þekktum sprungum? Það er nóg til af öðrum æskilegri byggingasvæðum.
Júlíus Valsson, 5.7.2008 kl. 17:22
...jarðfræðingarnir virðast bara ekki þora að tjá sig um þetta mál.
Júlíus Valsson, 5.7.2008 kl. 17:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.